Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Sá yðar sem syndlaus er - erfiðleikar umhverfisráðherra og þjóðkirkju

jónínahúsavikurkirkja Ég er ekki sátt við að öll spjót skuli standa á Jónínu Bjartmarz þessa dagana - verð bara að segja eins og er. Ég er heldur ekki sannfærð um þessa spillingu sem menn eru að þvargviðrast yfir. Það var ekki í hennar valdi að veita tengdadóttur sinni ríkisborgararétt - það verða einhverjir aðrir að svara fyrir það mál.

Segjum sem svo að hún hafi aðstoðað tengdadóttur sína við að sækja um ríkisborgararéttindi (lái henni hver sem vill) - jafnvel talað við einhvern í því sambandi - hver er þá glæpurinn? Og hver framdi glæpinn? Jónína? Útilokað.  Það eina sem var í hennar valdi var að liðsinna tengdadóttur sinni, sem ég vona að hún hafi gert  - því hver er svo kaldrifjaður að hann aðstoði ekki náinn aðstandanda í vanda?

Þetta mál er hinsvegar óþægilegt fyrir Jónínu - og því myndi ég í hennar sporum fara fram á að þingið rannsaki málið og það verði tekið upp á borðið hvernig stóð á þessari afgreiðslu nefndarinnar.

Annað sem ég er ósátt við þessa dagana eru ofsafengin viðbrögð sjálfskipaðra málsvara samkynhneigðra við ákvörðun nýafstaðinnar prestastefnu um að blessa samband samkynhneigðra.

 Kirkjan stígur markvert skref til móts við samkynhneigða með ákvörðun um að prestum skuli heimilt að blessa samband þeirra - og hvað gerist? Það verður allt brjálað yfir því að kirkjan skuli ekki hafa gengið enn lengra. Meira að segja jafn mætur maður og Illugi Jökulsson heldur því fram í pistli að kirkjan hafi lagt þennan þjóðfélagshópi í einelti, sparkað í hann og niðurlægt. Þó hefur engin þjóðkirkja í heiminum - mér vitanlega - gengið lengra til móts við samkynhneigða en einmitt íslenska þjóðkirkjan.

Ég styð réttindabaráttu samkynhneigðra, enda á ég bæði vini og ættingja í þeirra hópi. En þessar ofsóknir í þeirra nafni gegn þjóðkirkjunni get ég ekki tekið undir. Umræðan er komin út fyrir allt velsæmi - ALLT velsæmi.

Og hananú!


Svarað í sumartunglið

tunglið  Ég er að horfa á sumartunglið - það er nærri því fullt.

Samkvæmt gamalli þjóðtrú á maður að þagna í fyrsta sinn sem maður sér sumartunglið og bíða þess að einhver annar yrði á mann. Sá sem talar þannig til manns segir óafvitandi forspá sumarsins. Það heitir að "svara í sumartunglið".

Um þetta orti Guðmundur Ingi Kristjánsson fallegt kvæði:

  • Eftir fornri þjóðtrú, það veit eg, 
  • þögul skaltu verða og hátíðleg 
  • þegar fyrsta sinni sumartunglið 
  • sérðu reika bláan himinveg. 

 

  • Ekki máttu rjúfa þessa þögn 
  • það er brot við lífsins duldu mögn 
  • fyrr en einhver til þín talað hefur, 
  • tal hans verður þér að spádómssögn. 

 

  • Hversu stutt og einfalt sem það er 
  • örlög þín í dularskauti ber,
  • þannig er að svara í sumartunglið,
  • segja grunlaus hvað á eftir fer.

 

  • Komdu, komdu beina braut til mín,
  • björt og fögur þegar tunglið skín
  • því að alltaf eru á vörum mínum
  • orð sem verið gætu forspá þín. 

 

Ég hef stundum fengið svar í sumartunglið. Að þessu sinni klúðraði ég því þó sjálf með því að glopra út úr mér hvað himininn væri fallegur kvöldið sem ég stóð í Grímsnesinu að loknu skemmtilegu hagyrðingakvöldi um daginn og dáðist að nýkviknuðu sumartunglinu. Venus lýsti skær og fagur í vestri og tunglið var eins og glampandi sigð á dimmbláum himni í litaskiptum kvöldsins.

Ég hugga mig við að þeir sem heyrðu til mín - og það var svolítill hópur fólks - fengu þar með gott svar í sumartunglið, hver fyrir sig. Stundum getur verið sælla að gefa en þiggja.

Hvað mig sjálfa varðar, þá var það fegurð himinsins bar þjóðtrúna ofurliði að þessu sinni.  


Þau náðu mér á náttsloppnum - dimmisjón í MÍ

 

     dimmisjon2 dimmisjon3 dimmisjon1

Í morgun vaknaði ég við háreysti utan við húsið - ýl, gaul, hróp og söng. Þegar ég leit út um gluggann blöstu við mér hvítklæddir englar. Ég nuddaði stýrurnar úr augunum, þessir englar voru með bjór í hönd - einn með gítar. Ég rankaði við mér: Dimmisjón MÍ í dag - og hópurinn mættur framan við svalirnar hjá mér.

Ekki var ég ekki fyrr komin fram á svalirnar en "Gaudeamus igitur" var brostinn á og ómaði í einradda kröftugum söng um alla götuna - eiginlega um allan Ísafjörð því það var stafalogn og hljóðbært svona snemma morguns, klukkan rétt rúmlega sjö. 

Undanfarin sex ár hefur það verið ófrávíkjanleg regla á dimmisjón-degi að útskriftarefnin hafa komið til mín í hafragraut og slátur að morgni síðasta skóladags. Inngönguversið hefur verið Gaudeamus igitur, sem þau hafa lært utanbókar og sungið við dyrnar hjá mér áður en þau ganga í bæinn. Þessari hefð var komið á fyrsta árið mitt í skólameistarastarfinu, og hefur haldist órofin síðan. 

Að þessu sinni beið þeirra morgunmatur í öðru húsi - þannig er lífið. En þau komu og kvöddu gamla skólameistarann sinn. Það gladdi mig mjög.

Einhverju sinni sagði ég við tilvonandi dimmitanta að þau myndu aldrei ná mér í rúminu - hversu snemma sem þau mættu. Ég myndi nefnilega ekki láta nemendur mína sjá mig ótilhafða að morgni dags. Jæja, þau náðu mér í þetta skipti ómálaðri og úfinni á náttsloppnum. Öðruvísi mér áður brá - en þau voru sigri hrósandi.

"Við elskum þig Ólína!" kölluðu einhverjir úr hópnum að söngnum loknum  - og þar með voru þau farin með fingurkossana mína í veganestið. Þarna stóð ég eins og gul fuglahræða í gamla náttsloppnum mínum á svölunum - og horfði tárvot á eftir þessum elskum á halda áfram sinni göngu. Ég sneri mér að Sigga mínum - sem var þarna með mér, alklæddur og reffilegur - "Þau lögðu það á sig að læra Gaudeamus" muldraði ég hrærð: "Þau þurftu þess ekki".

 Smile

Góða skemmtun í dag krakkar mínir - takk fyrir allt - og ég elska ykkur líka. 

dimmisjon07


Fátækt í skugga velmegunar - blekkingar umræðunnar

Guðmundur Steingrímsson er með athyglisverða bloggfærslu um blekkingar þær sem viðhafðar eru í umræðunni um kaupmáttinn í landinu.  Hann gluggaði í hagtölur og komst að raun um að kaupmátturinn hefur fyrst og fremst aukist hjá þeim tíundahluta þjóðarinnar sem hæstar hefur tekjurnar. Sömuleiðis komst hann að því – með því að skoða opinberar tölur – að árleg kaupmáttaraukning  ráðstöfunartekna hefur yfirleitt verið mun meiri í tíð annarra ríkisstjórna en þeirrar sem nú situr.

Þetta varð mér hvatning til þess að skoða betur skýrslu sem vakti athygli mína fyrir fáeinum mánuðum – en það er skýrsla forsætisráðuneytisins um fátækt meðal barna. Ég hafði á sínum tíma lesið samantekt ráðuneytisins fremst í skýrslunni, en þar var fullyrt að ástandið hér á landi væri bara býsna gott: Ísland væri í hópi þeirra OECD-ríkja þar sem fátækt barna mælist hvað minnst; en 6,6% íslenskra barna munu hafa búið við fátækt á árinu 2004.  Jæja, ég ákvað að skoða samhengi hlutanna betur og fór að glugga í tölulegar upplýsingar skýrslunnar. Til samanburðar hafði ég skýrslu sem borgarhagfræðingur tók saman fyrir Reykjavíkurborg árið 2001 um sama efni.

Niðurstaðan er athyglisverð: Frá 2001 – 2004 þrefaldast fjöldi fátækra barna á Íslandi (úr 2,1%  í 6,6%).  Til samanburðar má nefna að á tímabilinu 1995-2001 lækkaði hlutfall fátækra barna hinsvegar úr  2,9% í 2,6%. Fátækt hefur ekki verið meiri meðal íslenskra barna en í annan tíma en í tíð núverandi ríkisstjórnar – og hefur ekki aukist meira á neinu öðru tímaskeiði sem þessar skýrslur ná til. Séu börn einstæðra foreldra skoðuð sérstaklega þá fjölgar fátækum í þeim  hópi um helming, úr 10,5% árið 2001 í 18% árið 2004.  

Það má líka geta þess – í ljósi digurmæla sem fallið hafa af vörum stjórnarherranna  um vaxandi kaupmátt og bætt lífskjör almennings – að fátækt meðal aldraðra hefur aukist mest á Íslandi af öllum Norðurlöndum. Í dag eru 20-30 þúsund manns undir fátæktarmörkum á Íslandi, og mælist fátækt meiri hér en í nokkru hinna Norðurlandanna. Fram hefur komið í fjölmiðlum að um 30% ellilífeyrisþega og 31% einstæðra foreldra lifi nú undir fátæktarmörkum á Íslandi. Til samanburðar má geta þess að í hinum norrænu löndunum búa 6,6-13,5%  einstæðra foreldra við fátækt.   

Já, svo segja þeir að þjóðin hafi aldrei haft það betra.

Ég hef samið nýtt spakmæli af þessu tilefni - það er svona: Frá háum turnum falla langir skuggar.


Mega konur hafa skoðun á konum?

konur   Ýmsar mætar konur eru á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi fyrir þessa kosningar, eins og bent hefur verið á m.a. af Gústafi Gústafssyni sem sent hefur mér tilskrif á héraðsvef Húnvetninga.

Tilefni Gústafs er það að fyrir skömmu skrifaði ég grein þar sem ég vakti athygli á tveimur konum úr einu og sama héraðinu, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur alþingismanni og Herdísi Á. Sæmundsdóttur stjórnarformanni í Byggðastofnun. Báðar keppa þær um hylli Skagfirðinga um þessar mundir – sem og auðvitað kjósenda víðar í kjördæminu. 

Hugleiðingar mínar komu illa við Gústaf og þá væntanlega aðra stuðningsmenn Vinstri grænna sem státa af frambærilegum konum í Norðvesturkjördæmi fyrir þessar kosningar. Síst vil ég gera lítið úr kvennavali Vinstri grænna eða annarra flokka. Hins vegar árétta ég að erindi mitt inn á ritvöllinn var ekki það að gera heildarúttekt á kvenframbjóðendum allra stjórnmálaflokka í kjördæminu, heldur einungis að benda á þá staðreynd að Skagafjörður býður fram tvær konur sem telja mætti í baráttusætum að þessu sinni.

Herdís Á. Sæmundsdóttir tekur skrif mín einnig óstinnt upp í grein sem birtist á vefmiðlum í gær. Hún virðist álíta að með þeim sé ég að “senda tóninn” henni persónulega, eins og hún orðar það.

Ég er ekki sammála því að skrifum mínum sé beint gegn Herdísi sem persónu – fjarri því – enda hef ég ekkert sagt sem talist getur henni sjálfri til vansa. Þvert á móti er hún í grein minni sögð “mæt” kona og “frambærileg” ekkert síður en Anna Kristín Gunnarsdóttir sem ég þó styð fram yfir Herdísi af ástæðum sem raktar eru í grein minni. Þær ástæður lúta að stjórnmálaskoðunum og afstöðu minni  til þeirra sjónarmiða sem þessar tvær konur eru fulltrúar fyrir.

Viðbrögð Herdísar benda til þess að hún geri ekki glöggan greinarmun á mönnum og málefnum – og taki til sín persónulega þá gagnrýni sem beinist að Framsóknarflokknum og stjórnarathöfnum hans. Sjálf gerist hún full persónuleg í garð annarra í svari sínu, og heggur þar ómaklega að Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, sem er þó alsaklaus af mínum skrifum.

laufdrottning   Það virðist hafa komið fólki á óvart að “kvenréttindakonan” og “jafnréttissinninn”, eins og ég er kölluð í greinum þeirra Gústafs og Herdísar, skuli hafa tekið upp penna til þess að ræða um erindi tveggja kvenna í stjórnmálum. Ætlar þetta ágæta fólk að halda því fram að kvenréttindi felist í því að konur séu undanþegnar stjórnmálaumræðu? Ætlast þau til þess að “jafnréttissinnar” taki ekki afstöðu til kvenna í stjórnmálum? Ef svo væri, þá værum við að tala um það að velja konur “bara vegna þess að þær eru konur” – og undir það get ég aldrei tekið.

Konur sem telja sig eiga erindi í stjórnmál verða auðvitað að vera tilbúnar í rökræðu um málstað sinn, tilbúnar að takast á um þann málstað og sæta gagnrýni ef því er að skipta. Við konur eigum það ekki skilið að vera metnar á forsendum kynferðisins eingöngu – hvorki af körlum né öðrum konum.

 

Eru Vestfirðir með?

 Landidallt Hvenær koma kæri minn, kakan þín og jólin? spyr Sigurður Pétursson í athyglisverðri grein á bb.is í gær. Vel má vera að einhverjum finnist það svona og svona að hossa sínum nánustu opinberlega, en ég bara verð að koma þessum hugleiðingum bónda míns á framfæri - þær eru svo mikill sannleikur um stöðu mála á Vestfjörðum. Úrræðaleysið - eða á maður að segja kjarkleysið?

Eiginlega eru engin önnur orð yfir það sem hefur verið að gerast í málefnum Vestfjarða að undanförnu. Og hvað gera kjarklausir menn? Þeir  tala niður tillögur annarra, reyna að þegja þær í hel,  drepa umræðunni á dreif, til þess að breiða yfir eigin vanmátt. Gamla sagan.

 Því miður er ég hrædd um að myndin hérna fyrir ofan - sem sýnir landið án Vestfjarða - sé sannari en margan grunar. Ég minnist þess þegar ég fyrir fáum árum var ein af þeim sem skrifuðu greinar á kreml.is. Vefsíðan sem bar þetta grínaktuga nafn var umræðuvettvangur jafnaðarmanna og þar skrifuðu nokkrir eldhugar um ýmis málefni tengd stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu. Ég setti einhverju sinni inn grein sem fjallaði um samgöngumál á Vestfjörðum - enda lá mér margt á hjarta í þeim efnum. Fyrir vikið uppskar ég ákúrur ónefnds kollega í hópnum. Honum fannst fyrir neðan allar hellur að ég skyldi skrifa um "innanhéraðsmál" á jafn virðulegan vef sem fjallaði um þjóðmál "á landsvísu". Spruttu af þessu svolitlar ritdeilur á póstlista kremlverja - því ég var ekki tilbúin að kyngja því að jarðgöng á Vestfjörðum, eða samgöngur þangað yfirleitt, væru innanhéraðsmál. Ekkert frekar en tvöföldun Suðurlandsvegar, staðsetning Reykjavíkurflugvallar, göng um Almannaskarð eða Sundabraut. 

Mér varð hinsvegar ljóst af þessum orðaskiptum að stór hluti Höfuðborgarbúa lítur ekki á Vestfirði sem hluta af heildinni. Í þeirra augum eru vandamál Vestfjarða ekki vandi landsins. Þannig er það nú bara.

Það þykir sjálfsagt að taka við þjóðartekjunum sem héðan koma - hirða afrakstur auðlindanna sem eru í hafinu umhverfis Vestfirði og láta renna í þjóðarbúið. En það virðist ekki vera jafn sjálfsagt að verja einhverju af sameiginlegum fjármunum ríkissjóðs til uppbyggingar atvinnulífs og búsetu á Vestfjörðum, þó þess gerist nú brýn þörf.  

Þess vegna er ég hrædd um að Vestfjarðanefndinni svokölluðu, sem forsætisráðherra setti á laggirnar eftir fjölmennan baráttufund sem haldinn var á Ísafirði, hafi ekki verið ætlað annað en að róa fjöldann. Láta fólk halda að nú væri verið að gera eitthvað - bara eitthvað.

En Vestfirðingar spyrja um efndirnar - og sú spurning brennur nú heitari en nokkru sinni fyrr á stjórnvöldum landsins: "Hvenær?"


195 bloggvinir á tómri síðu!

Ótrúlegt - kíkið á þetta - galtóm bloggsíða en 195 bloggvinir komnir samt! Á tóma síðu. Þetta er sko húmor í lagi. 

Annað hvort er Steini Briem ótrúlega vel kynntur úti í samfélaginu - sem getur auðvitað vel verið, þó mér finnist það ólíklegt (með fullri virðingu fyrir manninum) -  eða bloggvinaæðið hefur keyrt um þverbak. Og það er mín niðurstaða.

En ég semsagt fékk tilboð frá þessum ágæta "bloggara" um að gerast bloggvinur fyrir nokkrum dögum. Þar sem ég er svolítið kresin á þá sem ég kalla vini mína opnaði ég að sjálfsögðu síðuna hans til að sjá hvað hann væri að blogga áður en ég samþykkti hann sem vin. Halló! Þar var þá ekkert - en löng runa af bloggvinum. Ég ákvað að hinkra og hef verið að kíkja á síðuna af og til, svona til að sjá hvort ekki kæmi eitthvað inn. En ekkert gerist. Steini Briem fær 80-90 heimsóknir á hverjum einasta degi, á síðu sem ekkert er inni á, og bloggvinum fjölgar dag frá degi. Í kvöld voru þeir orðnir 195.

Þetta er BARA frábært - eins og börnin segja.

Trúað gæti ég að þarna sé verið að gera tilraun með það hversu marga bloggvini er hægt að fá án þess að nokkuð sé á bak við það. En hvort sem það er tilfellið eða ekki - þá er niðurstaðan athyglisverð. AFAR athyglisverð.

Ég kaupi þennan húmor.


Kalt er við Kárahnjúka

 karahnjukar   Aðbúnaður verkamanna á Kárahnjúkum hefur oft orðið tilefni fréttaskrifa - of oft að mínu mati: Svo virðist sem kuldi, léleg húsakynni, vondur matur og erjur ýmiskonar séu varanlegt hlutskipti þeirra sem þarna vinna. Það er óásættanlegt og auðvitað ekkert gamanmál.

 Þessar fréttir rifja hins vegar upp fyrir mér vísur sem urðu til í hálfkæringi á hagyrðingakvöldi sem ég tók þátt í fyrir tveimur árum. Ég leyfi þeim að fjúka hér - en árétta að auðvitað fylgir öllu gamni nokkur alvara - og um það er ekki að villast í þessu tilviki.

  • Kalt er við Kárahnjúka, 
  • kostur þar naumur bíður.
  • Klórar sér kalinn um búka 
  • krókloppinn verkalýður.

 

  • Ófriðar eru þar læti, 
  • enga finna menn hlýju
  • og fái þeir eitthvert æti
  • það efalaust veldur þeim klígju.

 

  • Já kalt er við Kárahnjúka
  •  og kulið beitir menn hörðu. 
  • Um tindana fannir fjúka 
  • og frost þiðnar aldrei úr jörðu.

Svo mörg eru þau orð að sinni.


mbl.is Tugir starfsmanna við Kárahnjúka veiktust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að velja milli kvenna - erfitt!?

Sú óvenjulega staða er nú uppi í Norðvesturkjördæmi að tvær konur eru í baráttusætum tveggja framboðslista, báðar úr Skagafirði. Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem verið hefur þingmaður kjördæmisins á yfirstandandi kjörtímabili, skipar þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar. Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins. Báðar eiga þær raunhæfan möguleika á að komast í þingsæti - en hvorug er þó örugg inn.

Það gerist ekki oft í íslenskum stjórnmálum að kjósendur þurfi að velja á milli kvenna. Algengara er að valið standi milli karls og konu. Hefur af því skapast sú hvimleiða umræða sem margir þekkja, að konur komist til valda „bara vegna þess að þær séu konur“. Nú er því ekki að heilsa, heldur þurfa kjósendur að vega og meta tvær mætar konur á pólitískum forsendum. Fyrir hvað standa þær? 

hs Fulltrúi óbreytts ástands

Herdís Sæmundsdóttir er lítt þekkt á opinberum vettvangi, utan héraðs. Hún gegnir þó stjórnarformennsku sem fulltrúi Framsóknarflokksins í Byggðastofnun og hefur starfað sem bæjarfulltrúi. Að öðru leyti þekkja almennir kjósendur í kjördæmi lítið til hennar.Eins og menn vita hefur Byggðastofnun veikst mjög í tíð iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og hefur átt erfitt með að gegna sínu mikilvæga rannsóknar- og stuðningshlutverki við byggðir landsins. Áform iðnaðarráðherra um að sameina hana Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöð ollu stofnuninni erfiðleikum og óvissu, enda þótt ekki yrði af sameiningunni.

Samkvæmt skoðanakönnun sem fréttablaðið hefur nú kynnt vilja 90% framsóknarmanna áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar með vitum við að atkvæði greitt framsóknarflokknum er atkvæði greitt ríkisstjórninni og óbreyttum stjórnarháttum. Hvað þýðir það? Það þýðir meðal annars áframhaldandi ójafnvægi í hagstjórnun landsins, misskiptingu lífskjara, vaxandi mun milli ríkra og fátækra, viðvarandi biðlista eftir velferðarþjónustu, óréttlátt skattkerfi, miðstýringu í landbúnaði og þverrandi virðingu fyrir grunngildum jafnaðarhugsjónarinnar. 

                                                                          Fulltrúi umbóta og nýsköpunar    AnnaKristin

 Anna Kristín Gunnarsdóttir er alþingisþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili og kjósendur þekkja hana af verkum hennar. Hún hefur verið ötull málsvari landsbyggðarinnar, talað fyrir nýsköpun í atvinnu- og menntamálum kjördæmisins. Ekki síst hefur hún talað fyrir bættum samgöngum og umbótum í landbúnaði og látið sig varða málefni íslenskra bænda. Anna Kristín er sömuleiðis málsvari skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda og aðhyllst hófsemi í þeim efnum. Hún hefur verið einörð og heiðarleg í sínum málflutningi.

Við sem höfum kynnt okkur stefnurskrár stjórnmálaflokkanna fyrir þessar kosningar vitum að atkvæði greitt Samfylkingunni er atkvæði greitt umbótavilja og breytingum: Stjórnarháttum sem miða að jafnvægi og réttlátri skiptingu lífskjara, auknum jöfnuði í samfélaginu, aukinni þjónustu í velferðarkerfinu og nýsköpun í atvinnulífi. Samfylkingin stefnir að sanngjörnum leikreglum í atvinnulífi þjóðarinnar, ekki síst landbúnaði og tekur stöðu með neytendum jafnt og bændum. Samfylkingin hefur heitið því að útrýma biðlistum eftir velferðarþjónustu og gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að afnema launamun kynjanna. Síðast en ekki síst byggir Samfylkingin á grundvallargildum jafnaðarmanna um heim allan.

Kjósendur í Norðvestur kjördæmi! Ef þið eigið erfitt með að velja á milli tveggja frambærilegra kvenna á kjördag, hugleiðið þá vel hvaða grundvallarsjónarmið þessar tvær konur standa fyrir. Það er hið raunverulega val sem þið standið frammi fyrir í kjörklefanum.



Verður Vöggur litlu feginn?

 oliuhreinsistod   Skýrsla Vestfjarðanefndarinnar um atvinnumál hefur nú verið birt á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Ég er búin að lesa hana og ... sjáið til:

Fyrir fáum árum skiluðu vestfirskir sveitarstjórnarmenn sérstakri byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Sú áætlun var samin í tilefni af því að Vestfirðir "gleymdust" í  byggðaáætluninni  sem átti að ná yfir landið allt. Sú áætlun var send stjórnvöldum, og fyrstu árin á eftir bárust með vorvindum yfirlýsingar um að nú færi að rofa til í málefnum svæðisins - svona hvað úr hverju.

Síðan hefur flest verið á niðurleið - eins og skýrslan sýnir svart á hvítu.

Þegar svo Vestfirðingar fengu nóg af orðavaðli og aðgerðarleysi, eins og glögglega kom í ljós á fundinum Lifi Vestfirðir nú í vor, ákvað forsætisráðherra að skipa nefnd til þess að skila inn tillögum um aðgerðir í atvinnulífi svæðisins. Sveitarstjórnarmenn bentu á að slíkar tillögur lægju nú þegar fyrir og ekki þyrfti að skipa sérstaka nefnd um það mál að sinni. Engu að síður var nefndin skipuð - og ég skal viðurkenna að ég lét að mér hvarfla að það væri vegna þess að nú ætti að skoða málin í alvöru. Kalla eftir nýjum og ferskum tillögum, eða blása ryki af gömlum, og gera áætlun um hvernig fram komnum tillögum yrði helst komið í framkvæmd. 

Nú liggur nefndarálitið fyrir og .... Whistling

Það var auðvitað barnaskapur að halda að eitthvað kæmi út úr þessu. Ég játa á mig þann barnaskap. Hann mun ekki henda mig aftur, a.m.k. ekki á meðan þessi ríkisstjórn situr að völdum.

Vestfirðingar bjuggust við framsæknum tillögum - e.t.v. bara einni þróttmikilli hugmynd sem fæli í sér nýsköpun, framtíðarsýn, metnað. Til dæmis tillögu um sjálfstæðan háskóla á Ísafirði; stórátak í vegamálum (eitthvað annað en að flýta Vestfjarðagöngum - hefði t.d. mátt stíga skrefið til fulls og leggja til tvenn jarðgöng til að tengja norður og suðursvæði Vestfjarða í eitt skipti fyrir öll); strandsiglingar.   Ekki er því að heilsa. Þess í stað koma almennt orðaðar ályktanir um að "stefna að", "auka" og "efla" eitt og annað (sem segir sig auðvitað sjálft) og svo loftkenndar vangaveltur um olíuhreinsunarstöð í Dýrafirði. Hugmynd sem hvorki nefndarmenn né forsætisráðherra þora þó að taka neina ábyrgð á eða mæla með. 

Þannig fór um sjóferð þá.

 

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/Vestfjardarnefnd.pdf

http://bb.is/?PageID=26&NewsID=61424

http://bb.is/?PageID=26&NewsID=97956 

http://bb.is/?PageID=26&NewsID=97688


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband