Færsluflokkur: Vefurinn

Margur heldur mig sig

Enn eina ferðina tókst þingmanni Borgarahreyfingarinnar að fanga athygli fjölmiðla um stund, með yfirlýsingum um einelti, kúgun og ofbeldi á hinu háa Alþingi. Vandlætingartónninn leyndi sér ekki - en í honum var þó holur hljómur að þessu sinni. 

Þetta er sami þingmaður og fyrir fáum dögum var tilbúinn að selja sannfæringu sína gagnvart ESB til þess að ná fram frestun á Ice-save, málinu.

Þessi þingmaður - og fleiri í hennar flokki - hafa verið ósparir á hneykslunarorð og brigslyrði um aðra þingmenn og þeirra meintu hvatir í hverju málinu af öðru. Hneykslun og vandlæting hafa verið nánast einu viðbrögðin hvenær sem mál hefur komið til umræðu í þinginu.

Þið fyrirgefið, gott fólk - en ég gef ekki mikið fyrir svona málflutning. Og nú vil ég fara að heyra einhverjar tillögur frá þessu fólki um það hvað megi betur fara - hvernig það megi betur fara. Það væri bara svo kærkomin tilbreyting frá þessum falska vandlætingarsöng að heyra eins og eina málefnalega tillögu, bara eitthvað sem túlka mætti sem málefnalegt innlegg.

Þeir sem eru tilbúnir að selja sannfæringu sína ættu ekki að vanda um fyrir öðrum.

 


Sól á fjörðum sindrar

Vebjarnarnupur Í dag hefur veðurblíðan leikið við okkur Vestfirðinga - það var ekki amalegt að horfa yfir lognkyrran og sólgylltan fjörðinn snemma í morgun.  Morgnarnir eru alltaf fallegastir, finnst mér.

Á svona degi er vel við hæfi að taka bloggfrí - verðskuldað bloggsumarfrí. Wink

Ég veit ekkert hvenær ég má vera að því að koma inn aftur - það kemur bara í ljós.

Á meðan læt ég standa ljóðið sem varð til hjá okkur mæðgum - mér og mömmu - þegar við heimsóttum Rauðasandinn í fyrrasumar, sælla minninga. Þá var veðurblíða líkt og nú þegar andinn kom yfir okkur. Þetta var afraksturinn:

Sól á fjörðum sindrar.
Sveipar gullnum ljóma
ljóssins tíbrá, tindrar
tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.


Ómetanlegt starf björgunarsveita

 Það er mikið gleðiefni að þessi björgunaraðgerð skyldi takast giftusamlega. Ég veit að björgunarsveitarmenn um land allt gleðjast ævinlega í hjarta sínu þegar vel tekst til eins og í þessu tilviki. Það er nefnilega sama hvar á landinu þeir eru staddir þegar aðgerð er í gangi - þeim verður alltaf hugsað til þeirra sem bíða björgunar, og félaga sinna sem eru á vettvangi. Þannig er það bara.

Atvik sem þetta minna okkur á það hve björgunarsveitir landsins vinna ómetanlegt starf. Björgunarsveitarmaður spyr aldrei hvað klukkan sé, hvernig veðrið sé úti, hvort ekki geti einhver annar farið, þegar þörf er fyrir aðstoð. Hann stekkur af stað, hvernig sem á stendur.  

Þarna tókst vel til - og því ástæða til að óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með það.

Talandi um björgunarsveitir: Við Skutull brugðum okkur í blíðviðrinu í dag á æfingu með Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar upp á Seljalandsdal. Það var svo yndislegt veðrið að það var eiginlega full mikið af því góða fyrir hundana. Þeim reynist oft erfitt að vinna í miklum hita. Samt stóðu þeir sig allir vel ... og á öndinni, eins og við mátti búast. Wink

Sjálf er ég orðin sólbrennd og sælleg eftir þennan dásamlega sólardag.

skutull.sumar08

 


mbl.is Dreng bjargað úr jökulsprungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð eða áreiti

Síðustu daga hefur tölvupóstum rignt yfir okkur alþingismenn. Fyrst var það vegna Ice-save samningsins, síðan vegna Evu Joly. Þetta eru fjöldapóstar með stöðluðu orðalagi sem sendir eru jafnvel aftur og aftur frá sama fólki.

Ég hef viljað svara þessum sendingum, vegna þess að ég tel það kurteisi að svara bréfum. Sú góða viðleitni mín er nú þegar orðin stórlöskuð, því þetta er óvinnandi vegur.

Ástæða þess að ég færi þetta í tal núna er sú að mér finnast fjöldasendingar af þessu tagi vera vond þróun. Þær leiða til þess að þeir sem fyrir þeim verða gefast upp á samskiptum við sendendur. 

Þar með rofna tengslin milli þingmannsins og kjósandans. Samskiptin hætta að vera gagnkvæm - þau verða einhliða. Í stað samræðu kemur áreiti. Það er slæmt.

Fjöldasendingar þar sem fólk notast við skilaboð sem einhver annar hefur samið, og sendir í þúsundavís á tiltekinn hóp viðtakenda, þjóna sáralitlum tilgangi. Vægi skilaboðanna aukast ekkert við það þó sama bréfið berist þúsund sinnum. Það verður bara að hvimleiðu áreiti. Því miður.

Mun þægilegra væri fyrir alla aðila ef þeir sem standa fyrir fjöldasendingum af þessu tagi myndu einfaldlega opna bloggsíðu þar sem safnað væri undirskriftum við tiltekinn málstað. Síðan væri þeim málstað komið á framfæri við alþingismenn og önnur stjórnvöld í eitt skipti. Það væri eitthvað sem hefði raunverulega vigt.

Þetta er mín skoðun ... að fenginni reynslu.

 


Skuggahlið bloggsins

Ég heyri það að þú ert nýbyrjuð - sagði fyrrverandi þingmaður við mig í samtali fyrr í dag. Ég var að tjá honum áhyggjur mínar yfir framgangi tiltekins máls sem ég hef með höndum. Ég var að segja honum frá athugasemdum og ummælum sem ég hefði heyrt frá tilteknum aðilum og vildi taka mark á. Honum fannst ég taka þessu allt of alvarlega- og kannski hefur hann nokkuð til síns máls. 

Kannski er ég að taka allar athugasemdir sem falla of alvarlega. En ástæðan er sú að ég tek starf mitt alvarlega og lít á það sem skyldu mína að hlusta á fólk og taka tillit til sjónarmiða þess. Um leið finnst mér brýnt að leyna ekki skoðun minni og vera hreinskiptin.

Þetta gerir sjálfri mér erfitt fyrir, því þegar fólk beinir reiði sinni að mér persónulega - reiði sem á þó upptök sín annarsstaðar og verða ekki rakin til mín - þá hefur það  samt áhrif á mig.  Ég er bara þannig sköpuð -  þegar ég skynja vanlíðan og reiði annarra líður mér illa.

Síðust daga hafa komið margar athugasemdir inn á bloggsíðuna mína þar sem fólk tjáir reiði og vanlíðan með ýmsu móti. Birtingarmynd þessa hefur á köflum verið neikvæðari og persónulegri en góðu hófi gegnir.

Ég byrjaði upphaflega að blogga fyrir rælni - en ástæða þess að ég hélt áfram var sú að það gaf mér heilmikið að eiga skoðanaskipti við fólk. Eftir að ég varð þingmaður hafa þessi samskipti breyst. Það er auðséð að fjöldi manns lítur mig ekki sömu augum og áður, og athugasemdirnar bera þess vitni. Alls kyns skætingur, meinbægni og útúrsnúningar eru að verða hér daglegt brauð á kostnað uppbyggilegrar rökræðu. Afraksturinn er m.a. sá að margir góðir bloggvinir hafa horfið á braut og sjást ekki hér lengur. Ég sakna þeirra. Ég sakna ánægjunnar af því að skiptast á orðum við velviljað og áhugasamt fólk.

Ég hugleiði nú alvarlega að loka fyrir allar athugasemdir hér á blogginu - vegna þess hvernig orðræðan hefur þróast í athugasemdakerfinu.

Ég ætla að gefa þessu tvo þrjá daga. En verði ekki breyting á því hvernig fólk tjáir sig hér, þá mun ég loka fyrir skoðanaskiptin.


Umskiptingar umræðunnar

Umræðan um Ice-save samningin er orðin gjörsamlega galin. Aðrar eins yfirlýsingar og sést hafa hér á blogginu í fyrirsögnum, færslum og athugasemdum, eiga sér ekki fordæmi (ekki einu sinni í Lúkasar-málinu víðfræga).

Stjórnarandstæðingar virðast hafa náð þeim merka árangri í þessu máli að trylla almenning úr hræðslu. Ábyrgur málflutningur eða hitt þó heldur. Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp málflutning eins þeirra, Bjarna Benediktssonar, fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar hann talaði fyrir samkomulagi af þessu tagi í þinginu, eins og bent hefur verið á (hér). Það er ekki að sjá að hér tali einn og sami maðurinn.

Nú er látið í veðri vaka að stjórnvöld hafi skrifað undir samning sem muni koma þjóðinni á vonarvöl. Kjörin sem okkur bjóðist í þessum samningi séu afleit, og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.

Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán.  Auk þess gefst okkur greiðslufrestur fyrstu sjö árin - og það munar um minna í þeim þrengingum sem þjóðin gengur í gegnum nú.

Enginn samningur er undirritaður fyrir hönd þjóðarinnar nema með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Það er því mikil rangfærsla að láta eins og hér sé verið að skuldbinda þjóðina án samráðs við þingið. Þetta mál verður að sjálfsögðu til umfjöllunar og endanlegrar staðfestingar þar. Stóð aldrei annað til.

Hins vegar er jafn ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að framkvæma stjórnarathafnir og gera samninga í umboði kjósenda. Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa fullt umboð til þess sem þau eru að gera. Þau voru til þess kosin. Það er svo Alþingi sem hefur síðasta orðið - í þessu máli sem öðrum.

Hér er farið að landslögum. Hér er unnið í þágu lands og þjóðar. 


Ennþá veðurteppt ... skapið þyngist

Ég er enn þá veðurteppt á Ísafirði - vindinn ætlar seint að lægja.

En þessi færsla er helguð blogg-ósið einum sem lengi hefur farið í taugarnar á mér. Það er hvernig fólk misnotar skilaboðadálkinn sem opnaður hefur verið fyrir bloggvini í stjórnkerfinu.

orðsendingar Í fyrstu var gaman að kíkja á þessa skilaboðaskjóðu, því þangað komu kveðjur og orðsendingar frá öðrum bloggvinum sem ætlaðar voru manni persónulega, eða þröngum hópi bloggvina. Svo fór að bera á því að menn sendu inn tilkynningar um bloggfærslur sínar, ef þeim lá mikið á hjarta. Gott og vel, þá hópuðust bloggvinirnir inn á síðuna hjá viðkomandi. Þetta sumsé svínvirkaði. Og fleiri gengu á lagið. Svo varð þetta of mikið. Nú rignir daglega inn hvimleiðum skilaboðum frá fólki sem er að vekja athygli á eigin bloggfærslum - og hinar orðsendingarnar, þessar persónulegu, drukkna í öllu saman.

Skilaboðaskjóðan er ekkert skemmtileg lengur. Hún er bara smáauglýsingadálkur fyrir athyglisækna bloggara, þar sem hver keppist við að ota sínum tota.

Mjamm .... það verður sjálfsagt ekkert flogið í dag. Whistling

 


Samfylking gerir hreint fyrir dyrum

skalgert Þá hefur Samfylkingin gert hreint fyrir sínum dyrum og opnað bókhald sitt fyrir árið 2006 þannig að nú má sjá hverjir greiddu flokknum styrki. Það er vel.

Á þessu ári eru 14 ár liðin síðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn lagafrumvarp á Alþingi um opið bókhald stjórnmálaflokka. Slík lög tóku loks gildi í ársbyrjun 2007. Fram til þess hafa ársreikningar Samfylkingarinnar verið aðgengilegir á vef hennar - og svo hefur verið allt frá stofnun flokksins. Þar má sjá heildaryfirlit styrkja frá einstaklingum og lögaðilum. Nöfn einstakra styrktaraðila hafa hinsvegar ekki verið birt, fyrr en með nýjum lögum árið 2007.

En þó að Samfylkingunni beri ekki lagaleg skylda til þess að opna bókhald ársins 2006 með þeim hætti sem nú hefur verið gert, var hárrétt ákvörðun að gera það engu að síður í ljósi síðustu atburða.

Yfirlitið ber með sér að Samfylkingin hefur ekkert að fela. Þarna kemur fram að ennfremur er verið að taka saman styrki kjördæmis- og fulltrúaráða og einstakra félaga fyrir árið, og verða þeir einnig birtir opinberlega þegar tölur liggja fyrir. Slíkar upplýsingar virðist enginn annar flokkur ætla að veita.

Fram kemur  í þessari frétt á eyjan.is að styrkir frá bönkunum hafi skv. almennum reglum bankaráðanna verið farnir að nema fjórum til fimm milljónum kr. árið 2006. Það er há upphæð - en virðist hafa verið það sem aðrir stjórnmálaflokkarnir fengu. Hins vegar er eftirtektarvert að hæsti einstaki styrkur til Samfylkingarinnar er 6 sinnum lægri en sá sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá FL Group.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort aðrir stjórnmálaflokkar munu opna bókhald sitt fyrir árið 2006 með þessu hætti.


mbl.is Samfylking opnar bókhaldið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjölmiðla

bréfburður Bréf Fjármálaeftirlitsins til nokkurra fjölmiðlamanna þar sem þeim er hótað málsókn fyrir að rjúfa bankaleynd er eitt þeirra mála sem ég hef ekki komist til að blogga um fyrr en nú. Mér rennur þó blóðið til skyldunnar að segja nokkur orð um þetta mál.

Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna kveður á um skoðana- og tjáningarfrelsi allra manna án utanaðkomandi afskipta og rétt fólks til þess að afla sér og taka við upplýsingum og hugmyndum hvaða fjölmiðils sem er án tillits til landamæra.

Í alþjóðlegum siðareglum blaðamanna sem UNESCO samþykkti 1983 er kveðið á um rétt einstaklinga og samfélaga til þess að taka við raunsönnum og hlutlausum upplýsingum sem fengnar eru með vönduðum hætti, og sömuleiðis að tjá sig frjálslega gegnum ólíka menningar og samskiptamiðla. Skjalið tekur m.a. á  eftirfarandi þáttum:

  • Óhlutdrægni fjölmiðlamanna
  • Ábyrgð þeirra gagnvart samfélaginu
  • Fagmennsku þeirra og vönduðum vinnubrögðum
  • Virðingu fyrir almannahagsmunum og lýðræðislegum stofnunum
  • Umhyggju fyrir gildismati og siðferði samfélaga

Blaðamannafélög víðsvegar um heim hafa sett sér siðareglur, sem allar ber að sama brunni og byggja á alþjóðlegum staðli: Samkvæmt þeim eru nokkrar skyldur lagðar á herðar blaðamanna, m.a.: 

  • Að þeir séu óháðir stjórnmálaöflum og valdhöfum
  • Að þeir hafi skarpa sýn á greiningarhlutverk fréttamiðla (umfram hið augljósa, hið áhugaverða eða yfirborðslega)
  • Að þeir miðli raunsönnum, sanngjörnum og skiljanlegum fréttum
  • Að þeir þjóni öllum samfélagshópum (ríkum, fátækum, ungum, gömlum, íhaldssömum, róttækum, o.s.frv.)
  • Að þeir verji og haldi fram mannréttindum og lýðræði
  • Að þeir aðhafist ekkert sem rýrt geti traust almennings á fjölmiðlum.

Hótanirnar í bréfi FME  um viðurlög og refsingu vega umfjöllunar um bankahrunið eru ógnun við tjáningarfrelsið og upplýsingaskyldu fjölmiðla við almenning. Ætti erindi þess að ná fram að ganga væri alvarlega vegið að grundvelli íslenskrar fjölmiðlunar og þeim gildum sem henni ber að starfa eftir.

Hér má sjá viðtal við Agnesi Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson um þetta mál í Silfri Egils um helgina.


Hver ætlar að sjá um fólkið? Endurtekin hugleiðing.

Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og baráttuþrek til þess að vinna "Íslandi allt" eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir fóru til starfa í stórfyrirtækjum og í "útrásir" erlendis. Samtímis fækkaði þeim stöðugt sem horfðu umhyggjuaugum á landið sitt. 

Skeytingarleysið varð að algleymi og svo hrundi bankakerfið - þar með traustið. Þegar ég var lítið barn var mér kennt að setja aurana mína í bauk. Svo fór ég með baukinn í bankann. Honum var treystandi til að geyma þá og ávaxta. Þetta var manni kennt. Það var þá.

Nú er tími landsfeðranna liðinn. Þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig - en hver ætlar að sjá um fólkið?

Skáletraða hlutann hér fyrir ofan fann ég á vafri mínu um bloggsíðuna mína. Þetta eru hugleiðingar frá því fyrir tveimur árum. Sannleikshlaðin orð - án þess ég hafi fyllilega gert mér grein fyrir því þegar þau voru skrifuð hversu nöturlega sönn þau voru.

Já - hver ætlar að sjá um fólkið?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband