Færsluflokkur: Enski boltinn

Ný von fyrir heiminn og: Burt með spillingarliðið!

obama8.jpg Kjör Baracks Obama í embætti forseta Bandaríkjanna gefur heiminum von um nýja tíma - nýjar áherslur og gildi. Ekki veitir af í harðindum heimsbyggðarinnar þessar vikur og mánuði. Með þessu kjöri hafa Bandaríkjamenn gert upp við stríðshörku, óheftan kapítalisma, kynþáttamisrétti og annan yfirgang. Þetta er þeirra leið til þess að leiðrétta kúrsinn. Og trúlega eru þetta meiri tíðindi fyrir Bandaríkin og heimsbyggðina alla en maður meðtekur í fljótu bragði.

Karl Th. Birgisson orðaði það afar vel í sjónvarpsumræðum í gær þegar hann dró upp tvær einfaldar myndir með orðum til að lýsa þessum tíðindum, og sagði eitthvað á þessa leið: Þegar bandaríska þjóðin fær að sjá Barack Obama sverja forsetaeiðinn - og verða vitni að því þegar þessar fallegu þeldökkur telpur hans hlaupa um ganga Hvíta hússins, af því þær eiga heima þar - þá hafa orðið mikil tíðindi hjá þessari þjóð.

Skyldum við Íslendingar bera gæfu til þess að gera viðlíka breytingar á okkar gildum? Eins og nú horfir virðast litlar líkur til þess. Því miður.

Ég ætla því að enda þetta spjall með sömu áskorun og síðustu tvo daga, um leið og ég skora á alla bloggara landsins að setja sambærilegt ákall inn á síður sínar, án tillits til umræðuefnisins, og láta ekki af áskorun sinni fyrr en eitthvert jákvætt skref verður tekið af ráðamönnum til að uppræta spillingu og endurvinna traust landsmanna:

Burt með stjórn Seðlabankans og bankastjórana þrjá. Burt með Fjármálaeftirlitið, stjórn þess og starfslið. Burt með alla þá starfsmenn bankanna sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun eða undanfæri fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem samþykktu ósómann með beinum eða óbeinum hætti, þögn eða aðgerðaleysi.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægum stofnunum ekki treyst

Maður er nú ekkert hissa á þessum 9% eftir allt sem á undan er gengið og sjálfsagt er enginn hissa - nema kannski Vilhjálmur. Hann virðist enn halda að hann eigi eitthvað inni hjá kjósendum. Whistling 

Og innan við helmingur treystir Alþingi! FootinMouth Það er svakalegt - af því við erum jú að tala um sjálfa löggjafarsamkunduna.

En ég er undrandi á því að einungis 68% skuli treysta heilbrigðiskerfinu. Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir þá sem þar halda um stjórnartauma. Við eigum bara eitt heilbrigðiskerfi . Í raun ætti almenningur að bera sama traust til heilbrigðiskerfisins og Háskóla Íslands - en það er ekki svo. Það finnst mér áhyggjuefni.

nurseB

 Mín tilgáta er sú að hin linnulausa hagræðingarkrafa sem gerð er í heilbrigðiskerfinu sé loks að skila sér í skertu trausti almennings á þessu kerfi. Að sjúkrahúsin séu einfaldlega orðin of stór og vélræn á kostnað mannlegra samskipta og umhyggu. 

Sjúkrahús á ekki að reka í of stórum einingum. Framleiðslufyrirtæki eins og kjúklingabú geta notið hagræðingar stærðarinnar og samlegðaráhrifa á markaði. En sjúkrahús eru þjónustustofnanir og því lúta þau öðrum lögmálum.

Í þjónustu gildir að hafa smærri einingar til að tryggja nálægð við þá sem njóta þjónustunnar, og til að tryggja sveigjanleika og viðbragðsflýti þegar á þarf að halda. Þetta segja að minnst kosti stjórnunarfræðin sem ég stúderaði hér um árið. En sú speki virðist nú ekki höfð í hávegum hér á landi. Að minnsta kosti hefur miklu verið til kostað á undanförnum árum til að sameina sjúkrahúsin og stækka þau sem stjórnsýslueiningar - til skaða fyrir þiggjendur heilbrigðisþjónustu, held ég.

Sparnaðarkrafan hefur orðið til þess að deildum er lokað, sjúklingar útskrifaðir fyrr en ella, mannafla er haldið í lágmarki og hagræðing í rekstri virðist stundum ráða meiru um ákvarðanir í kerfinu eru en umhyggja fyrir sjúklingunum. Þetta hefur grafið undan trausti.

 Traust er ekki sjálfgefið - þess þarf að afla.

 

 


mbl.is Aðeins 9% treysta borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband