Færsluflokkur: Spil og leikir

Úrslit prófkjöranna, spilaspár og prógrammið framundan

HolmavikProfkjor09 Nú er endurnýjun að eiga sér stað á framboðslistum stjórnmálaflokkanna að afstöðnum prófkjörum síðustu viku. Sjaldan ef nokkru sinni hafa landsmenn séð jafn miklar breytingar á öllum framboðslistum og nú. Þó er augljóst að fólk er að kjósa breytingarnar í bland við reynslu og þekkingu þeirra sem fyrir eru.

Nokkrir flottir hástökkvarar eru að koma inn hjá Samfylkingunni að þessu sinni. Það gladdi mig t.d. að sjá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Skúla Helgason stökkva inn á listann í Reykjavík - nýtt fólk með reynslu. Þá var gaman að sjá Önnu Pálu Sverrisdóttur, foringja ungra jafnaðarmanna ná markverðum árangri. Smile Sé litið til landsbyggðarinnar þá er líka að verða allnokkur endurnýjun þar. Hér í Norðvesturkjördæminu eru þrír nýir einstaklingar að koma inn á listann í 2., 3. og 4. sæti á eftir Guðbjarti Hannessyni. Það eru auk mín, Arna Lára Jónsdóttir og Þórður Már Jónsson. 

spadispilin09Það er svolítið gaman að því að ég lagði spilastjörnu fyrir þau bæði á fundaferðalaginu okkar um daginn. Hjá Örnu Láru kom góður og markviss árangur. Hjá Þórði komu upp vonbrigði sem myndu breytast í sigur eða árangur.  Þessi mynd var tekin við það tækifæri. Nú er ljóst að hann mun flytjast upp í 4. sætið eftir brottgöngu Karls V. Matthíassonar. Wink

Í NA-kjördæmi varð endurnýjun með þeim Sigmundi Erni og Jónínu Rós í 2. og 3. sæti.

Hinir flokkarnir eru líka að fá inn nýtt fólk. Auðséð er að mörgum af þeim sem sátu á þingi síðasta kjörtímabil hefur verið refsað. Það er þó ekki alltaf í samræmi við hlutdeild þeirra að því sem gerðist, hefur mér fundist. En það er önnur saga.

En það eru spennandi tímar framundan - fundir og ferðalög hjá frambjóðendum. Sjálf verð ég á ferðinni í Skagafirði og Borgarfirði næstu tvær vikurnar - legg af stað á þriðjudag. Framundan eru líka kjördæmisþing og Landsfundur.

vetrarmynd07Og ekki má ég gleyma vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar á Snæfellsjökli í byrjun apríl. Þangað verð ég að fara til þess að taka stigspróf á hundinn - annars er ég búin að missa af tækifærinu þetta árið.

Jebb ... það er allt að gerast. 


mbl.is Ásta Ragnheiður í 8. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frestun kosninga vegna tafa í þinginu?

thingsalur-eyjan Það kæmi mér ekki á óvart ef kosningunum yrði frestað. Fyrir liggja það mörg óafgreidd mál í þinginu að ekki er forsvaranlegt að senda þingmenn heim og hleypa öllu upp í kosningabaráttu. Þá er heldur ekki ásættanlegt að láta Sjálfstæðismenn komast upp með það að tefja  afgreiðslu mála endalaust með málþófi og allskyns fíflagangi. 

Þjóðin er á vonarvöl og almenningur hefur ekki þolinmæði eða löngun til þess að fylgjast með málfundaæfingum misviturra þingmanna sem finna sér viðspyrnu í  fundatæknilegu þrefi.

Framganga Sjálfstæðismanna að undanförnu hefur verið með ólíkindum. Þeir hafa hlaupið í ræðustól hver á fætur öðrum með  andsvör og athugasemdum hver við annan. Þeir hafa haldið þinginu í fundatæknilegri herkví. Það er svo augljóst hvað þeim gengur til. Og það er svo sorglegt að sjá þetta sama fólk sem talaði hvað mest um ábyrgð og öll þau verk sem vinna þyrfti fyrir aðeins fáeinum vikum. Þá var það í ráðherrastöðum. Nú er það komið í stjórnarandstöðu og augljóslega búið að skipta um disk í tækinu.

Þetta er vandi íslenskra stjórnmála í hnotskurn. Það er einmitt þetta sem fólk er búið að fá svo gjörsamlega nóg af. Angry

 


mbl.is Þingrof óákveðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð veit en vill ekki segja

   "Veit en vill ekki segja" gæti verið nafn á nýjum samkvæmisleik - svona orðaleik í anda Davíðs Oddssonar. Þessi leikur gæti verið tilvalin skemmtun fyrir þá sem hafa gaman af því að hleypa upp jólaboðum.

DavidGeir Leikurinn fer þannig fram að einhver úr fjölskyldunni ákveður að fara með hálfkveðnar vísur um mikilvæg atriði , jafnvel leyndarmál sem sá hinn sami hefur búið yfir all lengi og skipta fjölskylduna miklu máli. Hann gefur í skyn að einhver annar í fjölskyldunni hafi vitneskju um það sem hann veit. En hann segir samt ekki hversu mikið sá hefur fengið að vita. Hinir verða að giska - og geta í eyður - og draga ályktanir - og helst fara í hár saman yfir því sem þeir halda að hafi gerst, af því að sá sem stjórnar leiknum "veit en vill ekki segja". Tilgangurinn með leiknum er auðvitað sá að hleypa upp samkvæminu og rjúfa vina og ættarbönd þannig að sá sem stjórnar leiknum standi að lokum uppi sem sá sem einn vissi allt.

 

Sýnidæmi um þetta höfum við séð að undanförnu í ýmsum ummælum Seðlabankastjórans:

 

  •  Hann veit hvað olli því að Bretar skelltu á okkur hryðjuverkalögum - ó, já. Veit en vill ekki segja.
  • Hann vissi líka að allt var hér að fara til fjandans. Ó, já. Það kannast bara enginn við að hann hafi sagt frá því - að minnsta kosti kom það ekki fram í skýrslu Seðlabankans sem send var viðskiptaráðherranum.
  • Hann veit um fund sem hann sjálfur átti með "fulltrúum ríkisstjórnarinnar" í júní - fund sem enginn kannast við að hafi verið haldinn þá. En Davíð vill ekki segja hvað þar fór fram annað en að þar hafi hann talað um 0% líkur á að bankarnir færu ekki á hausinn - orð sem enginn kannast heldur við. Davíð "veit" við hverja hann sagði þetta og sitt hvað fleira sem fram fór . En hann vill ekki segja.
  • Í útlenskum blöðum gefur Seðlabankastjórinn í skyn að kannski eigi hann endurkomu í stjórnmálin - hann lætur berast að hann eigi kosta völ sem hann vill ekki segja nánar frá að svo stöddu. 
  • Davíð mætir á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun - segist þar vita ýmislegt, en ber fyrir sig bankaleynd og vill ekki segja.

 

Jebb, þannig er leikurinn í sinni (hl)ægilegustu mynd!

Whistling

Og þar með er bloggfríið mitt fokið út í veður og vind.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaður viðurkennir fjárhættuspil

birkirjonjonsson Birkir Jón Jónsson alþingismaður hefur "viðurkennt"  að hafa spilað póker í spilavíti í miðbænum og gengið út með tugi þúsunda í gróða, að því er fram kemur á visir.is í dag. Júlíus Þór Júlíusson, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn segir framkomu þingmannsins fyrir neðan allar hellur en Birkir Jón mun hafa í hyggju að beita sér fyrir lögleiðingu pókers. Júlíus Þór trúir ekki sínum eigin eyrum.

Nú er ég svolítið hugsi. Ekki vil ég mæla því bót að þingmenn fremji lögbrot. Fjárhættuspil er jú bannað. En hvers vegna ætti ekki að lögleiða póker? Af því sumir ráða ekki við fjárhættufíkn sína?

Það er svo margt sem fólk ræður ekki við. Ættum við að hætta að selja áfengi af því sumir ráða ekki við fíkn sína í áfengi? Og svipta þar með fjölda fólks ánægjunni af því að geta notað áfengi sem löglegan nautnavarning? Það vita þeir sem þekkja, að fátt jafnast á við glas af góðu rauðvíni með vel matreiddri steik.

Varla verða allir fíklar sem kynnast póker. Eru ekki spilakassar út um allar þorpagrundir ein helsta fjáröflunarleið góðgerðarsamtaka? Við vitum að margir ráða ekkert við fíkn sína í spilakassa - aðrir skemmta sér við þá í hófi.

Kannski er þetta tóm vitleysa í mér - kannski er póker stórhættulegt djöfuls verkfæri sem steypir iðkendum sínum í glötun. Ég veit það ekki.

En mér finnst einhvernveginn að við getum ekki verndað alla þegna samfélagsins frá sjálfum sér, fíknum sínum og hvötum með lagasetningum.


195 bloggvinir á tómri síðu!

Ótrúlegt - kíkið á þetta - galtóm bloggsíða en 195 bloggvinir komnir samt! Á tóma síðu. Þetta er sko húmor í lagi. 

Annað hvort er Steini Briem ótrúlega vel kynntur úti í samfélaginu - sem getur auðvitað vel verið, þó mér finnist það ólíklegt (með fullri virðingu fyrir manninum) -  eða bloggvinaæðið hefur keyrt um þverbak. Og það er mín niðurstaða.

En ég semsagt fékk tilboð frá þessum ágæta "bloggara" um að gerast bloggvinur fyrir nokkrum dögum. Þar sem ég er svolítið kresin á þá sem ég kalla vini mína opnaði ég að sjálfsögðu síðuna hans til að sjá hvað hann væri að blogga áður en ég samþykkti hann sem vin. Halló! Þar var þá ekkert - en löng runa af bloggvinum. Ég ákvað að hinkra og hef verið að kíkja á síðuna af og til, svona til að sjá hvort ekki kæmi eitthvað inn. En ekkert gerist. Steini Briem fær 80-90 heimsóknir á hverjum einasta degi, á síðu sem ekkert er inni á, og bloggvinum fjölgar dag frá degi. Í kvöld voru þeir orðnir 195.

Þetta er BARA frábært - eins og börnin segja.

Trúað gæti ég að þarna sé verið að gera tilraun með það hversu marga bloggvini er hægt að fá án þess að nokkuð sé á bak við það. En hvort sem það er tilfellið eða ekki - þá er niðurstaðan athyglisverð. AFAR athyglisverð.

Ég kaupi þennan húmor.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband