Vonartýran kviknar

bardastrond Efnahagshrun þjóðarinnar er ekki eini vandinn sem við er að eiga í dag. Það sem ég óttast mest um þessar mundir er hið andlega hrun sem fylgt gæti kjölfarið. Og meðan reiðialdan rís sem hæst er hætta á því að lýðskrumarar og eiginhagsmunaseggir sveifli sér upp á ölduna til að láta hana bera sig að ströndum nýrra áhrifa, athygli og valda ... án þess þó að neitt annað breytist.

Sú umræða sem hér hefur orðið á síðunni minni síðustu daga um boðun stjórnlagaþings og stofnun nýs lýðveldis sýnir glöggt að almenningur á Íslandi þráir að sjá vonarljós í þokunni.  Hugmyndin um nýtt lýðveldi felur í sér ákveðna lausn - við getum kallað það geðlausn. En fólk þráir að geta horft fram á nýtt upphaf. 

Vitanlega felst nýtt upphaf í uppgjöri og endurreisn sem tekur sinn tíma. Fjármálakerfið er jú hrunið og það mun taka langan tíma að koma því á lappirnar aftur. Skúrkarnir í sögunni þurfa sín málagjöld. Tíminn sem þetta tekur er sársaukafullur.

En það er fleiri verk að vinna. Og þau verk þurfa ekki að vera svo tímafrek. Það þarf ekki að taka svo langan tíma að smíða nýja stjórnarskrá og semja samfélaginu nýjar leikreglur. Lögspekingar, siðfræðingar, hagspekingar og fleira vel hugsandi fólk gæti unnið slíkt verk á fáum mánuðum. Umræða um endurnýjun stjórnarskrárinnar er jú ekki ný af nálinni, og það er vel vinnandi vegur að koma saman góðum hópi fólks til þess að smíða það helgiskrín sem stjórnarskráin á að vera. 

Hér á síðunni minni hefur verið rætt um þá grunnhugmynd að kjósa til stjórnlagaþings sem sæti í 6-12 mánuði og hefði það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá sem leggði grunn að nýju lýðveldi. Um hana yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla, síðan alþingiskosningar eftir nýju stjórnarskránni.  Þetta gæti átt sér stað eftir tveimur leiðum.

A) með þáttöku alþingis og núsitjandi ríkisstjórnar sem héldi áfram að stjórna landinu óháð stjórnlagaþingi

B) með myndun þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar (eða einhverskonar útfærslu af hvoru tveggja)

Til að þrýsta á stjórnvöld að hleypa þessu umbótaferli af stað mætti kalla saman hóp málsmetandi Íslendinga. Það fólk gæti lagt málið upp, þ.e. samið góða ályktun eða áskorun á stjórnvöld þar sem sett yrði fram skýr og einföld krafa um nýja stjórnarskrá og stofnun nýs lýðveldis. Efnt yrði til undirskriftarsöfnunar við þá ályktun á netinu og síðan - þegar komnar væru 20-50 þús undirskriftir - yrði gengið á fund forseta og forsætisráðherra.

Nú eru nokkrir "málsmetandi" aðilar farnir að tala saman. Wink Ekki get ég fullyrt um hvað út úr því kemur, en vonandi verður það eitthvað gott. Hér er ekki verið að tala um stofnun nýs stjórnmálafllokks heldur einfaldlega að mynda þrýsting með undirskriftarsöfnun.

Ég mun halda lesendum upplýstum eftir því sem tilefni gefst til á næstunn.

Íslandi allt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Takk fyrir þetta, Ólína- Málið er greinilega komið í farveg- það er vel.  Sem betur fer er mikið af velhæfu fólki meðal okkar þjóðar (og ólöskuðu) til að leiða málið og skapa því traust.  Fagna því að vefurinn þinn verður með heimilishaldið.

Ef við notum ekki þetta einstaka tækifæri til að stofna hér nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá-     Þá hvenær ?    Tíminn er núna.

Íslandi allt

Sævar Helgason, 14.1.2009 kl. 14:12

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Íslandi nú er allt í fína,
á Ísafirði ljósin öll skína,
og kónga mun ei krýna,
kvenskörungurinn Ólína.

Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 14:22

3 identicon

Ólína, ég vitnaði í tvær ágætis konur á blogginu í dag, þær Sigrúnu Elsu og Oddnýju Sturlud. Ætli forystan hlusti á grasrótina?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 15:28

4 identicon

Mikið er gott að vita þetta, mun fylgjast grannt með.

Íslandi allt  !

Guðmundur Þór (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 17:34

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mun fylgjast vel með!

Sigrún Jónsdóttir, 14.1.2009 kl. 18:24

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Opinn hádegisfundur verður í stofu 101 í Lögbergi í Háskóla íslands miðvikudaginn 28. janúar undir yfirskriftinni "Kallar efnahagshrunið á breytingar á stjórnskipun Íslands og stjórnsýslunni? - Nýjar leiðir við skipulag framkvæmdavaldsins."

Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 20:10

7 Smámynd: Sævar Helgason

Steini Briem !

Hverjir standa fyrir fundinum og hverjir verða í pontu ?   þetta er mjög áhugavert .

Sævar Helgason, 14.1.2009 kl. 21:05

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sævar.

"Málstofa lagadeildar miðvikudaginn 28. janúar 2008:

Klukkan 12.15 í stofu 101 í Lögbergi.

Á síðustu vikum og mánuðum hefur farið fram umræða í íslensku samfélagi um ástæður fyrir hruni íslensku bankanna. Hluti umræðunnar lýtur að uppbyggingu stjórnkerfisins og umboði æðstu handhafa framkvæmdarvaldsins til athafna í kjölfar hrunsins, með hvaða hætti stjórnvöld hefðu getað fyrirbyggt þau atvik sem urðu og hvort gildandi lög og reglur hafi verið fullnægjandi.  

Frummælendur:

Væri rétt að kjósa ráðherra beinni kosningu?

Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.

Eiríkur fjallar sérstaklega um þingræði og annars konar möguleika á skipun æðstu handhafa framkvæmdarvalds, m.a. með hliðsjón af stjórnkerfinu í Bandaríkjunum.

Er þörf á breyttu verklagi við reglu- og lagasetningu hér á landi?

Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.

Trausti Fannar fjallar í sínu erindi um mögulegar leiðir að breyttu verklagi við reglu- og lagasetningu hér á landi, m.a. með hliðsjón af möguleikum á að leggja fyrirfram mat á samfélagsleg áhrif og kostnað af stjórnvaldsfyrirmælum, einstökum ákvörðunum og löggjöf.  

Fundarstjóri:

Björg Thorarensen, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands.

Allir velkomnir!"

Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 21:39

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Undirskriftasöfnun hefur aldrei skilað okkur nokkrum sköpuðum hlut. Frekar en mótmælaganga Ómars Ragnarssonar. „Þið eruð ekki þjóðin“ og þögn Sjálfstæðismanna segir allt um hvernig umboðslausir óráðamenn ætla að tækla ástandið. Bíða af sér óveðrið. Hér eru tvær af mörgum hugmyndum um hvernig við eigum að bregðast við. Ég veit ekki hvort þetta séu réttu leiðirnar en þær eru vissulega áhugaverðar: Nýtt sjálfseyðandi lýðræðisbreytingaafl og Tökum lýðræðið

Samfylkingin er samsek. Það skiptir engu máli hvar við staðsetjum okkur eða staðsettum í pólitík. Það þarf að hugsa allt upp á nýtt og allar hugmyndir eiga skilið að vera skoðaðar. Þó að það mæti BARA 2-5000 manns á mótmælafundi þá mættu ráðamenn alveg gera sér grein fyrir því að á bak við hvern sem mætir eru margir aðrir sem komast ekki, eru ósáttir en ekki sammála mótmælaforminu osvfrv. Hugmyndirnar um að gera Alþingi aftur að vettvangi fólksins en ekki flokkanna og þeirra eigendaklúbba er góðra gjalda verð. Í grein Egils sem ég bendi á hér að ofankemur hann í veg fyrir að byltingin borði börnin sín. Fyrst um sinn.

Ævar Rafn Kjartansson, 14.1.2009 kl. 21:52

10 Smámynd: Egill Jóhannsson

Ævar Rafn

Nú er búið að taka hugmyndina lengra sem þú vitnar í og í raun stofna farveg fyrir allar þær hugmyndir sem hafa verið að spretta upp undanfarna mánuði og vikur og lúta að því að styrkja lýðræðið. Þarna á ég t.d. við hugmynd Jakobínu, Ómars Ragnarssonar, Njarðar P. Njarðvík og fleiri og fleiri ásamt minni hugmynd. Það er sami grunntónninn í þessum hugmyndum.

Farvegurinn er vefsíða sem heitir lydveldisbyltingin.is og hún er stofnuð til að vera farvegur til að móta þessar hugmyndir í eina hugmynd sem getur orðið sameiningarafl þeirra sem vilja núna láta verkin tala til að koma á breytingum. Þetta er svokallaður wiki vefur þar sem allir geta breytt og bætt við.

Gagnrýni þeirra sem nú stjórna hefur oft gengið út á það að það séu engar hugmyndir, lausnir, í staðinn. Nú er kominn vettvangur í þessari vefsíðu til að láta ljós sitt skína og taka þátt. Síðan hefur aðeins verið uppi í sólarhring og er í smíðum on-line því hugmyndin er að grasrótin sjái um þetta alfarið. Því er hún dáldið hrá núna en tekur breytingum á hverri mínútu.

Kíktu inn.

Egill Jóhannsson, 14.1.2009 kl. 23:58

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ævar Rafn. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að stofna nýja stjórnmálaflokka.

En Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir, Íslandshreyfingin og Framfaraflokkurinn eru allir NÝIR stjórnmálaflokkar. Sá elsti þeirra verður ellefu ára á þessu ári.

Og ef einhverjir eru sekir um ástandið hér nú eru það fyrst og fremst kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem voru hér saman í ríkisstjórn í tólf ár, á árunum 1995-2007, og lögðu grunninn að núverandi kerfi hér.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði engan áhuga á að kollvarpa því kerfi vorið 2007, þegar núverandi ríkisstjórn tók hér við. Og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins FÉLL EKKI vorið 2007, þannig að staða Samfylkingarinnar í stjórnarmyndunarviðræðunum þá var nú ekki beinlínis sterk.

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 00:00

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þó svo ég hyggist halda mínum lesendum upplýstum hér um það sem hugsanlega gerist í þessum málum á næstunni - og það er ekkert sem segir að ekki geti ýmislegt gerst á ýmsum vígtöðvum - þá er ekkert sem mælir gegn því að fólk fari inn á þessar vefsíður sem vísað er til hér fyrir ofan og kynni sér það sem þar er um að vera.

Við skulum endilega vinna saman - ekki sundur  a.m.k. þangað til ljóst verður hvort leiðir skilur og þá hvernig. Vonandi verður hægt að samstilla kraftana og finna eina raunhæfa lausn sem er vænleg til árangurs.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.1.2009 kl. 00:33

13 identicon

Ertu enn frosinn við samfylkinguna ?

Það eru nýjir tímar framm undan Ólína!! 

olie (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 00:45

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, það eru nýir tímar framundan hjá Sturlu Jónssyni vörubílstjóra:

"Auglýsingaherferð með honum hefur verið í spilun í útvarpi og biðu margir spenntir yfir hvað Sturla væri að auglýsa.

Lofaði hann miklum látum á laugardaginn og var nema von að ráðamenn og aðrir í umferðinni væru með hnút í maganum. Það kom því heldur flatt upp á menn að Sturla var aðeins að láta almenning vita af því að EJS væri með útsölu."

http://www.dv.is/frettir/2008/5/26/sturla-auglysti-ejs-utsolu/

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 01:16

15 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég fer nú bara að segja eins og Þorgerður Katrín.

"Það eru spennandi tímar framundan á Íslandi"

Þá er ég að tal um það verk sem hafið er að skapa Nýtt Ísland. Ég er hins vegar sammála þér Ólína með depurðina sem getur og er örugglega farin að grípa um sig hér á landi. Þar verður hvar að huga að sínum og reyna með öllum mætti að stappa stálinu hvert í annað. Þessi samtakamáttur sem er að myndast hér núna er afskaplega mikill og sterkur. Ég er svo viss um að hann á eftir að skila okkur miklum og jákvæðum breytingum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 01:33

16 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Vinnum endilega saman, það mun skila mestum árangri

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 01:36

17 identicon

Ég er hlynnt því að efla völd þingsins og nota þetta tækifæri hrunsins til að endurskoða ýmsa verkferla stjórnmálamanna og embættismanna. Eflum endilega stjórnsýsluna, eftirlitið og reglugerðirnar. Gerum við götin og sópum í hornin. Ef undirskriftarlistarnir snúast um þetta mun vel ganga og ég myndi skrá mitt nafn undir heilshugar þó harðblá sé. Ég er þess þó handviss að ef umræðan fer að snúast um að leggja niður flokka, efla anarkisma, styðja umhverfisverndaröfgahópa, eða gera pólítíkusa alveg valdalausa og slíkt kemur lítið úr þessu.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 07:08

18 identicon

Afhverju gera þessa framkvæmd svona flókna eins og margar ofangreindar tillögur? Afhverju leggja flokkarnir ekki bara til hver sinn stjórnsýslufræðing í vinnunefnd, sem fær stuttan vinnutíma, og koma sér saman um og skila frá sér óska stjórnssýslulögum sem almenningur fær svo að kjósa um? Verið er að endurskoða regluverk og lagaramma umhverfis fjármálastofnanir, afhverju ekki setja svipaða endurskoðun í gang varðandi stjórnvöld og embættismannakerfið? Mér finnst umræðan komin um of út í þá og okkur þ.e. stórnmálamenn og við. Fólk gleymir að því er mér finnst að flokkarnir eru við, þeir eru okkar tæki til að koma hugmyndum okkar og skoðunum á framfæri og vinna að stefnumálum okkar. Auðvitað verðum við að tryggja þannig starfsreglur að þeir þjóni hlutverki sínu, vinni fyrir okkur en séu ekki farvegur misnotkunar. 99.9% af flokksmönnum vinnur af heilindum hvar sem í flokki standa. Komum í veg fyrir að þeir sem fái völdin í kosningum falli í freistni og misnoti aðstöðu sína.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 07:23

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ólína mér lýst mjög vel á að skapa nýtt Ísland þvert á alla flokka, fá ráðin í hendur fólki sem hefur þekkingu og rétt siðferði til að endurskapa lýðræðið, sem hefur því miður drabbast svo niður að skömm er að. 

Við skulum endilega standa saman að þeirri endurreisn.  Hvaða leið sem við veljum þá er vel hægt að leggja flokkslínur til hliðar meðan verið er að koma nýju Íslandi á koppinn.  Þið sem hafið borið áfram umræðuna eigið heiður skilinn.  Og ég segi líka Íslandi all. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.1.2009 kl. 09:33

20 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sambland af þjóðstjórn og utanþingsstjórn er alveg tvímælalaust góður kostur. Hrein utanþingsstjórn yrði mynduð af forseta og ég held að það sé ekki alveg full sátt um þann sem nú situr vegna tengslanna við útrásarævintýrið,þótt ég efist ekki um að hann myndi reyna að gera sitt besta.

En ég sé ekki annað en að í þjóðstjórn mætti hæglega kalla óflokksbundið fólk í tiltekin ráðherraembætti. Mér dettur strax í hug Björg Thorarensen lagaprófessor og Andri Snær Magnason.

Og takk fyrir umræðuna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.1.2009 kl. 12:05

21 identicon

Takk fyrir þín skrif Ólína.

Þetta er eina ljósið í myrkrinu.  Vona að þetta takist án þess að varhundar stjórnmálaflokkanna komist í þetta en þeir munu reyna.  Við verðum að gera þetta án þess að þeir eða heilaþvegnir ungliðar þeirra komast í þetta til að eyðileggja það.  Þeir munu reyna allt sem þeir geta til að gera þetta tortryggilegt.

Eiríkur (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 12:54

22 Smámynd: Eiríkur Beck

Takk fyrir þín skrif Ólína.

Þetta er eina ljósið í myrkrinu.  Vona að þetta takist án þess að varhundar stjórnmálaflokkanna komist í þetta en þeir munu reyna.  Við verðum að gera þetta án þess að þeir eða heilaþvegnir ungliðar þeirra komast í þetta til að eyðileggja það.  Þeir munu reyna allt sem þeir geta til að gera þetta tortryggilegt.

Eiríkur Beck, 15.1.2009 kl. 12:57

23 identicon

Adda Sigurjónsdóttir, þú ert því miður alveg úti að aka - ástæðan fyrir því að svona uppástungur koma fram er einmitt til að losna undan flokkspólitíska okinu.  Öfugt við það sem þú heldur fram þá eru flokkarnir ekki við, fólk á ekki að þurfa að vera flokksbundið til að fá að hafa áhrif á stefnumótun landsins, best af öllu væri sennilega að losna við flokkana með einu og öllu.

Nokkrir hlutir sem ég myndi vilja sjá í nýju skipulagi landsins:

Stjórnarskrárbundinn aðskilnaður löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds. Að stjórnarskráin hreinlega banni að sami einstaklingur sitji í eða hafi áhrif í fleiri en einum hluta stjórnkerfisins, að ráðherrar megi ekki sitja á þingi, að þingmenn sem verða ráðherrar verði að segja af sér þingmennsku án tafar (og öfugt að sjálfsögðu), að dómarar megi að sjálfsögðu ekki sitja á þingi eða í ríkisstjórn og að ráðherra skipi ekki dómara heldur verði það á höndum t.d. forseta eftir umsögn nefndar.

Kosið sé í ríkisstjórn sérstaklega og óháð Alþingiskosningum, helst að þær tvær kosningar geti aldrei farið fram á sama tíma.

Almenningur þarf að hafa möguleika á að setja ríkisstjórn og Alþingi af með því að geta þvingað fram kosningar, t.d. með undirskriftum til forseta.

Allar þessar hugmyndir byggja á þeirri einföldu hugmyndafræði að færa völdin meira til fólksins og frá embættismannakerfinu.

Annars líst mér vel á þær hugmyndir sem ég hef séð ræddar hérna.

Gulli (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 13:11

24 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Adda Sigurjónsdóttir. Þú talar um flóknar tillögur og það er alveg rétt. Það er ekki einfalt mál að byggja hús og enn síður að endurbyggja undirstöður heils samfélags. Og það á heldur ekki að vera einfalt mál.

Það getur verið freistandi að stytta sér leið, en það meigum við ekki gera núna. Við erum komin í óefni með stjórnsýsluna og það er nauðsynlegt að gera grundvallar breytingar. Til að þær haldi er ný stjórnarskrá nauðsynleg. Stjórnmálaflokkarnir hafa um árabil gert margar og ýtrekaðar tilraunir til að breyta stjórnarskránni.

Og þá srtanda þeir allir á sama skerinu, hagsmunir flokksins ganga fyrir og á þessu skeri eru þeir fastir og verða það áfram.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 13:33

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vilhjálmur Þorsteinsson bendir í bloggi sínu hér á að Vilmundur Gylfason hafi á sínum tíma lagt til að kjósendur fengju að velja flokkalista og/eða einstaka frambjóðendur í Alþingiskosningum:

"Slíkt kosningafyrirkomulag hefur m.a. verið notað í breska samveldinu allt frá lokum 19. aldar. Hér er dæmi um kjörseðil úr kosningum til öldungadeildar ástralska þingsins. Kjósa má annað hvort lista í heild sinni, eða einstaka frambjóðendur, með því að númera þá í töluröð, eins marga og kjósandinn vill - og þvert á flokka ef óskað er.

Nánar má lesa um kosningakerfið, "færanleg atkvæði", á Wikipediu. Takið eftir dálkinum lengst til hægri, "Ungrouped" - óflokksbundnir frambjóðendur sem treysta á einstaklingsatkvæði en ekki flokka."

http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/729682/#comments

Vilhjálmur bendir einnig í bloggi sínu á að í Fréttablaðinu 20. desember síðastliðinn var ágætis ritgerð um fullveldishugtakið eftir Eirík Bergmann Einarsson.

http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/751205/#comments

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 14:45

26 identicon

Ég setti smá pælingu á bloggið mitt í morgun endilega kíkið á það. http://thomol.blog.is/blog/thomol/entry/771646/#comments

Þórður Möller (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 14:50

27 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég held að það sem er brýnast að gera núna, sé að koma af stað undirskriftarstöfnun um texta sem þjóðin er sammála um. Nánari útfærsla bíður þá væntanlegt stjórnlagaþings - og þá gefst tími fyrir þjóina alla að taka þátt í þeirri umræðu.

En nú ríður á að koma skilaboðunum áleiðis.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.1.2009 kl. 20:08

28 Smámynd: Sævar Helgason

Hver vegferð hefst með einu skrefi.

Undirskriftarlisti - er það ekki málið ? Auðvitað er tillögur að stjórnarskrárbreytingu - stjórnlagaþingsins. Þar verða að vera valinkunnirmenn og konur sem sitja þar á lögréttubekk. 

Það er bjartara yfir sjávarlífinu nú um stundir en mannlífinu . Var á sjó í dag og afli góður en það sem vakti undrun mína og ánægju öðru fremur var stórmyndaleg hrefna sem renndi sér upp að mínum litla bát  - og blés hraustlega.   Þetta veit á gott, að hrefnurnar séu komnar þetta tímalega upp að landinu.... Síaðn eru þær dýrmætur gjaldeyrir ef vel tekst til í vor.

En gangi þér vel með að koma undirskriftarlistanum í umferð.

Sævar Helgason, 15.1.2009 kl. 21:26

29 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er ósköp eðlilegt að fólk vilji leggja inn sínar hugmyndir og það er góðra gjalda vert og miklu betra enn reiðilestrar sem alltof mikið hefur verið af undanfarið.

En ég er samt algjörlaga sammála Ólínu. Við skulum safna undirskriftum undir og krefjast Stjórnlagaþings. Það er góð byrjun að viðamikilli vegferð sem framundan er.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 22:49

30 Smámynd: Gísli Tryggvason

Hér er að finna skoðanakönnun - já eða nei - um hvort kjósa eigi til stjórnlagaþings:

http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/entry/772450/

Gísli Tryggvason, 16.1.2009 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband