Færsluflokkur: Menntun og skóli

Barnavernd á erfiðum tímum

barnavernd Þegar þrengir að efnahag þjóðarinnar er ástæða til þess að huga betur en nokkru sinni að velferð barna. Opinberar tölur sýna mikla fjölgun barnaverndarmála á fyrstu mánuðum þessa árs, einkanlega í Reykjavík þar sem tilkynningar til barnaverndarstofu borgarinnar voru 40% fleiri en á sama tíma árið áður. Vera kann að þessi aukning beri vott um vaxandi vitund almennings um barnaverndarmál. Engu að síður er full ástæða til að taka þetta alvarlega sem vísbendingu um versnandi hag barna og fjölskyldna þeirra.

Börn eru saklaus og varnarlaus. Þau eru framtíð þjóðarinnar og að þeim verðum við að hlúa, ekki síst þegar illa árar.

Ég tók málið upp við félags- og tryggingamálaráðherra í fyrirspurnartíma í þinginu í morgun. Umræðuna í heild sinni má sjá hér

 -----------

PS: Meðfylgjandi mynd tók ég af vef mbl.is - hún var þar merkt Ásdísi.


Kjör námsmanna

Austurvöllur LÍN er orðið algjört grín nefnist  athyglisverð grein eftir Dagnýju Ósk Aradóttur laganema og fv formann Stúdentaráðs HÍ. Þar rekur hún fyrir lesendum kjör námsmanna sem þurfa að reiða sig á framfærslulán LÍN. Fram kemur að námslán einstaklings í eigin eða leiguhúsnæði eru 100.600 krónur á mánuði. Tekjuskerðingin er síðan 10% þannig að námsmaður sem er með 800.000 krónur í tekjur á síðasta ári (t.d. 200.000 krónur á mánuði í heildartekjur fyrir fjögurra mánaða sumarvinnu) fær 91.711 krónur á mánuði þá níu mánuði sem hann stundar námið hér heima. Þá á hann eftir að greiða húsaleigu - sem varla getur verið mikið minni en 40-50 þúsund á mánuði - sem þýðir að hann hefur kannski 10-12 þús krónur milli handa í viku hverri. Það er varla fyrir mat.

Dagný ræðir ekki um kjör erlendra námsmanna, svo mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að því efni.

Námsmenn erlendis fá greidda 9 mánaða framfærslu á skólaári, og gildir þá einu þó að skólaárið sé í reynd 10 mánuðir víða, eins og t.d. í Danmörku. Mánaðarleg útborgun til nemanda sem býr einn í íbúð ætti að vera 7200 dkr á mánuði en er í reynd 6400 dkr þar sem skólaárið er 10 mánuðir.  Lánin eru greidd eftir á þannig að nemendur eru alltaf með yfirdrátt í banka. Vextirnir af yfirdrættinum fylgja stýrivöxtum og hafa því farið í 19%. Meðalhúsaleiga fyrir stúdenta í Danmörku er 3500 - 4000 dkr á mánuði, þannig að þá sér hver maður að ekki er mikið eftir.

Námsmenn erlendis reiða sig algjörlega á framfærsluna frá LÍN. Þeir hafa ekki stuðningsnet fjölskyldunnar (geta t.d. ekki skroppið í mat til foreldra) auki þess sem atvinnumöguleikar þeirra eru skertir við núverandi aðstæður. 

Það er því ekki mjög freistandi fyrir ungt fólk að setjast á skólabekk um þessar mundir. Það krefst ódrepandi áhuga, staðfestu og seiglu.

Loks er umhugsunarefni að atvinnuleysisbætur á Íslandi eru nálægt 150 þús kr á mánuði, eða um þriðjungi hærri en námslánin. 

Þetta þarf að athuga betur.


Málþófið sigraði - lýðræðið tapaði

althingishusid_01 Með málþófi og fundatæknilegum bolabrögðum hefur Sjálfstæðismönnum tekist að ýta stjórnlagaþinginu út af borðinu. Málinu sem vakti vonarneistann með þjóðinni um að nú væri hægt að byrja eitthvað frá grunni: Semja nýjar leikreglur, veita fólkinu vald til þess að koma að samningu nýrrar stjórnarskrár - virkja lýðræðið í reynd. Já, málinu sem var til vitnis um það - að því er virtist - að stjórnvöld, þar á meðal Alþingi, hefðu séð að sér; að þau vildu raunverulega sátt við þjóð sína, fyrirgefningu og nýtt upphaf.

Það var auðvitað allt of gott til að geta verið satt. Og auðvitað var það Sjálfstæðisflokkurinn sem þumbaðist og rótaðist um eins og naut í flagi til að stöðva málið. Til þess þurftu þeir að skrumskæla leikreglur lýðræðisins og málfrelsið sem því fylgir; halda uppi málþófi og tefja störf þingsins. 

Það var þeim líkt.


mbl.is Stjórnarskráin áfram á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rífandi gangur!

Holastoll Það veitti mér ákveðna vongleði - á ferð minni um Skagafjörð í dag - að finna bjartsýni og framkvæmdahug heimamanna. Já, mitt í öllu krepputalinu sem dynur á okkur dag eftir dag, líta Skagfirðingar vondjarfir fram á veg. 

Á Sauðárkróki eru öflug atvinnufyrirtæki. Eftirtektarvert er að sjá hvernig Kaupfélag Skagfirðinga nýtir afl sitt til þess að styðja við nýsköpun og byggja upp atvinnulífið á staðnum. Það á og rekur fiskvinnslu, vélaverkstæði, verslun og fleira - er sannkallaður máttarstólpi í héraði.

Í Verinu - sem er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur - eru stundaðar rannsóknir í líftækni, fiskeldi og sjávarlíffræði á vegum Háskólans á Hólum og Matís. Þar er hugur í mönnum og þeir eru að tala um stækkun húsnæðisins.

Í fjölbrautaskólann er líka verið að tala um stækkun húsnæðis þar sem verknámið er að sprengja allt utan af sér. Á öðrum stað í bænum, í fyrirtækinu Íslenskt sjávarleður hf.,  er verið að framleiða og þróa vörur úr fiskroði og lambskinni og gengur vel. 

Skagfirðingar standa nú í hafnarframkvæmdum. Ferðaþjónusta er þar vaxandi atvinnugrein í Skagafirði, sömuleiðis hestamennskan. Er það ekki síst að þakka Háskólanum á Hólum þar sem starfræktar eru ferðamáladeild og hestafræðideild auk fiskeldis- og fiskalíffræðideildar.  Þar var líka gaman að koma og sjá gróskuna í skólastarfinu (vel hirt hross í hundraða tali og nemendur einbeitta við nám og störf). 

Ég notaði tækifærið og heimsótti líka Hvammstanga, Blönduós og Skagaströnd. Það var gaman að koma á þessa staði. Á Skagaströnd eru líka ýmsir sprotar að vaxa. Þar er sjávarlíftæknisetrið BioPol, og fyrirtækið Sero þar sem unnið er með fiskprótein. Þar er líka Nes-listamiðstöð sem er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamönnum er gefinn kostur á vinnuaðstöðu og húsnæði um tíma. Þegar ég leit þar inn voru fjórir listamenn að störfum, þrír erlendir og einn íslenskur.´

Mér var hvarvetna vel tekið. Ég var leidd um fyrirtæki og stofnanir, kynnt fyrir fólki og frædd um hvaðeina sem laut að atvinnulífi staðanna, sögu, menningu og staðháttum. 

Er ég nú margs vísari og þakklát öllum þeim sem aðstoðuðu mig og upplýstu.

 

 


Hver á að njóta vafans - starfsmaðurinn eða barnið?

skólabarn Þegar grunur leikur á að barn hafi þrisvar sinnum verið slegið af starfsmanni á leikskóla og rannsaka þarf málið - hver á þá að njóta vafans? Starfsmaðurinn eða barnið?

Í mínum huga er enginn vafi á því - með fullri virðingu fyrir réttindum starfsmannsins - að barnið á að njóta vafans. Það er ekki nóg að bjóða foreldrunum að flytja barnið úr sínu daglega umhverfi á annan leikskóla. Barnið á rétt á því að vera á sínum leikskóla, og líði því vel að öðru leyti, er ástæðulaust að flytja það annað. Barnið á rétt á öruggu umhverfi.

Þess eru dæmi úr öðrum starfsgreinum að starfsfólki er vísað tímabundið úr starfi meðan rannsókn á meintum brotum þess stendur yfir. Það fer að vísu eftir alvarleika málsins. En starfsmenn leikskóla verða líka að fá tvímælalaus skilaboð um að það er óásættanlegt að slá til barna. Ekkert foreldri á að sætta sig við slíka meðferð á barni sínu.


mbl.is Sló barn utan undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óréttlætið gagnvart landsbyggðinni

KubburOddurJonsson Ég finn sárt til þess - þar sem ég hef búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár - hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi.

Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi.

Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Meðal þess sem hefur hamlað vexti og viðgangi byggðanna á Vestfjörðum eru samgöngurnar. Þar þarf að gera stórátak. Þá er ég ekki bara að tala um vegina, sem eru fjarri því að vera viðunandi. Ég er líka að tala um flugvelli og hafnaraðstöðu sem atvinnulífið þarf svo mjög á að halda vegna aðfanga og vöruflutninga.

Háhraðatengingar og önnur fjarskipti þarf líka að stórbæta svo íbúar svæðisins geti vandræðalaust nýtt sér tækni og fjölbreytta menntunarkosti. Að ég tali nú ekki um raforkuflutninga sem vitanlega eru grunnforsenda allrar þjónustu.

Þetta sem nú er nefnt eru sjálfsagðir hlutir í nánast öllum byggðum landsins - nokkuð sem ekkert samfélag getur verið án.

Fari svo að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn mun það verða hlutskipti flokksins  að koma að endurreisn samfélagsins á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Gleymum því ekki að jafnrétti snýst ekki bara um aðstöðumun einstaklinga heldur líka landshluta og svæða. Eins og málum er háttað njóta íbúar Vestfjarða ekki jafnréttis á við íbúa annarra landshluta.

 


Skömm og sómi ... í sama fréttatíma!

 Ég er heilshugar fegin (já, og stolt af því) að Ingibjörg Sólrún skuli nú hafa tekið af skarið og fordæmt innrás Ísraelshers á varnarlausa borgara á Gaza. Þess meira undrandi (já, og hneyksluð) er ég á því að menntamálaráðherra skyldi í útvarpsfréttum í morgun tjá sig um ástandið á Gaza eins og hún væri þess umkomin að tala um utanríkismál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Hvað gekk Þorgerði Katrínu til? Er hún að storka utanríkisráðherra? Er hún að storka stjórnarsamstarfinu? Það var nú ekki eins og menntamálaráðherrann hefði mikið eða viturlegt um málið að segja - það sem hún sagði var bara hugsunarlaus upptugga af ummælum Bush frá í gær. Þarna finnst mér Þorgerður Katrín hafa gengið of langt - hún varð sér einfaldlega til skammar.

Hvenær hefði það gerst að utanríkisráðherra færi í útvarpsviðtal til þess að svara fyrir pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar í menntamálum? Það er orðið þreytandi að sjá þennan tiltekna ráðherra hlaupa til hvenær sem færi gefst í viðtöl. Nú síðast vegna þess að það náðist ekki strax í forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann - til þess að segja svo ... eiginlega ekki neitt af viti.

Þeir vita það þá hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni - næst þegar ekki næst samband við menntamálaráðherrann í eina eða tvær klukkustundir - að þá er þeirra tækifæri til þess að tala um menntamál í útvarpið. Sérstaklega ef þeir vilja tjá skoðanir sem eru á skjön við afstöðu fagráðherrans.

Er hægt að vinna með fólki sem hagar sér svona?


mbl.is Fordæmir innrás á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag tók lítil stúlka til máls ...

Í dag tók lítil stúlka til máls og mannfjöldinn klappaði henni lof í lófa. Hún var vel máli farin og falleg lítil stúlka - kannski verður hún stjórnmálamaður einn daginn. En þessi litla stúlka með fallega nafnið er afar reið og áhyggjufull. Hún hefur meiningar um frammistöðu stjórnmálamanna, viðveru þeirra í vinnunni, ábyrgð þeirra á kreppunni og margt fleira.

Það tók á mig að sjá þetta reiða barn tala á fjöldasamkomu fyrir fullorðna. 

Nú spyr ég mig hvort ég hefði viljað sjá mitt eigið barn í þessum sporum - átta ára gamalt. Hjarta mitt svarar því neitandi. Höfuðið sömuleiðis. Svar höfuðsins á ég auðveldara með að rökstyðja, það er einfaldlega þetta: Allir sem starfa með börnum og fyrir þau hafa lögbundna skyldu til að sýna þeim "virðingu og umhyggju" og taka ævinlega mið af hag þeirra og þörfum í hvívetna. Það á ekki að leggja meira á barn en aldur þess og þroski leyfir.

Þegar átta ára gamalt barn er sett fyrir framan mikinn  mannfjölda sem fagnar reiðiorðum þess með klappi og fagnaðarlátum - þá má kannski segja að verið sé að sýna sjónarmiðum þess virðingu. En hvað með þroska barnsins og tilfinningar? Hefur átta ára gamalt barn gott af því að vera virkur þáttakandi á mótmælafundi sem haldinn er vegna bágra efnahagsaðstæðna og kreppu?

Dimmblá litla upplýsti að pabbi hennar hefði hjálpað henni með ræðuna. Það þýðir að hann  hefur rætt málið við hana - enda mátti heyra á máli hennar skoðanir og viðhorf sem barn finnur ekki upp hjá sjálfu sér heldur meðtekur frá öðrum. Dimmblá litla er uppfull af erfiðum, neikvæðum tilfinningum vegna stöðunnar í samfélaginu.  Átta ára gamalt barn í þeirri stöðu hefur augljóslega ekki verið verndað fyrir reiði og áhyggjum á þeim erfiðu tímum sem nú fara í hönd.

Því miður.

Woundering

PS: Ég sé að ég er ekki ein um þessa skoðun - bendi ykkur á að lesa líka bloggfærslur Jennýjar Önnu og Þorleifs Ágústssonar

 


Skammarleg frammistaða LÍN

sine Lánasjóður íslenskra námsmanna á skömm skilið fyrir slælega frammistöðu gagnvart námsmönnum erlendis. Á annað hundrað námsmenn hafa nú beðið í tvo mánuði eftir afgreiðslu svokallaðra neyðarlána sem menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðuneytið lofuðu námsmönnum fyrr í haust. Menntamálaráðherrann sló sér meira að segja upp á þessu og maður trúði því eitt andartak að einhver alvara eða umhyggja lægi þar að baki. Síðan hafa sjö - já hvorki meira né minna en sjö námsmenn af 130 umsækjendum - fengið jákvætt svar um neyðarlán. Sjóðurinn túlkar umsóknirnar eins þröngt og hugsast getur og finnur þeim allt til foráttu. Á meðan mega námsmenn í neyð bara bíða rólegir.

Unga konan sem ekki gat talað ógrátandi við fréttamann Kastljóssins í kvöld þegar hún var beðin að lýsa aðstæðum sínum - hún er ein þeirra sem nú á að bíða róleg ef marka má þá sem bera ábyrgð á aflgreiðsluhraðanum hjá LÍN. Já, engan æsing hérna! Þetta verður alltsaman athugað í rólegheitunum.

Þetta nær auðvitað engri átt. Angry

Og það var vægast sagt vandræðalegt að hlusta á Sigurð Kára - formann menntamálanefndar Alþingis - reyna að mæla þessu bót í Kastljósi kvöldsins. Hann talaði eins og það hefði verið menntamálanefndin (eða ráðuneytið) sem átti frumkvæði að því að athuga með stöðu námsmanna erlendis. Ég man þó ekki betur en það hafi verið námsmannasamtökin sjálf (SÍNE) sem vöktu athygli ráðamanna á bágu ástandi námsmanna  í útlöndum. Það voru námsmenn sjálfir sem settu fram beinharðar tillögur að lausn vandans til þess að flýta fyrir henni. Raunar brugðust bæði menntamálanefnd og -ráðuneyti skjótt við - en það sama verður ekki sagt um stjórn LÍN.

Það hlýtur eitthvað mikið að vera athugavert þegar einungis sjö af um 130 umsóknum um neyðarlán hafa verið afgreiddar á tveimur mánuðum. Það er ekki eðlilegt að virða umsækjendum allt til vansa og vammar þegar meta skal þörf þeirra fyrir neyðaraðstoð.

Nógu erfitt er fyrir námsmenn að fá aðeins eina útborgun á önn, eftir að önninni er lokið, og þurfa að fjármagna framfærslu sína með bankalánum meðan beðið er eftir námsláninu. Og þegar það er fengið, dugir það rétt til að gera upp við bankann vegna annarinnar sem liðin er - og svo þarf að taka nýtt bankalán til að fjármagna önnina sem er framundan.

Það segir sig sjálft að þetta siðlausa fyrirkomulag þjónar ekki námsmönnum - það þjónar fyrst og fremst bönkunum sem þar með geta mjólkað lánakostnaðinn önn eftir önn eftir önn - árum saman.

Bandit

Ef einhver dugur er í menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðherra þá verður núna stokkað upp í stjórn LÍN og stjórn og starfsliði sjóðsins gerð grein fyrir því hver sé raunverulegur vilji ráðmanna í þessu máli.


Samvinna eða samkeppni - gæði eða magn!

pallsk Í kvöld hlustaði ég á Pál Skúlason heimspeking og fyrrum Háskólarektor í samtali við Evu Maríu (hér). Honum mæltist vel að venju og ósjálfrátt varð mér hugsað til þess tíma þegar ég sat hjá honum í heimspekinni í den. Það voru skemmtilegir tímar, miklar samræður og pælingar, og eiginlega má segja að þar hafi ég hlotið mína gagnlegustu menntun.

Heimspekin kennir manni nefnilega að hugsa - hún krefur mann um ákveðna hugsunaraðferð sem hefur svo sárlega vantað undanfarna áratugi. Það er hin gagnrýna hugsun í bestu merkingu orðsins gagn-rýni.

Mér þótti vænt um að heyra þennan fyrrverandi læriföður minn tala um gildi samvinnu og samhjálpar. Þessi gildi hafa gleymst á meðan skefjalaus samkeppni hefur verið nánast boðorð meðal þeirra sem fjallað hafa um landsins gagn og nauðsynjar hin síðari ár. Lítil þjóð þarf á því að halda að sýna samheldni og samvinnu - menn verða að kunna að deila með sér, eiga eitthvað saman. Þetta er eitt það fyrsta sem börn þurfa að læra, eigi þau að geta verið með öðrum börnum. Samvinnuhugsunin hefur hins vegar átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár - og það er skaði.

Samkeppni og önnur markaðslögmál geta auðvitað átt rétt á sér - eins og Páll benti á - en það má ekki yfirfæra þau á öll svið mannlegra samskipta. Samkeppni getur í vissum tilvikum komið niður á mannúð og gæðum þar sem þörf er annarra sjónarmiða en markaðarins. Hún getur til dæmis orðið til ills í skólastarfi, innan heilbrigðiskerfisins eða í velferðarþjónustunni. Og þó svo að þetta virðist sjálfsagðir hlutir, þá þarf stöðugt að minna á þá - það sýnir reynslan.

Lítum til dæmis á endurskipulagningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hún ekki einmitt tekið mið af hagræðingu, samruna, stækkun og samlegðaráhrifum líkt og gert er við framleiðslufyrirtæki? Mér hefur sýnst það - þegar nær hefði verið að taka mið af því að starfsemi sjúkrahúsanna er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta. Og það gilda önnur lögmál um þjónustu en framleiðslu

Í framhaldsskólakerfinu hafa fjárframlög til skólanna miðast við fjölda þeirra nemenda sem þreyta próf um leið og áhersla hefur verið lögð á að stytta námstíma þeirra til stúdentsprófs. Fyrir vikið hafa skólar keppst um að fá til sín sem flesta nemendur og útskrifa þá á sem skemmstum tíma. Slík framleiðsluhugsun getur átt fullan rétt á sér í kjúklingabúi, en hún á ekki rétt á sér þar sem verið er að mennta ungt fólk og búa það undir lífið. 

Já, það vöknuðu ýmsar hugleiðingar við að hlusta á tal þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu í kvöld. Hafi þau bestu þakkir fyrir þennan góða viðtalsþátt.

 FootinMouth

PS: Ummæli Páls um landráð af gáleysi eru líklega gagnorðasta lýsingin á því sem gerðist á Mikjálsmessu þann 29. september síðastliðinn. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband