Viðreisn Alþingis - nýtt lýðveldi!

faninn Það gladdi mig sannarlega að heyra minn gamla læriföður og meistara Njörð P. Njarðvík orða með svo skýrum hætti hugmynd sem hefur verið að þróast í mínu eigin hugskoti - og trúlega ýmissa annarra undanfarið - um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis Íslendinga. Sjónarmið Njarðar hafa komið fram í blaðaskrifum hans og nú síðast í útvarpinu í gær og svo Silfri Egils í dag.

Eins og Njörður bendir réttilega á er Alþingi Íslendinga orðin áhrifalítil afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið - ráðherrana - sem sitja í öndvegi þingsalar eins og konungshirð frammi fyrir þingliðinu. Forseti Alþingis er áhrifalaus virðingarstaða þess sem misst hefur af ráðherrastól - nokkurskonar uppbótarsæti. 

Á Íslandi er nefnilega ekki virkt lýðræði í reynd - hér ríki þingræði (fulltrúalýðræði) sem í rauninni er ekkert annað en ráðherraræði. Og framkvæmdavaldið - ráðherrarnir - eru á sama tíma starfandi þingmenn. Engin skil eru á milli framkvæmdavalds og löggjafa. Þessu þarf að breyta.

Þingmenn sjálfir eru að vasast í ýmsu meðfram þingstörfum - sitja jafnvel í ráðum og nefndum úti í samfélaginu, stýra stórum hagsmunasamtökum o.s. frv. sem er að sjálfsögðu óeðlilegt.

Nýtt lýðveldi er sennilega lausnarorðið sem við þurfum. Hugmyndin felur í sér að þingið verði leyst upp og mynduð neyðarstjórn. Það gæti verið utanþingsstjórn eða einhverskonar útfærsla á þjóðstjórn eða stjórnlagaþingi í samræmi við núgildandi stjórnarskrá. En þessu mannvali yrði falið að semja nýja stjórnarskrá sem kosið yrði eftir í næstu þingkosningum.

Þessi hugmynd er svo sannarlega þess virði að hún sé tekin til alvarlegrar athugunar - hún er ekki fordæmalaus, eins og Njörður benti á. Frakkar hafa gert þetta fimm sinnum, síðast þegar DeGaulle komst til valda. 

Hugmyndin um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis kemur eins og ferskur andblær inn í það daunilla kreppuástand sem nú ríkir í samfélaginu og innra með þjóðinni. Ástand sem svo sannarlega gæti orðið farvegur fyrir lýðskrumara og æsingafólk sem ekki sést fyrir en gæti sem best notfært sér bágindi þjóðarinnar eins og á stendur til að skara eld að köku eigin hagsmuna.

Nei, við þurfum nýjar leikreglur. Nýtt upphaf: Endurreisum Alþingi á nýjum grunni - stofnum nýtt lýðveldi!

 -----------------------------

PS: Þessa fallegu fánamynd fékk ég lánaða á síðu Álfheiðar Ólafsdóttur myndlistarkonu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr. Engin önnur leið virðist fær til að vekja traust almennings á stjórmálafólki og þá sérstaklega ríkisstjórn en að almenningur fái að hafa bein áhrif á það hverjir fái að sitja þing og hverjir ekki. Við verðum að fá að kjósa um persónur en ekki flokka, þannig að hver og einn eigi sinn þingmann og tengist honum.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 14:55

2 Smámynd: Sævar Helgason

Hvernig á að koma málinu á framkvæmdastig ?  Það er ljóst að núverandi valdhafar , klíkur stjórnmálaflokkanna - láta valdið sér ekki úr greipum ganga.  Er nema eitt í stöðunni ? 

- Að hér myndist breiðfylking sem hefur þetta markmið- Nýtt lýðveldi og nýja stjórnarskrá . Og bjóði fram í næstu kosningum og með þetta eina stefnumál ?

Sigri þessi breiðfylking er eftirleikurinn að hér sitji , að kosningum loknum, bráðabrigðastjórn , meðan ný stjórnarskrá er samin . Síðan verði kosið um hana og að því loknu tekur nýtt lýðveldi við stjórn landsins. Ný og traust framtíð.

Nú er allt í raun hrunið hjá okkur , efnahagurinn, peninga og gjaldeyrismál- lýðræði- hrakandi siðferði . Í raun ónýtt þjóðfélag.  Hver vill þetta ástand áfram ?

Er nokkuð annað en að hefjast handa við undirbúning málsins ?

Sævar Helgason, 11.1.2009 kl. 15:55

3 identicon

Er á sömu hugsunarbrautinni kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 16:41

4 Smámynd: Gerður Pálma

Heyr, heyr.. tek 100% undir þessa skoðun, sem að mínu mati er eina sjáanlega alvöru lausnin til þess að landið fái ábyrga ríkisstjórn sem hægt er að treysta til þess að reka landið með hagsmuni lands og þegna þess samhliða. 

Gerður Pálma, 11.1.2009 kl. 16:44

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kveikti vonarneista í brjósti mér.  Svei mér þá, ég var orðin alvarlega döpur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.1.2009 kl. 16:52

6 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Er búinn að brjóta heilann um þetta lengi og tökum nú öll höndum saman. Gerum eitthvað raunverulegt, að minnsta kosti fyrir börnin okkar.

Gunnar Skúli Ármannsson, 11.1.2009 kl. 17:06

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hver er rómantískastur:

Ólína Þorvarðardóttir,

Ómar Ragnarsson,

Gigliola Cinquetti.

Þorsteinn Briem, 11.1.2009 kl. 17:07

8 identicon

Einmitt - þessi ádrepa frá Nirði kemur eins og ferskur blær í byrjun janúar!

Það væri óskandi að fólk færi nú að skynja á allt litrófið í stað þess að horfa á þjóðfélagið með rauðum, bláum, grænum eða bleikum Flokksgleraugum!

TH (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 17:32

9 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Sá þetta ekki enn, hef lesið það sem að Njörður hefur skrifað og þekki mjög marga sem eru að hugsa hið sama. Þurfum að stofna samtök utan um þetta, sá sem hefur frumkvæðið má gjarnan hafa samband við mig. Annars verð ég bara að gera þetta sjálfur. Verðum að hætta þessu pukri útí horni og ganga í þetta. phenryAThi.is

Pétur Henry Petersen, 11.1.2009 kl. 17:39

10 identicon

Loksins fær hugmyndin hljómgrunn, sýnir að loksins sjáum við hvað er á seyði og hve illa fer ef við, almennir borgarar, grípum ekki inn í.

áfram með nýja stjórnarskrá

Björg (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 18:01

11 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Hef lengi verið  þeirra skoðunar að það þyrfti að vera skýrari mörk á milli löggafarvalds og framkvæmdavalds ,að það væri ekki skynsamlegt að sá sem væri ráðherra væri jafnframt þingmaður en nú er lag að breyta þessu og nú þarf að taka höndum saman um að stofna nýtt lýðveldi þar sem þjóðin hefur meira að segja um sín  málefni en hingað til hefur verið ,hendum gömlu dönsku stjórnarskránni út í hafsauga og búum til nýja sem hæfir okkar þjóð .Njörður P.Njarðvík kom þessu mjög vel til skila hvaða hugmyndir hann telur að eigi að koma til framkvæmda .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 11.1.2009 kl. 18:10

12 identicon

Tek undir þessa hugmynd.

Getum við ekki gert þetta strax?

Hvernig eru lögin, getum við ekki safnað undirskriftum og þá meina ég að gera það almennilega, fá m.a. alla atvinnulausa til að renna yfir alla þjóðskránna og það verða ALLIR spurðir hvort þeir vilji skrifa undir.

Með góðri skipulagningu tæki þetta varla langan tíma.

Getur svo forsetinn okkar ekki leyst upp þingið og fengið háskólann og ASÍ og fleiri til að nefna menn í neyðarstjórn og við semjum nýtt lýðveldi?

Ef lögin leyfa þetta, er þá eftir einhverju að bíða?

Drífum í þessu og rífum þessa þjóð upp, hún á betra skilið!

Hrafn (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 18:17

13 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Frábært! Ég held að í dag hafi orðið þáttaskil.

Nafn á framboðið --- Nýtt lýðveldi.

Þú ert góð Ólína. kv. 

Helga R. Einarsdóttir, 11.1.2009 kl. 18:17

14 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Það er nú bara þannig Ólína að um allt land eru hluthafar í flokkunum og sama hvað verður gert, við kjósum öll aftur okkar flokka eða næstum öll.

Best væri að fá að kjósa fólk ekki flokka, þannig yrði mest endurnýjunin og eigendafélög ættu þanneiginn að líða undir lok, enn vittu til þú kýst Ingibjörgu Sólrúnu aftur þó svo að hún hangi á spenanum hafandi ærnar ástæður til að slíta smstarfinu við sjálfstæðisflokkinn sem ég kýs aftur.

Ef okkur ekki tekst að koma því svofyrir fyrir næstu kosningar að fólk verði kosið en ekki flokkar þá ættum við í það minnsta að taka þátt í prófkjörum og burtu með allt það drasl sem skipaði 10 efstu sæti flokkana um síðustu kosningar, allt þetta dót er svo innvinklað í sukkið annaðhvort beint eða með þögninni, ég hef haldið því fram að í það minnsta 80% af þeim þingmönnum sem nú sitja Alþingi séu einstaklingar sem geta ekki með góðu móti skitið því að svo séu margar hendur uppí rassgatinu á þeim og þau 20% sem eftir eru geta það ekki án hjálpar.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.1.2009 kl. 18:25

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka jákvæðar og góðar undirtektir hér.

En ég er ekki vissum að nýr stjórnmálaflokkur sé endilega svarið - athugið að það  myndi þá fara fram eftir þeim leikreglum sem við búum við núna. Og það er ekki það sem við þurfum að mínu mati. Við þurfum nýtt upphaf byggt á nýjum leikreglum.

Ef forsætisráðherra sér sóma sinn í því að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórnina getur forsetinn skipað utanþingsstjórn/neyðarstjórn sem jafnframt gæti verið afbrigði af einhverskonar þjóðstjórn.

Forseti Íslands er eini embættismaðurinn í landinu sem er þjóðkjörinn. Hann gæti gert þetta (að því gefnu að Geir biðjist lausnar fyrir ríkisstjórnina) að höfðu víðtæku samráði, m.a. við Alþingi. Stjórnin yrði samt ekki samansett af alþingismönnum eða núverandi ráðherrum - heldur málsmetandi góðu fólki með þekkingu, reynslu og yfirsýn - laust við hagsmunatengsl og flokkagæslu.

Það þarf að skapa um þetta þrýsting - þess vegna með undirskriftarsöfnun. En í öllum bænum ekki fleiri stjórnmálaflokka að svo stöddu. Þeir eru alveg nógu margir. Persónumetingur og flokkarígur er ekki það sem við þurfum á að halda núna - jafnvel þó það sé undir nýjum merkjum. Það er fortíðin - nú eru nýir tímar.

Hugsum málið. Ræðum það hér - sem vandlegast.

Gerum svo eitthvað gáfulegt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.1.2009 kl. 18:47

16 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Núna er tækifæri til að gera eitthvað gáfulegt og ég mæli með þessum hugmyndum þínum Ólína.

Myndum þrísting á Ólaf að senda þingmenn heim og mynda utanþingsstjórn og kjósum svo að nýju eftir að hún hefur komið á einhverju skikki og þá er tækifæri til að annaðhvort breyta þannig að við kjósum fólk og eða í það minnsta út með 10 efstu af öllum listum síðustu kosninga.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.1.2009 kl. 18:50

17 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Það þarf að mynda þrýsting á að Geir myndi segja af sér og að Alþingi yrði rofið ,

Þá myndi kominn su staða upp að Ólafur myndi skipa þjóðstjórn og/eða neyðarstjórn sem fara myndi með völd og semja nýja stjórnarskrá sem borinn yrði undir þjóðinna sem fyrst .

í stjórnarskranni er fjallað um kosningarnar en breyta þyrfti þeim í þa´átt að kosið yrði um fólk enn ekki flokka en það eru nokkrar leiðir til þess ,finnska leiðinn svokallaða er athygliverð .þ.e. að kosið yrði um flokka en fólkið sjálft myndi raða í sæti.Írska leiðinn er frjálsari en um leið flóknari.

en það mætti byrja með því að hefja undirskriftarlista um að Alþingi yrði rofið og að Forsetinn myndi skipa neyðarstjórn ,utanþingstjórn .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 11.1.2009 kl. 19:03

18 Smámynd: Sævar Helgason

Í 64 ár hefur verið reynt að breyta þessari dönsku stjórnarskrá- án árangurs.

Stjórnmálaflokkarnir (valdaflokkarnir) hafa reynst hinn stóri þröskuldur- Hagsmunir þeirra hafa reynst ofar hagsmunum þjóðarinnar- fólksins í landinu.  Þannig að með stjórnmálaflokkana við að gera þessa breytingu  - Nýtt lýðveldi- nýja stjórnarskrá-   bara gleyma því.

Samtök um þetta eina mál að koma þessu í kring sýnist eina vonin- ekki sem stjórnmálaflokkur- heldur samtök fyrir þessa einu breytingu- síðan taka stjórnmálflokkarnir við- en við gjörbreyttar aðstæður- lýðræði.

Sævar Helgason, 11.1.2009 kl. 19:08

19 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel mælt Sævar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.1.2009 kl. 19:13

20 identicon

Ég hef aldrei sett athugasemd á blogg áður, en það var svo margt sem Njörður benti á sem ég sjálfur hef verið að hugsa um, sérstaklega þrískiptingu valdsins sem ekki hefur virkað og einnig að fækka alþingismönnum og hækka laun þeirra, einnig að alþingismenn séu ekki ráðherrar, ég hef aldrei skilið það. Það er vonandi að eitthvað gerist loksins og nú er að sjá hvort einn eða fleiri stjórnmálaflokkar taki við sér.

Kær kveðja, 

Kolbeinn Jón Ketilsson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 19:26

21 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ókey krakkar þá myndum við samtök og bjóðum fram með þetta eina málefni að breyta þessum lögum og efna til kosninga.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.1.2009 kl. 19:32

22 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Við þurfum að boða til stjórnlagaþings og semja nýja stjórnskipan - nýtt upphaf. - En þó alls ekki þannig að þing og framkvæmdavald væri hlekkjað saman með því að gera forseta þingsins að oddvita framkvæmdavaldsins líka eins og Njörður vill.

Ég fjalla um þetta hér: „Annað lýðveldið Ísland“ óhjákvæmileg nauðsyn

Kv Helgi J H

Helgi Jóhann Hauksson, 11.1.2009 kl. 19:47

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allt gott kemur annað hvort frá Guði eða útlöndum, einnig stjórnarskráin:

Björg Thorarensen, prófessor í lögum, um stjórnarskrána frá 1874, sem núgildandi Stjórnarskrá Íslands byggist á:

"Ljóst er að ýmis frelsisréttindi áttu ekki mikinn stuðning meðal íslenskra þingmanna og var tillögum um ýmis mannréttindi tekið af tortryggni, enda aðstæður hér að mörgu leyti frábrugðnar því umhverfi sem frelsiskröfur borgarastéttar í dönsku samfélagi spruttu úr.

Sérstök mótstaða var hér á landi við atvinnufrelsið, enda var það talið höggva að undirstöðum hins fábreytta íslenska bændasamfélags þar sem gildandi voru strangar reglur um vistarbönd og vistarskyldu vinnufólks og lausamennska var litin hornauga."

Konungur setti 5. janúar 1974 Íslendingum stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, án þess að hún hefði verið samþykkt af Alþingi, og þar var meðal annars kveðið á um atvinnufrelsi, friðhelgi heimilisins og eignarréttarins, réttur til framfærslustyrks og menntunar, prent-, félaga-, funda- og trúfrelsi.

Og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar var breytt árið 1995 vegna þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem Ísland hafði gengist undir með því að gerast aðili að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, til dæmis Mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindasamningum Sameinuðu þjóðanna.

Þorsteinn Briem, 11.1.2009 kl. 19:59

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Konungur setti 5. janúar 1874 Íslendingum stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, átti þetta að sjálfsögðu að vera.

Þorsteinn Briem, 11.1.2009 kl. 20:04

25 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Skora á ykkur að kíkja á svipaðar hugmyndir á www.lydveldi.is og hlusta á viðstalsþáttinn við Össur Skarphéðinsson um beint og milliliðalaust lýðræði.

Ástþór Magnússon Wium, 11.1.2009 kl. 20:06

27 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Geir segir aldrei af sér.

Hvað er hægt að gera til að hann neyðist til þess?

Eða hvaða leið er annars fær til að koma þessu af stað?

Helga R. Einarsdóttir, 11.1.2009 kl. 20:27

28 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Njörður Pétursson Njarðvík er þyngdar sinnar virði í gulli.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.1.2009 kl. 20:28

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bendi á færslu Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur um þetta mál. Ég fæ ekki annað skilið en að þau Njörður séu sest á rökstóla um framkvæmd þessa máls. Sjálfum hugnast mér betur að þessu sé stýrt af fólki sem hefur ekki haft sterka aðkomu að öðrum stjórnmálasamtökum og treysti þeim tveim flestum öðrum betur við að móta þetta afl. Það er kunnara en frá þurfi að segja að nú eru stjórnmálaflokkar byrjaðir að gera sig trúverðuga með yfirlýsingum í þessa veru. Í hverju flokki eru skuggaráðuneyti sem móta málflutning þingmanna og standa vörð um þá hagsmuni flokksins og ásýnd sem líklegust er til að auka fylgi. Um efndir þarf svo ekki að ræða fyrr en eftir á eins og dæmin sanna. Nú um stundir er trúverðugleiki flestra stjórnmálaflokka rokinn út í veður og vind.

Kosningar eru í sjónmáli á vordögum að flestra mati. Þetta framboðsafl mun ef af verður-ógna núverandi flokkum og vekja sterk viðbrögð. Af sjálfu leiðir.

Mín spá er að þegar á næstu dögum munum við fá að sjá og heyra yfirlýsingar frá miðstjórnarfundum þeirra flestra þar sem boðaðar verða byltingarkenndar breytingar á kosningalögum og hinum ýmsu þáttum stjórnarskrár okkar. Og ég er þess fullviss að einhver ykkar sem hér hafa tekið til máls munuð trúa þessu eins og nýjum fréttum af endurkomu Jesú Krists hér á jörð. Og að þið munuð ganga til kosninga og kjósa "nýja og umbreytta" flokkinn ykkar með glampa í augum.   

Árni Gunnarsson, 11.1.2009 kl. 20:37

30 identicon

Hvernig væri að stofna fjöldasamtök um þessar hugmyndir til að þrýsta á það að þær verði að veruleika?

Ari (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 20:39

31 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er gott dæmi um áhuga alþingismanna á breytingum að margframsettar hugmyndir mínar um einfaldar breytingar á kosningalögunum, sem gætu tekið gildi og verið framkvæmdar strax í næstu kosningum og ég rek í bloggpistli mínum i dag, fá ekki minnsta hljómgrunn, ekki einu sinni umræðu hjá öðrum flokkum en þeim sem ég er í.

íslandshreyfingin lagði reyndar fram hugmyndir um eflingu þingræðis og hömlur á ofríki framkvæmdavaldsins fyrir síðustu kosningar sem ekki var minnsti áhugi hjá hinum framboðunum að fjalla um.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2009 kl. 20:42

32 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Já,  líklega besta leiðin.

Kjósum til stjórnlagaþings óháð gömlu flokkunum . . . . . 

Benedikt Sigurðarson, 11.1.2009 kl. 20:53

33 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sá ekki Silfrið í dag, en er búin að horfa á Njörð og mér finnst að nú sé kominn grundvöllur til að stofna hóp/samtök utanum það sem er að mínu mati mergurinn málsins.

Okkur vantar skilmerkilegar og skilvirkar breytingar á vali okkar á þeim sem fara með stjórn landsins. Það tel ég vera mál sem muni svara kröfum margra gangrýnenda vel. Það er jú að stórum hluta stjórnkerfið sem hefur valdið þessum miklu afskiptum stjórnvalda af atvinnu og fjármálakerfi landsins.

Þetta mál þarf að skoða af fullri alvöru og beina kröftum þess hóps/samtaka að þessu máli eingöngu. Hvotr niðurstaðan verður það sem Njörður var að tala um í dag er ekki það sem ákveðið verður hér og nú. En breyting í þessaveru er það sem okkur vantar og það klárlega. Það geta svo aðrir einbeytt sér að öðrum málaflokkum, það er af nógu að taka.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.1.2009 kl. 21:25

34 Smámynd: Árni Gunnarsson

Rétt skal vera rétt. Og vissulega lagði Íslandshreyfingin fram markverðar tillögur í þessa veru fyrir síðustu kosningar. Sjálfur tel ég núna að það hafi verið slæmt að þau náðu ekki inn á þing og að markvissar aðgerðir þeirra sem settu lög til að hindra það náðu takmarki sínu. Þar er eitt skýrasta dæmið um samtryggingu pólitísku varðhundanna sem vilja vernda flokkavaldið.

Árni Gunnarsson, 11.1.2009 kl. 21:51

35 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mun taka þátt í svona hreyfingu ef af verður, sem ég vona svo innilega.

Sigrún Jónsdóttir, 11.1.2009 kl. 22:09

36 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mér virðist sem ekki séu allir að tala um sama hlutinn hér. Sumir tala um framboð aðrir um samtök.

Ég er hlynntari hugmyndinni um samtök en framboð. Fólk verður að geta stutt þessa kröfu hvort sem það er innan stjórnmálaflokka eða utan. Aðal atriðið er að knýja fram þingrof og myndun nýrrar (þjóð)(utanþings)(neyðar)stjórnar sem getur sett af stað vinnu við nýja stjórnarskrá og undirbúið stofnun nýs lýðveldis.

Ef stofnuð verða 20 þúsund manna samtök sem geta safnað jafn mörgum undirskriftum til að skora á ríkisstjórn að fara frá og forseta að setja utanþingsstjórn þá er kominn alvöru þrýstingur.

Nýtt framboð er ekki þrýstingur - það myndi bara etja kapps á gömlu forsendunum við gömlu flokkana.

Þetta er mín skoðun. En höldum áfram að hugsa og velta þessu fyrir okkur. Því meiri umræða, því fleiri og betri hugmyndir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.1.2009 kl. 22:43

37 identicon

Styð viðhorf þitt Ólína heils hugar !

Þetta á að koma frá grasrótinni, allstaðar að,viðhorf sem getur sannarlega verið sameiginleg hjá stórum hluta þjóðarinnar, burt séð frá flokkapólitík.

kv. 

Guðmundur Þór

Guðmundur Þór (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 23:09

38 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Gott Ólína.  Gerum þetta svona.  Stofnum þverpólitísk samtök um hugmynd Njarðar.

Jón Kristófer Arnarson, 11.1.2009 kl. 23:25

39 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já Ólína...ég er með!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.1.2009 kl. 23:48

40 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þá er það ákveðið.

Ég mæli með því að Ólína Þorvarðardóttir sjái um að safna þessum undirskriftum.

Þorsteinn Briem, 11.1.2009 kl. 23:48

41 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ólína, Guðmundur og Jón. Það er einmitt málið að stofna þverpólitísk samtök sem hefðu það markmið að kom á nýrri stjóraskipan (kosningalög og stjórnarskrá).

Það má ekki rugla þessu saman við framboð til Alþingis, bæði er að þá eru svo margir sem ekki geta stutt það og annað hitt að þá eru stjórnmálaflokkarnir komnir með puttana í málið og þá fara hagsmunir þeirra að ráða ferðinni. Starfandi stjórnmálamenn geta auðvitað tekið þátt í þessari vinnu, en þá í eigin nafni en ekki í umboði neins stjórnmálaflokks.

Er

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.1.2009 kl. 23:50

42 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta átti að fylgja með. = Er þá ekki bara að hefjast handa.

Æ Æ ég lenti í því sama og Bjarni Harðarson að ýta á vitlausann takka, bara ekki með jafn afgerandi afleiðingum. Maður verður að passa puttana.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.1.2009 kl. 23:53

43 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

SAMMÁLA ÞÉR STEINI BRIEM

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.1.2009 kl. 23:54

44 identicon

Er það þá næst að mótmæla við Bessastaði?

Hvernig förum við að því að skapa "Nýtt Lýðveldi"?

Allir svo sammála eitthvað, en það gerist ekkert!

Þórður J.

Þórður J. (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 00:01

45 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég legg til að Ólína semji texta og beri hann undir nokkra til að hann sé kurteislegur, afgerandi og lagalega réttur. Þetta er ekki sett fram til að vanvirða einn eða neinn, heldur að betur sá mörg augu en tvö auga. Svo held ég að rétt væri að setja saman starfshóp til að vinna að málinu. Ég verð með í þessu starfi og geri það gagn sem ég get.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.1.2009 kl. 00:01

46 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Eitt af því sem þarf að gera er að semja aðgerðaáætlun

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.1.2009 kl. 00:03

47 identicon

Sæl öll og gleðilegt nýtt ár.

Ég tek heilshugar undir orð þín Ólína, ég hlustaði einnig á Njörð í dag fannst það sem hann sagði mjög gott. Ég tel að miðað við þær aðstæður sem við búum við á Íslandi í dag að þá sé lag að breyta mörgum hlutum ef ekki nú þá hvenær?

Ég sá bloggfærslu hjá Sigrúnu Harðar nýjum þingmanni Framsóknarflokksins sem er einmitt að tala um þessa sömu hluti, þarna er nýkomin inn á Alþingi manneskja sem sér hlutina sennilega í nýju ljósi er ekki orðin samdauna umhverfinu.

Ég er miklu meira en tilbúin að leggja mitt af mörkum til að þoka þessum málum áfram. Sem dæmi má nefna að á Facebook hefur verið stofnuð grúppa um stofnun nýja stjórnaskrá. Allt þetta segir okkur eitt það er mikið afl þarna úti sem er tilbúið til virkjunar til góðra mála fyrir samfélagið.

Lifi byltingin.

Hermann Einarsson (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 00:58

48 Smámynd: Árni Gunnarsson

Spá mín var fljót að rætast. Trúum og trúhneiðgum fylgjendum gömlu flokkanna sem varið hafa þetta handónýta kerfi og hangið á því eins og hundar á roði hugnast ekki samtök sem bjóða sig fram á móti gömlu flokkunum þeirra. Nú á að knýja á stjórnvöld og fá þau til að segja af sér með einhverjum nýjum aðferðum! Auðvitað má ekki gera það á fjöldafundum því það er svo skrílslegt í augum borgaralega sinnaðs fólks. Og auðvitað er tímabært að breyta kosningalögum, stjórnarskrá og að taka upp nýtt lýðræði. En við megum að sjálfsögðu ekki gera það nema að það sé vandlega undirbúið og samþykkt af okkar farsælu stjórnmálaflokkum svo það ógni í engu fylgi þeirra í næstu kosningum. Og engum datt í hug að það kæmi til greina að kjósa amatörana í Íslandshreyfingunni til að leiða þessar breytingar. Fyrr mætti nú vera ábyrgðarleysið! Og ekkert get ég séð að þér Ólína ofbjóði til muna það athæfi þíns fólks í ríkisstjórninni að sitja sem fastast eftir stærsta efnahagshrun þjóðarinnar og segjast enga ábyrgð bera á andvaraleysinu sem olli allri skelfingunni! Þið eruð ekki þjóðin! En stór hluti þjóðarinnar er örvita af bræði vegna afneitunar á ábyrgð. Og þjóðin er viðundur í samfélagi þjóða vegna þessa hroka og þeirrar fáheyrðu heimsku alls okkar kerfis sem brást. En allir ármenn þessa kerfis sitja enn sem fastast í umboði Samfylkingarinnar. Og umheimurinn gerir taumlaust grín að öllu ráðleysinu í ótal fjölmiðlum.

En það má bara ekki gera þetta svona. Það verður að beita þetta ágæta fólk ákveðnum og umfram allt diplomatiskum fjöldaþrýstingi til að hverfa frá völdum. Þar sem enginn hefur hátt, enginn talar ógætilega og að sjálfsögðu enginn er með grímur og allir passa að skemma ekki neitt. Við skulum muna að við erum siðað og vel upp alið fólk!

"Í fljótu bragði sýnist ekki munur á gröðum hesti og geltum. En þegar fylja skal meri þá dugar aðeins sá ógelti"  (Sigurður Jónsson frá Brún.)

Árni Gunnarsson, 12.1.2009 kl. 01:08

49 identicon

Ólína og allir góðir menn hér, við verðum að koma þessu á legg. Eina leiðin til að bjarga framtíð Íslands.

Bjarni Már Bjarnason (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 01:20

50 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er fylgjandi svona aðgerðar "Nýtt lýðveldi"  losa sig við gamla flokkakerfið og koma breytingum á strax. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.1.2009 kl. 01:27

51 Smámynd: Þorsteinn Briem

Árni minn Gunnarsson. Ég sé ekkert að því að til dæmis Ómar Ragnarsson komi einnig að þessum undirbúningi ef hann hefur tíma til þess. Þó það nú væri. Og ég veit ekki betur en Ólína Þorvarðardóttir hafi gagnrýnt hér undanfarið á þessari bloggsíðu sinni bæði viðskiptaráðherrann og utanríkisráðherrann.

Þorsteinn Briem, 12.1.2009 kl. 01:53

52 identicon

Sæl öll. Er engin leið til að forseti geti sett ríkisstjórn af???? Ef um undirskriftasöfnun væri að ræða sem væri það stór og mikil, að ekki væri hægt að hunsa það ??? 

Ef við söfnum, segjum rúmlega 50% þeirra er kosningarétt hafa. það er framkvæmanlegt ef fólk er í alvöru að meina það sem það segir. 

Veit þetta einhver???

(IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 01:56

53 identicon

Þetta styð ég heils hugar. Það er von um breytingar og við getum látið það gerast. Mér líst vel á að stofna samtökin. Nýtt lýðveldi. Þegar ég sá Njörð í silfrinu í dag fylltist ég von, núna les ég að margir eru á sama máli. Gerum þetta.

Þórður Möller (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 04:25

54 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurlaug. Ráðherrar fara með æðstu miðstjórn innan stjórnsýslunnar og fara í reynd með það framkvæmdavald sem forseta Íslands er formlega veitt í Stjórnarskránni. Þeir bera ábyrgð á öllum stjórnsýsluathöfnum í þeirra eigin ráðuneytum, samkvæmt Stjórnarskránni og Lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963.

Ríkisstjórnin tekur hins vegar sameiginlegar ákvarðanir á ráðherrafundum
.

Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963:

5. grein. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði [þar sem forseti Íslands stýrir fundum] eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni."

Forseti Íslands sækir vald sitt beint til þjóðarinnar en samkvæmt Stjórnarskránni er hann ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.

Samkvæmt þingræðisreglunni getur hins vegar meirihluti þingmanna hvenær sem er lýst vantrausti á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra. Hafi slík vantrauststillaga verið samþykkt er viðkomandi ráðherra, eða ráðherrum, skylt að biðjast lausnar og þá veitir forseti Íslands þeim lausn frá embætti.

Alþingi getur með þingsályktun (meirihluta þingmanna) kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og Landsdómur dæmir um þau mál en hann hefur aldrei komið saman.

Þorsteinn Briem, 12.1.2009 kl. 04:39

55 identicon

Takk Steini.

(IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 08:56

56 Smámynd: Billi bilaði

Mikið leyst mér vel á hugmyndir Njarðar, og vonandi er hægt að koma þeim í framkvæmd. Þingræðisspillingarliðið mun þó sennilega ná að hindra það, því miður.

Billi bilaði, 12.1.2009 kl. 10:28

57 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Eg horfdi a Silfrid i gaer en sa tad med longum pasum...Eg er hinumegin a hnettinum og ekki vid odru ad buast i fjarskiptaheiminum...

Njordur P. Njardvik, kom eins og honum einum er lagid og upplysti hvernig stjornkerfi islendinga er einraedis-flokkastjorn og hvernig kaupin gerast tar innandyra..!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 12.1.2009 kl. 10:40

58 Smámynd: Sævar Helgason

Nú er bara að koma málinu í þann farveg að stjórnlagaþing verði sett og hið fyrsta. Þð virðist vera mikill einhugur meðal fólks um gagngerar breytingar á okkar stjórnarskrá.  Þegar konungur Danerkur réð hér málum var til siðs að senda honum bænaskrá með frómum óskum um hvað eina sem landsmenn vanhagaði um.

Er nokkuð annað en að setja í gang víðtæka undirskriftasöfnun með kröfu um Stjórnlagaþing . Lögfróðir gætu leiðbent um leiðina...

Sævar Helgason, 12.1.2009 kl. 10:54

59 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hér hafa komið ýmsar góðar ábendingar og hugleiðingar.

Ef þetta gæti orðið að okkur tækist að setja fram kröfu sem stenst stjórnarskrá og gildandi löggjöf, þá væri kannski leið að setja upp vefsíðu með undirskriftarsöfnun þar sem fólk myndi skrá inn nöfn og kennitölu. Ég er hinsvegar ekki það mikið tölvugúrú að ég kunni að setja slíkt upp - treysti á einhvern úr lesedahópnum að leysa það mál fyrir okkur.

En fyrst er að skoða lagalegu hliðina og ræða við þá sem vit hafa á.

Ég ætla að taka mér það bessleyfi að skoða lagalega þætti málsins og ræða við nokkra málsmetandi aðila um hugsanlega útfærslu á þessu - það tekur  kannski nokkra daga.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.1.2009 kl. 12:51

60 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ertu búin að fá einhvern tölvunörd sem getur farið í málið, ég hef einn í fjölskyldunni

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.1.2009 kl. 14:08

61 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Gott að þú byrjir á lagalegu hliðinni Ólína, ef þú villt get ég talað við nördinn og spurt hann hvort hann geti get þetta og þá á nokkurra skuldbindinga.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.1.2009 kl. 14:38

62 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hólmfríður - viltu senda mér tölvupóst olina@snerpa.is  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.1.2009 kl. 14:41

63 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Vil benda á http://www.hans.is/spjall/

Spjallþráður um málefni lýðveldisins. Stjórnendur vefsíðunnar eru ekki með pólitísk tengsl inn í flokkana. Takið þátt í að ræða um nauðsynlegar breytingar á íslensku samfélagi.

Pétur Henry Petersen, 12.1.2009 kl. 14:44

64 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er að mörgu að hyggja og við gerð nýrrar stjórnarskrár verður að setja skýrt fram það sjónarmið að þeir sem bjóða sig fram til þjónustu og trúnaðarstarfa fyrir samfélagið svo sem dómarar, þingmenn, ráðherrar og æðstu  embættismenn hafi ekki svarið öðrum félögum eða samfélögum trúnað eða tryggð sína sem stangast gæti á við hagsmuni samfélagshagsmuni okkar.

Dæmi um þetta eru tryggðareiðar Frímúrara sem heita að styðja alltaf hver við annan eftir annars leynilegum reglum og leynilegri valdaröð, - en gerast svo dómarar og embættismenn sem úthluta gæðum samfélagsins til okkar allra - og þeirra sem þeir hafa svarið sérstaka tryggð við.

- Slíkt er ótækt með öllu og allt annað sem teldist sambærilegt við það þar á meðal allir sérhagsmunir. Menn yrðu að velja, vilja þeir þjóna samfélaginu og slíta með skýrum hætti tengsl við sérhagsmuni eða vilja þeir þjóna sérhagsmununum og þá ekki að gefa kost á sér fyrir samfélagið?

- Aldrei má leika vafi á að þeir sem gegni æðstu embættum hafi ekki einhverja sérstaka tryggð og trúnað við aðra hagsmuni, félög eða samfélög umfram skyldur sínar við okkur.

Helgi Jóhann Hauksson, 12.1.2009 kl. 14:46

65 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Það er mín skoðun að það eigi að sameinast um þessar hugmyndir á netinu og setja upp eða flytja fyrrnefnt spjallsvæði þar inn eða tengjast því þaðan. Í fyrstu þarf að koma með hugmyndir og umræðu og halda utan um þær mörgu greinar sem að hafa komið inn á þetta. Svo þarf að velta fyrir sér framkvæmdinni.

Pétur Henry Petersen, 12.1.2009 kl. 14:47

66 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er viðkvæmt mál en býr yfir kjarnanum í því sem þarf að gera þ.e. aðskilja hagsmuni og að allt sé án augljóss tilefnis til að tortryggja, að fyrir nokkrum árum þegar Jóhanna Sigurðardóttir reyndi að koma fram tillögu sem krefðist þess að dómarar sem væru aðilar að leynireglum eins og Frímúrurum viku sæti þegar reglubræður ættu í hlut

- þá kom Njörður P Njarðvík fram fyrir hönd Frímúrara, Frímúrurum til varnar sem stórmeistari alþjóðlegu Sam-frímúrarareglunnar ef ég hef skilið þingskjalið rétt. Jóhanna vísaði til slíkra regla erlendis en hér var þetta auðvitað slegið útaf borðunum, þ.e. allt í lagi þótti að dómarar dæmdu í málum reglubræðra sem þeir hefðu svarið tryggð við. - Það er kjarninn í hagsmunaárekstraspillingu Íslendinga og því miður gerir það Njörð P Njarðvík vanhæfan um að taka þátt í að semja nýja stjórnarskrá fyrir okkur ef hann hefur svarið öðru samfélagi forlegan tryggðar eyð.

Sjá:  http://www.althingi.is/altext/122/03/r05112145.sgml

Og klipp úr þingskjalinu:

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að taka fram að með þessari brtt. er ekki verið að banna dómurum að vera í frímúrarareglunni eins og lesa má úr grein sem stórmeistari Alþjóða Sam-Frímúrarareglunnar ritar í Morgunblaðinu í gær. Það er lagt í vald nefndar um dómarastörf að meta það eins og hún á að meta hvaða aukastörf samrýmast dómarastörfum. Grein stórmeistara Alþjóða Sam-Frímúrarareglunnar er nokkuð sérkennileg þar sem hann leggur út af í grein sinni, í tilefni þessarar tillögu, hvort dómarar megi eiga vini, sem er afar sérstæð og furðuleg útlegging á tilgangi þeirrar brtt. sem ég mæli hér fyrir. Ekki hvarflar að mér að rengja það sem stórmeistari Sam-Frímúrarareglunnar segir í grein sinni og reyndar má lesa í ýmsum bæklingum og bókum, t.d. um grundvallarskipan frímúrarareglunnar, sem ég hef farið yfir, en þar er mikið rætt um að frímúrarareglan sé mannræktarfélag. Það hvarflar ekki að mér að rengja það, herra forseti, af því ég hef ekki neinar forsendur til að meta það af því að leynd hvílir yfir öllu starfi frímúrara. Og það er einmitt kjarni málsins. Frímúrarar halda því að vísu fram að frímúrarareglan sé ekki leyniregla, og Njörður P. Njarðvík getur um það líka í grein sinni í Morgunblaðinu í gær, en í hinu orðinu segir hann orðrétt: ,,Mér er það auðvitað vel ljóst að ýmsir fordómar hafa komist á kreik vegna leyndar í starfi frímúrara ...``, herra forseti. Stórmeistarinn segir ,,vegna leyndar í starfi frímúrara``. Og kannski er það svo einmitt vegna leyndar í starfi þeirra að í kringum það hafa skapast tortryggni, getsakir og á stundum fordómar sem leitt hafa hugann að því, ekki bara hér á landi heldur víða annars staðar, hvort það samrýmist t.d. störfum dómara að vera í frímúrarareglunni og a.m.k. sé fyrir því séð að þeir víki í starfi dómara þegar verið er að dæma í máli reglubróður. Í Noregi og öðrum löndum hefur verið nokkur umræða um störf dómara og þátttöku þeirra í frímúrareglum. Umræðan hefur snúist um að þar sem um sé að ræða að aðili máls og dómari sé frímúrari gefi það tilefni til að veikja þá tiltrú sem fólk eigi að hafa á sjálfstæði dómstóla. Þar er einmitt tiltekið að þátttaka almennt í félagsskap leiði ekki til vanhæfis en það sem einkenni og gefi frímúrarareglunni sérstöðu sé hve hún er lokaður félagsskapur sem umlukinn er dulúð og leynd.

Það sem er athyglisvert líka er að í Noregi gerir hæstiréttur þar t.d. greinarmun á Rotary-félögum og frímúrurum og segir að Rotary-félagsskapurinn sé af öðrum toga en frímúrarar. Þetta nefni ég af því að þeir sem andmæla þeirri tillögu sem ég mæli hér fyrir bera þessi félög stundum saman.

Helgi Jóhann Hauksson, 12.1.2009 kl. 15:34

67 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Hverjir gætu valist til að skipa í "utanþingsstjórnina"?

Eru nokkrir embættismenn á Íslandi sem ekki eru "frændur og vinir Kaninku"?

Hvernig er farið að því?

Helga R. Einarsdóttir, 12.1.2009 kl. 15:35

68 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá árinu 1919 hafa setið hér sautján utanþingsráðherrar, þar á meðal núverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og sá síðasti þeirra var Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins.

Kóka kóla-stjórnin (ráðuneyti Björns Þórðarsonar 1942-1944) var utanþingsstjórn skipuð af Sveini Björnssyni ríkisstjóra og síðar forseta Íslands, sem þó var aldrei kosinn forseti af þjóðinni. Í stjórninni voru eigendur Coca Cola-verksmiðjunnar hér, Vilhjálmur Þór og Björn Ólafsson.

Í ríkisstjóratíð sinni var Sveinn Björnsson umdeildur meðal margra stjórnmálamanna sem fannst hann fullráðríkur. Sveinn leysti stjórnarkreppu í landinu árið 1942 með því að skipa eigin utanþingsstjórn en það er eina skiptið sem til slíks hefur verið gripið.

Í forsetakjörinu á Þingvöllum 17. júní 1944, þegar íslenskt lýðveldi var stofnað, skyldi Alþingi kjósa fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs en síðan yrði hann þjóðkjörinn. Almenningur taldi sig mega búast við að Sveinn Björnsson hlyti einróma stuðning þingsins en þegar til kom hlaut hann aðeins 30 atkvæði þeirra 52 sem þá sátu á Alþingi, eða 58% atkvæða.

Þorsteinn Briem, 12.1.2009 kl. 15:47

69 Smámynd: Árni Gunnarsson

Afar athygliverð ábending hjá þér Helgi Jóhann. Það er ævinlega afar áríðandi að þeir einstaklingar sem bjóða sig fram til siðbótar hafi trúverðugan bakgrunn. Hvað Njörð P. Njarðvík áhrærir og vegna þess að nafn hans hefur hér verið nefnt oftar en ýmsra annara þá tek ég fram að ég er ekki talsmaður hans sem frambjóðanda, né nokkurs annars einstaklings. Enda hef ég enga stöðu til að tala máli neinna slíkra.

Og til að forða þeim skilningi að hvatvíslegt innlegg mitt hér að ofan beinist að Ólínu Þorvarðardóttur þá fer því fjarri. Ég treysti - og hef ævinlega treyst - því að hún komi fram af fullum heilindum þegar hún tekur til máls. Og ég veit að hún mun vinna því samkvæmt í þessu máli hvernig sem hennar aðkoma verður.

Árni Gunnarsson, 12.1.2009 kl. 16:58

70 identicon

Já, þarna er ég sammála þér Ólína. En ég sé þó einn hæng á þessu. Þegar þetta "nýja" framboð er komið til valda, þá held ég að þeir verði alveg eins og allir hinir (sem við þekkjum svo vel í dag). Það yrði með einhverju móti að tryggja það að þeir lægju ekki á sínu valdi eins og ormar á gulli, myndu setja kosningar á frost og tefja málið, bara til að halda völdum. Ég hef því miður ekki meiri trú á íslendingum, þessa stundina. Held að það skipti ekki máli hver er hvar, allstaðar er einginhagsmunir settir fram fyrir hagsmuni heildarinnar.

Góðar stundir.

Jóhann Örn (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 23:45

71 identicon

Myndi fólk ekki flykkjast um þetta ef fyrir því stæðu nöfn sem merkja traust. Þorvaldur Gylfason, Lilja Mósesdóttir, Vilhjálmur Árna, Egill Helgason, Hörður Torfa, Sigurður Líndal, Katrín Oddsdóttir, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Gerður Kristný, Margrét Pétursdóttir, Katrín Jakobsdóttir....

Ef þetta yrði gert fyndist mér að það yrði að vera gert á mjög lyðræðislegan hátt. Jafnvel að þessi traustsins hópur myndi sjá um framboð fyrir þessi samtök þar sem fólkið í landinu gæti kosið... Bara hugmynd.

Það yrði einhvern veginn að vera tryggt að flokkakerfið yrði leyst upp. Jafnvel yrði bara kosið fyrst um sinn hópur sem til 3-4 mánaða myndi vera klofinn í tvær greinar, Ein greinin myndi semja ný stjórnsýslu og kosningalög og hin greinin myndi fara í björgunaraðgerðir fyrir landið. Síðan eftir þessa fjóra mánuði gæti fólkið í landinu kosið FÓLK, en ekki flokka. Þessi traustsins hópur myndi hafa yfirumsjón með framboðinu, en ekki vera í framboði. Síðan myndu þeir sem kosnir yrðu til fjögurra mánaða sjá um fyrstu alvöru kosningar nýs lýðveldis :)

P.S. vildi bara láta vita að síðan Nýtt lýðveldi punktur is liggur niðri.....

kv.

Árný

Árný Elínborg Ásgeirsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband