Aftakaárið 2008

solstafir Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð. Ekki fékk það að koma óflekkað til okkar frekar en fyrri árin. Heimsfréttirnar segja frá stríðsátökum og manntjóni. Innlendu fréttirnar greina frá vaxandi vanlíðan og spennu meðal almennings, gríðarlegum hækkunum á heilbrigðisþjónustu og helstu nauðsynjum, uppsögnum á vinnumarkaði og gjaldþroti fyrirtækja. Nú er kreppan að koma í ljós. Áfallið er að baki, samdrátturinn er framundan. Hann á eftir að harðna enn, er ég hrædd um.

Samt kveð ég þetta undarlega nýliðna ár með þakklæti. Það færði mér persónulega margar gleðistundir, jafnt í einkalífi sem á samfélagssviðinu. Sem samfélagsþegn kastaðist ég öfganna á milli eins og þjóðin í heild sinni - milli spennu, gleði og áfalla. Borgarpólitíkin sá um spennuna. Þar nötraði allt og skalf fram eftir ári. Á íþróttasviðinu fengum við fleiri og stærri sælustundir en nokkru sinni svo þjóðarstoltið náði áður óþekktum hæðum þegar strákarnir tóku silfrið í Peking. Á Mikjálsmessu 29. september rann víman svo af okkur og við skullum til jarðar. *

Já, þetta var undarlegt ár. Í veðurlýsingum er talað um aftakaveður þegar miklar sviptingar eiga sér stað í veðrinu. Það má því segja að árið 2008 hafi verið "aftakaár" í sama skilning - en tjónið hefur ekki verið metið til fulls.

 Halo

 *PS: Þess má geta til fróðleiks að Mikjáll erkiengill, sem dagurinn er tileinkaður, hafði það hlutverk að kollvarpa illum öflum og vernda kristnar sálir. Sérstök Mikjálsbæn var beðin í kaþóskum messum til ársins 1964 en Mikjálsmessa var tekin út úr helgidagatalinu árið 1770.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gleðilegt ár Ólína mín og megi árið verða ykkur farsælt og gjöfult.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.1.2009 kl. 21:37

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Mikjáls hún var í messu,
er mávastellið fór í klessu,
Þorgerður Katrín í þessu,
þeytti með látum skessu.

Þorsteinn Briem, 2.1.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband