Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Í minningu góðs vinar

baldur

 Í dag verður til jarðar borinn kær vinur, Baldur Þórhallur Jónasson frá Árholti á Húsavík.

Hann kvaddi þetta líf eftir stutta en stranga sjúkralegu. Það var um vornótt, þegar kraftur náttúrunnar er mestur, gróðurinn að lifna af vetrardvala og birtan að taka völdin. Hringrás lífs og dauða.

Á viðskilnaðarstundinni var sumarnóttin var að verða albjört fyrir norðan. Þar ríktu árniður, fuglasöngur og ilmandi kjarr í litum þingeyskrar sveitar, þaðan sem sögur hans og ljóð áttu uppruna sinn. Laxinn að ganga í árnar.

Baldur, vinur okkar, bar ekki aðeins nafn hins bjarta áss, heldur líka svipmót og fas. Ljós yfirlitum með gáfublik í auga, rólegur í fasi og alvörugefinn. Þannig kom hann okkur fyrir sjónir þegar fundum bar fyrst saman sumarið 1987 í Hollandi. Hann var þá fararstjóri en við ferðalangar með fjögur börn. Strax á flugvellinum fangaði hann athyglina, öruggur í fasi með auga á hverju úrlausnarefni, boðinn og búinn til aðstoðar. Þarna tókust kynni sem urðu að lífslangri vináttu, þegar Baldur og Margrét vinkona okkar gengu í hjónaband nokkrum árum síðar.

Baldur var góður félagi og mikill vinur vina sinna. Hjálpsemi hans var einstök, ekki síst við þá sem lífið fór um ómjúkum höndum, vakinn og sofinn yfir velferð þeirra sem hann tók að hjarta sínu. 

Baldur var maður með ríka réttlætiskennd og áhuga á þjóðmálum. Marga rökræðuna tókum við um landsins gagn og nauðsynjar – ekki alltaf sammála um leiðir, en alltaf samhuga um markmið og meginsjónarmið.  Við skynjuðum fljótt, að maðurinn hafði ýmislegt reynt. Einmitt þess vegna, gat hann gefið svo mikið. Hann veitti óspart af gnægtarbrunni sagna og ljóða um náttúru Þingeyjarsýslu, af laxveiði í drottningu íslenskra áa í Aðaldal, úr sveitinni við Mývatn og af minnisverðu fólki hvort sem var frá Húsavík eða fjarlægum löndum. Heimamaður og heimsmaður, það var Baldur. Það var sama hvar borið var niður, aldrei var komið að tómum kofa.  

Baldur greindist fyrst með krabbamein árið 1999 og gekkst undir vandasama aðgerð á hálsi og barka. Eftir það þurfti hann að þjálfa nýja taltækni með „nýrri rödd“, og sættast við gjörbreytingu á lífi sínu.  Hann tókst á við vandann af aðdáunarverðu æðruleysi. Þá, líkt og síðar, kom það í hans hlut að vera sá sterki, sá sem hughreysti sorgbitna ástvini og taldi í þá kjark og von.

Baldur var næmur á umhverfi sitt og næmur fyrir fólki. Dagfarsprúður og barst ekki mikið á, en húmoristi sem gladdist með glöðum. Skáldmæltur var hann eins og hann átti kyn til og eftir hann liggur mikið magn lausavísna og kvæða sem hann greip ósjaldan til á góðum stundum. Þannig naut hann sín best: Í töfrum orðanna, bundnum í ljóð eða óbundnum í rökræðum, þegar hugurinn hóf sig til flugs, yfir daglegt amstur. Sagan og lífið fléttuð saman í eina heild.

„Margs er að minnast, margt er hér að þakka.“ Erfiðu sjúkdómsstríði er nú lokið. Í því stríði sýndi Baldur styrk sem fáum er gefinn.

Eitt mun þó dauðinn aldrei ná að vinna,
orstír sem sprottinn er af sönnum toga.
Minning þín hlý í hugum vina þinna
og hjörtum lifir, eins og bjarmi af loga. (ÓÞ)

Nú hefur sálin vitjað skapara síns – laxinn er genginn í ána. 

Blessuð sé minning góðs vinar.  

 

Ólína og Sigurður. 

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband