Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Ekið framhjá banaslysi

Á föstudaginn varð banaslys í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, þar sem ungur maður lét lífið eftir að hafa misst stjórn á bíl sínum í beygju og hafnað út í á. Eiginkonan komst með naumindum út úr bílnum og upp á veginn þar sem hún í örvæntingu beið aðstoðar á meðan maðurinn hennar var fastur í bílnum ofan í vatninu. Tveir ökumenn óku framhjá án þess að bjóða fram aðstoð. Þetta kemur fram á þessari frétt á mbl.is.

Hvernig skyldi henni hafa liðið að horfa á eftir bílunum tveimur hverfa út í buskann, vitandi af manninum sínum ofan í vatninu?

Hvernig skyldi þeim sjálfum líða núna, þessum ökumönnum?

Veit fólk ekki að það er borgaraleg skylda - samkvæmt lögum - að koma fólki til aðstoðar í neyð? Þó ekki væri til annars en að hringja fyrir það á hjálp. Þó það treysti sér ekki í eiginlegar björgunaraðgerðir, lífgun eða annað þessháttar. En bara það að hlúa að þeim sem í losti og örvæntingu bíður aðstoðar, slasaður eða blautur, breiða yfir hann teppi eða kápu, bíða með honum eftir hjálpinni. Það þarf enga sérstaka kunnáttu í slíkt - bara mannúð.

mannudNú kann að vera að þeir sem aka framhjá slysstað treysti sér einfaldlega ekki til þess að stoppa - telji sig ekki hafa kunnáttu eða andlegan styrk til að takast á við þjáningu annarra. Ég vil ekki trúa því að fólk sé almennt svo gersneytt mannúð og tilfinningum að það láti sér í léttu rúmi liggja afdrif annarra. Það hljóta að vera skýringar á svona hegðun. En siðferði felst ekki síst í því að breyta rétt, þó mann langi til að gera eitthvað annað.

Að skeyta ekki um fólk í neyð er glæpur.


Það sem höfðingjarnir hafast að ...

geir-eyjanIs Ekki alls fyrir löngu hvatti Geir Haarde almenning til aðhalds í peningamálum vegna versnandi efnahagsástands (sjá hér ). Í opinberum ummælum ráðamanna og atvinnurekenda um kjaraviðræður er hamrað á því að fólk verði að sýna nægjusemi í erfiðu árferði. Á sama tíma sjáum við og heyrum í fjölmiðlum um milljónaútlát vegna ferðalaga einstakra ráðherra sem fara með fríðu föruneyti á Ólympíuleikana, ekki einu sinni heldur tvisvar. Við heyrum af rándýrum boðsferðum ráðamanna í laxveiðiár og lesum í tekjuyfirliti Frjálsrar verslunar um stjórnendur í fjármálageiranum sem hafa tugi milljóna á mánuði í laun.

Er nema von þó að almenningi sé um og ó?

Í ljósi þessarar umræðu er svolítið vandræðalegt að lesa varnarræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar á bloggsíðu hans í dag. Þar ber hann í bætifláka fyrir menntamálaráðherra sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir mikinn ferðakostnað vegna Ólympíuleikanna.  Sigurður Kári beitir því bragði að reyna að draga forsetann inn í umræðuna, augljóslega ergilegur yfir því að fólk skuli ekki beina athyglinni að honum en hlífa flokkssystur Sigurðar Kára, menntamálarðaherranum. Sá er þó munur á að forseti Íslands er þjóðhöfðingi, kjörinn af þjóð sinni til þess að vera fulltrúi hennar á alþjóðavettvangi. Ráðherra hins vegar er yfirmaður tiltekins málaflokks í umboði alþingis. Á þessu er allverulegur munur. Forsetahjónin voru tvö í för - í föruneyti menntamálaráðherra voru fjórir að ráðherra meðtöldum.

"Það sem höfðingjarnir hafast að - hinir ætla að þeim leyfist það" segir máltækið. En satt að segja, held ég að engum venjulegum manni dytti þó í hug að fara tvær opinberar ferðir á einn og sama viðburðinn við fjórða mann. Sannleikurinn er nefnilega sá að venjulegu fólki dettur ekki svona bruðl í hug. Þetta er ekki veruleikinn sem almenningur býr við í eigin aðstæðum.

Þeir sem mæla svona óráðsíu bót eru einfaldlega ekki í tengslum við raunveruleg kjör almennings. Þannig er nú það.


Orð meiða

lyf Orð eru vopn - og maður verður að fara varlega með vopn, sérstaklega nálægt börnum og ungmennum. Á síðunni skessuhorn.is er í dag sagt frá því að 15 ára gömul stúlka sem  hneig niður meðvitundarlaus á Dönskum dögum reyndist ekki undir áhrifum ólöglegra vímuefna eins og fullyrt var í fjölmiðlum. Nú liggur niðurstaða blóðrannsóknar fyrir.

Stúlkan býr í litlum bæ þar sem allir þekkja alla. Hún er aðeins 15 ára gömul og "á ekki viðreisnar von" að sögn náins aðstandanda. Hún hefur þjáðst vegna umtalsins sem af þessu hlaust.

Orsök umtalsins má rekja til ummæla unglingspilts sem var viðstaddur þegar hún hné niður og taldi þetta augljós einkenni e-töflu neyslu. Lögreglan tók piltinn trúanlegan og rannsakaði málið sem e-töflumál. Fjölmiðlar fréttu þetta og fiskisagan flaug.

Nú er komið í ljós að stúlkan var einfaldlega saklaus af e-töfluneyslunni. Það breytir þó ekki vanlíðan hennar yfir umtalinu. Hún er jú bara 15 ára.

Ég hvet ykkur til þess að lesa fréttina um tilurð þessa orðróms - lesið og lærið.

 


Þjóðernisvitund - íþróttir og tilbeiðsla

hljóðnemi Þetta þrennt er kyrfilega samtvinnað þessa dagana, og var til umræðu í morgunútvarpinu á Rás-1 í morgun. Þar sátum við Árni Indriðason sagnfræðingur og handboltakempa og spjölluðum um samkenndina, tilfinningar og tár þjóðarinnar þessa dagana, og bárum saman við ýmislegt í menningarsögunni. Ef ykkur langar að hlusta þá er tengillinn hér. Þetta tekur 8 mínútur. Smile

 


Hvar var Dorrit?

 Þetta var vel heppnaður fagnaðarfundur - sannkölluð þjóðhátíð. Ekkert út á hana að setja. Að vísu var ég að furða mig á því hversvegna ríkisstjórnin var öll dregin upp á svið og látin standa þar án sýnilegs tilgangs. Og eiginlega hefði mér fundist fara betur á því að forseti ÍSÍ hefði fengið eitthvert hlutverk í athöfninni. Þá voru nú ræðuhöldin sum hver svona og svona - Óli Stef var samt ágætur. Heimspekilegur og einlægur. Auðvitað sat ég límd við sjónvarpsskjáinn. Þjóðremban að sprengja brjóstholið. Augun full af tárum.

dorrit

En eitt vantaði. Það vantaði Dorrit - aðal stuðningsmann liðsins, höfund hinna ógleymanlegu ummæla um "stórasta land í heiminum" - ummælanna sem snurtu þjóðina beint í hjartastað og gleymast aldrei. Hún hefði átt að vera þarna - og satt að segja beið ég þess að hún birtist. Hélt kannski að hún yrði kynnt sérstaklega til sögunnar. En það gerðist ekki. Það var synd.

Þess í stað stóðu vandræðalegir ráðherrar, borgarstjóri og forseti í einum hnapp og þrengdu hver að öðrum. Hanna Birna og Þorgerður Katrín fremstar þar sem þær kysstu hvern mann frammi fyrir myndavélunum.  Hmmm .... sennilega úthugsað.  Á svona uppákomum getur komið sér vel að vera inni í myndinni. GetLost

En sumsé: Það vantaði Dorrit. Ég saknaði hennar.

 


mbl.is Með stöðugan kökk í hálsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óráðsía ráðamanna á Ólympíuleikum

Nærri fimm milljónir króna kostuðu ferðir menntamálaráðherra og föruneytis til Kína samkvæmt fréttum ríkisútvarpsins í hádeginu. Þrjú hundruð þúsund krónur fékk ráðherrann í dagpeninga. Hún tók eiginmanninn og ráðuneytisstjórann með. Tvisvar.

Ég er ekki hneykslunargjörn þegar opinberar ferðir og dagpeningar eru annarsvegar. Ég tel að ráðamenn þjóðarinnar verði að geta komist fljótt á milli staða og búið þokkalega í ferðum sínum.

Þetta finnst mér hinsvegar einum of. Menntamálaráðherra fer með ráðuneytisstjórann með sér í tvígang - í annað skiptið eru þau bæði með mökum - hitt skiptið hún - og þjóðin borgar. Satt að segja stóð ég í þeirri trú að seinni ferðin hefði verið einkaferð ráðherrans, enda var engin þörf á því þjóðarinnar vegna að fara tvisvar. Og hvað er ráðuneytisstjórinn að gera í þessa ferð? Hafði hann einhverjum embættisskyldum að gegna þarna? Hver var þá að stjórna ráðuneytinu meðan á þessu stóð?

Fram kemur í fréttinni að ríkið greiddi hótelkostnað ráðherrans - samt fær Þorgerður Katrín greiddar 300 þúsund krónur í dagpeninga. Það eru mánaðarlaun kennara.

Nei, ef þetta er ekki óráðsía, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.


Úrræðaleysi í Rimaskóla

barnaleikir Skólabyrjunin virðist hafa komið Reykjavíkurborg og stjórnendum Rimaskóla alveg í opna skjöldu, ef marka má þessa frétt. Að minnsta kosta var frístundahúsnæðið sem ætlað var dagvistun barnanna ekki tilbúið. Móðir sjö ára barns stóð bara á tröppunum og fékk ekki umsamda gæslu. Woundering Helmingi húsnæðisins hefur nefnilega verið lokað vegna tilmæla heilbrigðiseftirlitsins  og endurbæturnar munu taka "fjórar vikur" héðan í frá. Það var þá tíminn til að hefja endurbætur, nú þegar sumarleyfum er lokið og skólahúsnæðið á að vera komið í notkun. 

Umrædd móðir fékk engan fyrirvara.  „Ég hef engan tíma til að gera aðrar ráðstafanir, börn á þessum aldri geta ekki verið ein heima,“ segir hún.

Hverskonar stjórnsýsla er þetta eiginlega? Hvað ætluðust stjórnendur til að yrði um börnin? Hvar er  nú sambandið og samráðið milli heimilis og skóla?

Forstöðumaður æskulýðssviðs ÍTR sem hefur með þetta að gera hjá borginni slær úr og í í samtali við mbl.is. Segir að viðgerðirnar á frístundaheimilinu orsaki ekki plássleysið.  Þó kemur fram að „tvær af fjórum stofum verða teknar til viðgerða í senn og mun þetta taka samtals um fjórar vikur“. Sko, aðalvandinn er nefnilega mannekla - það er sko ekki heldur búið að manna störfin. Shocking

 Á meðan bíða 50 börn eftir að komast í þessa vistun.

 I rest my case.


mbl.is Lyklabörn vegna manneklunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkominn heim Paul Ramses

Ánægjulegt var að sjá fjölskyldu Paul Ramses sameinaða á ný eftir erfiðan aðskilnað frá nýfæddu barni og eiginkonu sem var nýrisin af sæng eftir barnsburð þegar fjölskyldufaðirinn var leiddur á brott af lögreglu. Enda leynir sér ekki á þessum myndum hin heita gleði yfir endurfundum við konu og barn.

Vonandi er þetta upphafið að farsæld fjölskyldunnar í nýju landi. Þökk sé þeim sem tóku í taumana og beindu málsmeðferðinni af óheillabraut.


mbl.is Grátið af gleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laglega byrjar það ...

... hjá nýja borgarstjóranum. Ekki það að hlakki í mér. Nei þótt ótrúlegt megi virðast þá er ég eiginlega farin að finna til með Hönnu Birnu. En - svo hristi ég það af mér að sjálfsögðu. Cool Hún er vel að þessari skoðanakönnun komin, eins og allt hennar fylgilið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Þau hafa algjörlega kallað þetta yfir sig sjálf.


mbl.is Borgarstjórn með fjórðungs fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég finn veðurbrigði í nánd ...

fýll-hive.is (Small) Jæja, þá eru haustlægðirnar farnar að gera vart við sig, og nú mun vera von á einni frekar krappri eins og fram kemur á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar. Ekki er laust við að maður finni þetta á sér, enda komið hausthljóð í vindinn fyrir nokkru.

Ég er ein af þeim sem finn fyrir veðurbrigðum þegar þau nálgast. Margir halda að þetta sé einhverskonar hjátrú eða bábilja. Svo er þó ekki. Ég beinlínis finn fyrir því í mjöðmum og baki þegar loftþrýstingur lækkar. Gömlu konurnar hafa löngum haldið þessu fram - og ég held að margt yngra fólk finni fyrir þessu þó það átti sig ekki alltaf á ástæðunni. Sömuleiðis verð ég svefnþung og þreytt þegar lægð er yfir landinu - þannig er það bara.

Ég minnist þess þegar ég kenndi í Gagnfræðaskóla Húsavíkur fyrir mörgum árum, að ef krakkarnir urðu óvenju órólegir - þá á ég við hópinn allan - þá sagði Sigurjón Jóhannesson skólastjóri ævinlega: Nú er lægð á leiðinni. Og það brást ekki.

Maður getur líka séð ýmis veðurmerki á dýrum, sérstaklega fuglum, þegar loftþrýstingur er að breytast.

Og sumsé - nú er lægð á leiðinni. Ég var svefnþung í morgun og svei mér ef það lagðist ekki svolítill seiðingur í spjaldhrygginn í gærkvöldi.  Wink


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband