Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Kærleiksstjórnun á Litla-Hrauni

margretFrimanns Margrét Frímannsdóttir er að gera góða hluti á Litla-Hrauni. Endurhæfingardeildin sem hún hefur komið upp, þar sem fangar fá tilsögn í húshaldi, matreiðslu og þessháttar til að undirbúa þá fyrir athafnir daglegs lífs, er í mínum huga dæmi um betrunarviðleitni þessarar stofnunar sem svo allt of lengi hefur verið geymslustaður fyrir afbrotamenn. Staður þar sem þeir áttu litla möguleika á að skapa sér tækifæri til endurkomu inn í samfélagið. Vonandi er að verða breyting á núna.

Síðasta tiltækið - að fá Margréti Sigfúsdóttur, hússtjórnarskólaskólastjóra og kennara, til þess að kenna föngunum um almennt húshald - á þann hátt sem henni einni er lagið - er frábært framtak. 

"Kærleiksstjórnun" er hugtakið (eða nýyrðið) sem mér kom til hugar þegar ég las um þessa nýjung á Hrauninu. Þessir stjórnunarhættir Margrétar Frímannsdóttur bera vott um umhyggju og uppbyggingu sem er allt of sjaldséð í opinberri stjórnsýslu.

Kærleikurinn er mikils megnugur þar sem hann fær notið sín. Ég óska Margréti Frímannsdóttur til hamingju með það sem hún er að gera og sendi henni og hennar skjólstæðingum bestu velfarnaðaróskir.

 


Sorglegt að sjá

Það er sorglegt að sjá þessar aðfarir lögreglumanns gagnvart unglingspilti sem grunaður var um búðarhnupl en reyndist svo alsaklaus þegar til kom, og ekkert fannst á honum. En þó svo hefði verið - þá réttlætir það ekki svona aðfarir. Þetta er unglingur - og það er nú ekki eins og hann hafi verið grunaður um stórglæp. Afbrot hans virðist einkum vera að lýsa yfir sakleysi sínu. 

Ég velti fyrir mér afleiðingum þessa atviks á sálarlíf piltsins og tilfinningar þeirra sem voru með honum til lögreglunnar  framvegis. Svo  mikið er víst að þetta eykur ekki traust almennings á lögreglunni. Innra með sjálfri mér hafa vaknað alvarlegar efasemdir um að lögreglumönnum sé innrætt rétt hugarfar gagnvart borgurum þessa lands, þ.á.m. unglingum.

Ef íslenskir lögreglumenn þola ekki að þeim sé svarað á vettvangi - hvar stöndum við þá?  Hver eru réttindi borgaranna ef þeir mega ekki tjá sig við lögregluna án þess að eiga á hættu  meiðingar og lítillækkun?

Löggæslustörf eru vissulega krefjandi - þau eiga að vera það. En þessar aðstæður voru ekkert sérlega krefjandi. Hver einasti grunn- eða framhaldsskólakennari hefði leyst betur úr þessu máli en lögreglumaðurinn gerði þarna. Þetta var einfaldleg ástæðulaus árás á varnarlausan ungling. Lögregluoflæti - paranoja.

Og hvað skyldu lögregluyfirvöld gera í málinu, nú þegar atvikið er lýðum ljóst?

Hvað hefðu þau gert ef þetta myndband væri ekki til staðar? Spyr sú sem ekki veit.

 


mbl.is Mál lögreglumanns til ríkissaksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Agabrot" Guðjóns Þórðarsonar?

GuðjónÞórðarson Guðjóni Þórðarsyni finnst lítið koma til líkamlegs ástands ýmissa dómara í karlaknattspyrnunni. Hann telur að lögum KSÍ sé ekki réttilega beitt og að liðum sé mismunað. Guðjón fullyrðir þetta og virðist hvergi banginn. Þetta er hans skoðun.

Viðbrögð framkvæmdastjóra KSÍ eru þau að vísa ummælum Guðjóns til úrskurðar aganefndar.

Aganefndar?  Á nú að taka í lurginn á Guðjóni fyrir að segja skoðun sína?

Væri ekki nær að láta rannsaka hvað hæft er í fullyrðingum Guðjóns - því þær eru alvarlegar. Þær eru um að dómarar innan KSÍ hafi haldið sérstakan fund í bakherbergjum til þess að leggja á ráðin um að sýna Skagamönnum, og þá sérstaklega einum leikmanni, í tvo heimana. Þær eru um að alvarlegur misbrestur sé á því að reglum KSÍ sé framfylgt - til dæmis sé vikið frá reglum varðandi þrekmat dómaranna sjálfra.

Þegar stórar fullyrðingar eru settar fram er sjálfsagt að rannsaka hvað hæft er í þeim. Samkvæmt starfsreglum aganefndarinnar á hún fyrst og fremst að fjalla um "brot leikmanna, þjálfara, forystumanna félaga, félaga og áhorfenda" eins og þar segir. Þá fjallar nefndin um "önnur mál, sem berast henni og/eða hún telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna leikja, sem fram fara í landinu, enda fjalli ekki aðrir um þau."

Nú er spurningin þessi: Er verið að vísa málinu til aganefndar til þess að fá úr því skorið hvað rétt sé og satt í ásökunum Guðjóns, eða .... sem ég óttast ... er litið á ummæli hans sem agabrot? Stendur kannski til að setja Guðjón í bann eða dæma á hann sektir svo hann þegi framvegis (og halda menn virkilega að Guðjón láti þagga þannig niður í sér) ??

Mér líst ekki á þetta. Því hvað svo sem segja má um Guðjón Þórðarson, þá á hann rétt á því að gagnrýna KSÍ ef honum finnst á sér brotið. Það er grundvallar réttur allra sem eiga að lúta reglum KSÍ. Annað væri óheilbrigt. KSÍ hefur ekkert gott af því að vera undanþegið gagnrýni. Þvert á móti.

Ef alvarlegar ásakanir koma fram um misbeitingu valds og brot á reglum ber að rannsaka sannleiksgildi slíkra ummæla skilyrðislaust. Ef eitthvað er hæft í fullyrðingum Guðjóns, þá er það grafalvarlegt mál fyrir KSÍ. Forsvarsmenn félagsins hljóta að vilja reka af sér slyðruorðið og fá úr því skorið með óyggjandi hætti hvað satt er.  Eða hvað?

Komi hins vegar í ljós með óyggjandi hætti að Guðjón hafi rangt fyrir sér - þá er hann ómerkingur orða sinna. Það er ærin refsing fyrir mann sem vill láta taka mark á sér.


Markaðstorg þjóðanna. Getspeki Sigmars.

euroband Mikið déskoti var Sigmar seigur að giska á einkunnagjöf þjóðanna í Júróvisjóninni í gær. Það er eiginlega það sem stendur upp úr - svona fyrir utan frammistöðu Íslendinganna í keppninni.

Getspeki Sigmars segir manni það líka að tónlistin sjálf skipar æ minni sess í þessari keppni. Þetta er auðvitað fyrst og fremst markaðstorg þar sem þjóðirnar keppast við að vekja athygli á sér og auglýsa sig fyrir fjárfestum, ferðamönnum, alþjóðlegum verslunarkeðjum og þar fram eftir götum. Og það er orðið átakanlega fyrirsjáanlegt hvernig atkvæði falla milli þjóða og svæða. Við Íslendingar erum þar engin undantekning - kjósum Norðurlandaþjóðirnar og Vestur-Evrópulöndin og þiggjum þeirra stuðning á móti. Enda var það línan fyrir keppnina.

Svolítið hlálegt fannst mér að sjá Þýskaland og Lettland fá tólf stig einhversstaðar frá - svona í ljósi þess að flutningur þeirra var alveg rammfalskur á köflum. Reyndar finnst mér með ólíkindum að sjónvarpsáhorfendur skuli þurfa að hlusta á rammfalskan söng í jafn tæknivæddri útsendingu og Júróvisjón - þar sem keppendurnir eiga að vera það sem stendur upp úr eftir undankeppnir. Ég heyrði ekki betur en Rúmeníuframlagið hafi líka verið falskt - jafnvel sænska lagið á köflum. Blush

Þess vegna hefði ég orðið móðguð ef við Íslendingar hefðum ekki komist upp fyrir Svía. Segi það satt. Okkar flytjendur slógu hvergi feilnótu og fóru aldrei út af sporinu - heldur voru landi og þjóð til mikils sóma.

Takk fyrir það.

 


Eiturúðun á almenningssvæðum

grasflöt Í morgun þegar ég var á leið til vinnu blasti við mér undarleg sjón. Tveir unglingspiltar með hanska á höndum og grímur fyrir andlitum stóðu á litlu grasflötinni neðan við húsið hjá mér og úðuðu torkennilegu efni úr bláum dunki yfir grasið. Af múnderingunni að dæma voru þeir að eitra fyrir einhverju þarna á flötinni - þar sem er svosem enginn gróður annar en gras. Og þessi flöt er nú bara svolítil brekka þar sem gaman er að setjast niður í góðu veðri.

Ég varð því hugsi yfir þessu: Gat verið að að verið væri að setja einhverskonar eitur ofan í grasið? Til hvers? Í hvers þágu? Og hvar voru merkingarnar - viðvaranirnar? Og hversvegna voru piltarnir ekki betur útbúnir? Þarna stóðu þeir - annar á rifnum gallabuxum með stóru gati rétt ofan við hné - og eiturúðinn sprautaðist í allar áttir í nokkurra sentímetra fjarlægð. 

Við hjónin stöðvuðum bílinn og maðurinn minn skrapp yfir til þeirra að spyrjast fyrir. Kom þá í ljós að piltarnir skildu hann ekki . "Við sprauta" sögðu þeir bara - og héldu iðju sinni áfram.

Nú spyr ég: Hvað er verið að eitra í grasflatir í almenningsumgengni? Og ef svo er, hversvegna eru þá ekki settar upp viðvaranir og merkingar? Ef ég hefði ekki beinlínis gengið fram á þetta, þá hefði ég verið allt eins líkleg til þess að koma stuttu seinna og setjast í grasið. Börnin sem búa í götunni leika sér oft í brekkunni - velta sér í grasinu - og enginn hefur hugmynd um að þetta sama gras hefur verið úðað með einhverri óhollustu stuttu áður. 

Og útgangurinn á strákunum - ef ég hefði átt þessa drengi og komið að þeim svona útbúnum að úða eitri, þá hefði ég bókstaflega trompast. Angry

Þar fyrir utan held ég að þessi eitrunarárátta sé gengin allt of langt. En það er önnur umræða.


Glæsilegt hjá Eurobandinu

eurobandið Það gerist sjaldan - og æ sjaldnar satt að segja - að ég fyllist sannkölluðu þjóðrembustolti yfir frammistöðu Íslendinga á erlendri grundu. Seint hélt ég að ég myndi sitja með gæsahúð af gleði yfir Júróvisjón. Það hefur bara ekki gerst síðan Sigga Beinteins og Grétar Örvars flatteruðu hálfan heiminn - já, og Selma svo reyndar seinna. Því miður minnist ég þess oftar að hafa setið hálf vandræðaleg og stressuð fyrir framan skjáinn að fylgjast með okkar fulltrúum í keppninni.

En í kvöld gerðist það aftur. Smile 

Ég bókstaflega sat sem bergnumin og var að SPRINGA af stolti.Wizard Þau Regína Ósk og Friðrik Ómar ásamt félögum sínum í bakbandinu stóðu sig með sönnum sóma. Lífleg, geislandi, örugg - þetta var sko alvöru frammistaða.

Og mér er bara nákvæmlega sama hvar við lendum í þessari keppni þegar upp er staðið - ég er svo harðánægð með mitt fólk. Það var ekki hægt að gera þetta betur. Hvort Evrópa kann svo að meta þetta er önnur saga. En ég lít þá frekar á það sem evrópskt menningarvandamál ef okkar fólk fær ekki gott brautargengi í keppninni. Cool

Ég óska okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu frammistöðu Júróbandsins. Kissing  


mbl.is „Kom skemmtilega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsamstarfið - sjávarútvegsráðherrann - LÍÚ

Hrefna Er Einar Kristinn Guðfinnsson að reyna að ganga í augun á LÍÚ - eiga hvalveiðimenn einhverja hönk upp í bakið á honum? Það er erfitt að átta sig á því hvað maðurinn er að hugsa. Þriðja árið í röð gefur hann út hrefnuveiðikvóta - og setur allt í uppnám.  

Um leið sendir hann fingurinn í átt að þeim sem hafa undanfarin misseri verið að byggja upp hvalaskoðun sem valkost í ferðaþjónustu. Þeir aðilar eru augljóslega ekki jafn beintengdir inn í sjávarútvegsráðuneyti og hvalveiðimennirnir - enda ekki aðilar að LÍÚ, en þau annars ágætu samtök virðast stjórna sjávarútvegsráðuneytinu. 

Hann sendir líka fingurinn í átt að þeim sem hafa á undanförnum árum verið að markaðssetja íslenskar útflutningsvörur - að ekki sé minnst á þá sem hafa unnið ötullega við að skapa okkur ímynd með áherslu á umhverfissjónarmið. Hann setur utanríkisráðherrann í klemmu - já og alla diplómatana sem ötullega vinna að því að skapa okkur Íslendingum sess í samfélagi þjóðanna. 

Hvað er maðurinn að hugsa? 

Svo mikið er víst að þetta bætir ekki orðstír okkar Íslendinga. Hér er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Hafi það verið ætlun sjávarútvegsráðherra að sýna af sér djörfung og dug, þá er honum ekki að takast sérlega vel upp. Þetta er hvorki djörfung né dugur - þetta er bara þrákelkni og fífldirfska. Sjávarútvegsráðherra væri nær að beita kröftum sínum og viðspyrnu gegn óréttlátu kvótakerfi - þar hefur hann ekkert aðhafst. Ekkert.

Svo má spyrja hvað ráðherranum gangi til gagnvart samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn. Auðséð er af yfirlýsingu utanríkisráðherra - formanns Samfylkingarinnar - að þessar nýjustu tiltektir hafa ekki vakið lukku í stjórnarsamstarfinu.

Er Einar Kristinn að ögra samstarfsflokknum? Getur verið að Sjálfstæðismenn séu að guggna í ríkisstjórninni?


mbl.is Alvarleg aðför að hvalaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnað "útkall" á Skálavíkurheiði

Patton Í gær tókum við útkallsæfingu á Skálavíkurheiði og Tungudal ofan Bolungavíkur. Þegar ég segi "við" á ég við félagana í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélag Ísafjarðar en sveitirnar tvær efndu sameiginlega til þessarar æfingar.

 Við settum á svið leit að fjórum týndum einstaklingum - kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var "vitað" hvorumegin skyldi leita þeirra.

Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni. Allt unghundar sem voru að þreyta sína fyrstu þrekraun í "útkalli". Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Að þessu sinni var ég í skipulagsteyminu sem stjórnaði æfingunni, enda er minn hundur ekki tilbúinn ennþá í svona stórræði.

Æfingin tókst í alla staði vel - og það var ótrúlega gaman að sjá hundana vinna úr þessu verkefni, þessar elskur. Hundar eru frábært fyrirbæri þegar kemur að leitum. Lyktarskyn þeirra, hraðinn, vinnueinbeitingin. En sumir þeirra voru orðnir ansi þreyttir í lokin.

"Útkallið" barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.

Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Félagar úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar aðstoðuðu í æfingunni. Þeir gengu svæðið eða léku ´"týnda" fólkið, eftir því sem þurfa þótti og stóðu sig í alla staði vel.

BHSI-ISO


Þarfasti þjónninn, félaginn, hljóðfærið ...

computer Það er svo undarlegt að hugsa til þess á hve örskömmum tíma tölvan - þetta litla tæki (núorðið) -  hefur náð að skipa sér sess í lífi manns. Tölvan er orðin miðpunktur alls sem gerist.

Í vinnunni er hún þarfasti þjóninn. Hún er glugginn út í heim. Samskiptatækið við vini og vandamenn. Hljóðfærið sem ég hamra á tregatóna um andvökunætur og gleðisöngva á góðum dögum. Já, þó skömm sé frá að segja þá hefur tölvan (nánast) tekið við af píanóinu og gítarnum sem sálusorgari og gleðigjafi. Í stað þess að slá á strengi er ég farin að hamra á tölvu til þess að tjá hugsanir mínar, ljóðasmíð og fleira. Tölvan er orðin helsti tengiliðurinn við lífið. Hún er "félaginn" - hljóðfærið - síminn! 

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Woundering

Svo, til að kóróna skömmina, er hún líka farin að taka sér sess sem hálfgildings persóna. Þessi sem ég er að vinna á núna, er svolítið farin að þreytast. Hún er farin að hiksta og þrjóskast við - vera lengi að sumum hlutum. Og þá finn ég hvernig óþolinmæðin og ergelsið byggist upp gagnvart henni smátt og smátt. Já, ég viðurkenni það bara - ég er farin að TALA við tölvuófétið! Æ, vertu nú ekki að þreyta mig þetta - reyndu nú að moðast í gegnum þetta! Tuldra ég stundum. ÞÚ ætlar þó ekki að fara að frjósa núna!Angry

Svo suma daga er hún eins og hugur manns - lætur allt renna þýðlega í gegn og er bara draumur í dós (í orðsins fyllstu). Þá erum við vinkonur - og ég strýk henni mjúklega í þakklætisskyni þegar ég loka henni. Finn að mér er hlýtt til hennar.

Nú er ég farin að strjúka henni líka áður en ég opna hana - svona til að blíðka hana aðeins áður en við byrjum - það virkar ..... stundum Wink


Harmleikur? Ekki fyrir máfinn!

alft Þessi tárvota frétt um "harmleikinn" í álftahreiðrinu - þar sem svartbakar komust í feitt og átu eggin eftir að hafa hrakið álftina af hreiðrinu - er svolítið yfirdrifin. Þið fyrirgefið.

Altso - segi ég nú bara eins og gamli landlæknirinn: Er fólk ekki að átta sig á því hvernig dýrin lifa og nærast úti í náttúrunni? Harmleikur!? Fyrir hvern? Ekki máfinn sem svo sannarlega fékk þarna góða veislu. Svartbakar éta egg annarra fugla - það gerum við mannfólkið líka. Best að horfast í augu við þetta börnin góð. Svartbakar eru ekki grænmetisætur. Og það sem þarna gerðist er ekki fréttaefni - heldur lífsins gangur. Hafi þetta nú gerst með þessu hætti á annað borð. En eins og kemur fram í athugasemdum fuglafræðinga þá er nú heldur ólíklegt að álft geti ekki varist máfum.

Af þessum atburði er svo dregin sú ályktun að "engir álftarungar muni kost á legg þetta árið". Er nú ekki fullsnemt að segja svona? Það er ekki langt liðið á vor, og mér fínnst ótrúlegt annað en að náttúran hafi einhverskonar varaáætlun í boði fyrir fugla sem verða fyrir svona skakkaföllum nýorpnir. Þó veit ég ekki með stóran fugl eins og álftina. Vona það samt.

 


mbl.is Harmleikur á Bakkatjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband