Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Athyglisverð hljóðupptaka - undarlegt hugarfar

Reynir Traustason Það var undarlegt að hlusta á orðaflauminn renna út úr Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, þar sem hann reyndi að skýra fyrir blaðamanni sínum hvers vegna hann gæti ekki birt frétt þess síðarnefnda um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.

Reynir Traustason, ritstjóri er orðinn margsaga í sínum skýringum. Í yfirlýsingu sem þeir feðgar, hann og Jón Trausti Reynisson, létu frá sér í dag er áréttað að "hótanir komi ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV" og blaðamaðurinn hafi "ekkert fyrir sér" í því að svo hafi verið.

Hljóðupptakan sem flutt var í Kastljósi ber þó vitni um hið gagnstæða. Þar kemur ljóslega fram að Reynir Traustason afsakaði sig við blaðamanninn með því að vísa í öfluga aðila sem gætu "stútað" blaðinu ef fréttin yrði birt.

Nú íhugar ritstjórinn málsókn gegn Kastljósi fyrir að birta upptökuna.  Hann lítur svo á að þarna hafi átt sér stað einkasamtal milli sín og blaðamannsins. Vissulega var þarna samtal tveggja manna sem ekki hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt erindi í fjölmiðla. En þegar orð standa gegn orði - og annar aðilinn er auk þess með frýjanir um að hinn hafi ekkert í höndunum - þá þarf að skera úr um sannleiksgildið með einhverjum hætti. Þessi hljóðupptaka átti erindi við almenning. Svo sannarlega.

 Almenningi kemur það við hvernig ritstjórar fjölmiðla ganga fram í sínu starfi. Þeir fara með fjórða valdið - þeir hafa upplýsingaskyldu við almenning - og það er vandasamt verkefni.

Annað þótt mér merkilegt sem kom fram í þessari hljóðupptöku. Það voru orð Reynis ritstjóran um að einn daginn myndi DV takast að knésetja Björgólf Guðmundsson. Er það stefna blaðsins að knésetja þann mann? Ef til vill fleiri?

Þessi afhjúpuná afstöðu Reynis Traustasonar verður sjálfsagt lengi í minnum höfð. Það er jú ekki á hverjum degi sem ritstjóri "frjáls" fjölmiðils upplýsir að hann hyggist sitja fyrir einhverjum í því skyni að "taka hann" eða "skella honum" (man ekki nákvæmlega orðalagið í augnablikinu). Hann er ekki þarna að tala um raðmorðingja eða yfirlýstan nauðgara. Nei hann er að tala um mann sem hefur verið umsvifamikill í íslensku fjármála- og athafnalífi; mann sem mikið hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Björgólfur Guðmundsson er vissulega umdeildur nú um stundir, en ef þessi afstaða Reynis Traustasonar stjórnar gjörðum fjölmiðlanna sem eiga að "upplýsa" okkur almenning um það sem er að gerast á bak við tjöldin - ja, þá gef ég nú ekki mikið fyrir hina svokölluðu "upplýstu umræðu".

Þá er ekki síður athyglisvert að sjá viðleitni Reynis til að sverta blaðamanninn, þennan fyrrum starfsmann sinn, með því að blanda óskyldum málum inn í fyrrgreinda yfirlýsingu sína um þetta mál. Reynir upplýsir þar um óskylda hluti sem varða frammistöðu blaðamannsins í starfi - nokkuð sem að öllu eðlilegu ætti að vera trúnaðarmál milli vinnuveitanda og starfsmanns. Svo er hann sjálfur móðgaður og hissa á að að hljóðupptakan af símtali þeirra tveggja skuli hafa endað í Kastljósinu.

Nei, það var svo sannarlega athyglisvert og afhjúpandi að hlusta á Reyni Traustason í Kastljósinu í kvöld - því þó að samhenginu væri ekki fyrir að fara fór hugarþelið ekki framhjá neinum.

 Það hugarþel ætti ekki að vera við lýði á neinum íslenskum fjölmiðli.


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV birtir gamla frétt sem ,,engu'' bætir við!?

bréfburður Á vefritinu NEI lýsir blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon tildrögum þess að frétt hans um Sigurjón Þ. Árnason fv bankastjóra Landsbankans var tekin út úr blaðinu af ritstjóra DV, Reyni Traustasyni þann 6. nóvember. Mun ritstjórinn hafa sagt að "stórir aðilar" úti í bæ hafi stöðvað birtinguna og um væri að ræða líf eða dauða fyrir DV að birta ekki fréttina.

Reynir hafnar þessu og segir nú að fréttin hafi engu bætt við það sem þegar var komið fram í fjölmiðlum um að Sigurjón Þ. Árnason væri að koma sér fyrir í húsakynnum Landsbankans og hygðist þar stunda ráðgjöf fyrir fjármálastofnanir.

En ... athyglisvert er það, að frétt sem var orðin "of gömul" fyrir mánuði, skuli samt tekin til birtingar núna á vefsíðu DV. Frétt sem auk þess "bætir engu við" það sem þá þegar var komið fram.

Sé það raunverulega "bull" eins og ritstjórinn segir, að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki grein Jóns Bjarka Magnússonar um Sigurjón Þ. Árnason,  af hverju er hann þá að birta þessa frétt  löngu síðar?

Þið fyrirgefið, en ég gef lítið fyrir þessar útskýringar ritstjórans. Verð bara að segja það eins og er. Þessi yfirlýsing blaðamanna á DV sannfærir mig ekki heldur. Hún fyllir mig bara óöryggi - já, óljósum kvíða um að blaðamenn landsins séu hreint ekki frjálsir í skrifum sínum þegar allt kemur til alls.

Fjölmiðlavaldið hefur þjappast á fárra manna hendur á undanförnum árum. Nú kemur æ betur í ljós - sem okkur hefur sum hver lengi grunað - hvað sem líður siðareglum blaðamanna og góðum ásetningi þeirra að sinna sínum störfum af kostgæfni - að íslenskir fjölmiðlar eru ekki sá frjálsi upplýsingavettvangur sem æskilegt væri.

DV virðist að minnsta kosti ekki vera það.


mbl.is Reynir: Fréttin bætti engu við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægar upplýsingar

Þá hefur Ingibjörg Sólrún talað hreint út varðandi ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn - og það eru orð í tíma töluð. Margir hafa velt því fyrir sér að undanförnu hver væri staðan í stjórnarsamstarfinu. Nú vitum við það:  Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við sig Evrópumálin. Gangi í sundur með flokkunum í því máli má búast við stjórnarslitum og kosningum. Verði ekki kosningar má búast við breytingum í ríkisstjórninni.

Það er mikilvægt fyrir almenning að fá vitneskju um hvað forystumenn Samfylkingarinnar eru að hugsa núna.

En svo er spurning hvort þetta er nóg. Hvort almenningur sættir sig við annað hvort eða, þ.e. kosningar eða "breytingar" í ráðherraliðinu.  Það á eftir að koma í ljós.


mbl.is Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvísandi fréttir af verðhækkun áfengis

Fréttir eru misvísandi af verðhækkun á áfengi og tóbaki. Hér er talað um 12,5% hækkun áfengisgjalds - í þessari frétt á ruv.is segir hinsvegar að léttvín muni hækka um 75% og sterk vín um 40%. Fær þetta staðist?

Ef svo er, þá segi ég nú bara eins og kallinn: Vínið er orðið svo dýrt að maður hefur ekki efni á að éta lengur!


mbl.is Áfengisverð hækkar ekki strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum neytendur og neitendur

Ég hef oft verlsað í Next og Noa Noa - þar hafa fengist falleg föt. Ég er hætt því. Málið er einfalt, eins og bloggvinur min Jón Ragnar Björnsson hefur skilmerkilega sett það upp, og ég leyfi mér að vitna beint í þá þríliðu:

  1. Verslanir settar á hausinn. 
  2. Skuldirnar skildar eftir í bönkunum. Ég, börnin mín og barnabörn ásamt hinum óbreyttu Íslendingunum greiðum skuldirnar.
  3. Fyrri verslunareigandi kaupir skuldlausar verslanirnar og getur byrjað upp á nýtt og lifað hátt, þangað til hann setur aftur á hausinn.

Þetta er sumsé Nýja Ísland. Það er eins og þeir sem halda um fjármál og viðskipti séu orðnir svo spilltir í gegn að þeim sé ómögulegt að rífa sig upp úr sukkinu. Við, þessi svokallaði almenningur, megum bara standa agndofa og horfa upp á aðfarirnar - eða hvað?

Við getum beitt okkur sem neytendur - já og þar með líka sem neitendur með einföldi þ.e. með því að neita einfaldlega að versla við þá aðila sem hafa komist yfir eignir með þessum hætti.

Ég ætla að minnsta kosti að sniðganga Next og Noa Noa. 

mbl.is Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er hátekjuskatturinn?

Jæja, þá er komið að því að boða skattahækkanir - flata 1% hækkun á línuna. Allt í lagi með það - bjóst svosem við einhverjum skattahækkunum eins og á stendur. En hvar er hátekjuskatturinn

Þegar að herðir og leggja þarf auknar byrðar á samfélagið er ekki til mikils mælst þó þeir sem bera meira úr býtum taki á sig aðeins meiri byrðar en hinir. Það er grundvallarhugsun jafnaðarstefnunnar að hver maður leggi af mörkum í samræmi við það sem hann aflar og að allir menn njóti grundvallar lífsgæða.

Flöt skattahækkun á línuna er ekki í anda jafnaðarstefnunnar - síst af öllu eins og á stendur í samfélaginu. Nógu hefur nú almenningur tapað samt.

 

 ----------------------

PS: Og að lokum - til ykkar sem hafið svínað út athugasemdakerfið hjá mér með ómálefnalegum og rætnum athugasemdum um menn, málefni og stjórnmálaflokka síðustu daga: Nú mun ég ekki hika við að henda athugasemdum ykkar út ef mér ofbjóða þær. Angry


Fjölmiðlar eru fjórða valdið

bréfburðurUm þessar mundir reynir mjög á íslenska fjölmiðla að standa sig sem fjórða valdið. Það gera þeir því aðeis að vera á vaktinni, kafa sjálfstætt ofan í mál og halda opinberum rannsóknaraðilum þar með við efnið.

Mogginn hefur boðað að á morgun muni hann fjalla um kaup Baugs á 10-11 verslununum af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Fréttin í dag fjallar um sérkennileg kaup og eignatengsl milli Kaldbaks, Burðaráss og eignarhaldsfélagsins Samson Global Holdings þar sem Björgúlfur Thor Björgúlfsson hefur setið beggja vegna borðs sem eigandi Samsons annarsvegar og stjórnarformaður almenningshlutafélagsins Burðaráss hinsvegar.

Ég vona að mogginn láti ekki hér við sitja heldur haldi áfram að fletta ofan af hagsmuna- og hugsanlegum spillingartengslum í íslensku fjármálalífi. Ekki veitir af.

 


mbl.is Sami maður beggja vegna borðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju vissi ráðherra ekki?

Í framhaldi af þessum fréttum um endurskoðun KPMG og rannsókn fyrirtækisins á viðskiptum Glitnis fyrir bankahrunið finnst mér tímabært að rifja upp lögin um ráðherraábyrgð (HÉR), sérstaklega 2. gr.,  6. gr. og 7. gr. 

Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra vissi ekki af því að KPMG - sem sá um endurskoðun sumra stærstu hluthafa gamla Glitnis - hefði verið falin rannsóknin á viðskiptum bankans fyrir hrunið? Fyrirtækið hefur verið í þessari rannsókn í tvo mánuði.

Hvernig það vera að viðskiptaráðherra veit ekki hvernig staðið er að þessari rannsókn og hverjir hafa hana með höndum? Hver ber ábyrgð á því að upplýsingar um þetta fyrirkomulag bárust ekki til ráðherrans? Undirmenn hans? Hann sjálfur? Er ráðuneytið kannski ekkert að sinna framgangi málsins - bara ekkert að fylgjast með? Þekkja þeir kannski ekki 9. gr. laganna um Stjórnarráð Íslands (HÉR)  þar sem segir ,,Ráðuneyti hefur eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana"?

Það er óviðunandi annað en að skýring verði gefin á þessu vitneskjuleysi.

Þeir Atli Gíslason og Lúðvík Bergvinsson ræddu þetta í Kastljósi í kvöld. Atli rökstuddi mál sitt vel. Lúðvík talaði of mikið, greip of oft fram í og sagði of oft "það verða auðvitað mistök". Það er ekkert auðvitað eða sjálfsagt við hugsanleg mistök - síst af öllu þegar menn eiga að vanda sig. Angry

Ef menn (les: ráðherrar) komast ekki yfir það að fylgjast með því sem er að gerast á þeirra eigin heimavelli, þá verða þeir einfaldlega að fá liðsauka. Það er ekki þeirra sjálfra að standa alla pósta,  og sinna öllum verkum. En þeir bera ábyrgð á því að vaktstöðurnar séu mannaðar og upplýsingar berist.


mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst komi Flokkurinn - svo fólkið!

 "Ég er þess fullviss að formaður bankastjórnar Seðlabankans muni á endanum velja þá leið sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn"  er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Ummælin hafa vakið athygli ýmissa sem vonlegt er - enda er boðskapur þeirra með ólíkindum: Fyrst kemur Flokkurinn, svo kemur fólkið!

Þannig hugsar ráðherra í ríkisstjórn lands sem stendur frammi fyrir mestu erfiðleikum sem gengið hafa yfir þjóðina um aldir: Nú ætti Davíð að gera það sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sick

Ætli þetta hugarfar sé ekki einmitt vandi ríkisstjórnarinnar í hnotskurn.

I rest my case.


Hvar eru nú handtökuheimildirnar?

 Hvar er nú efnahagsbrotadeild lögreglunnar? Hvar eru handtökuheimildir lögreglunnar? Það vantar ekki að hægt sé að taka krakkagrey og hneppa í varðhald fyrir það að mótmæla á almannafæri. En menn sem misnota aðstöðu sína og vitneskju - misfara með það traust sem þeim er sýnt - til þess að draga sér fé, þeir ganga lausir. Ekki nóg með það, þeir eru sérstakir ráðgjafar stjórnvalda og látnir starfa með skilanefndunum sem eiga að gera upp verkin þeirra. 

Ræningjar á rannsóknavettvangi. Angry

thjofurEigendur Landsbankans og Glitnis láta peningamarkaðssjóði bankanna kaupa í fyrirtækjum sem þeir eiga persónulega þegar þeir sjálfir eru komnir í lausafjárþröng, eins og það er orðað. Þeir nota fjármuni viðskiptavina bankans til þess að bæta sér upp persónuleg blankheit.   Fyrirgefið, en þetta er í reynd ekkert annað en innherjaþjófnaður - fjármunir færðir úr sjóðum viðskiptamanna yfir í veski stjórnenda.

Svo voga skilanefndirnar sér að hylma yfir með þessum mönnum og skjóta þeim á bak við bankaleynd. Angry 

Hvar er nú dómsmálaráðherra með allar sínar sérsveitir? Af hverju er ekki ruðst inn með dómsúrskurði og gögn gerð upptæk til að upplýsa þetta mál, eins og menn gera þegar grunur leikur á um skattsvik?

Þvílíkt og annað eins. 

Burt með þetta spillingarlið - þessa afbrotamenn!

 


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband