Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hvað er að?

kynbundid_ofbeldi Hvað er að þegar þrjár unglingsstúlkur taka sig saman um að misþyrma tveimur yngri? Voru þær að refsa þeim fyrir eitthvað? Hvaðan kemur þeim sú hugmynd að það sé í lagi að taka sér vald til að misþyrma öðru fólki - eða refsa yfirleitt? Kannski var þetta enn verra - algjörlega tilhæfulaust í anda einhvers tölvuleiks, hvað veit maður?

Auðvitað er hugsanlegt að þarna hafi einhverskonar innri illska (a.m.k. óhamingja) brotist út í óhæfuverki þriggja einstaklinga sem hafa manað hvern annan upp. En oftar eiga svona atburðir sér margþættari skýringar. Það er svo margt sem aflaga getur farið í lífi fólks.

Atburður sem þessi leiðir til dæmis hugann að brestum í þjóðaruppeldinu - þar sem einstaklingshyggja, valddýrkun og síðast en ekki síst skeytingarleysi um mannhelgi fólks, tilfinningar þess og reisn eru vaxandi þáttur í viðhorfum og samskiptaháttum.

Við sjáum þetta ekki aðeins í afþreyingariðnaðinum, þar sem klám, ofbeldi og kúgun eru viðfangsefnið. Flestir kannast við umræðuna um nýlegan tölvuleik sem gengur út á það að nauðga varnarlausum konum. En dæmin eru mýmörg - hér er eitt af handahófi sem ég fann á kynningarsíðu fyrir tölvuleiki:

"(Þessir) leikir ...  nota sér myndrænt ofbeldi til að grípa spilarann og flækja hann inn í leikheim sinn. Oft er þetta ansi vel gert ... og í (þessum tiltekna leik) tekst þessi hluti leiksins mjög vel. Blóð, hryllingur og stefnulaust ofbeldi er í miklu magni í leiknum en hér passar það við efnið, enda er ...(aðalpersónan)...  ekkert lamb að leika sér við á leið sinni til hefnda.
Spilarinn tekur að sér hlutverk Frank Castle sem er fyrrverandi hermaður. Frank hafði séð fjölskyldu sína myrta með köldu blóði og hefnt sín grimmilega á bófunum og upp úr því blóðbaði kallaði hann sig Refsarann. Sem Refsarinn er Frank eins konar refsiengill sem  notar allar aðferðir sem hann telur nauðsynlegar til að negla vondu kallana, hvort sem þær eru löglegar eða ólöglegar, snyrtilegar eða ósnyrtilegar."

Í raun þurfum við ekki að skoða ofbeldisleiki til þess að sjá viðlíka upphafningu valdbeitingar og stefnulauss ofbeldis. Okkur nægir að horfa á fréttir af þjóðarmorðum, pyntingum, mannsali og mannréttindabrotum sem viðgangast víða um heim í samskiptum þjóða, samfélagshópa og einstaklinga.

Hvarvetna í menningu okkar blasir skeytingarleysið við - skeytingarleysi um velferð náungans, um rétta breytni. Þetta er auðvitað ekkert nýtt. Atburðir þeir sem áttu sér stað á Breiðavíkurheimilinu fyrir nokkrum áratugum sýna að börn hafa í gegnum tíðina misþyrmt öðrum börnum. Slíkt gerist einmitt í aðstæðum þar sem börn njóta ekki umhyggju eða handleiðslu fullorðinna - þegar afþreyingarleikir og slæmt fordæmi fullorðinna verða fyrirmyndin að hegðun og framkomu.

Það eru engin ný sannindi að bágur efnahagur, vinnuálag og tímaskortur foreldra eiga sína sök á því hvernig börnum og ungmennum farnast hvert við annað. Aukin misskipting lífsgæða í okkar litla samfélagi er viðvörunarmerki sem við ættum að taka alvarlega. Slíkir áhrifaþættir eru auðvitað engin afsökun fyrir þá sem fremja óhæfuverk - auðvitað ber hver einstaklingur ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum. En það segir sig sjálft að þeir sem njóta umhyggju og handleiðslu standa betur að vígi.

Ég vona bara að þessum stúlkum verði hjálpað til þess að sjá villu síns vegar og bæta ráð sitt.


mbl.is Tveimur 12 ára stúlkum misþyrmt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta verður frábært

dgl_tobak_fimpar2 Það verður frábært að rölta á kaffihús um helgina, fá sér eina kollu og draga andann - en ekki reykinn frá næsta borði. Við sem ekki reykjum (lengur) ættum að fjölmenna á veitingahús landsins þann 1. júní og sýna þannig hug okkar í verki!

Ég er staðráðin í að notfæra mér þessi nýju forréttindi hvenær sem tækifæri gefst til. Og ég ætla rétt að vona að veitingamenn fari ekki að grafa undan þessum nýfengnu réttindum meginþorra fólks (sem er reyklaus samkvæmt könnunum) með því að framfylgja ekki banninu. Kormákur - ég ætla að eiga það við þig að standa nú uppréttur! Police

Hitt er svo annað mál, að kannski væri bara hreinlegra að banna einfaldlega sölu tóbaks. Þetta er auðvitað svolítið skrítið að fólk skuli hvergi mega vera með löglegan neysluvarning - því sígarettur eru jú þrátt fyrir allt lögleg neysluvara.

En það er önnur saga. Ég er fegin því að geta loksins kíkt við á ölstofu og setið þar um stund að spjalli við fólk án þess að súrna í augum og fyrir brjósti af sígarettureyk. Tounge


mbl.is Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ferð og flugi - það er komið sumar!

bardastrond  Það er margt spennandi framundan næstu daga.

Um helgina er förinni heitið austur að Leirubakka í Landssveit á ráðstefnuna "Hálendi hugans" sem þjóðfræðingar og sagnfræðingar standa fyrir í Heklusetrinu.  Þar verður fjallað um hálendi Íslands frá ýmsum sjónarhornum. Sjálf verð ég með erindi sem nefnist "Óttinn við hið óþekkta - hálendið í íslenskum þjóðsögum". Ég ætla að fjalla um hlutverk hálendisins í íslenskum þjósögum; ótta og átök sem menn upplifðu utan marka mannfélagsins, í hólum, hömrum og á heiðum uppi í viðureign við vættir landsins. Ég greini frá sögum um samskipti mennskra manna við álfkonur, tröllskessur og drauga. Spennandi Wink

Áður en að þessu kemur verð ég þó á fundi í Háskóla Íslands - stofnfundi nýs Rannsókna og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum. Það er mikilsverður áfangi fyrir okkur Vestfirðinga að fá nýtt fræðasetur, og mun vafalaust hafa þýðingu fyrir þekkingarsamfélagið hér vestra.

Annars verð ég á ferð og flugi mestallan júnímánuð. Um miðjan mánuðinn er fyrirhuguð tónleikaferð með Sunnukórnum til Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.

Undir lok mánaðarins mun ég svo mæta með stóran hluta fjölskyldunnar (eiginmann, tvo syni, tengdadóttur, ömmustrák og tvo hunda) norður í Vaglaskóg þar sem við verðum ásamt fleiri félögum í Björgunarhundasveit Íslands í tjaldbúðum við leitarþjálfun o.fl. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fá litla ömmustrákinn með, hann Daða Hrafn. Hann er svo voðalega langt frá mér svona dags daglega.

Sumsé - mikið um að vera og viðbúið að lítið verði bloggað á næstunni. Læt þessu lokið í bili með mynd af fallegum ömmudreng í heimaprjónaða vestinu sem amma sendi honum um jólin.

DadiHrafn

 

 


Hver var Jón lærði?

 Islandsnatturur  Ekki alls fyrir löngu fékk ég fyrirspurn frá Vísindavefnum um Jón lærða Guðmundsson, þann fróðleiksfúsa, sérstæða og drenglundaða mann sem kunni ekki að koma sér vel við höfðingja, og varð því einhverskonar útlagi í eigin föðurlandi mestalla ævi. Hann lifði á 17. öld og er meðal þeirra fyrstu sem dæmdir voru á alþíngi fyrir kukl og galdur. Hélt þó lífinu.

Söguþyrstir lesendur geta kynnt sér ságrip af sögu hans hér fyrir neðan:

Jón lærði Guðmundsson var sjálfmenntaður alþýðumaður og náttúruskoðari. Saga hans er raunaleg lífssaga manns sem var uppi á “þeirri öld sem spillti upplagi hans og hæfileikum” eins og Páll Eggert Ólason orðaði það (PEÓ 1942, 263).

Hann var fæddur í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574, varð snemma áhugasamur um verkan náttúrunnar, einkum grasa og jurta til lækninga. Á þeim árum var læknisfræði landsmanna ekki á háu stigi og meðferð lyfja nánast talin til varnargaldurs, a.m.k. ef óskólagengnir menn höfðu þau um hönd. Jón var einnig áhugasamur um rúnir og fornrit auk þess sem hann var sjálfur mjög hjátrúarfullur og sannfærður um tilvist álfa og anda.

Jón mun hafa verið blendinn í lund, “heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápískur í trú” ef marka má formálsorð Guðbrands Vigfússonar að þjóðsögum Jóns Árnasonar (JÁ I, 1862, xi). Hann var hins vegar hagur maður til munns og handa, smiður góður, listaskrifari og málari, enda oft nefndur Jón málari. Margir leituðu til hans um smíðar og viðgerðir, en þess voru einnig dæmi að liðsinnis hans væri óskað til þess að fyrirkoma draugum og öðrum óhreinleika. Frægustu aðgerðir hans í því efni urðu þegar hann kvað niður reimleika á Snæfjallaströnd - Snæfjalladrauginn svonefnda – með kveðskap sem varðveist hefur í handritum (Fjandafæla, Snjáfjallavísur og Umbót eður friðarhuggun).

Til er samtímaheimild frá árinu 1627 um það hvaða augum menn litu iðju Jóns lærða. Í riti sem nefnt hefur verið Hugrás, skrifað af séra Guðmundi Einarssyni á Staðarstað, prófasti í Snæfellssýslu, er rætt um lækningaviðleitni Jóns lærða. Þar segir að Jón hafi “hendur yfir sjúka lagt, með lesningum og bænum og þvílík sín þjónustugjörð hafi í þann tíma svo þökkuð verið svo sem hjálp og aðstoð af himnaföðurnum sjálfum” (Lbs 494 8vo, bl. 92r).

Jón lærði var talinn ákvæðaskáld (sjá skýringu neðar) og sú saga fór af honum að hann kynni margt fyrir sér, m.a. að kveða niður drauga. Mestu mun þó hafa ráðið að hann lenti í útistöðum við Ara Magnússon, sýslumann í Ögri í Ísafjarðardjúpi í framhaldi af Spánverjavígunum 1615 (Jónas Kristjánsson 1950). Ari í Ögri var á þeim tíma einn helsti héraðshöfðingi landsins, ráðríkur og aðgangsharður ef því var að skipta. Ari stóð fyrir því að fjöldi Spánverja (Baska) var veginn í tveimur aðförum sem áttu sér stað í Dýrafirði og Æðey í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði það ár. Vígin mæltust misvel fyrir, og Jón lærði var þeirrar skoðunnar að með þeim hefði verið framið ódæði gegn varnarlausum skipbrotsmönnum. Skrifaði hann um þessa atburði Sanna frásögu af spanskra manna skiptbrotum og slagi þar sem hann tók málstað Baskanna. Í framhaldi af því reis í sveitinni “rógurinn mikli / með fölskum bréfum / og forráðs lygi” eins og hann segir sjálfur í ævikvæði sínu Fjölmóði (Safn til sögu Íslands,  31-85). Með þessum skrifum kallaði Jón yfir sig óvild Ara sýslumanns, var í framhaldinu kærður fyrir galdra og flosnaði upp frá fjölskyldu og börnum um hávetur.

Það má teljast athyglisvert að Jón lærði skyldi hafa komist hjá því að verða brenndur á báli. En hann var dæmdur útlægur með dómi sem gekk á Bessastöðum sumarið 1631. Leitaði hann þá á náðir yfirdóms í Kaupmannahöfn sem vísaði málinu aftur til Alþingis, og þar var útlegðardómur hans staðfestur árið 1637. Eftir það var Jón lærði útlægur úr öllum ríkjum og löndum konungs nema konungur vildi honum “meiri náð sýna” (Alþb. V, 483).

Jón fór þó aldrei af landi brott, og segir í Skarðsárannál að engir kaupmenn hafi fengist til að taka hann á skip (Annálar I, 251). Hann var því á vonarvöl síðustu ár ævi sinnar, og hafðist að mestu við í Múlaþingi.

Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup segir í bréfi til  Óla Worms árið 1649 að Jón Guðmundsson eyði nú elliárum sínum úti í landshorni þar sem hann eldist ónýtur sjálfum sér og öðrum (Breve... III, 379). Er því vart ofmælt að ævi Jóns lærða hafi verið raunaleg lífssaga manns sem lifði erfiða tíma ogt fékk því aldrei fékk notið hæfileika sinna sem vert hefði verið.

 

Heimildir

  •  Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
  • Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-1998.
  • Breve fra og til Ole Worm I-III. Kaupmannahöfn 1965-68.
  • Einar G. Pétursson 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II. Reykjavík.
  • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölu og munnmælum. Reykjavík.
  • (PEÓ) - Páll Eggert Ólason 1942: Saga Íslendeinga V. Seyjánda öld. Reykjavík.
  • Safn til sögu Íslands V (nr. 3). Páll Eggert Ólason ritaði inngang og athugasemdir. Reykjavíkl 1916.
  • Jón Árnason (safnað hefur) 1862-1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-II. Leipzig
  • Jónas Kristjánsson 1950: Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkingarímur. Kaupmannahöfn.

  • Handrit: Lbs 494 8vo, bl. 92r

[1] Ákvæðaskáld eða kraftaskáld nefndist það fólk sem gat með kveðskap haft áhrif á velfarnað manna og atburði. Talað var um að ummæli slíkra einstaklinga yrðu að áhrínisorðum, þ.e. að þau kæmu fram. Meðal frægra kraftaskálda má nefna sr. Hallgrím Pétursson, sr. Snorra Björnsson í Húsafelli, Þormóð í Gvendareyjum, Jón lærða o.fl.


Góð messa á fallegum degi

Sudureyri Það rættist úr helginni - svei mér ef það er ekki bara að koma vor.

Hvítasunnudagurinn í gær skein á himni "skír og fagur" eins og segir í sálminum góða. Ég mætti í fermingarmessu á Suðureyri og söng þar eins og herforingi með kirkjukórnum. Það gekk bærilega. Séra Karl V. Matthíasson hljóp í skarðið fyrir sóknarprestinn (sem var sjálfur að ferma sitt eigið barn í annarri sókn) og kom nú í sitt gamla prestakall - þangað sem hann vígðist sjálfur til prests fyrir 20 árum. Vel messaðist séra Karli og fallega fermdi hann börnin fjögur.

Það er ekki öllum prestum gefið að messa þannig að stundin lifi í sál og sinni eftir að henni er lokið. En séra Karl hefur einstaklega persónulega og hlýlega nærveru - og hann heldur nærverunni þótt kominn sé í fullan messuskrúða. Hann gerði þetta vel.

Ég hef ekki komið áður í Suðureyrarkirkju. Þetta er falleg lítil kirkja - og það var gaman að fá að vera með í þessari helgistund á sannkölluðum "drottins degi" - takk fyrir mig.


Tillögustuldur og hringlandaháttur - svona gera menn ekki.

 Hadditogari  Jæja, nú er bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ kominn í hring - og hringavitleysan orðin meiri en mig hefði grunað að óreyndu.

Fyrir fáum dögum lagði bæjarráð einróma til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að stofnað yrði almenningshlutafélag um kaup á veiðiheimildum í Ísafjarðarbæ. Ekki alveg af baki dottnir - hugsaði ég - og þar sem ég vissi að bóndi minn var upphafsmaður þessa máls í bæjarráðinu, tók ég í huganum ofan fyrir meirihlutanum að sameinast minnihlutanum um raunhæfa tillögu til úrbóta, og bera nú fram tillögu einum rómi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er.

Jæja, svo kom bæjarstjórnarfundurinn, og hvað gerðist? Meirihlutinn lagði tillöguna fram í sínu eigin nafni - ef marka má fréttir. Rauf þar með samstöðuna sem skapast hafði í bæjarráðinu að frumkvæði fulltrúa Í-listans. Þeir hirtu tillöguna, og báru hana svo fram í eigin nafni. Ekki bæjarstjórnin öll - ó, nei: Meirihlutinn einn og sér. Þeir stálu tillögu frá minnihlutanum. "Miklir menn erum við Hrólfur minn .... og fallega pissar Brúnka!"

 Ekki nóg með þetta. Bæjarstjórn samþykkir tillöguna, og felur atvinnumálanefnd að undirbúa málið, þ.e. stofnun almenningshlutafélags um kaup á aflaheimildum.

En nú er Halldór Halldórsson bæjarstjóri er kominn í útvarpið - svosem ekki í fyrsta skipti. Að þessu sinni leggur hann það til, að ef stofnað verður almenningshlutafélag um kvótakaup,  þá skuli menn athuga það vel að NOTA PENINGANA Í EITTHVAÐ ANNAÐ en kaup á aflaheimildum.  !!??!?!?!?!

Nú held ég að Halldór vinur minn þurfi að fara að taka sér frí .... segi ekki meira í bili.

 

 


Það haustar snemma þetta vorið

vetur-forsida   Brrr.... það hefur haustað snemma þetta vorið hér vestur á fjörðum. Jörð alhvít dag eftir dag.  Fuglasöngur er þagnaður og nýjabrumið á trjánum farið að taka á sig appelsínugulan lit. Ég man bara ekki eftir svona langvinnu vorhreti satt að segja. Fyrir nú utan kuldann undanfarnar tvær vikur, þá er þetta fjórði eða fimmti dagurinn með snjókomu eða slyddu. Bíllinn rásaði á veginum hjá mér í gærkvöldi þegar ég var að koma frá Suðureyri - enda kominn á sumardekkin eins og lög gera ráð fyrir.

 Í svona tíðarfari ber fátt til tíðinda - það er einhver doði yfir öllu og öllum. "Ráðherrum falið að fylgjast með þróun mála á Flateyri" er efsta fyrirsögnin á bb.is í dag. "Ólína vill verða umboðsmaður barna" segir í næstu frétt fyrir neðan. Það er sumsé ekkert að frétta, og þ.a.l. ekki um margt að blogga.

 Annars var ég að lesa nýja stjórnarsáttmálann -- og úr því fréttir dagsins greindu frá hinu eftirsótta embætti umboðsmanns barna (sem 13 manns hafa nú sótt um að mér meðtalinni) -- þá veitti ég sérstakri athygli kaflanum um "barnvænt samfélag" í nefndum stjórnarsáttmála. Þar segir:

 "Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tannvernd barna verið bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Barnabætur verði hækkaðar til þeirra sem hafa lágar tekjur og nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum. Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu. Jafnframt verði aukinn stuðningur við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði. Hugað verði að foreldraráðgjöf og -fræðslu. Forvarnarstarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og stuðningur við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu aukinn. Fæðingarorlofið verði lengt í áföngum."

Guð láti gott á vita.

 En semsagt kuldadoði yfir öllu - að lokum ein hringhenda í takt við tíðarfarið:

  • Norðan fjúkið næðir kalt
  • naprir rjúka vindar,
  • fanna dúkur felur allt,
  • freðnir hjúpast tindar.

Hefði mátt bjarga gæsavarpinu við Hálslón?

hverfandihreidur Þessi mynd úr mogganum af umflotnu gæsahreiðri er sorgleg sjón. Hálslón er enn að fyllast. Gæsirnar hafa verpt umhverfis það, á sínum vanalegu varpstöðvum, og nú eru hreiðrin að fara eitt af öðru undir vatn. Einhversstaðar sá ég eða heyrði talað um 500-600 hreiður sem færust af þessum sökum. Fuglafræðingur upplýsti í útvarpinu að hætt væri við að þær gæsir sem fyrir þessu verða færu og kæmu aldrei aftur. Einhverjar reyna þó vonandi aftur, á vænlegri stað.

En nú spyr ég: Var þetta ekki fyrirsjáanlegt? Hugkvæmdist engum að það þyrfti hugsanlega að stugga við gæsunum um varptímann svo þær færðu sig fjær  - eða hefði það verið óvinnandi vegur? Spyr sú sem ekki veit.

Hreindýraveiðimenn hika ekki við að ferðast um þetta svæði á fjórhjólum og fótgangandi. Ég velti fyrir mér hvort náttúru- eða dýraverndunarsamtök í landinu, Umhverfisstofnun eða sveitarfélögin á svæðinu hefðu ekki getað gert einhverjar ráðstafanir -- sett upp loftbyssur, fuglahræður, eða hvað það nú er sem menn gera t.d. til þess að fæla vargfugl, og forða gæsinni þar með frá því að hreiðra sig við vatnsborðið?

Ég veit það ekki - en þessi mynd gleymist ekki í bráð.


Kirkjukórskonan ... enginn veit sína ævina

 

kórsöngurEnginn veit sína ævina ... segir máltækið, og sannast á mér þessa daga.

Haldið ekki að ég sé komin í kirkjukór - að vísu bara sem íhlaupamanneskja þessa vikuna, svona rétt til þess að bjarga málum í fermingarmessunni sem framundan er í Suðureyrarkirkju á Hvítasunnudag. En það er sama - aldrei hélt ég að ég ætti eftir að taka mér stöðu í kirkjukór Suðureyrar í Súgandafirði. En þau voru í svolitlum vandræðum vegna mannfæðar - aðeins ein kona í altinni - og kórinn verður ekki nema svona 8-10 manns, svo ég sagði auðvitað já við erindinu. Og nú er eins gott að standa sig.

Það kom auðvitað í ljós á fyrstu æfingu að ég þekkti ekki nema helming sálmanna - og hef ekki sungið altröddina við nema einn. Ekki bætti úr skák að nóturnar eru með allt öðrum textum en þeim sem sungnir verða, þannig að ég er þessa dagana í hörðu textanámi til þess að geta fylgt nótunum í messunni (án þess að þurfa samtímis að finna texta neðar á blaðinu - en það er ekkert grín skal ég segja ykkur). Svo eru messusvörin - og þetta er svo metnaðarfullt fólk að það ætlar að sjálfsögðu að radda þau líka! Jamm ... ég hef nóg að gera í þessu fram að helgi.

Annars hefur sönglíf mitt verið óvenju fjörugt að undanförnu. Ég söng með á tónleikum Sunnukórsins á Ísafirði fyrir viku og svo með kvennakórnum Vestfirsku valkyrjunum á laugardaginn. Í síðara tilvikinu sungum við nokkur lög á samtónleikum með Árnesingakórnum sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju. Um kvöldið var samfagnaður þessara tveggja kóra yfir borðhaldi með miklum söng og skemmtilegheitum. Frábær kvöldstund - og skemmtilegt fólk þessi Árnesingakór.

Framundan er svo tveggja vikna tónleikaferð með Sunnukórnum til Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands um miðjan júní. Munum m.a. syngja í hellakirkjunni í Helsinki. Það er mikið tilhlökkunarefni.

En næst á dagskrá er það semsagt fermingarmessan á Suðureyri á Hvítasunnudag. Er búin að læra Hvítasunnusálminn (Skín á himni skír og fagur...). Næst er það "Legg þú á djúpið ..." og röddunin við "Heilagur, heilagur" í messusvörunum. Úff!


2 milljarðar í vasa aðaleiganda Kambs

 

 kambur3 Ég hef fyrir satt að aðaleigandi Kambs á Flateyri, Hinrik Kristjánsson, fái um TVO MILLJARÐA í sinn hlut þegar hann hefur selt allt heila klabbið og greitt skuldir sínar - hvorki meira né minna. Þetta hafa útvegsmenn á svæðinu reiknað út í ljósi þeirra aflaheimilda sem fyrirtækið hefur yfir að ráða (3000 þorskígildistonn sem leggja sig á 7 milljarða) og skuldsetningar fyrirtækisins. Hinrik segist sjálfur hafa orðið að loka fyrirtækinu til þess að komast út úr erfiðri rekstrarstöðu og skuldum - hann þurfi að lenda standandi.

Jæja - tveir milljarðar í aðra hönd ættu nú að hjálpa upp á sakirnar.

Það er bænastund í Flateyrarkirkju í dag í tilefni af fréttum um lokun Kambs. Sorgin og vonleysið sem svífur yfir byggðarlaginu er ólýsanleg.

Ég las athyglisverða frétt á bb.is í dag um framkomu stjórnenda fyrirtækisins við starfsfólk sitt fyrir kosningar - afar sérstakt ef rétt reynist.

 


mbl.is Ráðherrar ræddu um stöðu Vestfjarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband