Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Egill yrkir ljóð

Ljóð dagsins á Egill Helgason - það birtist á bloggsíðu hans í dag og er svohljóðandi:

Hvítur flötur 

Að sitja hjá í Icesave málinu er eins og að vera beðinn um að mála mynd og skila auðum striga.

Daginn eftir er svo hafist handa við að túlka myndina út og suður.

Sem er ekkert nema hvítur flötur.

-----------------------

Ég hefði ekki getað orðað þetta betur - og erum við Egill þó tæpast sammála í Icesave málinu.


Stund milli stríða

Nýliðið sumar hefur verið afar viðburðaríkur tími. Tími annríkis. Reynsluríkur tími.

Þingmenn hafa lítið næði fengið til að kasta mæðinni eða eiga samvistir með fjölskyldu eða vinum. Nú þegar það næði loksins gefst eru skólarnir byrjaðir og vetrardagskráin hafin hjá flestum.

Engu að síður er gott að eiga svolitla stund milli stríða.

Nú um helgina koma þeir feðgar til borgarinnar - sonurinn að keppa í fótbolta. Móðirin staðráðin í að vera honum (hæfileg) hvatning á hliðarlínunni. Wink

Svo er meiningin að skella sér vestur eftir helgina, reyna að njóta þess að eiga nokkurra vikna eðlilegt heimilislíf, tína ber ef veður leyfir, æfa hundinn og svona ... prjóna.

Sjáumst þegar ég nenni að byrja að blogga aftur.

Hafið það gott á meðan.


Magma Energy, erlent fjármagn, eignarhald ríkisins, almannahagsmunir

Bjarnarflag Ég hef ekkert á móti erlendu fjármagni eða skynsamlegri einkavæðingu. En þegar erlend fyrirtæki gera sig líkleg til þess að sölsa undir sig nýtingarrétt íslenskra auðlinda á kjörum sem varla geta talist annað en afarkostir - þá vil ég spyrna við fótum.

Þegar erlent stórfyrirtæki býðst til að kaupa hlut í HS-Orku  gegn því að Orkuveitan veiti 70% kúlulán (þ.e. afborganalaust lán sem greiðist í lok lánstíma) til sjö ára, á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum - þá fæ ég ekki séð að erlent fjármagn sé að streyma inn í landið.

Þegar erlent stórfyrirtæki sem hefur fengið 10 ára samning við erlend orkufyrirtæki (sjá hér) með framlengingar ákvæði til annarra 10 ára (samtals 20 ár), vill gera 65 ára samning  við okkur með framlengingarákvæði um önnur 65 ár - alls 130 ár - þá líst mér ekki á blikuna.

 Þegar svona er staðið að tilboðsgerð í nýtingarrétt íslenskra auðlinda, þá finn ég brunalykt og fer að hugsa um útsölur, eins og ég hef bloggað um áður.

 Vissulega verðum við að laða erlenda fjárfesta til landsins - en það er ekki hægt að falbjóða náttúruauðlindir landsins fyrir lítið sem ekkert, jafnvel þó hart sé í ári.

Samkeppni og einkavæðing geta verið góðra gjalda verðar - en þá verða líka að vera eðlileg samkeppnisskilyrði til staðar. Slík skilyrði eru ekki til staðar á Íslandi eins og sakir standa.

Þó ekki væri nema vegna þessa, finnst mér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í fyrirhugaða sölu á hlut HS-Orku til Magma Energy, og reyni að ganga inn í tilboðið. Satt að segja held ég það sé ráðlegt eins og sakir standa. En þá sé ég fyrir mér tímabundna ráðstöfun, en ekki varanlegt eignarhald - því ég held að ríkið ætti þá að leitast við að selja hlutinn á ný, á betri kostum en þarna bjóðast.

Ef þessi samningur fer óbreyttur í gegn, er gefið fordæmi fyrir fleiri viðlíka samninga, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að arðurinn af auðlindum okkar muni renna inn í þjóðarbúið. Ég held það sé hættulegt íslenskum almannahagsmunum.

Auðlindirnar eru helsta von okkar Íslendinga núna - við megum ekki glutra þeim úr höndum okkar í eftirhruns-örvæntingu. Þetta mál er þörf áminning um þá hættu sem við gætum staðið frammi fyrir ef erlend auðfyrirtæki taka að ásælast auðlindir okkar fyrir lítið verð.

 

 


Afkomutenging lána fremur en almennar afskriftir

Þórólfur Matthíasson Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor setur fram athyglisverða hugmynd í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar leggur hann til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántakans.

Þórólfur telur að þessi leið sé í reynd hagstæðari en lánalengingar enda sé ógerningur að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta.

Mér líst vel á þessa hugmynd og hef stundum rætt þennan möguleika við óformleg tækifæri. A.m.k. tel ég það fyrirhafnarinnar virði að skoða þetta í fullri alvöru.

Bæði lántaki og lánveitandi geta haf ávinning af þessu fyrirkomulagi. Lánþeginn verður fyrir minni skerðingu ráðstöfunartekna ef tekjur hans lækka - lánveitandinn græðir á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántakans. Verulega gæti dregið úr greiðslubyrði mjög skuldsettra heimila sem aftur gæti leyst bráðan vanda margra þeirra. Þannig myndi áhætta lántakans minnka án þess að áhætta lánveitanda sé aukin að nokkur marki, eins og Þórólfur bendir á.

Fyrir afkomutengingu lána eru ýmis fordæmi erlendis frá, en líka hérlendis. Til dæmis eru afborganir námslána bundnar við tekjur. Annað fordæmi höfum við í ríkisábyrgð Icesave samninganna sem á að binda við tekjuþróun.

Ég hef auk þess lengi haft þá skoðun að það skorti gagnkvæmni í íslenska lánasamninga. Þá á ég við það að áhættan er - og hefur alltaf verið - öll skuldarans megin. Lánasamningar eru þó ekkert frábrugðnir öðrum viðskiptum, og því ekki nema eðlilegt að lánveitendur taki á sig einhverja áhættu og/eða skuldbindingar til þess að virða breyttar forsendur. 

Sigurður G. Guðjónsson hrl, kom inn á þetta í spjalli við þá Guðmund Ólafsson hagfræðing og Sigurjón M Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun, sem fróðlegt var að hlusta á (hér).  


Orkuverðmæti á brunaútsölu

Það er fróðlegt að bera saman kauptilboð Magma Energy á þriðjungshlut í HS Orku við eldri samninga fyrirtækisins við önnur orkufyrirtæki. Magma hefur gert tvo samninga í Oregon og Nevada í Bandaríkjunum sem eru aðeins til tíu ára (í stað 65 ára skv. tilboðinu í HS Orku) ) með möguleika á tíu ára framlengingu (í stað 65 ára framlengingar hjá HS Orku). Fyrstu tíu árin þarf að greiða auðlindagjald sem nemur 1,75 prósenti af heildartekjum af raforkusölu og eftir tíu ár 3,5 prósentum (sjá hér). 

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Magma ætli að fjármagna 70% kaupverðsins með kúluláni frá Orkuveitunni til sjö ára með 1,5 % vöxtum og veði í bréfunum sjálfum. Angry 

Mér finnst þetta ekki koma til greina. Ef rökin fyrir því að semja við Magma Energy eru þau að okkur vanti erlent fjármagn - þá er degin ljósara að þau rök halda ekki í þessu tilviki. Hér er ekkert erlent fjármagn sem neinu nemur. Hér er einfaldlega stórfyrirtæki að reyna að ná undir sig verðmætum nýtingarrétti auðlindar á brunaútsölu - og nýtir sér í því skyni erfiða stöðu sveitarfélags og þjóðar í kreppu.

Hætt er við að fleira af þessu tagi geti átt sér stað í þeim efnahagsaðstæðum sem við búum við núna. Við Íslendingar verðum að halda fast og vel utan um auðlindir okkar og láta ekki glepjast í tímabundnum fjárþrengingum til þess að selja ómetanleg verðmæti frá okkur, síst með afarkostum.

Ég vona að fjármálaráðherra takist með einhverjum ráðum að stöðva það sem þarna er að eiga sér stað.


Þreyttir þingmenn takast á um Icesave

Það var kominn hálfgerður svefngalsi í þingheim seint í gærkvöldi þegar Icesave umræðan hafði staðið allan liðlangan daginn. Trúlega mun umræðan halda áfram framyfir helgi, enda augljóst að fólki liggur margt á hjarta.

Í gærkvöld hitnaði vel í kolum um tíma. Ég átti m.a. í snarpri orðræðu við nokkra þingmenn stjórnarandstöðuna eftir mína ræðu seint í gærkvöld. Í máli mínu minnti ég á meinsemdir þær sem herjað hafa  og munu áfram herja á íslenskt samfélag, nema menn læri af reynslunni og hafni þeirri skefjalausu frjálshyggju sem riðið  hefur yfir þjóðina eins og holskefla. Þetta sveið sjálfstæðismönnum og aðrir stjórnarandstæðingar blönduðu sér líka í umræðuna.

Umræðurnar getur fólk séð á þessari slóð hér.

 


Afneitun og ósvífni

Því miður virðist ljóst að þeir sem stjórnuðu íslensku fjármálakerfi fyrir hrun -- hverjir enn eru sumir við stjórnvölinn og/eða virkir í opinberri umræðu -- hafa lítið lært.

Hugmyndir stjórnenda Straums-Burðaráss um bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum, er eitt talandi dæmi. Þar er um að ræða greiðslur frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða, eða 222 milljónir á hvern starfsmann bankans, sem "áætlun" hefur verið gerð um. Ummæli forstjórans þess efnis að "um væri að ræða áætlun um árangurstengd laun" sem "utanaðkomandi lögfræðingar" hefðu sagt "í fullu samræmi við það sem gengur og gerist" bæta ekki úr skák.

Sú tíð þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja fengu föst laun fyrir það eitt að draga andann, og svo bónusgreiðslur fyrir að vinna vinnuna sína - sú tíð á að heyra sögunni til. Að einhverjum skuli raunverulega koma til hugar að fara fram á "árangurstengd laun" við það að "hámarka verðmæti" þrotabús eftir fjármálahrun,  það er blaut tuska í andlit allra þeirra sem nú hafa tekið á sig lífskjaraskerðingu og búsifjar fyrir tilverknað þessarar hugmyndafræði. Leiðari Moggans tekur ágætlega á þessu máli í dag.

Annað dæmi er forherðing Kjartans Gunnarssonar, fv. stjórnarformanns gamla Landsbankans - sem ótvírætt hlýtur að teljast gerandi í bankahruninu en lætur það þó ekki hindra sig í að veitast að fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þeim björgunaraðgerðum sem nú standa yfir. Jón Baldvin Hannibalsson tók Kjartan í nefið í snarpri Morgunblaðsgrein í gær, sem ég hvet alla til þess að lesa (m.a. hér).

Hversu langt getur sjálfsafneitun og forherðing eiginlega náð?

Að fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans -- og fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem innleiddi hér hugmyndafræði hinnar skefjalausu einkavinavæðingar sem olli ógæfu okkar -- skuli veitast að þeim sem nú standa í björgunaraðgerðum á vettvangi -- það er eiginlega meiri ósvífni en maður hefði að óreyndu gert sér í hugarlund.

Gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans. Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu.


Lífsgæðin á landsbyggðinni

DyrafjordurAgustAtlason Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 166 frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí á þessu ári á meðan landsmönnum fækkaði um 109. Þetta las ég á fréttasíðunni skutull.is  haft eftir Hagstofunni

Langt er síðan Vestfirðingum hefur fjölgað annað eins á milli ára.  Þeir eru nú 7.445 talsins og hefur þeim þar með fjölgað um 2,3% milli ára, sé rétt reiknað. Wink  

Ein afleiðing kreppunnar á Íslandi virðist ætla að verða sú að hagur landsbyggðarinnar vænkist. Fólk sér nú fyrir sér fleiri ákjósanlega búsetukosti en borgina. Víða úti á landi er húsnæði ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu, vegalengdir styttri, öll þjónusta nær manni og um leið lipurri. Þar  er atvinnuleysi víðast hvar lítið. Fólk kemst í nánari snertingu við náttúruna, stutt er í gönguleiðir, skíðalönd og á aðrar útivistarslóðir. skidi-ReykjavikIs

Í litlu samfélagi verður einstaklingurinn stærri en hann annars væri -  það getur verið ótvíræður kostur, þó stundum sé það líka galli.  En í litlum byggðarlögum skipa allir máli.

Raunar sýna hagstofutölurnar að þrátt fyrir fækkun á landsvísu, þá fjölgar íbúum í flestum landshlutum nema á Austurlandi og Vesturlandi.  Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði bæði í Hafnarfirði og Kópavogi en fólki fækkaði hinsvegar í Reykjavík.  Á þessari stundu er ekki gott að segja til um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir höfuðborgina - enda liggur ekki fyrir nákvæm greining á því að hvaða þjóðfélagshópar það eru sem eru að yfirgefa borgina, og í sumum tilvikum landið. Við verðum því sjálf að geta í þær eyður. 

 En það eru þó góðar fréttir að landsbyggðin skuli vera inni í myndinni sem vænlegur og raunhæfur búsetukostur fyrir fjölda fólks - enda held ég að þeir sem ala allan sinn aldur í Reykjavík og næsta nágrenni hennar fari mikils á mis. Kostir þess að búa úti á landi verða aldrei skýrðir fyrir þeim sem ekki þekkir til af eigin raun, því þar erum við að tala um lífsgæði sem ekki mælast í hagtölum.

kyr2

Skilanefndir í lagalegu tómarúmi

Upplýsingafulltrúi Landsbankans ber þá frétt til baka  (hér) að skilanefnd bankans hafi samið við Magnús Kristinsson útgerðarmann um afskriftir á tugmilljarða skuldum, eins og fram kom í  DV og fleiri fjölmiðlum í dag (hér). Eitthvað er þó óljóst með það hvað teljist persónulegar skuldir Magnúsar og hvað sé vegna fyrirtækja í hans eigu, svo sennilega eru ekki öll kurl komin til grafar.

Hvað svo sem hæft er í fullyrðingum um skuldaafskriftir fyrir tugi milljarða, þá er ljóst að margt mætti betur fara í varðandi skilanefndir gömlu bankanna. Skilanefndirnar svífa um í lagalegu tómarúmi eins og bent hefur verið á.  Svo virðist sem þessar nefndir séu einhverskonar kunningjaklúbbar sem taki ríflegar þóknanir fyrir sín störf í þágu kröfuhafanna.

Hið lagalega tómarúm sem nefndirnar geta athafnað sig í, verður að fylla með skýrum lagaákvæðum og starfsreglum fyrir þær að vinna eftir. Það er ekki hægt að bjóða samfélaginu upp á að gamlir viðskiptafélagar, skólabræður(systur) og/eða samstarfsmenn séu að víla og díla um verðmæti og skuldir í nafni skilanefndanna .... það bara gengur ekki.

Og sjaldan er ein báran stök. Whistling

Stjórnendur Straums láta sér til hugar koma að biðja um 10,8 milljarða króna í bónusa á næstu fimm árum fyrir þá vinnu að reyna að hámarka virði eigna bankans sem nú er í höndum Fjármálaeftirlitsins eins og menn vita (hér).

Siðvæðing hins íslenska fjármálakerfis á ennþá óralangt í land.

I rest my case.


mbl.is Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ópólitísk helgi - og C-próf á hundinn!

snaefellsjokull Það var svoooo gott að komast burt úr bænum um helgina. Varpa frá sér áhyggjum af afdrifum lands og þjóðar og halda á vit jökulsins: Arka um lyngi  vaxnar hlíðarnar, krökkar af berjum  -  æfa hundinn - hitta félagana - reyna á sig í brekkunum - leggjast milli þúfna í sólskininu og úða í sig aðalbláberjunum.

Koma svo þreytt heim að kvöldi - horfa á sólina setjast í hafið öðrumegin , tunglið rísa á hálfbláum himninum hinumegin og jökulinn loga.

Dásamlegt!

Jamm, ég brá mér á æfingu  upp á Gufuskála með Björgunarhundasveitinni og tók C-próf á hundinn í víðavangsleit. Joyful Ó, já - gekk bara vel.

skutull.sumar08

Og nú er hann á leiðinni norður á Ísafjörð með björgunarsveitarbílnum þessi ræfill - Skutull minn - eftir langa og erfiða helgi í lífi unghunds. Þar bíða hans góðar móttökur, lærleggur af lambi o.fl. notalegt. Húsmóðir hans kemur svo þegar búið er að bjarga þjóðarhag í þinginu. Wink

Nú þegar hundurinn hefur tekið bæði byrjendaprófin í víðavangs- og vetrarleit tekur alvaran við. Það þýðir víst að maður þurfi að fara að komast sér í almennilegt form. Blush

Við sjáum nú til með það.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband