Færsluflokkur: Sjónvarp

Þrenn Grímuverðlaun fékk dóttirin: Þeir fiska sem róa!

Humanimal09Það gladdi mitt meyra móðurhjarta að sjá þrenn Grímu-verðlaun renna til sýningarinnar Húmanimal í kvöld - ég tala nú ekki um þegar Saga dóttir mín tók við einni styttunni sem danshöfundur. Heart Hún tók við þeim verðlaunum í fullri hógværð ásamt Möggu vinkonu sinni, sem líka fékk verðlaun sem dansari ársins. Báðar tóku skýrt fram (og það með réttu) að hópurinn allur ætti þessar styttur sem þær héldu á.

Já, þær voru sannarlega bæði þakklátar og örlátar á þessari sigurstundu - vildu ekki eiga neitt einar - hugsuðu til félaga sinna - deildu gleðinni og heiðrinum með fleirum. Fallegar og rétt þenkjandi ungar konur. Sannkallaðir listamenn.

Annars var ég að verða úrkula vonar um að ég kæmist á afhendingarathöfnina í tæka tíð. Strandveiðifrumvarpið sem ég hef haft framsögu um sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kom svo seint inn til þriðju umræðu í þinginu að sjálft við lá að ég missti af Grímu-athöfninni. Loks þegar málið var komið á dagskrá og menn voru stignir í pontu til að þenja sig yfir því, var klukkan að verða sjö. 

Í brjósti mér toguðust á ólíkar tilfinningar: Löngunin til að fara eina ferðina enn í umræðurnar og reka nokkrar rangfærslur ofan í mótherjana - hinsagasvegar löngun móðurinnar til að samgleðjast dóttur sinni sem var að fá fjölda tilnefninga fyrir listrænt framlag, og var hugsanlega að fara að taka við verðlaunum (sem kom á daginn).

Eins og oft áður varð móðurhvötin pólitíkinni sterkari. Ég ákvað því að blanda mér ekki frekar í umræðuna - taldi mig hafa sagt í gær allt sem segja þurfti um málið - lét taka mig út af mælendaskrá og ... stakk af! Blush Og viti menn: Þingheimur komst af án mín þessar mínútur sem eftir lifðu fundarins. Það hefði dóttir mín svosem gert líka á þessari gleðistundu, en ég hefði ekki viljað missa af því að vera viðstödd. 

Það er af Strandveiðifrumvarpinu að segja að umræðunni lauk í kvöld, en frumvarpið með áorðnum breytingum kemur til atkvæðagreiðslu á fimmtudagsmorgun. Því er ljóst að strandveiðarnar munu ekki hefjast á þjóðhátíðardaginn, úr því sem komið er.

Mottó dagsins er enn sem fyrr: Þeir fiska sem róa!


mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráð - lét hún það heita

Nú falla þung orð í þinginu - þyngri en efni standa til.

Þingmaðurinn Eygló Harðardóttir sakar ríkisstjórnina um "landráð" og menn tala blygðunarlaust um "lygar", benda með fingri á einstaka þingmenn og þar fram eftir götum.

Eitt er að kalla eftir lýðræðislegri umræðu - sjálfsagt að virða slíkar óskir. En þeir sem hrópa á opna og lýðræðislega umræðu verða líka að vera ábyrgir orða sinna og gæta þeirra. 

Þingmenn geta ekki leyft sér hvað sem er í orðavali þegar þeir standa í ræðustóli Alþingis.

"Landráð" eru stórt orð.

Hér má sjá fyrri athugasemd mina við þetta í umræðum þingsins í dag og hér er sú síðari. Hávær framíköll sem heyrast í annarri athugasemdinni koma frá nokkrum stjórnarandstæðingum, einkum Eygló Harðardóttur og Tryggva Þór Herbertssyni.

 


mbl.is Stór orð á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jómfrúarræðan framundan

Í dag kl. 14 verða utandagskrárumræður um fyrirhugaða innköllun veiðiheimilda. Ég hef mun taka til máls í þessari umræðu - svo jómfrúarræðan mun fjalla um sjávarðútvegsmál. Það fer vel á því fyrir þingmann sem kemur úr Norðvesturkjördæmi. Wink

Málshefjandi í þessari umræðu er Einar K. Guðfinnsson og til svara verður að sjálfsögðu sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason.

Við Róbert Marshall munum taka til máls af hálfu Samfylkingarinnar, ég sem varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Jebb ... nú er það byrjað ...

 


Umskipti á Alþingi

thingsalur Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á þeirri miklu endurnýjun sem orðin er á Alþingi Íslendinga. Þessir átta sem fluttu jómfrúarræður sínar í eldhúsdagsumræðunum í kvöld eru aðeins um þriðjungur nýrra þingmanna. 

Aldrei nokkurn tíma hafa fleiri nýir þingmenn  (27) tekið sæti á Alþingi Íslendinga.  Ekki einu sinni á fyrsta fundi endurreists Alþingis árið 1845, því þá voru þeir 25.

Ef með eru taldir þeir þingmenn sem komu nýir inn fyrir tveimur árum, þá hafa 42 þingmenn af 63 setið skemur en 2 ár.  Það eru ansi mikil umskipti.

Jóhanna flutti stefnuræðu sína í kvöld af einurð og alvöru. Hún gerði grein fyrir stöðu mála, því sem gert hefur verið og því sem framundan er. Var að venju laus við skrúðmælgi. Hógvær - trúverðug.

Steingrímur J. var mælskur og rökfastur eins og oftast.  Hann talaði fyrir endurreisn efnahagslífsins, endurskipulagningu í sjávarútvegi og atvinnulífi, og stakk vel upp í þá talsmenn kvótaeigenda sem talað hafa um fyrningarleiðina sem "þjóðnýtingu". Hann spurði: Hvernig er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á nú þegar - eða hver á eiginlega fiskimiðin? 

Bjarni Benediktsson var ekki hógvær. Hann hafði þarna gullið tækifæri til að gangast við ábyrgð síns flokks íá efnahagshruninu. Það hefði hann getað gert í fáum setningum - gerði það ekki. Hann horfði heldur ekki til framtíðar, virtist fastur í einhverju karpi. Talaði óljóst í Evrópumálum. Bauð sjálfur engar lausnir.

Sigmundur Davíð talaði með tilþrifum - mest um það hvað Framsókn hefði fengið litlu ráðið í fyrri ríkisstjórn (sem þeir voru ekki hluti af, en vörðu falli með svokölluðu "hlutleysi" sem þeir virtust þó aldrei skilja hvað þýddi). Hann var kaldhæðinn í tali, en ekki alveg málefnalegur að sama skapi.  Framsókn lagði sínar áherslur í dóm kjósenda. Kjósendur kváðu upp sinn dóm. Það þýðir lítið að deila við þann dómara.

Ræðurnar í kvöld voru sumsé misgóðar. Sumar voru vel fluttar, en rýrar að innihaldi - minntu meira á málfundaæfingar hjá Morfís þar sem meira er lagt upp úr fasi og fyndni en alvarlegri rökræðu. Öðrum mæltist betur, og sumir fluttu framúrskarandi ræður, þar á meðal voru nokkrar jómfrúarræður (mér fannst góður tónn í máli Margrétar Tryggvadóttur, Ólafar Nordal, Ásmundar Einars, Sigmundar Ernis o.fl.). 

Hvað um það. Nú er alvaran að byrja: Fyrir þessu sumarþini liggja eitthvað um hundrað þingmál frá tíu ráðuneytum.  Og svo ég nefni nú bara nokkur mál sem hafa verið heit í umræðunni að undanförnu, þá eru þarna m.a. frumvörp um

  • þjóðaratkvæðagreiðslur, 
  • stjórnlagaþing,
  • persónukjör,
  • hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja
  • að fallið sé frá kröfum um ábyrgðamenn á lánum námsmanna
  • frjálsar handfæraveiðar
  • breytingu á búvörulögum
  • breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfnisreglum í ljósi fjármálaáfallsins
  •  breytingar á lögum um hlutafélög til að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra

Auk þess eru ýmis merk mál til umfjöllunar og afgreiðslu - ég nefni bara þingsályktunartillög um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Á morgun er hefðbundinn þingfundur - á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnartími og frumvarp um hlutafélag um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja með meiru.


mbl.is Átta jómfrúrræður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formannafundur Sjónvarpsins: Framtíðarsýn andspænis dylgjum og úrræðaleysi ... Saari grípur fyrir eyrun

Þá er formannafundurinn nýafstaðinn á RÚV og komið að því að meta frammistöðu manna.

SigmundurDavidSigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, dylgjaði stórum um leyndarskjöl og meintar yfirhylmingar sem svo kom í ljós að fær ekki staðist. Sigmundur Davíð lét í það skína að hann hefði upplýsingar upp úr skýrslu sem hvorki fjármálaráðherra né forsætisráðherra hafa aðgang að. Það þýðir að eini maðurinn sem er með yfirhylmingar er þá líklega hann sjálfur, því hann vildi hvorki upplýsa hvernig hann hefði komist yfir umræddar upplýsingar, né heldur vildi hann gera nánari grein fyrir þeim. Hélt sig þess í stað við stóryrði og hálfkveðnar vísur og var hvorki trúverðugur né traustvekjandi.

AstthorMagnusson Það hvarflaði að mér að Ástþór hefði hitt naglann á höfuðið þegar hann talaði um þá sem stjórna Framsóknarflokknum bak við tjöldin.

Ástþór var annars ... Whistling BjarniBenediktsson

 

Bjarni Ben var úrræðalaus og virtist stressaður - jafnvel reiður á köflum. Hann bauð kjósendum engar lausnir á þeim vanda sem við er að eiga. Samkvæmt honum má ekki hækka skatta, samt á að fara í flatan niðurskurð - þó ekki á öllum sviðum. Og samhliða þessu ætlaði hann að skapa 20 þúsund störf Shocking sem hann gat þó ekki tilgreint nánar. Eins og Sigmundur Davíð hljóp hann í hræðsluáróður  og yfirboð inn á milli.

thor-saariÞór Saari var bestur þegar hann greip fyrir eyrun. Grin Annars bauð hann ekki upp á neinar lausnir frekar en ofannefndir. Hann sagði þó ýmislegt skynsamlegt um menn og málefni. Það háir Borgarahreyfingunni að hún hefur skýrari sýn á vandann en lausnina, veit hvað hún vill gagnrýna en bendir á fátt til bóta. Fyrir vikið verður málflutningur þeirra árásargjarn og hneykslunarkenndur sem verður yfirborðslegt til lengdar.

 GudjonArnar

Guðjón Arnar er alltaf skynsamur - maður að mínu skapi, þó okkur greini á um margt. Hans flokkur stendur mjög höllum fæti núna og óvíst að Guðjón Arnar komist inn á þing. Það væri þó að mínu viti mikill skaði ef hann félli út. Hann talar ævinlega hreint út eins og  Vestfirðingum er tamt. 

 SteingJSigf                                                                                                                                                 Steingrímur Joð var góður. Hann lenti í vandræðum varðandi ESB umræðuna og álverið á Bakka en leysti það þolanlega. Hann hefði mátt fá meira næði á köflum til að svara ýmsu sem til hans var beint.

 

 Nú er ég auðvitað ekki hlutlaus varðandi Jóhönnu. Ég var mjög sátt við hennar framöngu í johannadv_835281.jpgþættinum. Hún svaraði hispurslaust öllu sem um var spurt. Útskýrði vel og nákvæmlega hugmyndir Samfylkingarinnar um þau verk sem vinna þarf.  Þar kom glöggt fram sá vilji að verja velferðina eftir því sem kostur er í erfiðu árferði.

Upp úr stóð að Samfylkingin er eini flokkurinn með skýra stefnu og framtíðarsýn. Nú ríður á að við fáum skýlaust umboð til að tryggja vinnu og velferð með ábyrgri efnahagsstjórn. Við erum sammála stærstu samtökum launafólks og atvinnurekenda um að hefja eigi samningaviðræður við ESB strax í vor á grundvelli skýrra markmiða og gefa þjóðinni kost á að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst að undangenginni aðildarumsókn.  Þá fyrst veit þjóðin hvaða kostir eru í boði með aðild, og þá kosti getur hún kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef bjargfasta trú á því að við jafnaðarmenn munum ná þjóðinni út úr erfiðleikunum  Til þess þurfum við umboð og styrk. Ekkert nema atkvæði greitt Samfyklingunni getur  tryggt okkur þann styrk sem  þarf til að gera þessa leið að veruleika.

 


Jóhanna bar af

JohannaDV

Jóhanna Sigurðardóttir flutti þá albestu ræðu sem ég hef heyrt hana flytja lengi, í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í gær. Hún stóð upp úr sem málsverjandi íslensks almennings. Gjörsamlega laus við lýðskrum, yfirboð  eða upphrópanir flutti hún mál sitt og gerði grein fyrir þeim verkefnum sem unnið er að og fyrir liggja af tilhlýðilegri festu og ábyrgð.

Þau verkefni eru mörg og stór:

 

  • Endurreisn efnahagslífsins,
  • endurskipulagning stjórnsýslunnar,
  • að verja velferðina og heimilin,
  • byggja upp atvinnulífið og
  • reisa við banka- og fjármálakerfið.

 Þá er ónefnf eitt veigamesta viðreisnarstarfið sem er

  •  að endurheimta traust okkar á alþjóðavettvangi og ennfremur
  • að endurvinna traust almennings á leikreglum samfélagsins og framgöngu þeirra sem þar ráða málum.

Það leynir sér ekki að síðustu vikur hafa verkin verið drifin áfram í stjórnarráði Íslands. Menn þar á bæ segja að forsætisráðherrann hreinlega andi niður um hálsmálið á þeim til að halda þeim að verki. Þar er unnið nánast myrkranna á milli. Enda veitir ekki af.

hsh-28Annars fannst mér Helga Sigrún Harðardóttir líka standa sig býsna vel í þessum eldhúsdagsumræðum.  Þó að ég sé henni fullkomlega ósammála varðandi ýmislegt, þá var einhver sjálfsgagnrýninn og heiðarlegur tónn í málflutningi hennar sem snerti mig vel. Vonandi munu fleiri slá svipaðan tón í störfum sínum á Alþingi eftir kosningar. Það er tími til kominn að nálgast viðfangsefnin þar á bæ með öðru hugarfari en verið hefur síðustu ár. Það er að segja af aukinni einlægni og minni meinbægni.

 


Búsáhaldabylting á Ásvöllum

IslandEistlandVisirÞað var ekki leiðinlegt að sjá íslensku strákana sigra Eistana með 14 marka mun í leiknum áðan. Guðjón Valur og Björgvin stóðu sig fádæma vel, báðir - já og liðið í heild sinni. 

Stemningin á vellinum var galdri líkust - ég hefði viljað vera þar. Þetta var eins og í búsáhaldabyltingunni. Enda árangurinn eftir því. 

 

Myndinni hnuplaði ég af visir.is - ég vona að mér fyrirgefist það.

Áfram Ísland ! Wizard


mbl.is Ísland vann stórsigur á Eistlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þurfum nýja leiðarstjörnu

stjarna_ris Síðustu daga höfum við orði vitni að ómálefnalegum illdeilum og rifrildi þingmanna um fánýta hluti í sölum Alþingis þar sem meiru virðist skipta að koma höggi á pólitíska andstæðinga en bjarga landinu. Þær uppákomur eru sorglegt dæmi um það hversu lítið menn hafa lært af atburðum undangenginna mánaða, þrátt fyrir allt.

Hafi einhverntíma verið ástæða til þess að veita okkar litlu þjóð lausn frá hryllingi gærdagsins með nýrri leiðarstjörnu - þá er það nú.

Við, sem stöndum að áskoruninni um stjórnlagaþing á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is höfum af því vissar áhyggjur að bakslag sé komið í áform stjórnvalda um að verða við þessu ákalli. Í erindisbréfi því sem ráðgjafahópur ríkisstjórnarinnar fékk fyrir nokkrum dögum er lítil áhersla á stjórnlagaþing. Sömuleiðis hafa heyrst úrtöluraddir innan úr flokkunum - þar á meðal ríkisstjórnarflokkunum.

Þeir sem styðja kröfuna um stjórnlagaþing en hafa beðið átekta með að rita nafn sitt á undirskriftalistann ættu ekki að bíða lengur. 

Stefnt er að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars og þá skiptir máli að þær séu sannfærandi margar. Stjórnvöld verða að skilja að þjóðinni sé alvara. Krafan um boðun stjórnlagaþings er brýnni nú en nokkru sinni.

 -----------------------

  PS: Þessa fallegu mynd fann ég á síðunni www.glymur.blog.is og tók mér það bessaleyfi að birta hana hér.


Kastljósið í kvöld - ÍNN á mánudagskvöld.

Í kvöld mætti ég þeim Þorbjörgu Helgu Vigfússdóttur og Ómari R Valdimarssyni í Kastljósi vikunnar. Við tókumst á um atburði líðandi viku, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan. Það glóði svolítið á okkur Þorbjörgu Helgu sá ég þegar ég kíkti á þáttinn á netinu. Hún er ung og glæsileg kona með ákveðnar skoðanir og mjög ákveðna framkomu - en auðvitað vorum við ekki sammála um margt frekar en við mátti búast.

Þeir sem áhuga hafa geta horft á þetta spjall okkar HÉR.

Fyrr um daginn gerði ég hálftíma þátt á ÍNN sem verður víst ekki sendur út fyrr en á mánudagskvöld kl. 21.30. En sá þáttur fjallar um stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing. Ég fékk til liðs við mig Gísla Tryggvason, talsmann neytenda. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur látið sig þessi mál varða ekki síst á bloggsíðu sinni (sjá hér).

Þið fylgist vonandi með þessu þegar þar að kemur. Wink


Forseti útilokar ekki utanþingsstjórn

Forseti Íslands útilokar ekki utanþingsstjórn - það fannst mér vera það athyglisverðasta sem kom fram í hans máli í dag. Sömuleiðis sú áhersla sem hann kveðst leggja á að sátt ríki í samfélaginu um stjórnarformið. Sú yfirlýsing finnst mér frekar ýta undir þennan skilning minn.

Þá gat ég ekki betur heyrt en að krafan um stjórnlagaþing eigi sér samhljóm í hugmyndum forseta sem hann færði m.a. í tal í sínu áramótaávarpi  og áréttaði á blaðamannafundinum í dag.

En hvað segið þið lesendur góðir. Væri það ekki bara kærkomið fyrir þjóðina að fá einhverja við stjórnvölinn sem ekki eru á sama tíma að vasast í kosningabaráttunni.

Væri það ekki bara góð hvíld fyrir langhrjáða þjóð og langþreytta stjórnmálamenn að skilja nú landsstjórnina frá kosningabaráttunni ?

Eða svo ég orði þetta nú enn skýrar: Er óhætt að setja við þessa aðstæður menn í landstjórnina sem á sama tíma eru að kljást í  kosningabaráttu? Er ekki nóg komið? 

En við spyrjum að leikslokum - það verður spennandi að fylgjast með þessu.

 logo  Nýtt lýðveldi  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband