Færsluflokkur: Íþróttir

Dottað undir stýri

snaefellsjokullKomin heim frá Gufuskálum af helgaræfingu með Björgunarhundasveitinni. Kúguppgefin.

Ég var svoooo lúin þegar ég ók heim núna seinnipartinn að ég dottaði undir stýri í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Woundering Um hábjartan dag.

Það var áreiðanlega engill sem hnippti í mig í tæka tíð áður en bíllinn fór út af - en hann var kominn yfir á rangan vegarhelming þegar ég áttaði mig.

Úff! Þarna munaði sannarlega mjóu.

Lifandi fegin að ekki fór verr, sá ég mitt óvænna, lagði bílnum í vegkanti og lagði mig í tíu mínútur. Fór svo út úr honum og fékk mér frískt loft áður en ég hélt ferð minni áfram.

Skutull5manEn námskeiðið var í alla staði frábært. Skutull minn stóð sig mjög vel. Á þessu námskeiði náði hann því risastóra skrefi í þjálfuninni að koma til mín þegar hann hefur fundið mann og gelta á mig áður en hann vísar mér til þess týnda. Í síðasta rennslinu "fann" hann þrjá og vísaði mér á þá alla. 

Annars stóðu allir hundarnir sig frábærlega og þetta var mjög skemmtilegt námskeið við rætur Snæfellsjökuls.

Á morgun er það svo þingið - þá skipti ég aftur um gír. Wink


Eins og steiktur tómatur

 Ég er sólbrennd eins og steiktur tómatur eftir daginn. Það er ekki sjón að sjá mig.

En þessi fyrsti dagur björgunarhunda-námskeiðsins gekk vel. Skutull stóð undir nafni. Hann þeyttist um móana á ógnarhraða, svo mér komu í hug orð Gríms Thomsen í Skúlaskeiði:

Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti ...

Hann var léttur á sér og leysti sín verkefni vel; gelti eins og herforingi úti hjá þeim týnda (fígúrantinum) og þurfti ekki hvatningu til.  Ég er ekki enn farin að taka hann til mín í vísun - en mig grunar að þess verði ekki langt að bíða.

En ... á morgun ætla ég að muna eftir sólarvörninni - þó hann rigni.

skutull08


Búsáhaldabylting á Ásvöllum

IslandEistlandVisirÞað var ekki leiðinlegt að sjá íslensku strákana sigra Eistana með 14 marka mun í leiknum áðan. Guðjón Valur og Björgvin stóðu sig fádæma vel, báðir - já og liðið í heild sinni. 

Stemningin á vellinum var galdri líkust - ég hefði viljað vera þar. Þetta var eins og í búsáhaldabyltingunni. Enda árangurinn eftir því. 

 

Myndinni hnuplaði ég af visir.is - ég vona að mér fyrirgefist það.

Áfram Ísland ! Wizard


mbl.is Ísland vann stórsigur á Eistlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag tók ég þátt í Íslandsmeti, mótmælti, æfði hundinn og ... var sumsé veðurteppt

yoga_2 Ég er veðurteppt á Ísafirði og hef verið föst í þrjá daga. Hér er brjálað veður dag eftir dag og ekki flogið. Ég hef því verið fjarri góðum mannfagnaði á Austurvelli, en það var gaman að sjá fréttamyndirnar þaðan í kvöld. Stemninguna, taktinn, stuðið.

Í staðinn brá ég mér ásamt fjölmörgum Ísfirðingum í íþróttahúsið á Torfnesi til að setja Íslandsmet í jóga. Þangað mættu hátt á annað hundrað manns sem sameinuðust í einbeittu jóga í eina klukkustund. Það var endurnærandi stund.

Svo skellti ég mér ásamt fleiri mótmælendum á Silfurtorgið á Ísafirði þar sem haldnar voru fjórar ræður. Samkomunni lauk með því að allir sungu einum rómi Öxar við ána.

Síðdegis dreif ég mig svo með félaga mínum upp á Seljalandsdal að æfa hundana í snjóflóðaleit. Það var varla stætt fyrir vindi og grimmdarhagléli, en við paufuðumst þetta og kláruðum æfinguna. Annars er stórmerkilegt hvað hundarnir láta veðrið lítið á sig fá. Alltaf jafn glaðir og áhugasamir (maður gæti ýmislegt lært af þeim).

En á morgun er nýr dagur - og veðurspáin afleit fyrir Vestfirði. Woundering


Eins og nýhreinsaður hundur

yoga_2 Jæja, ég er eins og nýhreinsaður hundur eftir jóganámskeið helgarinnar. Mér skilst að nýhreinsuðum hundum líði ekkert sérlega vel . Mér er hálf ómótt eftir alla sálarhreinsunina, svo hún hlýtur að hafa verið rækileg. Wink

Annars var þetta mjög jákvæð og endurnærandi upplifun. Fimmtán klukkustundir á þremur dögum, þar af fimm jógatímar. Ég er búin að fara í gegnum sólarhyllinguna, kóbruna, ungbarnið, fiskinn og hvað þetta heitir alltsaman - að ekki sé minnst á slökunina. Er orðin svo slök að ég hangi varla uppi.

En ég finn líka að þetta hefur gert mér mjög gott. Og nú er ætlunin að halda ótrauð áfram á sömu braut.

Friður. Smile


Úr kreppunni í hundana - stutt björgunarhundaæfing

 Skutull5man Í kvöld skrapp ég á stutta björgunarhundaæfingu. Það var kærkomin hvíld frá öllu krepputalinu að fara bara í útigallann og arka með lambhúshettu á höfði og hund í bandi upp hlíð.

Það var fámennt en góðmennt á æfingunni - við vorum bara tvö, ég og Skúli félagi minn sem vorum mætt að þessu sinni. Hann með Patton sinn, ég með Skutul minn - báðir bráðefnilegir Border-Collie hundar. Heima sat Blíða mín eftir, helsærð yfir því að vera ekki tekin með. Frown Ýlfrið í henni fylgdi mér út að bíl þegar ég lagði af stað með þann stutta.

 Jæja, fyrst æfðum við Skutul. Skúli faldi sig á bak við stóran stein í hlíðinni. Skutull var svoTeymið sendur af stað, þvert á vindáttina. Hann hljóp sem fætur toguðu uppi í hlíðina og leitaði vel - datt fljótlega inn í lyktina og hljóp þá til Skúla þar sem hann gelti strax nokkrum sinnum og fékk leik að launum, þar til ég kom móð og másandi á eftir honum. Hann tók þrjú svona rennsli, og gekk mjög vel í öll skiptin - enda áhugasamur og óhræddur að hlaupa út frá mér til að leita. 

Patton Patton (hér sjáið þið hann) er kominn mun lengra en Skutull, enda löggiltur björgunarhundur með B-próf. CoolHann er yfirferðarmikill og leitar stór svæði. Ég faldi mig fyrir hann, og meiningin var að láta hann leita undan vindi nokkurn spöl til að reyna svolítið á hann, stýra honum svo í átt að lyktarsvæðinu og leyfa honum þá að finna mig.

En Patton lét ekki plata sig. Hann var ekki fyrr kominn út úr bílnum en hann þaut af stað og rakleitt til mín. Skipti engu þó að Skúli reyndi að kalla á hann til baka - Patton lét það sem vind um eyru þjóta, enda kominn í lykt. Hann vísaði á mig með glæsibrag - og var stoltur af frammistöðu sinni, enda ástæða til.

Í seinna leitarrennslinu tókst að láta hann leita svolitla stund áður en hann vísaði á mig. Það gerði hann með sama öryggi og fyrr. Mjög flott hjá honum.

Já, þetta gekk vel. Svolítil föl á jörðu og nokkur snjókorn í lofti, annars milt veður. Það var gott að draga að sér hreina loftið. Og þó ætlunin hefði verið að hugsa um eitthvað annað en fjármáladramað sem skekur samfélagið, þá tókum við auðvitað svolitla spjalltörn um málið. Nema hvað. Wink

Jamm ... Hér sjáið þið svo hina vösku Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Myndirnar voru teknar í fyrravetur og vor.

Skálavikuheidi08

BHSI-ISO


Þjóðernisvitund - íþróttir og tilbeiðsla

hljóðnemi Þetta þrennt er kyrfilega samtvinnað þessa dagana, og var til umræðu í morgunútvarpinu á Rás-1 í morgun. Þar sátum við Árni Indriðason sagnfræðingur og handboltakempa og spjölluðum um samkenndina, tilfinningar og tár þjóðarinnar þessa dagana, og bárum saman við ýmislegt í menningarsögunni. Ef ykkur langar að hlusta þá er tengillinn hér. Þetta tekur 8 mínútur. Smile

 


Hvar var Dorrit?

 Þetta var vel heppnaður fagnaðarfundur - sannkölluð þjóðhátíð. Ekkert út á hana að setja. Að vísu var ég að furða mig á því hversvegna ríkisstjórnin var öll dregin upp á svið og látin standa þar án sýnilegs tilgangs. Og eiginlega hefði mér fundist fara betur á því að forseti ÍSÍ hefði fengið eitthvert hlutverk í athöfninni. Þá voru nú ræðuhöldin sum hver svona og svona - Óli Stef var samt ágætur. Heimspekilegur og einlægur. Auðvitað sat ég límd við sjónvarpsskjáinn. Þjóðremban að sprengja brjóstholið. Augun full af tárum.

dorrit

En eitt vantaði. Það vantaði Dorrit - aðal stuðningsmann liðsins, höfund hinna ógleymanlegu ummæla um "stórasta land í heiminum" - ummælanna sem snurtu þjóðina beint í hjartastað og gleymast aldrei. Hún hefði átt að vera þarna - og satt að segja beið ég þess að hún birtist. Hélt kannski að hún yrði kynnt sérstaklega til sögunnar. En það gerðist ekki. Það var synd.

Þess í stað stóðu vandræðalegir ráðherrar, borgarstjóri og forseti í einum hnapp og þrengdu hver að öðrum. Hanna Birna og Þorgerður Katrín fremstar þar sem þær kysstu hvern mann frammi fyrir myndavélunum.  Hmmm .... sennilega úthugsað.  Á svona uppákomum getur komið sér vel að vera inni í myndinni. GetLost

En sumsé: Það vantaði Dorrit. Ég saknaði hennar.

 


mbl.is Með stöðugan kökk í hálsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur-skál!

Allt fór hér í brand og bál
Börðumst við af lífi og sál.
Boltar skullu á Björgvin Pál
í Beijing. Það var silfur - skál!

Íslenskur fáni yfir verðlaunapalli á Ólympíuleikunum - silfur um háls íslenska handboltalandsliðsins - tvímælalaust stoltasta stund okkar Íslendinga! Strákarnir okkar mega vera glaðir af frammistöðu sinni, við erum svo sannarlega glöð hér heima.

Úrslitin í lokaleiknum voru vel viðunandi - sami markamunur og var á okkur og Spánverjum. Röðun þjóða á verðlaunapallinum var því vel makleg miðað við frammistöðuna í þessum leikjum. Frakkarnir eru augljóslega með gríðarlega sterkt lið, og þeir unnu sannarlega fyrir gullinu. Engin skömm að tapa fyrir slíku liði.

Annars mátti sjá ákveðna veikleika í leik íslenska liðsins gegn Spánverjum - þá á ég við hraðasóknirnar sem ekki gengu upp. Ég óttaðist strax að þetta myndi verða okkur dýrkeypt í úrslitaleik gegn sterkara liði, og það kom á daginn. Engu að síður sýndu strákarnir mikinn baráttuvilja og gáfust ekki upp, jafnvel þó markastaðan væri orðin afar óhagstæð um miðbik leiksins.

Til hamingju Ísland: Silfur-skál!

Beijing08


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laumast út af fyrirlestri á lokamínútum leiksins

handbolti3 Í miðjum fyrirlestri laumaðist ég út svo lítið bar á til þess að fylgjast með síðasta korterinu af leiknum. Hafði gert samning við staðarhaldarann á Hrafnseyri um að fá að smjúga inn til hans og kíkja á sjónvarpið rétt á meðan leiknum væri að ljúka. Ég var nefnilega stödd á málþingi á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Dr. Einar Sigurbjörnsson var á  þeirri stundu með afar fróðlegt erindi um þremenningana Kolbein Tumarson, Guðmund Arason góða og Hrafn Sveinbjarnarson. En ... ég stóðst samt ekki mátið.  Og ég sá það á svipnum á Einari þegar ég kom til baka að hann fyrirgaf mér. Sama átti við um nánast alla í salnum sem sneru sér við í sætunum með spurnarsvip og vildu vita hvernig leikurinn fór. Tveir þumlar upp, það fór kliður um salinn, og bros breiddust um andlit.

Áður en ég laumaðist út til að horfa á lokamínúturnar var ég búin að fá regluleg SMS frá syni mínum um stöðuna frá byrjun: 1-0 var fyrsta skeytið, svo 5-0 FootinMouth og svo fóru Spánverjar að skora: 19-17 var staðan á einhverjum tímapunkti. Ég var orðin friðlaus í sætinu.

Það er ótrúlegt að við skulum vera komin í þá stöðu að geta spilað um gull á Ólympíuleikum. Þetta handboltalandslið okkar er samansafn af hetjum. 

Ósjálfrátt verður mér líka hugsað til Guðbjargar Guðjónsdóttur, ömmu Guðjóns Vals, þeirrar góðu konu sem er áttræði í dag. Varla hefði hún getað fengið betri afmælisgjöf.

Til hamingju Guðbjörg! Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland! Wizard

 


mbl.is Íslendingar í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband