Færsluflokkur: Kjaramál

Reynslan af strandveiðunum

fiskur Nú er lokið tveggja mánaða reynslutímabili strandveiðanna sem samþykktar voru með lagabreytingu á Alþingi fyrr í sumar. Ætlunin var - samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní - 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.

Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).

SmábátarSamkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af kvótabundnum tegundum. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi. 

 Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu rétt innan við 4000 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.

Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.

Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður - hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.

Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.

En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins - þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand - einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.

Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.


Lífsgæðin á landsbyggðinni

DyrafjordurAgustAtlason Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 166 frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí á þessu ári á meðan landsmönnum fækkaði um 109. Þetta las ég á fréttasíðunni skutull.is  haft eftir Hagstofunni

Langt er síðan Vestfirðingum hefur fjölgað annað eins á milli ára.  Þeir eru nú 7.445 talsins og hefur þeim þar með fjölgað um 2,3% milli ára, sé rétt reiknað. Wink  

Ein afleiðing kreppunnar á Íslandi virðist ætla að verða sú að hagur landsbyggðarinnar vænkist. Fólk sér nú fyrir sér fleiri ákjósanlega búsetukosti en borgina. Víða úti á landi er húsnæði ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu, vegalengdir styttri, öll þjónusta nær manni og um leið lipurri. Þar  er atvinnuleysi víðast hvar lítið. Fólk kemst í nánari snertingu við náttúruna, stutt er í gönguleiðir, skíðalönd og á aðrar útivistarslóðir. skidi-ReykjavikIs

Í litlu samfélagi verður einstaklingurinn stærri en hann annars væri -  það getur verið ótvíræður kostur, þó stundum sé það líka galli.  En í litlum byggðarlögum skipa allir máli.

Raunar sýna hagstofutölurnar að þrátt fyrir fækkun á landsvísu, þá fjölgar íbúum í flestum landshlutum nema á Austurlandi og Vesturlandi.  Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði bæði í Hafnarfirði og Kópavogi en fólki fækkaði hinsvegar í Reykjavík.  Á þessari stundu er ekki gott að segja til um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir höfuðborgina - enda liggur ekki fyrir nákvæm greining á því að hvaða þjóðfélagshópar það eru sem eru að yfirgefa borgina, og í sumum tilvikum landið. Við verðum því sjálf að geta í þær eyður. 

 En það eru þó góðar fréttir að landsbyggðin skuli vera inni í myndinni sem vænlegur og raunhæfur búsetukostur fyrir fjölda fólks - enda held ég að þeir sem ala allan sinn aldur í Reykjavík og næsta nágrenni hennar fari mikils á mis. Kostir þess að búa úti á landi verða aldrei skýrðir fyrir þeim sem ekki þekkir til af eigin raun, því þar erum við að tala um lífsgæði sem ekki mælast í hagtölum.

kyr2

Kjör námsmanna

Austurvöllur LÍN er orðið algjört grín nefnist  athyglisverð grein eftir Dagnýju Ósk Aradóttur laganema og fv formann Stúdentaráðs HÍ. Þar rekur hún fyrir lesendum kjör námsmanna sem þurfa að reiða sig á framfærslulán LÍN. Fram kemur að námslán einstaklings í eigin eða leiguhúsnæði eru 100.600 krónur á mánuði. Tekjuskerðingin er síðan 10% þannig að námsmaður sem er með 800.000 krónur í tekjur á síðasta ári (t.d. 200.000 krónur á mánuði í heildartekjur fyrir fjögurra mánaða sumarvinnu) fær 91.711 krónur á mánuði þá níu mánuði sem hann stundar námið hér heima. Þá á hann eftir að greiða húsaleigu - sem varla getur verið mikið minni en 40-50 þúsund á mánuði - sem þýðir að hann hefur kannski 10-12 þús krónur milli handa í viku hverri. Það er varla fyrir mat.

Dagný ræðir ekki um kjör erlendra námsmanna, svo mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að því efni.

Námsmenn erlendis fá greidda 9 mánaða framfærslu á skólaári, og gildir þá einu þó að skólaárið sé í reynd 10 mánuðir víða, eins og t.d. í Danmörku. Mánaðarleg útborgun til nemanda sem býr einn í íbúð ætti að vera 7200 dkr á mánuði en er í reynd 6400 dkr þar sem skólaárið er 10 mánuðir.  Lánin eru greidd eftir á þannig að nemendur eru alltaf með yfirdrátt í banka. Vextirnir af yfirdrættinum fylgja stýrivöxtum og hafa því farið í 19%. Meðalhúsaleiga fyrir stúdenta í Danmörku er 3500 - 4000 dkr á mánuði, þannig að þá sér hver maður að ekki er mikið eftir.

Námsmenn erlendis reiða sig algjörlega á framfærsluna frá LÍN. Þeir hafa ekki stuðningsnet fjölskyldunnar (geta t.d. ekki skroppið í mat til foreldra) auki þess sem atvinnumöguleikar þeirra eru skertir við núverandi aðstæður. 

Það er því ekki mjög freistandi fyrir ungt fólk að setjast á skólabekk um þessar mundir. Það krefst ódrepandi áhuga, staðfestu og seiglu.

Loks er umhugsunarefni að atvinnuleysisbætur á Íslandi eru nálægt 150 þús kr á mánuði, eða um þriðjungi hærri en námslánin. 

Þetta þarf að athuga betur.


Strandveiðar á 17. júní?

Í morgun var strandveiðifrumvarpið svokallaða tekið út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ef heppnin er með tekst kannski (vonandi) að afgreiða það úr þinginu í kvöld.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. við loka umfjöllun þess í nefndinni í morgun.  Síðustu breytingarnar bar ég upp við nefndina í morgun. Samþykkt var að ákvæðið um 800 kg af þorski auk meðafla í hverri veiðiferð skyldi hljlóða upp á 800 kg af fiski í kvótabundnum tegundum. Þá var tímaákvæði frumvarpsins breytt úr 12 klst í 14 klst sem hver veiðiferð má taka.

Ýmsar aðrar smálegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sem ég hygg að séu allar til bóta, enda hafa fjölmargir umsagnaraðilar komið á fund nefndarinnar og verið inntir álits.

Það væri óskandi ef takast mætti að afgreiða frumvarpið svo breytt úr þinginu í dag. Ef ekki, þá verður það tekið fyrir á fimmtudag.

Það er a.m.k. nokkuð ljóst að menn geta farið að gera sig klára svona hvað úr hverju.

Mottó dagsins: Þeir fiska sem róa Wink


Réttmæt ábending

Það er rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að nú verða allir að standa saman ef takast á að rétta við ríkishallann og endurreisa efnahagslífið.

Eftir allt lýðskrumið sem vaðið hefur uppi í umræðunni að undanförnu er kærkomin tilbreyting að heyra  forystumann atvinnurekenda og fyrrum alþingismann Sjálfstæðisflokksins tala af stillingu og skynsemi um stöðu mála og lýsa vilja til að leggja hönd á plóg. Þetta er hin ábyrga afstaða og sú nálgun sem þörf er á um þessar mundir. Flokkssystkini Vilhjálms á Alþingi mættu af honum læra í þessu efni.

Það hefst ekkert með sundurlyndi og hrópum - samstaða og stilling er eina leiðin til þess að ná tökum á ástandinu.


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svo slæmt

húsnæði Fréttablaðið segir frá því í dag að leiguverð sé að lækka mikið á húsnæðismarkaði, um þriðjung eða þar um bil.

Það var tími til kominn, segi ég. Verð á leiguhúsnæði var komið upp úr öllu valdi. Nú er þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu leigð á 80 til 120 þúsund á mánuði, en var í mesta góðærinu á bilinu 110 til 160 þúsund. Hver hefur efni á slíku - jafnvel í góðæri?

Nú veit ég að þetta helst í hendur við fasteignaverð - en þið fyrirgefið - fasteignaverðið var líka orðið of hátt. Það mátti lækka.

Neibb - þetta eru ekki svo slæmar fréttir. Og vonandi skapast nú forsendur fyrir því að hér geti orðið til stöðugur og heilbrigður leigumarkaður fyrir húsnæði. Það hefur skort lengi. 


Samstöðu er þörf

Stundum er talað um það að sama hugmyndin skjóti rótum á mörgum stöðum samtímis. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þessarar kenningar þegar ég las meðfylgjandi frétt um afstöðu ASÍ til þess sem gera þarf fyrir heimilin í landinu. Eitt af því sem samtökin leggja áherslu á er að ráðnir verði "a.m.k. 50 fjármálaráðgjafar strax til að aðstoða fólk í greiðsluvanda". Síðast í gær sett ég inn þessa bloggfærslu, en þar var ég m.a. að hvetja til þess að gert yrði stórátak í því að veita almenningi fjármálaráðgjöf. Ekki er vanþörf á.

Þar fyrir utan þarf að koma upplýsingum mun betur á framfæri en verið hefur um þau úrræði sem fólki standa til boða í greiðsluvanda. Fjölmiðlar bera þar ríka ábyrgð - sömuleiðis stjórnvöld og fjármálastofnanir.

Vandi skuldsettra heimila eykst dag frá degi. Annars vegar er brýn þörf á björgunaraðgerðum vegna bráðavanda - hinsvegar er aðkallandi að grípa til almennra aðgerða sem létt geta byrðunum af fólki. Þessi úrlausnarefni geta ekki beðið.

Verkalýðshreyfingin hefur nú komið fram með tillögur sem stjórnvöld hljóta að hlusta eftir. Í þeim vanda sem við er að eiga verða allir að hjálpast að. Vinnumarkaðurinn, félagasamtök, menntastofnanir, fjölmiðlarnir og stjórnkerfið.

Þjóðin á heimtingu á því að við núverandi aðstæður leggi menn léttvæg ágreiningsefni til hliðar og sameinist um mikilvægustu aðgerðir og ... hlusti eftir raunhæfum tillögum og góðum ráðum.

 


mbl.is ASÍ vill bráðaaðgerðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband