Færsluflokkur: Löggæsla

Afleiðingar ofsaveðurs - skýringa er þörf

Veðurofsinn sem gekk yfir Vestfirði nú um hátíðarnar afhjúpaði alvarlega veikleika í raforku, samgöngu- og fjarskiptamálum okkar Vestfirðinga. Af því tilefni hef ég nú þegar óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um raforkumál Vestfirðinga og mun fara þess á leit að yfirmenn samgöngu og fjarskiptamála verði kallaðir til fundar við umhverfis- og samgöngunefnd til þess að skýra fyrir nefndinni hvað gerðist, og hvaða áætlanir séu uppi um að hindra að annað eins endurtaki sig.

 Vestfirðingar geta ekki unað því lengur að vera svo berskjaldaðir sem raun ber vitni þegar veðurguðirnir ræskja raddböndin af þeim krafti sem nú varð, hvorki varðandi raforkumál, fjarskipti né samgöngur.  Það gengur ekki öllu lengur að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerðist að þessu sinni (og ekki í fyrsta sinn). Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi - en þessi vegur er helsta samgönguæðin milli Ísafjarðar og umheimsins yfir vetrarmánuðina.  Að þessu sinni varð vart komið tölu á fjölda þeirra flóða sem féllu á veginn á fáeinum dögum. Þetta sýnir að jarðgöng milli Engidals og Álftafjarðar verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, og þetta þarf að ræða við fyrsta tækifæri á vettvangi þingsins.

 Þá getum við ekki unað því að fjarskipti fari svo úr skorðum sem raun bar vitni, bæði GSM kerfið og Tetra-kerfið sem almannavarnirnar reiða sig á, bæði björgunarsveitir og lögregla.

Þá finnst mér Orkubú Vestfjarða skulda Vestfirðingum skýringar á því hvers vegna fjórar varaaflsstöðvar voru bilaðar þegar á þurfti að halda, þar af tvær stöðvar á Ísafirði. Varaaflsstöðvarnar eru vélar sem þarfnast eftirlits, viðhalds og álagsprófunar. Eitthvað af þessu þrennu hefur farið úrskeiðis, og stjórnendur fyrirtækisins þurfa að skýra betur hvað gerðist. Enn fremur þarf að skýra það fyrir Vestfirðinum, almannavörnum og fleiri aðilum hvað fór úrskeiðis í upplýsingagjöf fyrirtækisins til íbúa á svæðinu.

 Orkubú Vestfjarða er fyrirtæki í almenningseigu þannig að Vestfirðingar eru ekki einungis viðskiptavinir fyrirtækisins heldur einnig eigendur þess. Það hlýtur að vekja furðu að ekki skyldu strax gefnar út tilkynningar í gegnum almannavarnir um það hvað væri í gangi í rafmagnsleysinu. Fólk sat í köldum og dimmum húsum tímunum saman án þess að vita nokkuð. Það er ekki nóg að setja ótímasettar tilkynningar inn á heimasíðu fyrirtækisins, þegar rafmagnsleysi ríkir liggur netsamband að mestu niðri. Tilkynningar í gegnum almannavarnir til útvarpshlustenda og í GSM síma hefðu þurft að berast. Svör orkubússtjóra um að "panik og kaos" hafi skapast vegna veðurhamsins eru ekki fullnægjandi að mínu viti, því þessu veðri var spáð með góðum fyrirvara.

 Þessi uppákoma afhjúpaði að mínu viti svo alvarlega veikleika í kerfinu að það þarfnast nánari skoðunnar, m.a. á vettvangi þingsins.  Ég tel því  óhjákvæmilegt að farið verði vel yfir þessi mál í þinginu strax að loknu jólaleyfi.


Var þá ekkert jákvætt?

Í upphafi þessarar fréttar segir að ýmislegt hafi eftirlitsnefnd ÖSE þótt "með ágætum" í framkvæmd síðustu Alþingiskosninga. Síðan les maður áfram og les um ágallana sem ræddir eru í skýrslunni. Vissulega þurfum við að horfa til þess sem betur má fara. Rétt er það,  en .... það kemur hvergi fram í þessari frétt hvað  það var sem var með svo miklum "ágætum".

Af hverju ekki? Angry

Satt að segja finnst mér þetta lýsa umræðunni í samfélaginu betur en flest annað - hér er  allt sogað niður í hyldýpi neikvæðninnar.  

Ég vil fá að vita hvað var jákvætt í þessari  ÖSE skýrslu. Fyrst þar var eitthvað jákvætt, þá vil ég sem almennur íslenskur lesandi fá að sjá það! 

I rest my case.

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt upp á borðið

fúlgurfjár Sérstakur saksóknari hefur látið til sín taka undanfarna daga í samvinnu við lögreglu og fjármálaeftirlit. Húsleitir hafa verið gerðar á ýmsum stöðum í tengslum við rannsókn embættisins á fjárfestingum og lánastarfsemi nokkurra fyrirtækja, nú síðast Sjóvár og Milestone með aðkomu Askar Capital. Mun vera um "verulega fjárhagslega hagsmuni" að ræða.

Almenningur tekur þessum tiltektum sérstaks saksóknara fagnandi, enda gætir vaxandi óþreyju eftir aðgerðum. Margir óttast þó að svo langur tími sé liðinn frá hruninu að þeir sem eitthvað höfðu að fela hafi nú þegar falið það - enda hafi þeim hinum sömu gefist til þess rúmur tími.

Sú töf sem varð á því að fyrsta húsleitin var gerð kann að skýrast af ýmsu. Vandasamur undirbúingur getur verið ein ástæða.

Vera kann einnig að stjórnkerfið sjálft sé svifaseint og illa "smurt" til þess að takast á við viðamiklar rannsóknir á borð við stórfelld auðgunar- og efnahagsbrot. Kannski erum við Íslendingar - í allri okkar ágóðasókn og fjármálaframhleypni - of miklir einfeldningar til þess að sjá í hendi, hvað þá að takast á við, brot af þeim toga sem hér er um vélað. Enda þarf ímyndunarafl til þess að gera sér í hugarlund hringavitleysuna sem átti sér stað í fjármálaþenslunni þar sem eigna- og krosseignatengslin voru óskiljanleg orðin. Fjármögnunarleiðirnar sömuleiðis eins og rakið var í Kastljósi nú á þriðjudaginn vegna bankana: Kaup á banka A fjármögnuð með því að taka lán í banka B, og til að greiða það lán var aftur farið í banka A og tekið lán ...

Tregðan í kerfinu á sér þó líklega enn djúpstæðari orsakir sem teygja sig inn í stjórnsýsluna og sjálf stjórnmálin. Það eru fjölskyldu- og hagsmunatengslin, þessir ósýnilegu þræðir sem ofist hafa um hvern kima samfélagsins: Inn í stjórnmálaflokkana, atvinnulífið, fjölskyldurnar, félagasamtökin, þar sem "maður þekkir mann" og kynnir þann mann (karl eða konu) fyrir öðrum, sem býður manni í veiðitúr, og maður veitir manni lán með veði í hlutabréfunum sjálfum og lánið má afskrifa ef illa fer, og maður er fyrr en varir kominn inn að stjórnarborði fyrirtækis .... og svo getur komið sér vel að laða þangað uppvaxandi stjórnmálamenn, bjóða þeim eignarhlut og stjórnarsetu, fá þá til að makka með ...

 "Allt upp á borðið" segir stjórnmálamaður einn daginn, en neitar þann næsta að svara spurningu um 900 mkr lánafyrirgreiðslu til maka og hugsanleg innherjaviðskipti. Annar tekur hraustlega til máls um pólitísk tengsl en reiðist um leið og minnst er á hans eign fjölskyldu- og fjármálatengsl. Sá þriðji hefur setið í stjórn olíufyrirtækis, sá fjórði hefur stýrt fjárfestingabanka í þrot, sá fimmti nýtur góðs af fjölskyldu og venslatengslum inn í atvinnulífið, sá sjötti líka ...

Þannig liggja þræðirnir í okkar litla samfélagi - þeir eru þéttriðið hagsmunanet.

Sérstakur saksóknari á mikið verk fyrir höndum að fá það "allt upp á borðið".

 ---------------

PS: Þessi grein birtist í Viðskiptablaðinu í dag.


Valtýr er vanhæfur - ekki óhæfur

 Umræðan um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara er að sjálfsögðu enginn áfellisdómur yfir honum sem einstaklingi. Vanhæfi snýst ekki um það hvernig menn eru innréttaðir eða hvað þeir kunna, heldur hitt hver tengsl þeirra eru úti í samfélaginu gagnvart málum sem koma inn á borð til ákvörðunar, dómsuppkvaðningar eða saksóknar. 

Við Íslendingar erum allt of uppteknir af því að afsagnir manna eða tilfærslur í starfi - hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða embættismenn - sé einhverskonar persónulegt tap fyrir þá sjálfa. Auðvitað getur það haft óhagræði í för með sér að skipta skyndilega um starf, eða breyta stefnu á einhvern hátt. En afsögn er einfaldlega til vitnis um að menn viðurkenna aðstæður, skynja ábyrgð sína í þeim aðstæðum og taka henni.

Valtýr hefur fyrir löngu lýst sig vanhæfan varðandi rannsóknina á bankahruninu. Skiljanlega. En einmitt þess vegna verður hann að standa fjarri sem ríkissaksóknari á meðan sú rannsókn stendur yfir. Það er ekki nóg að hann standi einungis utan við þá tilteknu rannsókn. Meðan hann er við störf sem ríkissaksóknari má segja að allir hans starfsmenn séu vanhæfir til þess að koma að rannsókn málsins.

Annars var komið inn á þetta í Kastljósinu í gærkvöld þar sem við skiptumst á skoðunum hjá Sigmari, ég og Ólafur Arnarson. Þar var líka rætt um Ice-save málið (sjá hér).


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly og vanhæfi ríkissaksóknara

thjofur Það er einhver undarlegur seinagangur í þessu máli. Vanhæfi ríkissaksóknara hefur legið fyrir lengi. Hann hefur sjálfur lýst sig vanhæfan. Gerði það fyrir mörgum mánuðum. Og hvað er þá málið?? Af hverju í ósköpunum er ekki búið að skipa nýjan mann?

Hér er um að ræða mikilvægustu efnahagsbrotarannsókn sem gerð hefur verið - ekki aðeins á Íslandi heldur trúlega í allri Evrópu. Þessi rannsókn varðar sögulegt hrun og er, eins og Eva Joly bendir réttilega á, margfalt stærri og mikilvægari en nokkuð sem hún sjálf hefur komið að til þessa. Lærdómarnir sem dregnir verða af þessari rannsókn - verði hægt að draga þá á annað borð - munu verða færðir í kennslubækur heimsins.

Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settur brýnn forgangur á að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem augljósar voru fyrir rannsókn málsins - til dæmis vanhæfi ríkissaksóknarans sem hefur lengi legið fyrir og mikið var fjallað um í október síðastliðnum þegar ég setti m.a. inn þessa bloggfærslu hér.

Hitt finnst mér umhugsunarefni - hafi ég tekið rétt eftir - að Eva Joly skuli frekar mæta í sjónvarpsviðtal til að koma athugasemdum sínum á framfæri heldur en að tala við þar til bær yfirvöld. Er hún fyrst að benda á þessa vankanta núna? Sé það tilfellið  - af hverju dró hún það svona lengi? Hvers vegna sneri hún sér ekki beint til dómsmálaráðuneytisins?


mbl.is Björn verður ríkissaksóknari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttafölsun um útstrikanir

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar tuggið það hver upp eftir öðrum að Ólína Þorvarðardóttir hafi verið sá frambjóðandi sem fékk flestar útstrikanir á kjörseðlum í NV-kjördæmi. Ríkisútvarpið hefur flutt um þetta tvær fréttirMorgunblaðið sömuleiðis, að ekki sé talað um svæðisfjölmiðlana sem flestir gerðu nokkuð með þetta.  Látið var að því liggja að "talsvert" hafi verið um yfirstrikanir í kjördæminu, og hef ég verið krafin svara í framhaldi af þessu, t.d. í Morgunblaðinu s.l. mánudag.

Nú er komið í ljós að þessi frétt var allan tímann röng. Yfirstrikanir á kjörseðlum í NV- kjördæmi voru  í fyrsta lagi fremur fáar miðað við önnur kjördæmi. 

Samkvæmt Morgunblaðinu í gær skiptust þær sem hér segir:

248 strikuðu út nafn Einars Kristins Guðfinnssonar, Sjálfstæðisflokki (6,5%)
181 strikuðu út nafn Ólínu Þorvarðardóttur, Samfylkingu (4,3%)
158 strikuðu út nafn Jóna Bjarnasonar, VG (3,9%)
157 strikuðu út nafn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, VG (3,9%)

En vitleysan er ekki öll eins. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er allt annað uppi á tengingnum - og skiptingin svona:

248 strikuðu út Einar K. Guðfinnsson
160 strikuðu út Ásbjörn Óttarsson
159 strikuðu út Lilju Rafney Magnúsdóttur

Nú er mér spurn: Hvað veldur því mikla misræmi sem í gær og dag er orðið á tölunum frá yfirkjörstjórninni?

Hvernig má það vera að í fjóra heila daga gangi röng frétt eins og logi um akur í fjölmiðlum? Sjálf þóttist ég vita að upphaflega fréttin væri röng, þar sem ég hafði verið í sambandi við þann fulltrúa Samfylkingarinnar sem var viðstaddur talninguna. Ég reyndi að segja blaðamanni Morgunblaðsins strax á Sunnudagsmorgun að hans upplýsingar stönguðust á við mínar. Blaðamaðurinn vitnaði þá í formann yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis og fullyrti að þaðan væru þessar upplýsingar komnar. Þetta væri óyggjandi. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig vitnað til formanns yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis.

Þarna er augljóslega eitthvað bogið við upplýsingagjöfina. Hvað veldur því? Sú spurning er afar áleitin.

Satt að segja veit ég veit ekki hvort er verra , tilhugsunin um að það hafi verið trúnaðarmaður almennings í yfirkjörstjórn sem brást eða fjölmiðlarnir.

Svo mikið er víst að málið þarfnast skýringa. Og ég mun kalla eftir þeim.

----------

PS: Og vitleysan heldur áfram - í hádegisfréttum RÚV var verið að þylja upp enn eina talnarununa, og nú er Einar Kristinn kominn með 183 útstrikanir en ég 140 Shocking 


Hreindýrskálfur og hús við Vatnsstíg

hreindyrskalfur_1__large_ Tvær fréttir vöktu athygli mína í sjónvarpinu í kvöld. Annars vegar þessi frétt um bréf Umhverfisstofnunar þar sem hreindýrskálfi er hótað lífláti ef fólkið sem bjargaði lífi hans á sínum tíma og tók hann til sín sækir ekki um leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir því að hafa hann.

Í fréttinni er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að "alls ekki hafi verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því".

Það er einmitt það. Ég legg til að starfsmenn umhverfisstofnunar fari í svolitla naflaskoðun núna og velti fyrir sér þeim markmiðum stofnunarinnar sem lúta að dýravernd.

VatnsstígurSvo er það þessi frétt um hústökuna á Vatnsstíg þar sem maður horfði á lögregluna eyðileggja hús til þess að "bjarga því" úr klóm hústökufólks. Reyndar hafði hústökufólkið dyttað að húsinu og ætlað að hefja þar einhverja uppbyggilega starfsemi á meðan það væri ónotað - en það mátti alls ekki.  Eignarrétturinn þið skiljið.

Að vísu hafði húsið staðið autt í á annað ár, og verið notað af útigangsfólki án þess að nokkur kallaði til lögreglu. En sumsé - þegar komið var ungt fólk með málningardósir og heita súpu í potti, þá var tilefni til aðgerða. Og þær létu sko ekki á sér standa. Með keðjusögum og kylfum var hluti hússins bútaður í sundur til þess að sýna hústökuliðinu alvöru málsins.

Já, eignarrétturinn .... hann lætur sko ekki að sér hæða.  

Eins og fram kemur í fréttinni þá er eignarrétturinn svo heilagur, að jafnvel ónýt hús sem bíða þess að víkja fyrir nýjum, má ekki nota í uppbyggilegum tilgangi. Frekar skulu þau fá að drabbast niður sem dópgreni. Enda er hið síðarnefnda mun líklegra til þess að flýta fyrir niðurrifinu heldur en ef eitthvað uppbyggilegt á sér stað innandyra. Það er nefnilega þekkt hertækni húsa- og lóðabraskara að kaupa gömul hús á verðmætum lóðum til þess að rífa þau og byggja ný. Í sumum tilvikum er beinlínis ýtt undir það að útigangsfólk taki sér bólfestu í húsnæðinu svo betur gangi að fá samþykki fyrir niðurrifi.

Í ýmsum borgum hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að setja búsetuskyldu á hús í námunda við miðborgir, til þess að hindra atburðarás af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur ærna ástæðu til að hugleiða þann möguleika, því þetta er ekki eina húsið sem er að grotna niður í miðborginni.

En sumsé - tvær fréttir um það hvað lífið getur stundum verið öfugsnúið.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að njóta vafans - starfsmaðurinn eða barnið?

skólabarn Þegar grunur leikur á að barn hafi þrisvar sinnum verið slegið af starfsmanni á leikskóla og rannsaka þarf málið - hver á þá að njóta vafans? Starfsmaðurinn eða barnið?

Í mínum huga er enginn vafi á því - með fullri virðingu fyrir réttindum starfsmannsins - að barnið á að njóta vafans. Það er ekki nóg að bjóða foreldrunum að flytja barnið úr sínu daglega umhverfi á annan leikskóla. Barnið á rétt á því að vera á sínum leikskóla, og líði því vel að öðru leyti, er ástæðulaust að flytja það annað. Barnið á rétt á öruggu umhverfi.

Þess eru dæmi úr öðrum starfsgreinum að starfsfólki er vísað tímabundið úr starfi meðan rannsókn á meintum brotum þess stendur yfir. Það fer að vísu eftir alvarleika málsins. En starfsmenn leikskóla verða líka að fá tvímælalaus skilaboð um að það er óásættanlegt að slá til barna. Ekkert foreldri á að sætta sig við slíka meðferð á barni sínu.


mbl.is Sló barn utan undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið í kvöld - ÍNN á mánudagskvöld.

Í kvöld mætti ég þeim Þorbjörgu Helgu Vigfússdóttur og Ómari R Valdimarssyni í Kastljósi vikunnar. Við tókumst á um atburði líðandi viku, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan. Það glóði svolítið á okkur Þorbjörgu Helgu sá ég þegar ég kíkti á þáttinn á netinu. Hún er ung og glæsileg kona með ákveðnar skoðanir og mjög ákveðna framkomu - en auðvitað vorum við ekki sammála um margt frekar en við mátti búast.

Þeir sem áhuga hafa geta horft á þetta spjall okkar HÉR.

Fyrr um daginn gerði ég hálftíma þátt á ÍNN sem verður víst ekki sendur út fyrr en á mánudagskvöld kl. 21.30. En sá þáttur fjallar um stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing. Ég fékk til liðs við mig Gísla Tryggvason, talsmann neytenda. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur látið sig þessi mál varða ekki síst á bloggsíðu sinni (sjá hér).

Þið fylgist vonandi með þessu þegar þar að kemur. Wink


Afneitun og veruleikafirring

Afneitun og veruleikafirring - það eru einu orðin sem mér koma til hugar þegar ég les þessi ummæli menntamálaráðherra. Skilur konan ekki að fólk er ekki að bíða eftir einhverjum "afdrifaríkum ákvörðunum" frá þeim ráðamönnum sem nú sitja. Fólkið vill að ríkisstjórnin víki.

Hversu lengi ætla ríkisstjórnin að berja höfðinu við steininn? Er hún að bíða eftir að mótmælin þróist í blóðuga byltingu?

Mér sýnist á öllu að það sé einmitt það sem er að gerast núna.


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband