Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Verkin sem vinna þarf
8.2.2009 | 13:18
Það var líf og fjör í umræðunum á Sprengisandinum hjá Sigurjóni M. Egilssyni í morgun. Þar sátum við á rökstólum, ég, Helga Sigrún Harðardóttir alþingismaður og Þórlindur Kjartansson formaður SUS og ræddum landsins gagn og nauðsynjar - nánar til tekið: Stjórnmálaástandið og horfurnar sem eru mál málanna þessa dagana (hlusta hér).
Annars var ég að kynna mér verkefnaskrá nýju ríkisstjórnarinnar. Þar er margt sem vekur von um góðan ásetning um brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins, á sviði endurbóta í stjórnsýslu og aðgerðum í þágu aukins lýðræðis og opins og heiðarlegs samfélags, eins og þar stendur.
Athygli mína vakti fyrirheit um nýjar siðareglur í stjórnarráðinu, afnám eftirlaunalaganna um alþingis og ráðherra, endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og ekki síst breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og stjórnlagaþing.
Fyrirheitið um endurreisn efnahagslífsins og endurskipulagningu stjórnsýslunnar veltur vitanlega á fleiri aðilum en ríkisstjórninni. Það veltur á þingheimi í heild sinni - og þjóðinni sjálfri.
Nú ríður á að sátt náist um að vinna hratt og vel að björgun þjóðarbúsins með þáttöku þjóðarinnar sjálfrar.
PS: Sjá líka viðtal mitt við Gísla Tryggvason á ÍNN
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.2.2009 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Afneitun og veruleikafirring
20.1.2009 | 21:43
Afneitun og veruleikafirring - það eru einu orðin sem mér koma til hugar þegar ég les þessi ummæli menntamálaráðherra. Skilur konan ekki að fólk er ekki að bíða eftir einhverjum "afdrifaríkum ákvörðunum" frá þeim ráðamönnum sem nú sitja. Fólkið vill að ríkisstjórnin víki.
Hversu lengi ætla ríkisstjórnin að berja höfðinu við steininn? Er hún að bíða eftir að mótmælin þróist í blóðuga byltingu?
Mér sýnist á öllu að það sé einmitt það sem er að gerast núna.
Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Vonartýran kviknar
14.1.2009 | 13:51
Efnahagshrun þjóðarinnar er ekki eini vandinn sem við er að eiga í dag. Það sem ég óttast mest um þessar mundir er hið andlega hrun sem fylgt gæti kjölfarið. Og meðan reiðialdan rís sem hæst er hætta á því að lýðskrumarar og eiginhagsmunaseggir sveifli sér upp á ölduna til að láta hana bera sig að ströndum nýrra áhrifa, athygli og valda ... án þess þó að neitt annað breytist.
Sú umræða sem hér hefur orðið á síðunni minni síðustu daga um boðun stjórnlagaþings og stofnun nýs lýðveldis sýnir glöggt að almenningur á Íslandi þráir að sjá vonarljós í þokunni. Hugmyndin um nýtt lýðveldi felur í sér ákveðna lausn - við getum kallað það geðlausn. En fólk þráir að geta horft fram á nýtt upphaf.
Vitanlega felst nýtt upphaf í uppgjöri og endurreisn sem tekur sinn tíma. Fjármálakerfið er jú hrunið og það mun taka langan tíma að koma því á lappirnar aftur. Skúrkarnir í sögunni þurfa sín málagjöld. Tíminn sem þetta tekur er sársaukafullur.
En það er fleiri verk að vinna. Og þau verk þurfa ekki að vera svo tímafrek. Það þarf ekki að taka svo langan tíma að smíða nýja stjórnarskrá og semja samfélaginu nýjar leikreglur. Lögspekingar, siðfræðingar, hagspekingar og fleira vel hugsandi fólk gæti unnið slíkt verk á fáum mánuðum. Umræða um endurnýjun stjórnarskrárinnar er jú ekki ný af nálinni, og það er vel vinnandi vegur að koma saman góðum hópi fólks til þess að smíða það helgiskrín sem stjórnarskráin á að vera.
Hér á síðunni minni hefur verið rætt um þá grunnhugmynd að kjósa til stjórnlagaþings sem sæti í 6-12 mánuði og hefði það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá sem leggði grunn að nýju lýðveldi. Um hana yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla, síðan alþingiskosningar eftir nýju stjórnarskránni. Þetta gæti átt sér stað eftir tveimur leiðum.
A) með þáttöku alþingis og núsitjandi ríkisstjórnar sem héldi áfram að stjórna landinu óháð stjórnlagaþingi
B) með myndun þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar (eða einhverskonar útfærslu af hvoru tveggja)
Til að þrýsta á stjórnvöld að hleypa þessu umbótaferli af stað mætti kalla saman hóp málsmetandi Íslendinga. Það fólk gæti lagt málið upp, þ.e. samið góða ályktun eða áskorun á stjórnvöld þar sem sett yrði fram skýr og einföld krafa um nýja stjórnarskrá og stofnun nýs lýðveldis. Efnt yrði til undirskriftarsöfnunar við þá ályktun á netinu og síðan - þegar komnar væru 20-50 þús undirskriftir - yrði gengið á fund forseta og forsætisráðherra.
Nú eru nokkrir "málsmetandi" aðilar farnir að tala saman. Ekki get ég fullyrt um hvað út úr því kemur, en vonandi verður það eitthvað gott. Hér er ekki verið að tala um stofnun nýs stjórnmálafllokks heldur einfaldlega að mynda þrýsting með undirskriftarsöfnun.
Ég mun halda lesendum upplýstum eftir því sem tilefni gefst til á næstunn.
Íslandi allt!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Þungbær staða Samfylkingar
8.1.2009 | 11:21
Ég horfði á viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi í gær. Hún var skelegg og rökföst að vanda. Og enn treysti ég henni til allra góðra verka. Engu að síður er ég með þyngsli fyrir brjóstinu eftir að hafa hlustað á þetta viðtal.
Það eitt að formaður Samfylkingarinnar skuli með sýnilegt óbragð í munni sjá sig tilneydda að lýsa trausti á fjármálaráðherra "til allra góðra verka" - ráðherra sem nýlega hefur fengið mjög alvarlegar athugasemdir fyrir stjórnsýslufúsk - það eitt fær á mig.
Staða Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum verður þungbærari frá degi til dags. Þetta er staða hins meðvirka maka í óregluhjónabandi þar sem allt er farið úr böndum en enn er verið að verja fjölskyldumeðlimi út á við og fela ummerkin um athafnir þeirra.
Þetta er þyngra en tárum taki.
Á sama tíma er þjóðfélagið allt í upplausn. Ríkisstjórnin trausti rúin. Krafan um afsagnir ráðherra verður sífellt háværari og þeir eru orðnir æði margir sem sitja undir rökstuddum afsagnarkröfum:
Árni Matthiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Þetta er meirihluti ríkisstjórnarinnar - og farið að hitna undir fleirum. Auk þess liggur ríkisstjórnin í heild sinni undir þungu ámæli og afsagnarkröfum.
Formaður Samfylkingarinnar hefur beðið um svigrúm til handa stjórnvöldum að vinna sig út úr kreppuskaflinum og koma málum í þokkalegt horf. Það er skiljanleg ósk. En dag eftir dag koma upp nýjar fréttir um fúsk og feluleiki, spillingarmál, vanrækslu og atgerfisskort í stjórnkerfinu. Nú síðast varðandi vitneskju Árna Matthiesen og Geirs Haarde um alvarlega stöðu tveggja Glitnisssjóða sem jafnað hefur verið til vitorðs (hér).
Meðal neyðarráðstafana stjórnvalda í skaflmokstrinum eru sparnaðaraðgerðir sem ekki aðeins eru sársaukafullar - þær fela í sér aðför að grunnstoðum velferðarkerfisins. Það eru skelfilegir hlutir að gerast í heilbrigðiskerfinu. Og allt á þetta sér stað nánast án umræðu, á þeirri forsendu að stjórnvöld þurfi frið til að moka sig í gegnum skaflinn.
Velferðarkerfið er helgasta vígi jafnaðarmanna.
Ég vil varpa fram þeirri hugmynd að menn taki sér smá pásu frá þessum mokstri, varpi öndinni og líti í kringum sig. Hvað er verið að moka? Til hvers? Og hverju er til fórnandi að komast þarna í gegn?
Látum ekki æsingafólk hindra friðsamleg mótmæli
3.1.2009 | 17:29
Þessa dagana eru sjálfsagt margir hikandi við að taka þátt í mótmælum af ótta við ryskingar og ófrið eins og urðu á gamlársdag. Það væri þó afar slæmt ef nokkrir hávaðaseggir yrðu til þess að hrekja fólk frá því að nota lýðræðislegan rétt sinn til friðsamlegra mótmæla.
Ég vil að minnsta kosti ekki láta æsingalið sem vinnur eignaspjöll og meiðir fólk ráða því hvort ég sýni hug minn í verki. Sem betur fer sýnist mér fleiri sömu skoðunar því enn mætir fólk á Austurvöll í þúsunda tali.
Fyrsta mótmælastaðan á Ísafirði átti sér stað í dag, og mættu á annað hundrað manns sem tóku sér mótmælastöðu á Silfurtorginu klukkan þrjú. Það verður að teljast góð mæting í ljósi þess hvernig til mótmælanna var stofnað. Engin formleg fréttatilkynning, engin auglýsing - heldur sms-skeyti, símtöl, tölvupóstar og blogg.
Ætlunin er að mæta framvegis vikulega klukkan þrjú á Silfurtorgi. Kannski verður einhver dagskrá næst - það var ekkert slíkt að þessu sinni. Bara þögul mótmælastaða. Ég hef fulla trú á því að þetta sé upphafið að öðru og meiru.
Loksins er mótmælt á Ísafirði!
3.1.2009 | 13:40
Það verða þögul mótmæli á Silfurtorginu á Ísafirði kl. 15:00 í dag - loksins. Ég ætla svo sannarlega að mæta. Það er tími til kominn að þjóðin standi með sjálfri sér. Það er líka brýnt að almenningur í landinu láti þá ekki eina um að mótmæla sem gengið hafa um með eignaspjöllum og offorsi að undanförnu, eins og á Hótel Borg á gamlársdag. Það er óþolandi ef framganga þess fólks verður til þess að koma óorði á friðsamar mótmælastöður almennings.
Ég ætla því að mæta á Silfurtorgið í dag - og ég vona svo sannarlega að sem flestir mæti á Austurvöll til friðsamlegra mótmæla.
Þetta verður þögul mótmælastaða án formlegrar dagskrár.
Já, loksins spratt upp friðsamleg grasrótarhreyfing hér á Ísafirði. Framtakið hefur verið að vinda upp á sig í morgun. Engar opinberar fréttatilkynningar eða auglýsingar, bara sms-skeyti og boð á Facebook og blogginu. Sannkallað grasrótarstarf.
Vonandi verður þetta upphafið að vikulegum mannsæmandi mótmælum hér á Ísafirði framvegis.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aftakaárið 2008
2.1.2009 | 20:44
Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð. Ekki fékk það að koma óflekkað til okkar frekar en fyrri árin. Heimsfréttirnar segja frá stríðsátökum og manntjóni. Innlendu fréttirnar greina frá vaxandi vanlíðan og spennu meðal almennings, gríðarlegum hækkunum á heilbrigðisþjónustu og helstu nauðsynjum, uppsögnum á vinnumarkaði og gjaldþroti fyrirtækja. Nú er kreppan að koma í ljós. Áfallið er að baki, samdrátturinn er framundan. Hann á eftir að harðna enn, er ég hrædd um.
Samt kveð ég þetta undarlega nýliðna ár með þakklæti. Það færði mér persónulega margar gleðistundir, jafnt í einkalífi sem á samfélagssviðinu. Sem samfélagsþegn kastaðist ég öfganna á milli eins og þjóðin í heild sinni - milli spennu, gleði og áfalla. Borgarpólitíkin sá um spennuna. Þar nötraði allt og skalf fram eftir ári. Á íþróttasviðinu fengum við fleiri og stærri sælustundir en nokkru sinni svo þjóðarstoltið náði áður óþekktum hæðum þegar strákarnir tóku silfrið í Peking. Á Mikjálsmessu 29. september rann víman svo af okkur og við skullum til jarðar. *
Já, þetta var undarlegt ár. Í veðurlýsingum er talað um aftakaveður þegar miklar sviptingar eiga sér stað í veðrinu. Það má því segja að árið 2008 hafi verið "aftakaár" í sama skilning - en tjónið hefur ekki verið metið til fulls.
*PS: Þess má geta til fróðleiks að Mikjáll erkiengill, sem dagurinn er tileinkaður, hafði það hlutverk að kollvarpa illum öflum og vernda kristnar sálir. Sérstök Mikjálsbæn var beðin í kaþóskum messum til ársins 1964 en Mikjálsmessa var tekin út úr helgidagatalinu árið 1770.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Skammarleg frammistaða LÍN
29.12.2008 | 21:01
Lánasjóður íslenskra námsmanna á skömm skilið fyrir slælega frammistöðu gagnvart námsmönnum erlendis. Á annað hundrað námsmenn hafa nú beðið í tvo mánuði eftir afgreiðslu svokallaðra neyðarlána sem menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðuneytið lofuðu námsmönnum fyrr í haust. Menntamálaráðherrann sló sér meira að segja upp á þessu og maður trúði því eitt andartak að einhver alvara eða umhyggja lægi þar að baki. Síðan hafa sjö - já hvorki meira né minna en sjö námsmenn af 130 umsækjendum - fengið jákvætt svar um neyðarlán. Sjóðurinn túlkar umsóknirnar eins þröngt og hugsast getur og finnur þeim allt til foráttu. Á meðan mega námsmenn í neyð bara bíða rólegir.
Unga konan sem ekki gat talað ógrátandi við fréttamann Kastljóssins í kvöld þegar hún var beðin að lýsa aðstæðum sínum - hún er ein þeirra sem nú á að bíða róleg ef marka má þá sem bera ábyrgð á aflgreiðsluhraðanum hjá LÍN. Já, engan æsing hérna! Þetta verður alltsaman athugað í rólegheitunum.
Þetta nær auðvitað engri átt.
Og það var vægast sagt vandræðalegt að hlusta á Sigurð Kára - formann menntamálanefndar Alþingis - reyna að mæla þessu bót í Kastljósi kvöldsins. Hann talaði eins og það hefði verið menntamálanefndin (eða ráðuneytið) sem átti frumkvæði að því að athuga með stöðu námsmanna erlendis. Ég man þó ekki betur en það hafi verið námsmannasamtökin sjálf (SÍNE) sem vöktu athygli ráðamanna á bágu ástandi námsmanna í útlöndum. Það voru námsmenn sjálfir sem settu fram beinharðar tillögur að lausn vandans til þess að flýta fyrir henni. Raunar brugðust bæði menntamálanefnd og -ráðuneyti skjótt við - en það sama verður ekki sagt um stjórn LÍN.
Það hlýtur eitthvað mikið að vera athugavert þegar einungis sjö af um 130 umsóknum um neyðarlán hafa verið afgreiddar á tveimur mánuðum. Það er ekki eðlilegt að virða umsækjendum allt til vansa og vammar þegar meta skal þörf þeirra fyrir neyðaraðstoð.
Nógu erfitt er fyrir námsmenn að fá aðeins eina útborgun á önn, eftir að önninni er lokið, og þurfa að fjármagna framfærslu sína með bankalánum meðan beðið er eftir námsláninu. Og þegar það er fengið, dugir það rétt til að gera upp við bankann vegna annarinnar sem liðin er - og svo þarf að taka nýtt bankalán til að fjármagna önnina sem er framundan.
Það segir sig sjálft að þetta siðlausa fyrirkomulag þjónar ekki námsmönnum - það þjónar fyrst og fremst bönkunum sem þar með geta mjólkað lánakostnaðinn önn eftir önn eftir önn - árum saman.
Ef einhver dugur er í menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðherra þá verður núna stokkað upp í stjórn LÍN og stjórn og starfsliði sjóðsins gerð grein fyrir því hver sé raunverulegur vilji ráðmanna í þessu máli.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Samvinna eða samkeppni - gæði eða magn!
28.12.2008 | 22:33
Í kvöld hlustaði ég á Pál Skúlason heimspeking og fyrrum Háskólarektor í samtali við Evu Maríu (hér). Honum mæltist vel að venju og ósjálfrátt varð mér hugsað til þess tíma þegar ég sat hjá honum í heimspekinni í den. Það voru skemmtilegir tímar, miklar samræður og pælingar, og eiginlega má segja að þar hafi ég hlotið mína gagnlegustu menntun.
Heimspekin kennir manni nefnilega að hugsa - hún krefur mann um ákveðna hugsunaraðferð sem hefur svo sárlega vantað undanfarna áratugi. Það er hin gagnrýna hugsun í bestu merkingu orðsins gagn-rýni.
Mér þótti vænt um að heyra þennan fyrrverandi læriföður minn tala um gildi samvinnu og samhjálpar. Þessi gildi hafa gleymst á meðan skefjalaus samkeppni hefur verið nánast boðorð meðal þeirra sem fjallað hafa um landsins gagn og nauðsynjar hin síðari ár. Lítil þjóð þarf á því að halda að sýna samheldni og samvinnu - menn verða að kunna að deila með sér, eiga eitthvað saman. Þetta er eitt það fyrsta sem börn þurfa að læra, eigi þau að geta verið með öðrum börnum. Samvinnuhugsunin hefur hins vegar átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár - og það er skaði.
Samkeppni og önnur markaðslögmál geta auðvitað átt rétt á sér - eins og Páll benti á - en það má ekki yfirfæra þau á öll svið mannlegra samskipta. Samkeppni getur í vissum tilvikum komið niður á mannúð og gæðum þar sem þörf er annarra sjónarmiða en markaðarins. Hún getur til dæmis orðið til ills í skólastarfi, innan heilbrigðiskerfisins eða í velferðarþjónustunni. Og þó svo að þetta virðist sjálfsagðir hlutir, þá þarf stöðugt að minna á þá - það sýnir reynslan.
Lítum til dæmis á endurskipulagningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hún ekki einmitt tekið mið af hagræðingu, samruna, stækkun og samlegðaráhrifum líkt og gert er við framleiðslufyrirtæki? Mér hefur sýnst það - þegar nær hefði verið að taka mið af því að starfsemi sjúkrahúsanna er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta. Og það gilda önnur lögmál um þjónustu en framleiðslu.
Í framhaldsskólakerfinu hafa fjárframlög til skólanna miðast við fjölda þeirra nemenda sem þreyta próf um leið og áhersla hefur verið lögð á að stytta námstíma þeirra til stúdentsprófs. Fyrir vikið hafa skólar keppst um að fá til sín sem flesta nemendur og útskrifa þá á sem skemmstum tíma. Slík framleiðsluhugsun getur átt fullan rétt á sér í kjúklingabúi, en hún á ekki rétt á sér þar sem verið er að mennta ungt fólk og búa það undir lífið.
Já, það vöknuðu ýmsar hugleiðingar við að hlusta á tal þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu í kvöld. Hafi þau bestu þakkir fyrir þennan góða viðtalsþátt.
PS: Ummæli Páls um landráð af gáleysi eru líklega gagnorðasta lýsingin á því sem gerðist á Mikjálsmessu þann 29. september síðastliðinn.
Viðskipti og fjármál | Breytt 29.12.2008 kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Hverjum ber að biðjast afsökunar?
19.12.2008 | 12:29
"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.
Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.
Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars?
Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.
Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt. Að þurfa ekki að standa skil á einu eða neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann.
----
PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (54)