Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Morgunblaðseggjum kastað

c_documents_and_settings_ibm_my_documents_my_pictures_skutull_brefaluga Sé þetta rétt, sem fullyrt er á visir.is um uppsagnirnar á Morgunblaðinu, þá er nú verið að segja upp mörgum af bestu og tryggustu starfsmönnum blaðsins í gegnum tíðina.

Það er óneitanlega undarleg tilfinning að sjá þarna nöfn starfsmanna sem hafa fylgt Mogganum í áratugi, verið málsvarar blaðsins og einhvern veginn órjúfanlegur hluti þess: Hér erum við að tala um kanónur á borð við Freystein Jóhannesson, Björn Vigni, Árna Jörgensen o.fl. Morgunblaðsegg sem stundum hafa verið nefnd svo.

Það hefur hingað til ekki vafist fyrir væntanlegum ritstjóra Morgunblaðsins að skilja hafra frá sauðum í sínum liðsveitum - eins og sannast núna. Trúlega leggur hann þó eitthvað annað til grundvallar við skilgreiningu á því hvað séu hafrar og hvað sauðir, en fjölmiðlareynslu og gæði blaðamennsku einvörðungu. 


Klisjukennd mynd um undarlegt fólk undir jökli

snaefellsjokullFór að sjá tvær myndir á kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói í kvöld. Stuttmyndina Melt (Bráðnun) sem er sannkallað listaverk, myndatakan, tónlistin og hugmyndin. Falleg og sterk upplifun.

Seinni myndin var ekki jafn heilsteypt: Dularmögn Snæfellsjökuls eftir franskan höfund - hvers nafn ég ekki man. 

Myndin er klisjukennt safn af frásögnum fólks um dularreynslu sína í námunda við jökulinn. Hún er tekin í þoku. Jökullinn sjálfur sést aldrei nema sem málverk, teikning eða ljósmynd, og því augljóst að kvikmyndagerðarmennirnir hafa ekki tafið lengi á Snæfellsnesinu - a.m.k. ekki nógu lengi til þess að jökullinn hreinsaði af sér.  Inn á milli frásagna af orku jökulsins og huldum vættum hans voru leikin undarlega uppstillt tónlistaratriði sem áttu að magna upp einhverja tilfinningu fyrir menningarrótum þessarar furðulegu þjóðar sem myndin sýndi - en stungu í stúf við allt annað. 

Útlendingar sem sjá þessa mynd sannfærast um að Íslendingar séu stórundarlegt fólk sem sjái huldar vættir í stokkum og steinum, trúi staðfastlega á geimverur, og syngi framandlega fimmundarsöngva í tíma og ótíma, gjarnan íklætt síðum kuflum með ennisband um höfuð, berjandi skinntrommur í flæðarmáli eða inni í helli, milli þess sem þeir undirbúa heimsóknir geimvera eða knýja á kletta og steina í von um að upp lokið verði fyrir þeim.  

Þið vitið ... klisjan sem Björk blessunin innleiddi hér um árið, án þess að ég vilji nú hnýta í þá ágætu konu ... klisjan sem fer í mínar fínust þjóðfræðitaugar, en ég átta mig líka á að þýðir lítið að rökræða við útlendinga, svo innprentuð er þessi ímynd orðin í hugarþel þeirra sem koma hingað til að leita að séríslenskum einkennum.
Blogga kannski meira um þessa brengluðu þjóðarímynd síðar .... og þá í öðru samhengi.


Sameiginlegur þingflokksfundur öðru sinni

Já, það verður sameiginlegur þingflokksfundur með þingmönnum Samfylkingar og VG nú á eftir. Þing verður sett að nýju eftir örfáa daga og tímabært að þingmenn stjórnarflokkanna beri saman bækur sínar og stilli saman strengi fyrir veturinn.

Þetta er í annað sinn sem þingflokkarnir funda sameiginlega - síðast hittumst við öll í Þjóðminjasafninu fyrri hluta sumars.  Sá fundur var afar gagnlegur.

Það er mikilvægt að þingmenn flokkanna eigi þess kost að ræða saman og skiptast á skoðunum um þau mál sem framundan eru.

Sameinaðir stöndum vér - segir máltækið.

 


mbl.is Stilla saman strengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert rennur fiskveiðiauðlind okkar?

fiskveiðar 20 milljarða skuldabréf með veði í íslenskum sjávarútvegi er nú komið í eigu Seðlabankans í Lúxemborg.

Þetta er ein birtingarmynd þess sem við er að eiga í þessari atvinnugrein sem á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur byggst upp á framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem er í eðli sínu óréttlátt og hefur haft í för með sér alvarlega atvinnu- og byggðaröskun víða. Kerfi þar sem verslað er með fiskveiðiauðlind þjóðarinnar eins og hvert annað skiptagóss.

Sjávarútvegsráðherra benti á það í útvarpinu í morgun að samkvæmt lögum mætti ekki veðsetja aflaheimildir "með beinum hætti". Auðveldlega má þó færa rök fyrir því að veðsetning "í íslenskum sjávarútvegi" þýði að kvótinn hafi þá verið veðsetturmeð óbeinum hætti. 

Hvaða þýðingu hefur það í reynd ef íslensk sjávarútvegsfyrirtæki komast í hendur erlendra fyrirtækja? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að arðurinn af nýtingu fiskveiðiheimildanna við landið komi í íslenska þjóðarbúið? Nákvæmlega enga. Angry

Satt að segja held ég að þarna glitti rétt í toppinn á ísjakanum. Það er alvarleg og aðsteðjandi hætta á ferðinni þarna.

Eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar er að leiðrétta kvótakerfið og koma fiskveiðiauðlindinni í hendur þjóðarinnar á ný. Það verk má ekki dragast. Ef eitthvað er þyrfti að flýta því enn frekar en áformað er.


Vettvangur dagsins: AGS, hagsmunatengslin, stjórnmálaástandið og gagnavinnsla Jóns Jósefs

Staða stjórnmálanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, uppgjörið við hrunið, hagsmunatengsl viðskiptalífsins, ritstjóraskiptin á Morgunblaðinu - þetta var til umræðu á "vettvangi dagsins" í Silfri Egils í dag. Þar skiptumst við á skoðunum, Árni Snævarr, Agnes Bragadóttir, Andri Geir Arinbjarnarson og ég. 

Áhugasamir geta horft og hlustað hér. 

Á eftir var fjallað um sættir þær sem náðst hafa milli milli ríkisskattstjóraembættisins og Jóns Jósefs Bjarnasonar eftir stórundarlega uppákomu sem varð vegna upplýsingaöflunar þess síðarnefnda um þau flóknu og fjölþættu viðskiptatengsl sem til staðar eru í samfélagi okkar. Nú hafa náðst friðsamlegar málalyktir - ríkisskattstjóri hefur meira að segja beðið Jón Jósef afsökunar á upplýsingum sem fram komu í fréttatilkynningu um það þegar lokað var á aðgang Jóns að gögnunum (sbr. eldra blogg mitt um það mál).

Niðurstaða málsins er báðum málsaðilum til sóma. Þennan hluta þáttarins má sjá og heyra hér.

 


Nýja Ísland - kemur þú?

world_trade_center_epa Þegar tvítyrni  heimsviðskiptahallarinnar í New York hrundi til grunna þann 11. september 2001 gaus upp  kæfandi mökkur sem varð fjölda manns að fjörtjóni. Björgunarsveitir höfðu sumar hverjar orðið of skjótar á vettvang,  með þeim skelfilegu afleiðingum að fjöldi slökkviliðs- og björgunarmanna lét lífið þegar byggingarnar jöfnuðust við jörðu. Dágóður tími leið áður en rofaði til og menn gátu metið afleiðingar þess sem gerst hafði.

Við hrun íslensku bankanna í október 2008 þyrlaðist líka upp þykkur mökkur. Almenningur hafði enga grein gert sér fyrir því  hve hættulega háir turnar höfðu verið reistir á íslenskum fjármálamarkaði fram að því. En óbærilegur mökkurinn sem fylgdi hruninu segir sína sögu um skefjalausa viðskiptahætti, ábyrgðarleysi og hóflausa græðgi. Og sú saga varðar ekki einungis fjármálafíflin sem steyptu okkur því sem næst í glötun. Nei, hún fjallar líka um öll hin fíflin, sem eltu skinið af glópagullinu eins og vanvita börn. Fjölmiðlana sem góndu hrifnir upp í fjármálaspekúlantana, flöttu myndirnar af þeim á forsíður tímaritanna, kusu þá viðskiptasnillinga og frumkvöðla ársins á meðan þeir frömdu samsæri sitt gegn þjóðinni. Stjórnmálamenn okkar - jafnvel forsetinn - fylgdu þeim eins og skugginn í erlendar viðskipta- og kynningarferðir, studdu við „íslensku útrásina" og fluttu um hana loðmullulegar lofræður við glasaglaum og ljósleiftur á blaðamannafundum. Almenningur horfði á í aðdáun og hrifningu.

Þjóðarskömmin

Nú situr óbragðið eftir - skömmin.  Það er þjóðarskömm. Við finnum öll til hennar ... öll, nema kannski þeir sem enn neita að horfast í augu við ábyrgð sína á því sem gerðist. Það gæti til dæmis átt við um þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flestir sátu hjá við afgreiðslu þingsins á ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna. Flokkurinn sem ber höfuð ábyrgð á hugmyndafræði Hrunadansins, flokkurinn sem innleiddi þá taumlausu frjálshyggju sem dansað var eftir, hann „sat hjá" þegar tekist var á við afleiðingarnar. Skilaði auðu. Það var átakanlegt að sjá.

Verður Ísland nokkurn tíma samt aftur?  Vonandi ekki.  Sannleikurinn er sá, að það Ísland sem við kvöddum í október 2008 var ekki gott í gegn. Þó að allt liti vel út á yfirborðinu, hagtölur sýndu almenna velmegun, landið mældist meðal tíu efnuðustu þjóða heims (jafnvel ein hamingjusamasta þjóð í heimi) og ríkissjóður væri orðinn nokkurn veginn skuldlaus, þá voru innviðirnir ekki í lagi.

Fjármálakerfið var ofþanið,  neyslan óhófleg, skuldasöfnunin úr böndum - ekki síst í undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. En verst var þó að siðferðisþrek þjóðarinnar hafði látið undan síga. Um það vitna upplýsingar sem nú eru að koma í ljós um umfang skattsvika og svarta atvinnustarfsemi, hagsmunagæslu og krosseignatengsl í viðskiptalífinu, getuleysi eftirlitsstofnana og gáleysi stjórnvalda.

Já, stjórnvöld brugðust hlutverki sínu. Þau gleymdu sér við hrævareldana og uggðu ekki að sér. Í stað þess að safna í kornhlöðurnar til mögru áranna var slegið slöku við aðdrættina. Á góðæristímanum 1993-2007 var farið í skattalækkanir sem komu sér vel fyrir þá tekjuháu á meðan hlutfallslegar byrðar jukust á þá tekjulágu. Hinu mikilvæga jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað og tekjulindin rýrð. Lætur nærri að ef skattalækkanir áranna 2003-2007 yrðu framreiknaðar á núvirði, hefðu þær náð langt með að greiða niður halla ríkissjóðs á þessu ári. En því er nú ekki að heilsa. Kornhlöðurnar eru galtómar, og fátt um aðföng.

Í hverju felast átökin?

Af þeirri óvægnu umræðu sem verið hefur í samfélaginu undanfarna mánuði mætti stundum ætla að þau stjórnvöld sem nú sitja hafi hætt sér of snemma inn á björgunarvettvanginn. Að minnsta kosti er enginn hörgull á fúkyrðum og úrtölum þeirra sem telja sig geta verið áhorfendur að björgunarstarfinu og hvorki þora né vilja leggja því lið. En endurreisn samfélags getur ekki orðið nema með þátttöku allra. Þá á ég annars vegar við atvinnuvegina, stéttarfélögin, stjórnvöld og almenning - hins vegar þá sem ráðandi eru í opinberri umræðu, þ.e. fjölmiðlana, fræðasamfélagið og stjórnmálamenn.

Okkar bíður mikið starf. Meinsemdir þær sem ollu bankahruninu eru margar hverjar enn til staðar í íslensku samfélagi, og það mun sjálfsagt taka ár og áratugi að vinna á þeim bug. Við sjáum þær

  • í ósanngjörnu kvótakerfi;
  • í þvermóðsku fjármálastofnana við að veita stjórnvöldum upplýsingar vegna rannsóknar á hruninu;
  • á fáránlegum kröfum stjórnenda fjármálafyrirtækja um svimandi háar bónus greiðslur;
  • í afskriftum hárra skulda gagnvart útvöldum á meðan fjölskyldur eru að bugast og menn að brotna undan skuldabyrði;
  • í upplýsingum um umfang skattsvika og misnotkun opinberra bóta.
  • Síðast en ekki síst sjáum við meinsemdirnar í afneitun og afstöðuleysi þeirra sem stærsta ábyrgð bera á hruninu og hugmyndastefnu þess.

Nei, gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem reið hér húsum. Og meinsemdirnar sem ollu hruninu eru flestar enn til staðar.

Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu. Þau munu snúast um það

  • hvaða aðferðum verði beitt við uppgjörið vegna bankahrunsins;
  • hvaða aðferðum verði beitt við endurreisn efnahagskerfisins og hvort takast megi að verja grunnþætti velferðarkerfisins, mikilvæga almannahagsmuni, auðlindir o.s. frv.;
  • hvort gerðar verða nauðsynlegar leiðréttingar á óréttlátu kvótakerfi;
  • hvort leikreglur viðskiptalífsins verða endurhannaðar;
  • hvort komið verður hér á nauðsynlegum lýðræðisumbótum;
  • hvort siðbót muni eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi;
  • já, hvort spilin verða stokkuð upp og hvernig gefið verður upp á nýtt.

Átök komandi missera í íslenskum stjórnmálum munu snúast um það hvort eitthvert uppgjör muni eiga sér stað yfirleitt.

Gleymum því ekki að það eru sterk öfl að verki í íslensku samfélagi sem vilja ekkert við ábyrgð sína kannast, og vilja því ekkert endurmat og engin skuldaskil.

----------------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


Lítil eru geð guma

Pirringurinn skín af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þessa dagana. Orðbragðið og samskiptahættirnir eru eftir því. Enginn trúnaður um nokkurn skapaðan hlut.

Eilíf neikvæðni ef álit er gefið í fjölmiðlum.

Þessi höfuðlausi her veit ekkert hvernig hann á að vera. Skilar auðu í stærstu málum, slær um sig sleggjudómum, hleypst undan ábyrgð .... ussususssussu.

Og nú hóta þau stríði við forsætisráðherra, þegar hún með réttu gagnrýnir það hvernig iðulega er hlaupið í fjölmiðla, jafnvel áður en ráðrúm gefst til þess að koma upplýsingum með viðeigandi hætti til réttra aðila. Þessa gagnrýni kalla þau hótanir og "svara" - ja, hvernig? Jú, með hótunum um "átök" - en ekki hvað?

Lítilla sanda,
lítilla sæva,
lítil eru geð guma.


mbl.is Hafna því að hafa rofið trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var einmitt ...

... en er það nú ekki full djarft að tala um þriggja manna þingflokk sem "hreyfingu" ??


mbl.is Hreyfingin verður til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gengur ríkisskattstjóra til?

RikisskattstjoriÉg verð að viðurkenna að framganga ríkisskattstjóra gagnvart forráðamanni IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. vekur mér ugg í brjósti. Að ríkisskattstjóri skulu á opinberum vettvangi viðra "grunsemdir" sem hann hefur um "upplýsingastuld" gagnvart nafngreindum einstaklingi, er umhugsunarefni. Sérstaklega í ljósi þess að tengslanetið sem Jón Jósef Bjarnason er að vinna hefur að geyma upplýsingar sem tvímælalaust hljóta að koma almenningi við og vera til mikils gagns fyrir þá sem rannsaka hagsmuna- og krosseignatengslin á íslenskum fjármálamarkaði.

Ekki hefur neitt komið fram í fjölmiðlum sem bendir til þess að þarna sé verið að miðla upplýsingum sem eigi að fara leynt að lögum. Þvert á móti.

Hvaða tilgangi þjónar það þá þegar ríkisskattstjóri í sérstakri fréttatilkynningu vekur athygli á óskyldum atriðum sem einungis eru til þess fallin að rýra traust á þeim sem um er rætt? Ég er ekki undrandi þó að nefndur Jóns Jósef telji vegið að mannorði sínu, eins og fram kom í hádegisfréttum. Ég fæ ekki séð hvað það kemur málinu við þó að  IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustan hafi ekki skilað ársreikningi til embættis ríkisskattstjóra. 

Vill ekki ríkisskattstjóri upplýsa okkur Íslendinga um alla þá sem ekki hafa skilað embættinu ársreikningi undanfarin þrjú ár?

Fram hefur  komið að Jón Jósef greiddi fyrir aðgang að þeim upplýsingum sem hann notast við. Hann gerði skýra grein fyrir því hvað hann hygðist fyrir og í hvaða tilgangi. Þær upplýsingar sem út úr gagnavinnslunni koma eiga ríkt erindi við jafnt almenning sem stjórnmálamenn - að ég tali nú ekki um þá sem rannsaka eiga hrunið. Hafi Persónuvernd eitthvað við þessa gagnavinnslu að athuga hlýtur hún að gera sínar athugasemdir. Hefur hún gert það? Það er ekki eins og þetta mál hafi farið leynt.

Nei, þessar tiltektir ríkisskattstjóra skjóta skökku við - og vekja áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með þessu?

 ------------------------

PS: Ég efast ekki um að ríkisskattstjóri fer að lögum í embættisverkum sínum - en það hefði hann líka gert þó umræddar "grunsemdir" hefðu ekki verið viðraðar opinberlega.


mbl.is Grunaður um upplýsingastuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafælni eða fjölmiðlasýki

Johanna Síðustu daga hafa heyrst sárar umkvartanir - sem fjölmiðlar af einhverju ástæðum hafa tekið undir - að forsætisráðherra sjáist ekki lengur. Hún sé bara "ósýnileg" í fjölmiðlum.

Nú þykir mér týra.

Ég hef ekki getað betur séð en að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið í nánast öllum fjölmiðlum svo að segja daglega í allt heila sumar - þar til e.t.v. núna síðustu daga. Og þó hef ég varla opnað fjölmiðil án þess að sjá henni bregða fyrir, eða nafn hennar nefnt. Ég veit ekki betur en að hún hafi haldið fasta blaðamannafundi, einn og tvo í viku, í allt heila sumar, og geri enn. Það er nú eitthvað annað tíðkaðist hér áður og fyrr í tíð annarra forsætisráðherra.

Þessi lævísi og ljóti áróður, að Jóhanna sé ekki til staðar, hún sé horfin, er vitanlega runninn undan rifjum andstæðinga hennar. Þetta er þaulhugsuð markaðssálfræði, sem gengur út á það að rýra trúverðugleika þess stjórnmálamanns sem notið hefur mests trausts meðal almennings fram á þennan dag. Og það er alvarlegt umhugsunarefni að fjölmiðlar skuli spila með í þessu. Þeir ættu nefnilega að vita betur.

Hitt er svo annað mál, að Jóhanna Sigurðardóttir er ekki haldin þeirri fjölmiðlasýki sem hefur heltekið veflesta nústarfandi stjórnmálamenn. Hún lætur verkin tala, og það er góður siður, sérstaklega á krepputímum. Ég tel auk þess sjálfsagt að hún njóti - þó ekki sé nema brots - þeirra mannréttinda að fá að eiga eina og eina hvíldarstund, einhverja dagparta vikunnar.

Maður hefði haldið að íslensk þjóð kynni að meta forystumann sem helgar þjóðinni alla krafta sína, nótt sem nýtan dag og lætur það hafa forgang umfram allt annað. Annað væri algjörlega á skjön við þá háværu kröfu sem hvarvetna ómar um heiðarleika, traust og ósérhlífni.

Segi ekki meir.

------------------------------------------

 

PS: Annars bloggar Gísli Baldvinsson ágætlega um þetta mál og ber saman við birtingarmynd stjórnarandstöðunnar meðal annars.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband