Þungbær staða Samfylkingar

isg Ég horfði á viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi í gær. Hún var skelegg og rökföst að vanda. Og enn treysti ég henni til allra góðra verka. Engu að síður er ég með þyngsli fyrir brjóstinu eftir að hafa hlustað á þetta viðtal. 

Það eitt að formaður Samfylkingarinnar skuli með sýnilegt óbragð í munni sjá sig tilneydda að lýsa trausti á fjármálaráðherra "til allra góðra verka" - ráðherra sem nýlega hefur fengið mjög alvarlegar athugasemdir fyrir stjórnsýslufúsk - það eitt fær á mig.

Staða Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum verður þungbærari frá degi til dags.  Þetta er staða hins meðvirka maka í óregluhjónabandi þar sem allt er farið úr böndum en enn er verið að verja fjölskyldumeðlimi út á við og fela ummerkin um athafnir þeirra.

Þetta er þyngra en tárum taki. 

Á sama tíma er þjóðfélagið allt í upplausn. Ríkisstjórnin trausti rúin. Krafan um afsagnir ráðherra verður sífellt háværari og þeir eru orðnir æði margir sem sitja undir rökstuddum afsagnarkröfum:

Árni Matthiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra

Þetta er meirihluti ríkisstjórnarinnar - og farið að hitna undir fleirum. Auk þess liggur ríkisstjórnin í heild sinni undir þungu ámæli og afsagnarkröfum.

Formaður Samfylkingarinnar hefur beðið um svigrúm til handa stjórnvöldum að vinna sig út úr kreppuskaflinum og koma málum í þokkalegt horf. Það er skiljanleg ósk. En dag eftir dag koma upp nýjar fréttir um fúsk og feluleiki, spillingarmál, vanrækslu og atgerfisskort í stjórnkerfinu.  Nú síðast varðandi vitneskju Árna Matthiesen og Geirs Haarde um alvarlega stöðu tveggja Glitnisssjóða sem jafnað hefur verið til vitorðs (hér).

Meðal neyðarráðstafana stjórnvalda í skaflmokstrinum eru sparnaðaraðgerðir sem ekki aðeins eru sársaukafullar - þær fela í sér aðför að grunnstoðum velferðarkerfisins. Það eru skelfilegir hlutir að gerast í heilbrigðiskerfinu. Og allt á þetta sér stað nánast án umræðu, á þeirri forsendu að stjórnvöld þurfi frið til að moka sig í gegnum skaflinn. 

Velferðarkerfið er helgasta vígi jafnaðarmanna.

Ég vil varpa fram þeirri hugmynd að menn taki sér smá pásu frá þessum mokstri, varpi öndinni og líti í kringum sig. Hvað er verið að moka? Til hvers? Og hverju er til fórnandi að komast þarna í gegn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ég er með óbragð í munni eftir að hlusta á þetta viðtal. Og velgju í maga. Minn gamli foringi orðinn samvaxinn Geir og co. Ullabjakk og ójbarasta.

Rut Sumarliðadóttir, 8.1.2009 kl. 11:34

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Segi það sama og Rut

Hólmdís Hjartardóttir, 8.1.2009 kl. 11:50

3 identicon

Ja ég er ekki hissa á að þú sért farin að efast um "foringjan" þinn Ólína.

Þetta viðtal var náttúrlega varla fugl né fiskur og mér fannst Helgi Seljan taka hana algjörum vetlingatökum, því næg voru sóknarfærin, allt pukrið og leyndin sem einkennt hefur allt starf þessarar Ríkisstjórnar. Oft hefur hann verið miklu harðari í horn að taka.

Ingibjörg Sólrún hefur algerlega brugðist fólkinu í landinu og hún ætti ásamt Geir að tróna á toppi þessa afsagnarlista.

Mest hefur hún þó brugðist sínu eigin fólki og þeim sem trúðu því og treystu að þarna færi raunverulegur jafnaðarmaður.

Hún hefur svikið öll sín kosningaloforð og steinsvaf í meðvirkni sinni í undanfara bankahrunsins.

Eftir bankahrunið hefur framgangsmáti hennar einkennst af þvílíku pukri og leynd. 

Hún hefur margsinnis sýnt sig í því að hún fyrirlítur mótmæelndur.

Hún hefur margsinnis talað niður til samráðherra sinna og líka til þjóðarinnar.  

Hún telur mótmælendur vera af einhverri allt annarri þjóð en hún er sjálf af og þess vegna gefur hún þeim endurtekið puttann.

Hroki og yfirlæti eru hennar stjórnunarstíll við höfum ekkert við svoleiðis ráðamenn að gera núna !

Við þurfum hrokalausa ráðamenn sem hlusta á fólkið í landinu og jafnframt talar með auðmýkt til fólksins.

Þessvegna segi ég burt með þennan yfirlætislega hrokagikk Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur STRAX ! 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 12:13

4 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Því miður verð ég að vera sammála Gunnlaugi um ISG. Ég græt það að hafa gefið henni mitt atkvæði í síðustu kosningum, ég hafði svo mikla trú á henni. En eftir að hún komst í ríkisstjórn og þá sérstaklega eftir bankahrunið virðist hún snúa baki í okkur sem kusu hana. Það er sárt. Hún fær mitt atkvæði ekki aftur. Mér varð óglatt að horfa á hana í Kastljósinu, allt sem hún sagði bar vott um sleikjuhátt við Geir og þegar hún sagðist treysta Árna Matt áfram til allra góðra verka missti ég gjörsamlega allt álit á henni.

Ég er hreinskilningslega mjög sorgmædd yfir því trausti sem ég bar til hennar og fleirri í Samfylkingunni, fæ hreinlega tár í augun við að skrifa þetta(svo við höfum þetta í hámarsk dramastíl..). Reiðin á eftir að koma held ég.

Harpa Oddbjörnsdóttir, 8.1.2009 kl. 12:38

5 identicon

Ingibjörg opinberar valdahrokann trekk í trekk, enda er það henni líkt minnugur þess hvernig hún kom fram við kjósendur sína þegar hún sagðist ekki vera á leið úr borgarstjórn en svo vissi fólk ekki betur enn að Þórólfur Árnason var kominn í hennar stað.

Ég hef aldrei haft mikið álit á ISG sem pólitíkus alltaf séð hana sem valdagráðuga konu... og Samfylkingin hefur mér alltaf sýnst vera hentistefnuflokkur þar sem hver er háværastur og frekastur fær að ráða. Það er nú heldur betur að sanna sig.

Ef þið flokksfólk Samfylkingarinnar viljið viðhalda Jafnaðarstefnu í þessum flokki þá eigið þið að slíta þessu stjórnarsamstarfi og losa ykkur við ISG og annað óhæft lið sem er í áhrifastöðu innan flokksins.

Og hvernig samrýmist það Jafnaðarstefnu þessar aðfarir Guðlaugs Þórs á heilbrigðiskerfið? og hvernig samrýmist það samræðustjórnmálum hvernig hann stóð að þessum tillögum/aðgerðum að koma aftan að heilbrigðisstéttinni og brjóta stjórnsýslu lög.

Hvernig er samfylkingunni stætt á því að vera í þessu stjórnarsamstarfi þegar þeir Geir Haarde, Árni Matt, Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór brjóta stjórnsýslu lög í sínum embættum ?

Bjarni Hallsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 12:38

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Skelfilegt viðtal sem skildi eftir óbragð í huga og hjarta og heina vissu fyrir því að Ingibjörg Sólrún ásamt hinum spillingarráðamönnunum mun standa vörð um óréttlætið, ógegnsæið og ruglið sem hér viðgengst. Hún hreinlega staðfesti það sem við vitum..það er ekki vottur af vilja til að hreinsa til og taka ábyrgð á einu eða neinu. Við VERÐUM AÐ LOSNA VIÐ ÞETTA FÓLK SEM ALLRA FYRST. Fyrr getum við ekki átt vonu um breytingar til batnaðar.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.1.2009 kl. 12:40

7 Smámynd: Hallur Magnússon

Þú segir:

"Staða Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum verður þungbærari frá degi til dags.  Þetta er staða hins meðvirka maka í óregluhjónabandi þar sem allt er farið úr böndum en enn er verið að verja fjölskyldumeðlimi út á við og fela ummerkin um athafnir þeirra."

Þarna finnst mér þú fegra stöðu húsmóðurinnar á heimilinu!

Ég sé ekki betur en að hún berji drykkfelldan húsbónda sinn með kökukeflinu aftur og aftur - þannig það stórsjái á honum!

Hallur Magnússon, 8.1.2009 kl. 12:41

8 Smámynd: Hallur Magnússon

PS.  Bið ykkur um að rangtúlka ekki orð mín þannig að þau beri vott um kynjafordóma. Það vill bara svo til að formaður Sjálfstæðisflokksins er karlmaður og formaður Samfylkingarinnar er kvenmaður - þannig að ég greip til þessarar myndlíkingar sem því miður á sér langa sögu í íslensku samfélagi.

Hallur Magnússon, 8.1.2009 kl. 12:43

9 identicon

Meðvirknin er ekki hjá ISG. Hún er hjá þér.

Doddi (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 12:47

10 identicon

Samfó boðaði siðbót fyrir kosningar.

Nú talar ISG um óþreyju ekki-þjóðar á meðan efnahagslíf þjóðarinnar sem borgar launin hennar hrynur til grunna.

Hún spyr með sínum vanalega þjósti, hvort KOSNIR fulltrúar eigi að segja af sér!

Og bendir á, að þjóðin hafi tækifæri til þess að segja henni hug sinn - á fjögurra ára fresti.

ISG hefur þó geð í sér til þess að þakka sjálfri sér það sem fyrir ekki-þjóðina var gert - sem sé að við gátum haldið áfram að borga, því "fjármálastofnanir" eru enn opnar.

Ekki orð um að sjálf vinni hún og hennar hýru meðreiðarsveinar fullum fetum að því að halda öllu við það sama, hvað þá um það sem

ríkisbankarnir - sem ég er nú ábyrg fyrir töpum hjá - eru að lána JÁJ og Pálma Haralds - öðrum fyrir worthless tuskubúð - hinum fyrir enn einni ferðaskrifstofu sem ætlunin er að mergsjúga og keyra svo í þrot.

Svo segir ISG að fólk VERÐI að treysta - að af því að henni tókst að troða sér inn fyrir 18 mánuðum, þá sitjum við uppi með hana.

Hins vegar, ef Sjallar sjá ljósið, þá mun ISG "einhenda" okkur í ESB og þá geta orðið kosningar um ári síðar! Það er fjandanum óviðkunnanlegri tilhugsun, að ISG verði hér við sín völd og sína katla, með sína ofurlaunastrollu á eftir sér, síendurtekinn hrokavaðalinn um að hópar fólks á borgarafundum séu ekki fulltrúar

þjóðarinnar og vanvirðinguna við það fólk sem er að reyna að koma skoðunum sínum á framfæri við "kosna fulltrúa".

Ríkisstjórn með 30% fylgi ekki í neinni aðstöðu til þess að segja þetta, því kosnir fulltrúar eiga að segja af sér, hafi þeir, eins og ISG og hennar meðreiðarsveinar orðið uppvísir að stórkostlegu vanhæfi.

ISG er ekki þjóðin og hún ræður því ekki hvenær við kjósum.

Þórdís Bachmann (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:00

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þú segir þetta mjög vel Ólína. Það er erfitt að leggja því lið að veruleikatengja okkar fólk án þess að finna til sársaukans og samviskubitsins sem því er samfara að þurfa pota harkalega í sitt fólk fyrir allra augum til að vekja það.

Helgi Jóhann Hauksson, 8.1.2009 kl. 13:01

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gunnlaugur, ég er ekki farin að "efast um foringjann" og ég tek ekki undir ásakanir og skammir sem hér hafa komið fram um persónu Ingibjargar Sólrúnar og meint óhæfi. Hún er að mínu mati afar hæfur stjórmálamaður, auk þess drenglunduð og góðhjörtuð manneskja sem ég er svo lánsöm að þekkja persónulega og tel til vina. Dugnaði hennar er við brugðið - og ég held að öll þjóðin hljóti að hafa tekið eftir því hversu miklu hún hefur áorkað til góðs á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru frá bankahruninu. Á hún þó við alvarlegan heilsubrest að stríða.

Mér var þess vegna þungt um hjartarætur þegar ég skrifa færsluna hér fyrir ofan - en orð mín eru ekki sett fram til þess að veitast að Ingibjörgu Sólrúnu, heldur sem hugvekja fyrir Samfylkingarráðherrana og forystu flokksins.

Ingibjörg Sólrún hefur mitt traust og ég styð hana til góðra verka. Sama á við um þinglið og ráðherra flokksins að óbreyttu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.1.2009 kl. 13:04

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Munið að hinn meðvirki er engu minna veikur en alkinn. Sami sjúkdómurinn með mismunandi birtingarmyndir. Fyrr en Samfylkingin horfist í augu við að hún er orðin helsjúk af sambúðinni með Sjálfstæðismönnum er engin von til að hún fá neinn bata.

Héðinn Björnsson, 8.1.2009 kl. 13:05

14 identicon

Þjóðin okkar er í djúpum ......   Vegna kolrangrar efnahagsstefnu og bankahruns. Þau stjórnvöld sem áttu að taka á þessum málaflokkum brugðust. Stjórnvöldin eru: Forsætisráðherra (sem er einnnig efnahagsráðherra), fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra, seðlabanki og fjármálaeftirlit. Utanríkisráherra hefur sjálf upplýst að hún var á kafi í efnahagsstjórninni m.a. á fundum með Geir og Davíð.

Þetta er hópurinn sem ber ábyrgð á að fjámálafíklarnir gátu dregið okkur í fenið.

Þó að aðrir ráðherrar hafi gert eitthvað af sér er sök þeirra hverfandi miðað við þá sem áttu að sjá um efnahags-  og peningamál. Að tala um afsögn þeirra er bara til að drepa málum á dreif.  Ekki draga Björn, Þorgerði og Guðlaug inn í umræðuna. Þeirra ábyrgð er lítil miðað við ábyrgðina af hruninu mikla.

Samfylkingin er að breytast flokk sem er á sama plani og Sjálfstæðisflokkur og gamli Framsóknarflokkurinn. Siðlausan valdagráðugan flokk. Ef Ingibjörg og Björgvin segja af sér, eða verða rekin, er mögulegt að Samfylkingin geti endurnýjað sig, annars ekki.

Magnús Waage (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:07

15 identicon

Ég tók eftir því að Ingibjörg tók svo til orða:  Við verðum að vera tilbúinn til að taka súrt með sætu.  Mér datt í hug að hún hlyti að meina að kreppan væri súr en ráðherradómurinn sætur.  Þjóðin fær súrt með súru.  Kreppuna og vanhæfa stjórnmálaleiðtoga sem virðist standa slétt sama um örlög þjóðar sinnsr.

Þórður (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:30

16 identicon

Skil vel skrif þín og undirtektir, sérlega HJH, en fyrst verður að slökkva í húsinu, eða setja neglu í bátinn. Stjórnarsamstarf er ekki vinsældarvaxandi um þessar mundir. En ég er verulega hugsi varðandi ákvarðanir heilbrigðisráðherra auk ábyrgðaburð á fjármálaráðherra. Náum til lands og kjósum svo, í vor.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:44

17 Smámynd: Sigurður Hrellir

ISG er búin að vera sem leiðtogi jafnaðarmanna og Samfylkingin mun missa mikið fylgi. Það gæti hafa flokkast sem gáleysi af þeirra hálfu að svo fór sem fór í október. Það er hins vegar vítavert dómgreindarleysi að standa vörð um Sjálfstæðisflokkinn og allar þær slæmu gjörðir sem nú eiga sér stað. Algjörlega ófyrirgefanlegt!

Sigurður Hrellir, 8.1.2009 kl. 14:10

18 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Ólína: "og ég held að öll þjóðin hljóti að hafa tekið eftir því hversu miklu hún hefur áorkað til góðs á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru frá bankahruninu."

Ég hef greinilega ekki fylgst nógu vel með, getur þú farið yfir það sem hún hefur áorkað til góðs frá því bankarnir hrundu?

Harpa Oddbjörnsdóttir, 8.1.2009 kl. 14:13

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frúin mokar Framsóknarflórinn,
þar fylgist með Sjallagrátkórinn,
bóksalinn flúinn og bankamórinn,
og bestur er volgur Kanarísjórinn.

Þorsteinn Briem, 8.1.2009 kl. 14:25

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ei með orðaflaumi
mun eyðast heimsins nauð.
Kyrrt og rótt í jörðu
vex korn í brauð."

Þorsteinn Briem, 8.1.2009 kl. 14:32

21 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Einhvers staðar flaug þessi fyrir horn.

Þjóðin situr sár og örg

skilur ekki frúna.

Segðu af þér Ingibjörg

ekki seinna en núna.

Sveinn Ingi Lýðsson, 8.1.2009 kl. 14:40

22 identicon

Það sorglega er að HEIÐALEGT FÓLK lagði á sig ómælda VINNU til að komma þessu fólki til VALDA.

Guðrún Hlín (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 14:48

23 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Veit því miður ekki deili á höfundi vísunnar.

Ég verð því miður að taka undir með mörgum hér.  Mér leið hreinlega illa undir þessu viðtali.  Hroki hennar í garð almennings er yfirgengilegur.  Jú, það bera ýmsir ábyrgð en það á engin að axla hana.  Ef ekki verður snar viðsnúningur á næstunni á þetta eftir að enda illa.  Reiðin er mjög djúpstæð og það þarf ekki mikið til að Jónar og Gunnur þyrpist úr á götur og torg.  Það er eins og Ingibjörg og Geir séu ekki veruleikatengd, sitjandi í sínum fílabeinsturni, bendandi fingri og segja: "Þið eruð ekki þjóðin".

Ég vil með leyfi Ólínu vekja athygli á tillögum Egils Jóhannssonar um nýtt lýðræði.

Sveinn Ingi Lýðsson, 8.1.2009 kl. 14:48

24 Smámynd: Þórbergur Torfason

"Til góðs frá bankahruninu segir hér einhversstaðar ofar". Áttu þá við Ólína að það sé þjóðinni til góðs að fá í smáskömmtum, baktjaldamakk halelújahopparanna í Samfylkingunni frá síðasta kjörtímabili. Valdahroki Ingibjargar í viðtalinu í gær er svíðandi. Það var eins og hún væri að tala við nær ómálga barn. Að vísu var Helgi linur við hana næstum eins og hann þyrði ekki að sína styrk sinn sem hann hefur þó gert svo oft eftirminnilega áður. Auðvitað á krati ekki að tala við krata frekar en íhald við íhald eins og best sannaðist þegar Sigmar fékk Davíð sælla minninga. Ég tek heilshugar undir með Sveini Inga hér á undan í bundnu máli.

Þórbergur Torfason, 8.1.2009 kl. 14:50

25 identicon

Já þér svíður undan þessari mjög svo hörðu gagnríni sem ISG fær yfir sig og nánast einróma hér á bloggsíðunni þinni Ólína.

Það er vel skiljanlegt.

Það er ekkert verið að ráðast að henni perónulega, þetta snýst um pólitískar gjörðir hennar og reyndar aðgerðarleysi hennar líka.

Þessa gagnríni á hún fyllilega skilið.

Síðan fær hún einnig á sig mjög harða gagnríni fyrir framkomu sína, sem ég endurtek að mótast allt of oft af yfirlæti og hroka og að hún talar niður til þjóðarinnar. Kanski af því að hún telur að "þetta fólk" sé ekki af hennar þjóð ! Um þetta eru fjölda mörg ömurleg dæmi. Ég er alls ekkert einn um það að gagnrína harðlega þessa framkomu hennar, heldur er þessi gagríni líka sett fram af fjölda fólks og líka af fólki sem hefur kosið hana.

Ég endurtek því að þessi framkoma hennar er alveg fyrir neðan allar hellur og ekki boðleg fyrir þjóðina !

Ég dáist oft af gagnrínum skrifum þínum Ólína og les þau oft og ég skil smá viðkvæmni þína og að það geti fokið aðeins í þig þegar ýmsir úta götu , utan Samfó fjölskyldunnar fara líka að gagnrína fullum hálsi.

Þetta er svona eins og í sumum fjölskyldum þar sem öllum er frjálst að gagnrína alkann í fjölskyldunni fullum hálsi innan veggja heimilisins og hver við annan, en þar fyrir utan trompast þeir ef einhver útá götu fer að gera það.

En í þessu tilviki höfum við bara fullan rétt til þess, vegna þess að við sitjum uppi með þessa manneskju við valdastólana í samfélagi okkar, sem er nánast hrunið !

Góðar stundir. 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 15:17

26 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Harpa og Þórbergur. Ingibjörg hefur komið mörgu góðu til leiðar frá því hún reis upp af sjúkrabeði, eins og ég bloggaði til dæmis um í haust (hér). Ýmislegt hefur henni og hennar flokksystkinum orðið úr verki síðan þá - ég nefni sem dæmi eftirlaunafrumvarpið, aðgerðaáætlun til aðstoðar atvinnufyrirtækjum landsins og umbætur í félagsmálum, ekki síst gagnvart öldruðum og öryrkjum sem brýnt var að verja fyrir áföllum kreppunnar. Eitt og annað hefur líka verið gert til að bæta stöðu barnafjölskyldna - sumt af því hefur beðið lengi.

Menn geta deilt um það hvort nógu langt hafi verið gengið - en fólk má ekki vera svo blindað í andstöðu sinni að það sjái ekkert jákvætt í kringum sig.

Ég er heldur ekki sammála því að Helgi hafi verið "linur" í þessu viðtali - hann var kurteis en beinskeyttur. Spurði allra réttu spurninganna fannst mér.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.1.2009 kl. 15:26

27 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Fyrsta skrefið í sambúð með alka er að viðurkenna ástandið, ekki að halda áfram að segja að allt sé í lagi.

Rut Sumarliðadóttir, 8.1.2009 kl. 15:37

28 identicon

Ingibjörg Sólrún er langsamlega hæfasti og öflugasti ráðherrann í þessari ríkisstjórn. Merarhjörtum fjölgar hinsvegar óðum í Samfylkingunni eftir ummælum væluskjóða á þessum þræði og fleirum að dæma.  Að vísu var það enn eitt innleggið í vopnabúr íslenskrar óhamingu að hún lét tæla sig í utanríkisráðuneytið í stað þess að gerast fjármálaráðherra. Hún hefur verið of þjónustulunduð í samstarfinu við flokksforystuna fram til þessa. Tími er til þess komin að hún taki af skarið, setji kallhlunkum og grátkonum í sínum eigin flokki stólinn fyrir dyrnar og taki sér það vald sem er nauðsynlegt til að reisa landið úr rústum á ný.

Nonnih (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 15:49

29 identicon

Hvernig getat áframhaldandi sérkjör stjórnmálastéttarinnar, sem lofað var að afnema, talist vera helsti árangur Samfylkingarinnar? ISG greiddi sjálf atkvæði með því að hún fengi betri kjör en almennir opinberir starfsmenn. Lækkunin sem hún tók á sig með desember breytingunni kemur ekki til framkvæmda fyrr en í júlí. Ég hefði skilið ef sagt væri að þetta væri óviðunandi en Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki viljað ganga lengra. En að telja þetta árangur, er mér óskiljanlegt. Á lítið skylt við Jafnaðarmennsku að skammta sjálfum sér betri kjör en öðrum í skjóli valda.

Doddi (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 15:53

30 identicon

Horfði á viðtalið við Ingibjörgu, fékk sting í hjartað.  Hún sýndi sig að vera tvöföld í roðinu. Maður veit ekki hvar maður hefur hana, hún var í því að verja Sjálfstæðisflokkinn. Hvað er eiginlega um að vera? Þetta er ekki foringi jafnaðarmannaflokks, þetta er tækifærissinnaður pólitíkus sem nú er endanlega búinn að tapa trausti mínu. Burt með þessa kellingu, mún misbýður manni illilega.

Rex (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:10

31 identicon

Það þarf ekki lengi að lesa á milli línanna hjá þér Ólína, til að sjá að þú ert að missa trúna á stjórnvisku Ingibjargar Sólrúnar.  Það er vonum seinna, því þú varst skeleggur og gagnrýninn fréttamaður og vildir komast að kjarna hvers máls.               Kjarni þess máls sem hér er fjallað um, er að ISG hefur brugðist.                                 Óánægja og sár reiði kraumar innan Samfylkingarinnar.  Ef svo heldur fram sem horfir mun stór hópur flokksmanna og kjósenda yfirgefa þennan flokk sem stofnað var til á grundvelli jafnaðarhugsjóna, en sem nú virðist hafa varpað þeim fyrir róða í samstarfi við hóp mannfjandsamlegra frjálshyggjudólga.  Sá er vinur er til vamms segir og vonandi mun því vinátta þín og ISG eigi bresta þótt þú lesir henni pistilinn eins og þú hefur greinilega löngun til. 

Sverrir Kr. Bjarnason (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:24

32 identicon

Það er eitt í viðbót sem má nefna. VG stofnendur voru skammaðir harðlega fyrir að glata tækifæri til stofnunar stórs Jafnaðarmannaflokks. Síðan eftir kosningar, þá er valið að starfa með Sjálfstæðisflokki!!! Af hverju er ekki valið að starfa með því fólki sem nýbúið var að kvarta yfir að væri ekki í Samfylkingunni? Hvað breyttist? Getur það verið að Samfylkingunni líði ekki einsog Jafnaðarmannaflokki?

Doddi (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:40

33 identicon

Ég horfði á viðtalið í gær og mér fannst sem hún væri ekki heiðarleg í Þessu viðtali. Hún er jafn fölsk og allir aðrir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar. Lesa svo hér þvílíka dásendar upptalningu á hvaða góðu verk hún hefur staðið fyrir frá því í bankahruninu. Fáránlegt. Það hefur bara akkúrat ekkert gott komið, hvorki frá samfylkingu né sjálfsæðisflokki. Hvað er gott við þetta blessaða eftirlaunafrumvarp sem enn gerir uppá milli alþingismanna og venjulegra íslendinga. Nei, Ólína þú mátt ekki vera svo meðvirk að þú sjáir ekki að það er ekkert verið að gera fyrir fólkið í landinu. Ekkert!!!

Þórður Möller (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:43

34 identicon

Það er ekki bara spurning um hvað er verið að moka og til hvers. Það er líka spurning um hvað er verið að kaffæra með mokstrinum. Þegar mokað er kemur mokstur. Á að sturta öllum mokstrinum yfir velferðarkerfið til að moka brautina fyrir fjármálakerfið?

Guðjón Petersen (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:48

35 identicon

Það er auðvelt að segja "burt með Ingibjörgu" og burt með allt og alla. Allir vissu að þegar Samfylkingin fór í veiðiferðina með Sjálfstæðisflokknum eftir þessar líka "þrumuveiðiferðir" sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði gert með Framsókn, var Samfylkingin að fiska í gruggugum sjó. Það er ótrúlegt að hvorki Ingibjörg eða nokkrir aðrir í forystu Samfylkingar hafi ekki haft minnsta hugboða um veiðiaðferðir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Á því var hamrað og það var nánast sannað að potturinn var brotinn - einkavæðingin og einkavinavæðingin var blekking. Enda þótt Bjarni Ármanns segi það ekki berum orðum, þá segir hann það nógu skýrt - hvorki hann og hans líkar í fjármálageiranum og pólitísk forysta á Íslandi kunni til verka, kunni að reka fjármálafyrirtæki, skildu ekki samhengi þess sem verið var að gera og samfélagsins. Þess vegna hurfu þúsundir starfa í fiskiðnaði og þess vegna þrefaldaðist fjöldi starfa í fjármálaþjónustu á árunum eftir 1998.

Það er sorglet að hvorki Ingibjörg eða Geir vilja skilja eða viðurkenna að kreppan á Íslandi er bæði pólitísk og efnahagsleg og að efnahagskreppan verður ekki leyst nema til komi ný pólitísk forysta á Íslandi. Með því að þráast við sökkva þau skötuhjú þjóðini æ dýpra.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 16:51

36 Smámynd: Sævar Helgason

 Frábær pislill hjá þér ,Ólína

Í þessari ríkisstjórn hefur Samfylkingin ,undir forystu Íngibjargar Sólrúnar unnið mjög gott starf í velferðamálum. Nefni sem dæmi gagnvart börnum og eldriborgurum. Þar var við afar ramman reip að draga , Sjálfstæðisflokkinn.  Þessi stjórn var mynduð við "góðæri" sem síðan reynist á blekkingu og sandi byggð. Arkitekrar og byggingameistarar þeirrar blekkingar voru fyrst og fremst  Framsóknar og Sjálfstæðisflokkur. Afleiðingar þessa arkitektúrs og byggingaverks verður síðan hlutverk þessarar ríkisstjórnar að takast á við.  Við það verkefni verða mikil mistök. Í aðdraganda hrunsins fá stjórnvöld og þeirra næstu embættismenn mörg og mikilvæg skilaboð um að hrun sé framundan verði ekkert að gert- þetta skilur á milli feigs og ófeigs- stjórnvöld brugðust- þau gerðu ekki neitt.  Fyrir það verkleysi er þess krafist að þeir sem mesta ábyrgð bera - axli hana og að þessi ríkisstjórn fari frá og kosið verði í apríl- maí í vor. Næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að annast ESB viðræður...

Þjóðin á þetta skilið.  Ef ekki verður breyting á stefnir hér í alvarlegt ástand.

Sævar Helgason, 8.1.2009 kl. 17:18

37 identicon

Sæl Ólína og takk fyrir pistla þína, sá ekki viðtalið en flokksbróðir minn lýsti því fyrir mér í gærkvöldi og sinni óánægju með það en viðurkenndi ef hún hefði talað einsog við hefðum viljað hefði það þýtt stjórnarslit í beinni. Ömurlegt að sjá harða andstæðinga nýta sér svona opna umræðu til að níða allt niður sem  ISG tengist og telja sig hina einu sönnu fulltrúa fólksins en öll viljum við fara að fá að sjá eitthvað concret gerast því til þessum erum við í stjórnmálum.

Björn Þrgrímsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 17:55

38 Smámynd: Guðmundur Óli Scheving

Sæl Ólína.

Ég skil bara ekki afhverju þessu stjórnarsamstarfi er bara ekki hætt.

Hvaða konfektmola heldur Samfylkingin að hún fái úr Landsfundar-konfektkassa Sjálfstæðisflokksins seinna í mánuðinum ?

Já þetta er frekar dapurlegt.

Þaðfinnst mér.

Guðmundur Óli Scheving, 8.1.2009 kl. 18:16

39 identicon

Já Ólína þess annars mjög svo þarfi pistill hérna hjá þér á blogginu þínu hefur svo sannarlega reist upp reiðiöldu, því hér er nánast samdóma álit fjölda fólks í því að lýsa yfir reiði og gríðarlegum vonbrigðum með framgöngu Ingibjargar Sólrúnar og ég minni enn og aftur líka á valdhrokann sem virðist algerloega ólæknanlegur löstur hennar.

Ég hvet þig því til eins og reyndar fleiri hér hafa gert að tala nú ærlega yfir hausamótunum á þessari vinkonu þinni og segja henni til syndana og hvað þjóðini "hennar" finnst um framgöngu hennar og pólitík.

Kanski þarftu líka að segja henni hver þjóðin hennar raunverulega er.

Því hún hefur alveg misst sjónar á því og heldur í meðvirkni sinni að hún eigi að halda áfram að spila með spillingarliðinu !

Vegna þess að hún lifir greinilega í fílabeinsturni valdhrokans !

Ég held að þú gerðir henni og þjóðini okkar (ekki hennar þjóð reyndar) stórgreiða með þessu og ég og margir aðrir treystum þér mjög vel Ólína til þess að gera þetta af þinni alkunnu festu.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 18:43

40 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gunnlaugur. Ég þarf ekkert að "tala ærlega yfir hausamótunum" á Ingibjörgu Sólrúnu eða "segja henni til syndanna". Ég skil hennar stöðu vel - hún er í mjög þröngri og erfiðri stöðu.

Hún þarf hinsvegar - eins og allir leiðtogar - að heyra í sínu fólki af og til, fá vísbendingar um það hvað sé að gerast innra með hennar eigin samherjum. Í því skyni var þessi pistill skrifaður - ekki til þess að lúskra á henni. Enda þarf þess ekki. Hún er ábyrg manneskja - ábyrgari en flestir aðrir sem ég þekki.

Ég hef sagt það sem ég þarf að segja í færslunni hér fyrir ofan, og hef engu við það að bæta hvorki opinberlega né í einkasamtölum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.1.2009 kl. 18:57

41 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ingibjörg Sólrún verður í næstu ríkisstjórn og þá annaðhvort sem forsætisráðherra eða utanríkisráðherra. Að öllum líkindum verða kosningar til Alþingis nú í maí og þá yrði mynduð ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Og ég geri ráð fyrir að Steingrímur Joð vilji mun frekar vera forsætisráðherra en utanríkisráðherra í þeirri stjórn, meðal annars til að þurfa ekki að vera með annan fótinn í Brussel eftir Ísland er gengið í Evrópusambandið.

Atli Gíslason lögfræðingur gæti orðið dómsmálaráðherra í þeirri stjórn, Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri, menntamálaráðherra, Þuríður Backman hjúkrunarfræðingur, heilbrigðisráðherra, Jón Bjarnason búfræðingur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Ögmundur Jónasson fjármálaráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur staðið sig vel sem félags- og tryggingamálaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir sem umhverfisráðherra.

Samhliða kosningum til Alþingis nú í vor væri best að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu, en 70% þjóðarinnar vilja slíka atkvæðagreiðslu og hún yrði fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan hér á lýðveldistímanum. Og vilji meirihlutinn í atkvæðagreiðslunni að ríkisstjórnin fari í aðildarviðræður við Evrópusambandið verða Vinstri grænir að hlíta því.

Síðasta verk Alþingis fyrir kosningarnar í vor yrði að breyta 21. grein Stjórnarskrárinnar og fyrsta verk þingsins eftir kosningarnar yrði að staðfesta breytinguna, ef meirihluti þjóðarinnar vill aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Aðildarsamningurinn gæti legið fyrir í lok þessa árs og þá þarf að kynna samninginn rækilega fyrir þjóðinni, sem gæti þá kosið um samninginn vorið 2010, þannig að Ísland gæti gengið í Evrópusambandið 1. júlí 2010 eða 1. janúar 2011, en ríki ganga yfirleitt í sambandið um áramót.

Og ég vona að Ólína Þorvarðardóttir bjóði sig fram í Alþingiskosningunum.

Þorsteinn Briem, 8.1.2009 kl. 19:38

42 identicon

Ég er ekki eins viss um að FJÖLSKYLDUR sem eru að missa heimilin sín séu þér sammála um þá ÁBYRGÐ, því sá sem ábyrgð ber hefði gert allt sem í hans valdi stóð til að BJARGA heilli þjóð GJALDÞROTI.

Guðrún Hlín (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 19:39

43 identicon

Æ, Æ. kæra Ólína, ég skil svo sem að þetta er mjög erfitt fyrir þig og virði það og því set hér punkt .

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 19:53

44 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Stjórnarsamstarf er samstarf og það felur í sér að fólk þarf að vinna saman, það er einmit það sem Ingibjörg er að gera. Svo koma hér í löngum bunum öfgakratar og drulla yfir leiðtoga sinn fyrir að vilja vinna með samstarfsflokknum.  Það er ekki oft sem ég er ánægður með stjórnmálamenn en ég var hæstánægður með Ingibjörgu í þessu viðtali. Þarna talaði hún eins og stjórnandi um stjórnmál og datt ekki í þá gryfju að fella sleggjudóma yfir mönnum eða málefnum, sama hvað Helgi reyndi. Í síðustu skoðanakönnunum er Samfylkingin með 28% og Sjálfstæðisflokkur með 25% fylgi  og  þá liggur eiginlega alveg ljóst fyrir að þessi ríkisstjórn heldi velli væri farið í kosningar nú. Vantrausttillagan sem var keyrð í gegn um þingið um daginn var líka skítfelld. Ég lít svo á að Þessi stjórn sé búin að vinna þrekvirki undanfarna mánuði, Ingibjörg og Geir eiga þar jafnan hlut og ég held að ríkistjórnarinnar verði minnst fyrir það.

Guðmundur Jónsson, 8.1.2009 kl. 19:58

45 Smámynd: Dunni

Mjög góð greining á vandamáli Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu.  Auðvitað finnst manni sárt að sjá flokkinn engjast í hjónabandi með holdsveiku íhaldi. Ríkisstjórnin er því miður lömuð upp að öxlum og því getur hún ekki mokað sig út úr skafli Ingibjargar.  Því fyrr sem hún sér það því betra fyrir þjóðina.

Ólíkt þér, Ólína, tresyti ég Ingibjörgu ekki lengur sem flokksformanni.  Hef verið í vafa um hana í allt haust en steininn tók úr í Kastljósinu hjá Helga.  Sammála að Helgi, salla rólegur, spurði allra þeirra spurninga sem hann þurfti. Með rólegheitunum lét hann Ingibjörgu Sólrúnu fremja pólitískt sjálfsmorð með sinni ótrúverðugu lofræðu um Árna M. og Björn B.

Ef Ingibjörg sér ekki siðblinduna í tölu sinni þá á hún ekkert erindi stjórnmál

Dunni, 8.1.2009 kl. 21:19

46 Smámynd: Sævar Helgason

Mér líst vel á stjórnmálagreininguna hjá honum Steina Briem ,fram til vors og síðan til framtíðar.  Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að þetta gangi eftir , svona í höfuðdráttum. 

Sævar Helgason, 8.1.2009 kl. 21:53

47 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Jónsson. Enda þótt Samfylkingin hafi verið með 28% fylgi og Sjálfstæðisflokkur 25% fylgi, samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup nú í desember, merkir það engan veginn að ríkisstjórnin sé með 53% fylgi allra kjósenda í landinu. Þvert á móti er hún með mun minna fylgi, einungis 36%.

Hins vegar getur ríkisstjórnin haldið velli ef hún hefur stuðning meirihluta þeirra sem styðja Samfylkinguna og jafnframt meirihluta þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn, alls 27% kjósenda í landinu. En það væri nú ekki gæfulegt ef ríkisstjórnin ætlaði sér að sitja lengi áfram með stuðning einungis fjórðungs til þriðjungs allra kjósenda í landinu.

Fylgi Samfylkingarinnar hefur AUKIST um 1% frá síðustu Alþingiskosningum en fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur MINNKAÐ um 12%. F
ylgi Vinstri grænna hefur hins vegar TVÖFALDAST frá kosningunum og SÁ FLOKKUR ER NÚ MEÐ MESTA FYLGIÐ, 29%. Og varaformaður Vinstri grænna sagði nýlega í sjónvarpsviðtali að þeir hefðu ekki áhuga á að mynda næstu ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Og þessi skoðanakönnun gefur sterka vísbendingu um niðurstöðu Alþingiskosninga nú í vor, enda þótt niðurstaðan verði að sjálfsögðu ekki nákvæmlega þessi. Verði hins vegar ekki kosið til Alþingis í vor og aðildarviðræður við Evrópusambandið ekki hafnar í sumar spái ég fylgishruni hjá Samfylkingunni á þessu ári, þannig að stór hluti af fylginu færi yfir til stjórnarandstöðunnar og þá aðallega Vinstri grænna. Framsókn er nú einungis með 7,6% fylgi, Frjálslyndir 3,9% og Íslandshreyfingin 3,8%.

Þorsteinn Briem, 8.1.2009 kl. 22:17

48 identicon

Góð samlíking við alkasambandið. Been there, done that. Kóarinn hangir eins lengi og hann getur, það er svo erfitt að horfast í augu við mistökin, viðurkenna þau fyrir öðrum en ekki síst sjálfum sér. Þetta lagast, hann/hún meint annað, þið misskiljið þetta (þið eruð ekki þjóðin). Það svo sárt að takast á við að hafa sýnt dómgreindarskort að allt er gert til að réttlæta það. Reynt er að koma sér undan í flæmingi, ég styð hann til allra GÓÐRA verka, ég fordæmi brot á alþjóðalögum þó hinir geri það ekki, ég segi ekki orð þó góðu heilbrigðiskerfi sem byggt hefur verið upp í öld sé rústað.  ISG og fleiri vita innst inni að þetta er ekki í lagi en eru ekki tilbúin, eru hrædd við það sem tekur við. Bara þrauka. Breytingin gerist oft snöggt og þá er óskiljanlegt af hverju ekki var brugðist við fyrr. Allir sáu það nema viðkomandi sem var í sjúka sambandinu, meðvirkninni.
Tek fram að ég kaus Samfylkinguna, varð fyrir vonbrigðum með stjórnina  og er nú full vantrausts og það þarf mikið til að vinna traust mitt aftur. Ég hef lært af reynslunni og mun ekki kóa með kóaranum. Hef fengið nóg af meðvirkni.
Mér finnst þau sem ég treysti fyrir því verðmæti sem valdið er hafa brugðist. Verðmæti sem ég ásamt fleiri kjósendum afhenti þeim. Það hefur verið farið illa með það, gert lítið úr því. Hugmyndir eins og jöfnuður, mannréttindi, hagur almennings, náttúrvernd, þingræði, samræða, gagnsæi. Ég hafði vænst þess að staðinn yrði vörður um þessi gildi en það hefur brugðist. Kýs ekki Samfylkinguna aftur að óbreyttu.

Solveig (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 22:46

49 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Ég tek undir það, að velferðarkerfið er helgasta vígi jafnaðarmanna. En á hverju byggir þú þá skoðun þína að Samfylkingin sé jafnaðarmannaflokkur?

Pjetur Hafstein Lárusson, 8.1.2009 kl. 22:58

50 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Vissulega ættu Árni Matt. o.fl. að víkja ef vel ætti að vera, en við megum ekki missa sjónar af því sem skiptir máli.

Að mínu mati er innganga í ESB mikilvægasta verkefni Samfylkingarinnar núna. Það gerist ekki í ríkisstjórn með VG innanborðs, sem yrði eina niðurstaðan ef til stjórnarslita kæmi nú.

Svala Jónsdóttir, 8.1.2009 kl. 22:59

51 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, þetta er einfalt mál: Davíð Oddsson situr í Seðlabankanum í boði Ingibjargar. Hún ein ræður því að svo sé. Ef hún vildi það ekki færi Davíð og það er það sem þjóðin vill. Taglhnýtingurinn hans Davíðs, Geir Haarde, er líka í boði Ingibjargar Sólrúnar vinkonu þinnar.

Meinlausi sakleysinginn hann Björgvin hefur látið draga sig með í þessu nánast eins og rakki við fótmál Geirs. 

Þú getur ekki varið Ingibjörgu í ljósi þess tjóns sem Davíð og Geir hafa unnið á meðan Samfylkingin svaf að mestu í bankahruninu og ruglinu á eftir. Stundum geta nefnilega bestu vinir manns gert óverjandi axarsköft. Þú skaðar bara þinn eigin trúverðugleika með vörninni.

Haukur Nikulásson, 8.1.2009 kl. 23:02

52 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Steini

í þingkosningum er ekki kosið um stuðning við ríkisstjórnir og því skiptir þessi liður "styður þú ríkisstjórnina" í könnuninni afskaplega litlu máli eða öllu heldur engu máli. Að teknu tilliti til að einungis helmingur svaraði og að sjálfstæðisflokkunin bætir alltaf við sig í kosningum er líklegt að stjórnarflokkarnir gætu fengið 55- 60%. það þýðir eiginlega bara að líklegast sæti stjórnin áfram með einhverjum minnháttar hrókeringum. Ingibjörg er búin að átta sig á þessu og hún vinnur því samkvæmt.

Guðmundur Jónsson, 8.1.2009 kl. 23:14

53 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Jónsson. "Tæplega 13% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og liðlega 16% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosningar færu fram í dag."

Enginn flokkur fær að sjálfsögðu auða seðla í kosningum og atkvæði þeirra sem ekki taka afstöðu nú dreifast á alla flokkanna í kosningunum en þetta fólk er einungis 13% svarenda.

Miklu meiri óánægja er með störf Sjálfstæðismanna í ríkisstjórninni en Samfylkingarfólks, eins og glögglega sést á þessari skoðanakönnun Capacent Gallup nú í desember, enda hefur Samfylkingin ekki byggt upp á þessari öld það kerfi sem hér er nú við lýði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar verið í ríkisstjórn síðastliðin átján ár.

Gríðarlega margt hefur breyst hér frá síðustu Alþingiskosningum og um tveir þriðju hlutar allra kjósenda styðja ekki ríkisstjórnina. Alþingi verður því að sækja nýtt umboð til þjóðarinnar nú í vor. Við eigum að búa hér í lýðræðisríki en ekki flokksræðisríki en kannski sækir Sjálfstæðisflokkurinn fyrirmynd sína til Kúbu. Það er þá allt lýðræðishjalið í þeim flokki.

Og lítil von er nú til þess að fylgi Björns Bjarnasonar, Árna Mathiesen, Þorgerðar Katrínar, Geirs Haarde og Guðlaugs Þórs aukist um 12% þar til í vor.

En Sjálfstæðismenn geta að sjálfsögðu lagst á bæn og þá snúið sér í rétta átt.

Bæði Mekka og Kreml eru í austrinu.

Þorsteinn Briem, 9.1.2009 kl. 00:00

54 Smámynd: Þorsteinn Briem

... og atkvæði þeirra sem ekki taka afstöðu nú dreifast á alla flokkana í kosningunum ..., átti þetta nú að vera.

Þorsteinn Briem, 9.1.2009 kl. 00:08

55 identicon

Ingibjörg er í slæmri stöðu- hún metur það þannig að ekki sé góður kostur að slíta starfinu fyrr enn mesta "óveðrið" sé gengið yfir. Það sýndi sig að þegar Finnar gengu í gegnum sína kreppu varð stjórnarkreppan sem á eftir fylgdi bara til að bæta gráu ofan á svart. Ingibjörg er sú allra klárasta og alveg hrikalegt að hún sé ekki full frísk á meðan á öllu þessu stendur. Veit ekki betur en Ingibjörg hafi talað um að skipta um gjaldmiðil í nokkur ár en talað fyrir daufum eyrum þeirra sem sátu þá í ríkisstjórn þ.e. framsókn og sjálfstæðisflokkurinn. Þeir hefðu betur hlustað á hana. Í staðin komu þeir okkar yndislega landi á þennan hræðilega stað. Skammist ykkar svo að kenna henni um, hún er einfaldlega sú sem á að stjórna þessu landi og það ekki seinna en strax í febrúar. Ég sé engan annan leiðtoga nema hana eins og er.  Áfram Ingibjörg Sólrún.... ekki gefast upp, þetta hefst

Maggý: (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 01:19

56 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Mér fannst Ingibjörg Sólrún segja allt of fátt í Kastljósviðtalinu.   Hins vegar hyggur hún ekki flátt og hefur aldrei gert.

Sakna þess þó að hún opni ekki hug sinn meir, eins og hún var til skamms tíma vön að gera.   En þá varð líka alltaf allt vitlaust...

Hvers á hún að gjalda ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 9.1.2009 kl. 02:34

57 Smámynd: Kjartan Sæmundsson

Því miður studdi ég Samfylkinguna í síðustu kosningum. Aldrei aftur mun ég treysta þeim flokki. 

Kjartan Sæmundsson, 9.1.2009 kl. 07:26

58 Smámynd: Þór Jóhannesson

Vandinn er einfaldlega sá að það er alveg sama hvað Ingibjörg hefur gert gott - það fellur allt í skuggan af því að hún (ein er að virðist) styður spillinguna með því að hafa ekki rofið hiklaust stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Vorkenni því HEIÐARLEGA fólki sem lagði mikla VINNU í það að koma þessari KONU til VALDA. Hún hefur svikið þjóðina sem hún vill ekki gangast við að sé til nema þegar henni hentar. 70% þjóðarinnar segir aftur og aftur í könnunum að þau vilji ríkisstjórnina burt - hvernig væri að vinkonan gerði sér grein fyrir því hver vilji þjóðarinnar er í raun og veru.

Þór Jóhannesson, 9.1.2009 kl. 08:06

59 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þór Jóhannesson - "vinkonan" gerir sér fulla grein fyrir andrúmsloftinu í þjóðfélaginu og þarf ekki að láta tala við sig eins og barn af sjálfumglöðum spreðubössum sem kunna ekki mannasiði en nota upphrópanir, hástafi og niðrandi orð til þess að svala sér hér - fróa sér liggur mér við að segja.

En það er einmitt það sem er að gerast í þessari umræðu - fólk kann ekki mannasiði. Margir hafa ekki sómakennd til þess að orða hugsanir sinar af þeirri háttvísi sem viðeigandi er. Hvorki gagnvart umræðuefninu né málshefjandanum.

Niðurstaðan gæti orðið sú að ég hætti að treysta mér til þess að segja hug minn allan - og þar með að gagnrýna stjórnvöld - af ótta við áreitið sem fylgir í kjölfarið.

Ég held þó að það væri ekki góð niðurstaða og vona að til hennar komi ekki.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.1.2009 kl. 12:20

60 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ólína, um leið og þú hættir að segja hug þinn eins og hann er verðurðu hvort eð er ónýt í allri umræðu, þá er sjálfhætt. Það fylgir sannleikanum stundum að hann stingur stundum mann sjálfan og þá sem eru nákomnir manni.

Ég vona að þú farir ekki að fordæmi alltof margra stjórnmálamanna að loka fyrir athugasemdir. Það lýsir fólki sem kærir sig ekki um mótrök eða andmæli. Svoleiðis fólk er bara með stóran kjaft og lítil eyru.

Orðljótar athugasemdir áttu að láta standa. Heilbrigt fólk sér í gegnum gífuryrði og kjafthátt. Ég hef t.d. aldrei fellt niður athugasemd hjá mér þó að ég sé kallaður öllum nöfnum þar á meðal algjör hálfviti.

Það er margt fólk sem aldrei segir hlutina eins og því finnst. Það VEIT að það getur orðið fyrri ofsóknum vegna skoðana sinna. Ég hef aldrei orðið fyrir neinum opinberum leiðindum fyrr en EFTIR að ég fór að tjá mig um spillingu svo eftir væri tekið. Ég lít svo á að þetta sé gjaldið sem ég borga fyrir að rífa kjaft um spillingarliðið.

Það verða einhverjir að taka að sér skítverkin, segja sannleikann og reyna vekja upp skaplausa fólkið í landinu, sem er eiginlega meginþorri þjóðarinnar. Óánægjuhjal við eldhúsborðin og á kaffistofunum skila nefnilega ansi takmörkuðum árangri við að bæta samfélagið.

Ef þú horfir ekki fram fyrir þig gæturðu óvart stigið á eigin samvisku.

Haukur Nikulásson, 9.1.2009 kl. 12:21

61 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir uppörvandi orð Haukur - þau hrífa.

En stundum gildir það segir í sálminum góða "þú mæðist skamma hríð" - svo bröltir maður á fætur og innan skamms fer að skína "úr skýjum sólin blíð". 

Ég er með flensu núna - það skýrir sjálfsagt mæðu mína. Takk aftur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.1.2009 kl. 12:54

62 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Ekki hætta, Ólína. Vona að þú afmæðist sem fyrst!

Þessi pistill þinn er afar góður, að mínu mati.

Þessi gríðarlegu viðbrögð sýna kanske best hve mörgum er heitt í hamsi.

En

Kæru bloggarar: Kurteisi kostar ekkert. Ef við viljum að á okkur sé hlustað og tekið eftir, hvað við höfum fram að færa, skulum við vera málefnaleg og sleppa skömmum og skætingi. -fáir nenna að lesa slíkt.

Jón Ragnar Björnsson, 9.1.2009 kl. 14:44

63 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það sem gerir fólk svo uppstökt er að þú verð fólk sem styður aðgerðir sem þú mótmælir. Það gerir mann snarringlaðan.

Þú hefur tekið þér stöðu í verndarliði Ingibjargar á meðan hún heldur hlýfisskildi yfir þeim málum sem þú hefur barist gegn svo sem einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, ógagnsæjum stjónunarháttum og valdhroka gagnvart almenningi. Þegar orð og aðgerðir ekki standast verður fólk ringlað og gramt segir jafnvel hlutina á ófágaðan hátt. Slíkt er kannski ekki fagurt á að líta en má ekki verða afsökun fyrir að svara ekki þeirri umtalsverðu málefnanlegu gagnrýni sem komið hefur.

Það er komið að því að þú þurfir að velja milli þess að vera trú foringjanum eða málstaðnum. 

Héðinn Björnsson, 9.1.2009 kl. 15:18

64 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Héðinn - stundum er talað um að hata syndina en fyrirgefa syndaranum. Í því felst krafan um að gera greinarmun á manninum og málefninu. Það er enginn einn syndari í stöðunni núna heldur margir. Jafnvel öll þjóðin að sumra áliti.

Sjálf sit ég ekki á Alþingi eða inni í ríkisstjórn. Ég bara venjuleg kona vestur á fjörðum sem hef skoðun á því sem er að gerast. Þeirri skoðun hef ég lýst. Ég hef ekki varið vanrækslu, spillingu eða afglöp stjórnmálamanna, hvar í flokki sem þeir standa - þvert á móti.

Ég ver hinsvegar fólk fyrir ómálefnalegum og yfirdrifnum árásum - og spyr ekki um flokkskírteini í því sambandi - enda efast ég ekki eitt augnablik um að flestir þeir sem sitja nú á þingi og í ríkisstjórn eru heiðarlegt fólk með góðan ásetning. Það vill svo til að ég veit um mannkosti Ingibjargar Sólrúnar og ég væri nú aumi álitsgjafinn ef ég liti framhjá því góða sem fólk hefur til að bera í þrengingum vorra daga.

Þetta kallar að ég sé "í verndarliði Ingibjargar"  þegar þú ert í raun að skamma mig fyrir að ráðast ekki á hana með svikabrigslum og ónefnum eins og sumir hafa gert. Það mun ég að sjálfsögðu ekki gera. En ég tek mér leyfi til að tala við hana fyrir opnum tjöldum og segja minn hug varðandi stöðu Samfylkingarinnar og málefnin eins og þau blasa við mér.

Lái mér svo hver sem vill.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.1.2009 kl. 16:33

65 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Svo þakka ég Jóni Ragnari gott innlegg í umræðu um mannasiði.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.1.2009 kl. 16:33

66 Smámynd: Halla Rut

Heiðarlegasta blogg sem ég hef séð í langan tíma, Ólína, ef allri eins sannir og þú.

Þessi grein fær mig til að trúa þér, eins barnalega og það kann að hljóma, um alla tíð.

Halla Rut , 9.1.2009 kl. 23:43

67 Smámynd: Halla Rut

Þetta átti aðvitað að vera: Ef allir væru eins sannir sem þú.

Halla Rut , 9.1.2009 kl. 23:53

68 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála Hauk og Höllu vinkonu minni, þetta er heiðarlegur og vel skrifaður pistill eins og höfundurinn á vanda til og er þekktur að. Við erum alltof mörg sem gagnrýnislítið fylgjum "okkar liði," þ.m.t. sá sem þetta ritar og mættum taka þig til fyrirmyndar. Ég vona samt að ég verði aldrei svo trénaður að vísa á bug góðum hugmyndum fyrir það eitt að þær koma úr rangri átt. Slíka frávísun þarf enginni að taka nærri sér. Takk fyrir góðan pistil og áhugaverða umræðu. 

Sigurður Þórðarson, 10.1.2009 kl. 08:05

69 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Takk Ólína, þessi pistill er frábær og einhver sá besti sem ég hef lesið lengi.  Vonandi vex Ingibjörgu ásmegin áður en langt líður og fylgir sannfæringu sinni.  Við sem stöndum á hliðarlínunni erum farin að efast í trúnni.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 10.1.2009 kl. 18:53

70 Smámynd: Helgi Már Bjarnason

Fyndið... ég er svoooo ósammála ykkur öllum.  Reyndar held ég að ég sé að tala inná þræði hjá fólki sem ég hef oft viljað kalla "heift til vinstri" :)    Ég hef alltaf litið á mig sem andstæðing ISG en mér hefur fundist hún vaxa eftir að hún komst til valda í ríkisstjórn.  Mér fannst hún mjög góð í þessu viðtali,  hún er að greina ástandið eins og það er.   Bankahrunið er eins og það var, í þremur liðum 1. Bankakerfið óx of hratt og varð litla íslandi um megn þegar á reyndi.  2.  Stjórnendur bankana fóru of glannalega og 3.  Alþjóðleg bankakrísa sem sett hefur alla stærstu banka vesturlanda á hliðina gerði það að verkum að bankarnir hér heima áttu ekki séns.   Davíð Oddson, Árni Matt eða hver sem er í litlu ríkisstjórninni áttu ekki séns... gátu ekki gert neitt til að afstýra þessu.    Farið að sætta ykkur við þetta...tjúnið aðeins niður reiðina.

ISG fer þar rétt með.  Hvað í fjandanum er þá fólk að heimta afsagnir nánast í öllum meginstofnunum í stjórnkerfinu.  Fara í niðurrif í miðjum björgunarleiðangri.  Það er ekkert hægt að KENNA neinum einum um þetta.   Hún er einfaldlega að segja hlutina eins og þeir eru.... eins og ábyrgur stjórnmálamaður sem ber virðingu fyrir samstarfsflokknum sínum í ríkisstjórn.   Þið í "heift til vinstri" getið bara ekki sætt ykkur við það að hún er í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og fer þá ekki að úthúða samráðherrum sínum.  
Einnig getur líka vel verið að í þessari orrahríð sem gengið hefur yfir þjóðina hafi hún komist að því, svipuð reynlsa og hermenn á vígvelli verða fyrir, úr hverju þessir menn eru gerðir, þ.e. þeir hafi við gríðarlega erfiðar aðstæður þurft að taka margar erfiðar ákvarðanir.   Við svona aðstæður myndast samstaða og traust. Ég held að það hafi skapast mikið traust milli Geirs og ISG þegar þetta gekk yfir og hún hafi kannski kynnst því í fyrsta sinn á ferlinum hvernig það er að vinna með fólki sem tekur á hlutunum.  Þó svo óumflýjanlega hafi verið gerð mistök þessa 15 daga í október þá voru allaveg teknar ákvarðanir. Það er ólíklegt að nokkuð hafi gerst ef sundruð hjörð vinstri manna (eins og R listans sáluga) hefði verið við völd.   

Þetta getið þið bara ekki sætt ykkur við.   Þið viljið bara blóð.  ISG fer enn rétt með þegar hún segir að það verði gerðar breytingar á ríkisstjórninni.  Einnig er rétt hjá henni að það verði gerð rannsókn á hruni bankana, og eftir að það er ljóst þá verður hugsanlega hægt að byrja að benda á menn og draga menn til ábyrgðar.  Enn á meðan að þetta er ekki ljóst þá má ekki láta reiði, pólítíska tækifærismennsku eða ofbeldi á lýðræðinu ná tökunum hér í þjóðfélaginu og byrja að afhausa menn án skýrrar ástæðu.  Fólk hér inni er að líta á alltof marga sleggjudóma sem fasta í þessari umræðu.  

Hvað vilduð þið annars að hún hafi átt að segja.   Hún var bara ráðherra að tala af ábyrgð.  Annað en umræðan hér á bloggsíðum þessa dagana. :)

Getur ekki verið að ISG treysi engum öðrum en núverandi samstarfsfólki í ríkisstjórn til að leiða þjóðina í gegnum þá erfiðu og grýttu leið sem leiðin úr krísunni er.  

Góðar stundir.

Helgi Már  

Helgi Már Bjarnason, 10.1.2009 kl. 21:24

71 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Helgi Már - ég fæ ekki séð að við séum neitt ósammála.

Það sem þú segir í feita letrinu er í meginatriðum rétt. Lokaorð þín eru sömuleiðis rétt.

Það breytir því ekki að staða Samfylkingarinnar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi er orðin óþolandi. Það er óþolandi að Samfylkingin skuli nú vera í þeirri stöðu að þurfa að verja þann blóðuga niðurskurð sem framundan er í velferðarkerfinu til dæmis - skuli þurfa að standa með og svara fyrir allskyns fúsk og vitleysu.

Ingibjörgu Sólrúnu verður ekki kennt um það hvernig komið er og ég vona að enginn lesi það út úr orðum mínum. En hún verður að svara fyrir það - og það er sú  staða sem rennur mér (og mörgum í Samfylkingunni) til rifja.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.1.2009 kl. 22:00

72 Smámynd: Óðinn Þórisson

Fystsa nafn á þessum lista ætti klárlega að vera

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

---------------------------------------------------------

Árni Matthiesen, fjármálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra

Óðinn Þórisson, 11.1.2009 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband