Færsluflokkur: Ljóð

Krían er komin

Krijan_IMG_3569

   Fögur er krían á flugi
   fimlega klýfur hún vind
   flugprúð og fangar hugi,
   fránleikans sköpunarmynd.

Ég fyllist alltaf fögnuði innra með mér þegar ég sé fyrstu kríur vorsins. Þó mér þyki afar vænt um lóuna og elski blíðlega ba-bíííið hennar, þá jafnast ekkert á við kríuna, þann hugrakka, fima og fallega fugl.

 Og nú er hún komin - þessi litla lifandi orustuþota. Veri hún velkomin. 

 


Kvæðamannafélagið Iðunn 80 ára

freya Kvæðamannafélagið Iðunn er 80 ára í dag, en það var stofnað 15. sept. 1929. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að viðhalda og kenna íslenskan kveðskap og vísnagerð, safna kvæðalögum og varðveita þar með þessa merkilegu menningarhefð okkar Íslendinga sem rekja má langt aftur í aldir.

Nafn félagsins vísar til gyðjunnar Iðunnar. Hún gætti eplanna sem æsir átu til að viðhalda æsku sinni. Nafnið hæfir vel félagi sem varðveitir og heldur lífi í aldagamalli hefð.

Ég hef verið félagi í Iðunni í mörg ár, var varaformaður þess um tíma, og á margar góðar minningar frá skemmtilegum félagsfundum. Þá var oft glatt á hjalla, með kveðskap og leiftrandi ljóðmælum sem flugu milli manna. Þarna hafa margir ógleymanlegir hagyrðingar stigið á stokk í gegnum tíðina, snillingar á borð við Sveinbjörn Beinteinsson, Andrés Valberg, bræðurna Hákon og Ragnar Aðalsteinssyni, o.fl. Sömuleiðis hafa sprottið þar upp frábærir listamenn í kveðskap, menn á borð við Steindór Andersen sem hefur lagt einna drýgstan skerf til lifandi kveðskaparlistar af núlifandi Íslendingum. 

Þegar félagið fagnaði 75 ára afmæli sínu árið 2004 voru gefnar út 100 kvæðastemmur af silfurplötum Iðunnar ásamt veglegu riti með nótum að kvæðalögunum öllum og ritgerðum um íslenska kvæðahefð og rímnakveðskap. Silfurplötur Iðunnar nefndist þessi merka útgáfa sem er einstök í sinni röð og mikið þing.

Nú fagnar Iðunn áttræðisafmæli. Ég verð fjarri góðu gamni, og verð því að láta mér nægja að vera með í anda. En héðan úr Skutulsfirðinum sendi ég félögum mínum hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins -  það er braghenda:

Iðunn, til þín æsir sóttu æskuþróttinn.
Eplin rjóð í öskju þinni
yndi bjóða veröldinni.

Enn við þráum ávextina' af eski þínum,
af þeim lifna ljóð á vörum,
lífsins glóð í spurn og svörum.

Áttræðri þér árna viljum allra heilla.
Megi ljóðsins mátar finna
máttugan kraftinn epla þinna.


Laufið titrar, loga strá ...

haustlaufÉg elska haustið - það er minn tími. Þá fyllist ég einhverri þörf fyrir að fylla búrið og frystikistuna, gera sultu og endurskipuleggja híbýlin.

Á haustin færist hitinn úr andrúmsloftinu yfir á litina sem við sjáum í lynginu og á trjánum - síðustu daga hafa fjallshlíðarnar logað í haustlitum umhverfis Ísafjörð.

Þetta er fallegur tími, þó hann sé alltaf blandinn einhverri angurværð. Sumarið liðið, fuglarnir horfnir, og svona. En litadýrðin vegur sannarlega upp á móti.

Einhverntíma gerði ég þessa vísu á fallegu haustkvöldi:

Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.

 


Egill yrkir ljóð

Ljóð dagsins á Egill Helgason - það birtist á bloggsíðu hans í dag og er svohljóðandi:

Hvítur flötur 

Að sitja hjá í Icesave málinu er eins og að vera beðinn um að mála mynd og skila auðum striga.

Daginn eftir er svo hafist handa við að túlka myndina út og suður.

Sem er ekkert nema hvítur flötur.

-----------------------

Ég hefði ekki getað orðað þetta betur - og erum við Egill þó tæpast sammála í Icesave málinu.


Sól á fjörðum sindrar

Vebjarnarnupur Í dag hefur veðurblíðan leikið við okkur Vestfirðinga - það var ekki amalegt að horfa yfir lognkyrran og sólgylltan fjörðinn snemma í morgun.  Morgnarnir eru alltaf fallegastir, finnst mér.

Á svona degi er vel við hæfi að taka bloggfrí - verðskuldað bloggsumarfrí. Wink

Ég veit ekkert hvenær ég má vera að því að koma inn aftur - það kemur bara í ljós.

Á meðan læt ég standa ljóðið sem varð til hjá okkur mæðgum - mér og mömmu - þegar við heimsóttum Rauðasandinn í fyrrasumar, sælla minninga. Þá var veðurblíða líkt og nú þegar andinn kom yfir okkur. Þetta var afraksturinn:

Sól á fjörðum sindrar.
Sveipar gullnum ljóma
ljóssins tíbrá, tindrar
tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.


Sjávarplássin lifna við

Smábátar Loksins sér maður aftur líf færast yfir bryggjurnar hér fyrir vestan. Bátarnir komu inn í gær eftir fyrsta strandveiðidaginn. Þeir voru kampakátir karlarnir þar sem þeir stumruðu yfir körunum fullum af spriklandi fiski.

Hjá einum var drukkið "strandveiðikaffi" til að halda upp á þessi tímamót.

Já, loksins eftir langa mæðu eru menn aftur frjálsir að því að sigla bátum sínum út á miðin og taka þar á handfærin allt að 800 kg á dag, án þess að kaupa eða leigja til þess sérstakan kvóta.

Loksins skynjar maður eitthvað sem líkist "eðlilegu" ástandi - einhverskonar frelsi eða opnun. Fram til þessa hefur mönnum verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendurnar, nema þeir gerðust leiguliðar hjá kvótaeigendunum - eða keyptu sér kvóta dýru verði. Undanfarið hefur lítill sem enginn kvóti verið fáanlegur, svo það hefur ekki verið um marga möguleika að ræða.

Já, nú eru sannarlega tímót. Og ég er glöð yfir því að hafa getað veitt þessu máli lið inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þaðan sem frumvarpið var afgreitt fyrir skömmu.

Loks er aftur líf í höfnum,
landa bátar afla úr sjó.
Mergð er nú af mávi og hröfnum
mikil yfir fsikislóg.

Vonandi eru strandveiðarnar komnar til að vera.


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég komst suður um síðir ... settist á skólabekk ... leið eins og sjö ára

íslenskiFáninn Jæja, suður komst ég um síðir (þetta er nú eiginlega upphaf að vísu - held kannski áfram með þetta á eftir). Ég keyrði að vestan í rokinu í gær. Var nærri fokin útaf undir Hafnarfjalli, en slapp með skrekkinn, og komst leiðar minnar framhjá vörubíl sem þar lá á hliðinni og tengivagni sem var í pörtum utan vegar. Frown 

Í morgun mætti ég svo á kynningu fyrir nýja þingmenn. Starfsfólk Alþingis hefur í allan dag verið að mennta okkur nýliðana og kynna okkur fyrir helgidómum þessarar elstu og virðulegustu stofnunar landsins.

Það var svo einkennilegt, að nú greip mig skyndilega löngu gleymd tilfinning. Það var sama tilfinningin og fyrsta daginn sem ég hóf skólagöngu lífs míns. Þá var ég sjö ára telpa á tröppum Hlíðaskólans í Reykjavík. Undarleg tilfinning - merkileg og eftirminnileg.

Fram kom í máli Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, að aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti á Alþingi en nú. Ekki einu sinni á fyrsta þingfundi endurreists Alþingis árið 1845. Þá voru nýir þingmenn 25, nú eru þeir 27. Woundering Sögulegt. 

Þetta hefur verið langur dagur. Eftir kynninguna miklu og merku tók við þingflokksfundur kl. 16. Því næst fundur með þingmönnum kjördæmisins kl. 18.

skutull-nyrÉg kom heim á áttunda tímanum í kvöld. Þar beið hann Skutull - hundurinn minn sem þið sjáið sem hvolp á myndinni hérna. Greyið litla - búinn að bíða eiganda síns í 10 klst. 

Kvalin á samviskunni tók ég hann út í laaaaáángan göngutúr - 2 klst. Hugsaði um leið að ekki hefði ég viljað eiga lítil börn í því hlutverki sem ég gegni núna (eins gott að yngsta barnið mitt er orðið 15 - og auk þess í traustri umsjá föður síns vestur á fjörðum, um þessar mundir). 

En af því ég byrjaði hér á ljóðlínu - þá er best að spinna þráðinn áfram og segja ferðasöguna í bundnu máli. Og þar sem ég er innblásin af virðingu fyrir gömlum tíma (hinu aldna Alþingi) finnst mér við hæfi að fyrna mál mitt í samræmi við tilefnið:

Suður komst ek um síðir.
Súguðu vindar stríðir.
Máttumk um miðjar klíðir
mjök forðast voða hríðir.

Þinghús blésu á blíðir
blævindar mildir, þýðir.
Salirnir virðast víðir,
það vegsami allir lýðir. 

Wink 


Maísólin okkar skein í dag

1.maí07.gangan.gústi 1. maí gangan á Ísafirði í dag var sú fjölmennasta frá því ég flutti hingað vestur. Það var frábært að sjá hversu margir fylktu sér á bak við fána verkalýðsfélaganna við undirleik Lúðrasveitar Vestfjarða sem leiddi gönguna. Dagskráin var létt og skemmtileg og ræður góðar.

Ástæðan fyrir hinni miklu þátttöku er vafalaust efnahags- og atvinnuástandið í landinu. Það er líka vert að vekja á því athygli - eins og einn ræðumanna dagsins benti á - að baráttusöngur verkalýðsins sem ortur var á frönsku árið 1870 á við enn þann dag í dag. Kannski hefur hann aldrei verið betur viðeigandi en einmitt nú - sérstaklega niðurlag fyrsta erindis, sem ég letra hér með rauðu í tilefni dagsins (þýð. Sveinbjörn Egilsson).

Fram þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök
nú bárur frelsis brotna á ströndum
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burt vér brjótum!
Bræður, fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt vér hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

:/  Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd./:

skutull08Annars var þetta frábær dagur. Við,  félagar Björgunarhundasveitinni, notuðum góða veðrið til þess að taka æfingu með hundana nú síðdegis. Við fórum inn í Álftafjörð þar sem sólin skein á lognværan og sindrandi sjóinn. Það var maísólin okkar. Smile

Við heyrðum í fugli og fundum lykt af rekju og vaknandi gróðri í vorblíðunni. Hundarnir réðu sér ekki af kæti og vinnugleði. Yndislegt.

 


Dagsins lifna djásnin enn ...

Arnarfjordur3.AgustAtlasonDagsins lifna djásnin enn,
af draumi vaknar spurnin hljóð:
Verð ég til þess valin senn
að vinna fyrir land og þjóð?

Þessi vísa braust fram í höfuðið á mér rétt eftir að ég vaknaði í morgun. Í dag ráðast leikar varðandi það hverjir fá umboð til þess að vinna fyrir þjóðina að loknum kosningum.

Íslendingar eiga skýran valkost. Hann er sá að leiða jafnaðarstefnuna til öndvegis undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar, og hafna þar með harðneskju frjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir um árabil.

Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem öðrum flokkum fremur horfir til framtíðar og þeirra tækifæra sem vænta má í samstarfi og samfélagi við aðrar þjóðir. Hún er eini flokkurinn um þessar mundir sem býður upp á stefnu og framtíðarsýn í peningamálum.

Stefnu sinni í Evrópumálum deilir flokkurinn með stærstu samtökum atvinnulífsins, bæði launafólks og atvinnurekenda, eins fram hefur komið í umsögnum  með nýbirtri Evrópuskýrslu. 

Allt frá efnahagshruninu hefur Samfylkingin unnið að því að byggja brú fyrir heimilin í landinu til að yfirstíga erfiðleikana sem hrunið olli. Aðgerðirnar eru bæði almennar og sértækar. Megináhersla hefur verið lögð á það að leysa vanda skuldsettustu heimilanna og koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný með þrennt fyrir augum:

1) Að hraða endurreisn fjármálakerfisins og skapa skilyrði fyrir enn hraðari lækkun vaxta og endurvinna traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Fyrirtækin verða að fá upplýsingar um það hvert stefnir í gjaldeyris- og vaxtamálum því það eru lykilþættirnir í starfsumhverfi þeirra.

2) Að ráðast strax í arðbærar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum hins opinbera til að fjölga störfum.

3) Að styðja við þau nýsköpunarfyrirtæki sem eru sprotarnir að stórfyrirtækjum framtíðarinnar.

Samfylkingin hefur svikalaust einhent sér í erfið og aðkallandi verkefni eftir efnahagshrunið. En hún lætur ekki þar við sitja. Íslenskir jafnaðarmenn bjóða líka upp á skýra framtíðarsýn.

Já, kjósendur standa frammi fyrir sögulegu tækifæri í dag. Það tækifæri mega íslenskir jafnaðarmenn ekki láta renna sér úr greipum. 

 

---------

PS: Myndina hér fyrir ofan tók sá frábæri myndasmiður Ágúst Atlason í Arnarfirði á dögunum.


Sumrinu fagnað í snjómuggu

faninn Þeir hleyptu í herðarnar, otuðu fánastöngunum fram og héldu af stað með hálfpírð augun mót snjómuggunni - ungskátarnir sem fóru fyrir skrúðgöngunni eftir skátamessuna í morgun. Í humátt á eftir gengum við, nokkrir vetrarbúnir bæjarbúar, og fylgdum trommuslættinum um götur bæjarins.

Sumarið heilsar heldur hryssingslega hér á Ísafirði í ár. Þetta kann þó að vera góðs viti, því sumar og vetur frusu saman í nótt. Það veit á góða tíð samkvæmt þjóðtrúnni.

En þar sem ég þrammaði á eftir skrúðgöngunni í morgun kom mér til hugar þessi vísa:

Okkur lengi í ljóssins yl,
líf og yndi þyrsti,
þá í svölum sortabyl
kom sumardagur fyrsti.

Gleðilegt sumar öllsömul og takk fyrir veturinn sem er að líða. Fari hann vel með öllu því sem honum fylgdi.

Megi Harpan og sumarmánuðirnir boða okkur betri og gjöfulli tíð.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband