Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Þegar bjarga þarf verðmætum er lotuvinna það sem gildir
10.3.2009 | 10:18
Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að Alþingi á að starfa í sumar. Eins og sakir standa eru svo mörg og veigamikil verkefni óunnin í endurreisninni eftir bankahrunið að það verður að taka á þeim hratt og vel. Alþingismenn ættu að gefa tíma sinn að þessu sinni, vinna skipulega og af hugmóði. Þingleyfinu má fresta. Það mætti líka stytta það.
Við þekkjum það Vestfirðingar - já og þeir sem búa í sjávarbyggðum - hvernig það er að vinna í lotum. Það er inngróið í okkar atvinnumenningu að leggja nótt við dag þegar bjarga þarf verðmætum.
Nú liggur þjóðarbúið sjálft undir og þá dugir ekki að fara í sumarfrí.
Steinunn Valdís: Vill að þingið starfi í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvernig er þá hin "harða" frjálshyggja?
3.3.2009 | 13:40
Bjarni Benediktsson formannskandídat í Sjálfstæðisflokknum hafnar því að hörð frjálshyggja hafi ríkt í landinu. Einmitt.
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja sem réði krosseignatengslum og taumlausri einkahlutafélagavæðingu utan um fjárfestingar og hlutabréfakaup sem höfðu veð í sjálfum sér - hvað var það þá?
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja í bland við sérhagsmunastefnu sem réði ferðinni við hina svokölluðu "sölu" bankanna (sem var auðvitað ekkert annað gjafaúthlutun), hvað var það þá?
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja sem stjórnaði útrás íslenskra fjármálastofnana á erlendum vettvangi - hvað var það þá?
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja og sérhagsmunagæsla sem réði ferðinni þegar hið frjálsa framsal fiskveiðiheimilda varð að veruleika með þeim afleiðingum að sjávarbyggðir landsins voru sviptar náttúrurétti sínum til viðurværis af fiskveiðum og hafa margar ekki borið sitt barr síðan - hvað var það þá?
Ef þetta sem nú er nefnt var hin mildari útgáfu frjálshyggjunnar, Guð hjálpi okkur þá ef Bjarni Benediktsson og hans skoðanasystkin komast einhvern tíma til valda.
Hér var ekki hörð frjálshyggja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekkert er eins og fyrr
25.2.2009 | 15:25
Verkefnin sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir eru svo umfangsmikil - svo alvarleg - að íslensk stjórnmálaumræða mun aldrei verða söm eftir þá atburði sem átt hafa sér stað í hitasótt frjálshyggjunnar. Já, ég kalla það hitasótt, því það var eins og þeim sem báru ábyrgð á íslensku fjármálakerfi og stjórnmálaumræðu væri ekki sjálfrátt.
Í heila tvo áratugi smitaði og gegnsýrði frjálshyggjusóttin allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk rann það svo upp fyrir okkur að að ekki einasta hafði fjárhagur þjóðarinnar beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.
Þessir atburðir hafa breytt allri okkar hugsun. Þeir hafa afhjúpað siðferðisbresti, hugsanaleti, ákvarðanafælni og meðvirkni sem hefur gegnsýrt allt okkar stjórnkerfi; alla opinbera umræðu; allt þjóðlífið. Þeir hafa afhjúpað græðgi og misskiptingu af þeirri stærðargráðu að ekki einu sinni í okkar villtustu draumum gátum við gert okkur annað eins í hugarlund.
Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.
Það er því sorglegt að fylgjast með því hvernig menn láta sumir hverjir í þinginu þessa dagana - eins og þeim sé ekki sjálfrátt.
Ungir menn í gamalli klækjapólitík
24.2.2009 | 10:37
Nú eru leikfléttur Framsóknarmanna farnar að taka á sig undarlegar myndir. Í gær greiddi Höskuldur Þórhallsson atkvæði með tillögu Sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd Alþingis um að fresta afgreiðslu Seðlabankafrumvarpsins þar til í dag. Svo mætir hann ekki á fund nefndarinnar í morgun og málið er fast í nefndinni.
Hvaða fíflagangur er þetta eiginlega? Halda menn virkilega að svona klækjapólitík sé að skora eitthvað hjá fólki um þessar mundir? Þetta sé það sem fólk vilji sjá í kreppunni?
Þegar Framsóknarflokkurinn kaus sér nýja forystu á dögunum töldu ýmsir - ég þar á meðal - að nú væri gamla framsóknar-maddaman að ganga í endurnýjun lífdaga með ungt og sprækt fólk í sinni framvarðarsveit. Já - ég trúði því meira að segja að þessum mönnum væri einhver alvara með því að lofa ríkisstjórninni hlutleysi sínu: Að þeir ætluðu virkilega að greiða fyrir því sem gera þyrfti - myndu a.m.k. ekki þvælast fyrir.
Nú lítur út fyrir að þeim hafi ekki verið sú alvara sem ætla mátti. Á bak við andlitslyftinguna og hina unglegu ásýnd tinar gamli ellihrumi Framsóknarflokkurinn með sína klæki og klíkur, leikfléttur, samsæri og tilheyrandi paranoju sem við höfum þegar séð merki um, m.a. hjá formanninum unga.
Birgir Ármannsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd er sigri hrósandi yfir því að málið muni ekki komast á dagskrá Alþingis í dag þar sem nefndin hefur ekki enn lokið umfjöllun sinni. Já, hann er kátur yfir því að þeim tókst að tefja. Það var víst markmiðið að tefja, tefja, tefja ....
Jahjarna - segi ég nú bara.
Ekki rætt um Seðlabanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Söguleg tímamót og hlutverk jafnaðarmanna
23.2.2009 | 17:08
Samfylkingin stendur nú á sögulegum tímamótum sem stjórnmálaflokkur. Hún stendur annars vegar frammi fyrir því að innleiða löngu tímabærar lýðræðisumbætur (t.d. stjórnlagaþing) og siðbót í íslensku samfélagi. Hins vegar á hún þess kost að tryggja raunverulegum jafnaðarsjónarmiðum framgang við stjórnarákvarðanir á erfiðum tímum.
Flokkurinn stendur með öðrum orðum frammi fyrir því að endurreisa íslenskt samfélag á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Það er ekki lítið hlutverk.
Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf fyrir heiðarleika, ábyrgð og hugrekki í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þau verðmæti sem við þó eigum Íslendingar - andleg og veraldleg. Og aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þá sjálfsvirðingu sem gerir okkur kleift að vera þjóð meðal þjóða, í bandalagi og samstarfi við vinaþjóðir þangað sem við getum sótt bæði tilstyrk og fyrirmynd.
Það er núna sem reynir á hvort íslenskir jafnaðarmenn rísa undir nafni.
Óráðsía skilanefndar
20.2.2009 | 09:58
Skilanefnd Kaupþings hefur í ýmis horn að líta þessa dagana og vafalaust einhver áform. Sparnaður virðist þó ekki vera þar á meðal, ef marka má þennan fréttaflutning af lúxusferð tveggja nefndarmanna til Indlands fyrr í mánuðinum. Gist var á fimm stjörnu hóteli, sem er með þeim glæsilegustu á Indlandi, og flogið á fyrsta farrými í "þeim tilgangi að gæta hagsmuna gamla Kaupþings" eins og segir í fréttinni. Ferðin mun hafa kostað um eina milljón króna.
Ég vil helst eitthvað í allra besta flokki ef þér er sama" segir starfsmaður nefndarinnar sem skipulagði ferðina í tölvupósti sem nú hefur verið birtur. Hann bætir við: "Ég yrði þakklátur fyrir að dagskráin yrði í háum gæðaflokki".
Kannski nefndarmenn hafi ekki áttað sig á því hverjir það eru sem greiða þeim launin og dagpeningana eftir bankahrunið? Það er nefnilega almenningur í landinu, því það mun koma í hlut samfélagsins að standa undir skuldum gömlu bankanna.
Sá hinn sami almenningur býr við harðnandi kost. Fólk sér ekki út úr skuldum. Sumir eiga ekki til hnífs og skeiðar. Fregnir berast af fólki sem ekki treystir sér til að borga nauðsynlega læknisaðgerðir. Foreldrar eru að afpanta tannréttingar og tannviðgerðir barna sinna.
En skilanefndir bankanna - þær "gæta hagsmuna" síns banka og ferðast í vellystingum.
Ef þetta er ekki firring, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Við þurfum nýja leiðarstjörnu
12.2.2009 | 12:50
Síðustu daga höfum við orði vitni að ómálefnalegum illdeilum og rifrildi þingmanna um fánýta hluti í sölum Alþingis þar sem meiru virðist skipta að koma höggi á pólitíska andstæðinga en bjarga landinu. Þær uppákomur eru sorglegt dæmi um það hversu lítið menn hafa lært af atburðum undangenginna mánaða, þrátt fyrir allt.
Hafi einhverntíma verið ástæða til þess að veita okkar litlu þjóð lausn frá hryllingi gærdagsins með nýrri leiðarstjörnu - þá er það nú.
Við, sem stöndum að áskoruninni um stjórnlagaþing á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is höfum af því vissar áhyggjur að bakslag sé komið í áform stjórnvalda um að verða við þessu ákalli. Í erindisbréfi því sem ráðgjafahópur ríkisstjórnarinnar fékk fyrir nokkrum dögum er lítil áhersla á stjórnlagaþing. Sömuleiðis hafa heyrst úrtöluraddir innan úr flokkunum - þar á meðal ríkisstjórnarflokkunum.
Þeir sem styðja kröfuna um stjórnlagaþing en hafa beðið átekta með að rita nafn sitt á undirskriftalistann ættu ekki að bíða lengur.
Stefnt er að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars og þá skiptir máli að þær séu sannfærandi margar. Stjórnvöld verða að skilja að þjóðinni sé alvara. Krafan um boðun stjórnlagaþings er brýnni nú en nokkru sinni.
-----------------------
PS: Þessa fallegu mynd fann ég á síðunni www.glymur.blog.is og tók mér það bessaleyfi að birta hana hér.
Hver rekur þessa leyniþjónustu?
11.2.2009 | 11:22
Hvernig vissi Birgir Ármannsson stjórnarandstöðuþingmaður af bréfi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til forsætisráðherra áður en það hafði komið fyrir augu ráðherrans?
Hann var svo handviss um tilvist bréfsins að hann þaut í ræðustól á Alþingi til þess að heimta upplýsingar um innihald þess. Ég sá ekki betur en Einar K. Guðfinnsson væri þarna líka - jafn viss og félagi hans Birgir - báðir fimbulfambandi um leynimakk og pukur.
Forsætisráðherra kom af fjöllum og hafði ekki séð neitt bréf og ég efast ekki eitt augnablik um að ráðherrann sagði það satt.
Hver rekur þessa leyniþjónustu sem nær svo djúpt inn í stjórnsýsluna, að handbendin vita meira en ráðamenn sjálfir?
Hvað er að gerast í íslenska stjórnkerfinu? Ég fæ hroll.
Birgir aflétti leynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
Fæst orð bera minnsta ábyrgð ... en ég stend nú samt með Dorrit
10.2.2009 | 18:46
Gamla máltækið að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur sannað gildi sitt á Bessastöðum undanfarna sólarhringa. Það er slæmt þegar forseti landsins er borinn fyrir óábyrgum ummælum á alþjóðavísu, hvort sem þau eru tekin úr samhengi eður ei. Nú held ég það sé ráð fyrir forsetaembættið að draga aðeins úr fjölmiðlasamskiptum á þessum viðkvæmu tímum, enda ljóst að fjölmiðlar, jafnt innlendir sem erlendir eru með blóðbragð á tungu yfir öllu sem sagt er þessa dagana.
Ég gat þó ekki að mér gert að skella upp úr við frásagnir af viðureign þeirra forsetahjóna frammi fyrir erlendum blaðamanni sem sagt var frá í gær. Alveg sá ég þau í anda: Ólaf ábyrgan og virðulegan að reyna að ræða alvarlega stöðu lands og þjóðar; Dorrit óþreyjufulla og trúlega hundleiða á þessum formlegheitum að reyna að komast inn í umræðurnar. Hún fór að leika við hundinn. Hann rökræddi við blaðamanninn (grunlaus um þann úlfaþyt sem á eftir fylgdi). Pex og hjónametingur.
En, gott fólk? Hversu mörg miðaldra hjón geta ekki séð sjálf sig í svipuðum sporum, þó við aðrar aðstæður sé?
Dorrit er góð fyrir það að vilja brjótast út úr formlegheitum. Ég stend með henni í því að segja það sem henni býr í brjósti. Um leið get ég vel skilið Ólaf Ragnar að vilja halda aðeins aftur af henni. Hún er jú forsetafrú. Þau hafa bæði nokkuð til síns máls.
En þessi uppákoma milli þeirra hjóna sýnir okkur umfram allt að þau eru manneskjur af holdi og blóði eins og við hin - fólk með taugar og tilfinningar. Það vill stundum gleymast.
Viðtalið tekið úr samhengi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Einsdæmið með Davíð - eftirlaun hans og bréfaskriftir
9.2.2009 | 12:18
Ef einhver stendur fjárhagslega vel að vígi að yfirgefa starfsvettvang sinn nú á þessum krepputímum þá ætti það að vera Davíð Oddsson.
Skjátlist mér ekki mun hann njóta a.m.k. fjórfaldra eftirlauna þegar starfstíma hans lýkur. Þið leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt - en svo virðist sem Davíð eigi rétt á óskertum eftirlaunum sem 1)Seðlabankastjóri, 2) forsætisráðherra, 3) alþingismaður, og 4)borgarstjóri í Reykjavík. Það held ég hljóti að vera einsdæmi að einn maður eigi svo ríkan eftirlaunarétt - að minnsta kosti hlýtur það að vera fádæmi.
Það er raunalegt að sjá Seðlabankastjórana Davíð Oddsson og Eirík Guðnason streitast við að sitja sem fastast þrátt fyrir beiðni forsætisráðherra um að þeir víki úr stóli Seðlabankastjóra og semji um starfslok. Fleiri eru augljóslega sömu skoðunar, því Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, segir þvermóðsku Davíðs Oddssonar vera beinlínis "neyðarlega" (sjá hér).
Bréf Davíðs til Jóhönnu Sigurðardóttur er sömuleiðis sérkennileg smíði. Þar sakar hann forsætisráðherra um pólitíska valdníðslu sem eigi sér engin fordæmi um gjörvallan hinn "vestræna heim" ef ég man orðalagið rétt. Hefur Jóhanna þó ekki annað af sér brotið en að gera Seðlabankastjórunum heiðarlega grein fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.
Og gleyminn er Davíð.
Sjálfur hefur hann áður skrifað bréf sem forsætisráðherra, eins og fram kemur í greinargóðri samantekt á bloggi Friðriks Þórs Guðmundssonar þar sem rifjuð eru upp bréfaskrif Davíðs frá fyrri tíð, þ.e.:
- Bréf til Sverris Hermannssonar fv. Landsbankastjóra vegna vaxtaákvörðunar ... og ...
- Bréf til biskups Íslands vegna smásöguskrifa sr. Arnar Bárðar Jónssonar þáverandi fræðslufulltrúa Þjóðkirkjunnar.
Í bréfinu til Sverris sem m.a. er rifjað upp í Fréttablaðinu í dag, sagði Davíð m.a. ...
... ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér annað en skæting í fjölmiðlum strax því ég mun ekki sitja lengur kyrr ...
Einsdæmi??
Lýsir miklum vonbrigðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)