Veggjakrot og veggjalist - enn og aftur

Nú þegar borgarlandið er að koma undan snjó og hvarvetna blasir við rusl og drasl eftir lægðirnar að undanförnu hefur vaknað umræða um borgarumhverfið. Af því tilefni langar mig að endurvekja nokkurra ára gamla umræðu um veggjakrot og veggjalist.

 Ég hef áður gert að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.

 Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja veggjakrotsér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.

graffitiSvo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).

Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau  myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.

 Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband