Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Kvöldkyrrð

hesteyri  Kvöldkyrrðin er ótrúleg - gulli sleginn hafflöturinn úti fyrir eyrinni þar sem sól er að setjast ofan í Djúpið. Inni á pollinum dúra værðarlegir fuglar á skyggðum sjónum. Ekki bærist hár á höfði.

Þrátt fyrir lognið kemur mér til hugar vísan fallega eftir Trausta Á. Reykdal:

  • Þýtur í stráum þeyrinn hljótt
  • þagnar kliður dagsins.
  • Guð er að bjóða góða nótt
  • í geislum sólarlagsins.

Ég fann þessa fallegu mynd á netinu - hún er tekin á Hesteyri í þann mund sem sólin tyllir sér á hafflötinn rétt áður en hún rís á ný. Leyfi ykkur að njóta hennar með mér - Ísafjarðardjúpið skartar einmitt þessum litum núna.


Úlfur um nótt

úlfur Í nótt voru úlfar á kreiki - náttúlfar í næturkyrrðinni.

Þannig er að ég á stundum erfitt með svefn. Eftir góða daga þegar mikið hefur verið um að vera er ég oft eirðarlaus og get ekki farið að sofa. Þannig var það í nótt. Eftir gott kvöld með vinum úr  hundabjörgunarsveitinni sem borðuðu hjá okkur og sátu að spjalli fram eftir kvöldi gat ég ekki fengið mig til að fara að sofa. Næturkyrrðin lagðist yfir húsið. Ég sat við gluggann og horfði á lognværan fjörðinn. Innra með mér óx úlfurinn. Ég hef stundum orðið hans vör, lengi vel streittist ég gegn honum, en gat það auðvitað ekki.  Úlfurinn í mér er þarna, og þegar hann gerir vart við sig verð ég eirðarlaus - get ekki sofið, vil ekki sofa. Í nótt var tungl nærri fullt - ég fann fyrir því þó ég sæi það ekki.

Og hvað gera úlfar undir fullu tungli? Þeir tylla sér upp á næstu hæð og senda langdregna, tregafulla tóna út í nóttina. Áður en ég vissi af var ég sest við tölvuna og farin að vafra um netið. Skellti inn einni lítilli færslu og fór svo að kíkja á síður hjá öðrum. En viti menn, það voru fleiri náttúlfar á kreiki. Þeir komu inn á síðuna mína með athugasemdir, og heimsóknatalningin tók óvæntan kipp. Á annað hundrað manns kíktu við á síðunni þennan hálftíma sem ég sat við tölvuna - og um stund má segja að nóttin hafi ómað af úlfasöng umhverfis mig.

Þetta var óvænt og skemmtileg uppgötvun. Ég var þá ekki sú eina sem vakti. Það eru hundruð manna andvaka undir fullu tungli - og þetta fólk á sér samfélag þegar aðrir sofa: Úlfahjörð sem reikar um náttheima netsins. Vúúúúúúúú - gaman.

úlfar

 


Fársjúkt atferli

Það hljóta að vera fársjúkir einstaklingar sem geta drepið dýr á þennan hátt.

Eins er ég afar hugsi yfir þeim hluta fréttarinnar að neyðarlínan skuli hafa svarað því til að lögreglan mætti ekki vera að því að "sinna svonalöguðu"  þegar vitni lét vita af því að verið væri að murka lífið úr dýrinu með því að sparka því á milli manna, lokuðu innan í íþróttatösku. Er þá ekki sama hvaða lög er verið að brjóta þegar lögregla er kölluð til? Eru dýraverndunarlögin léttvægari en t.d. sú skylda lögreglunnar að vernda söluturna fyrir stuldi á kókflöskum og skiptimynt? 

Ég á ekki orð yfir þetta atferli gagnvart vesalings dýrinu. Og það sem verra er, ég hugsa að þessir menn sem hlut eiga að máli fái vægan dóm - eftir svona 3 ár - þegar dómskerfið má vera að því að "sinna svonalöguðu". 

Dýraverndarlögin vega því miður ekki þungt á vogarskálum réttvísinnar, um það eru ýmis dæmi, sum nýleg. 

Sem hundaeigandi votta ég eigendum Lúkasar samúð mína.

 


mbl.is Hundrað manns á kertavöku til minningar um hundinn Lúkas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverskonar vettvangur er bloggið?

pressan  Ég hef stundum orðið þess vör að sumir virðast álíta að "blogg" sé samheiti yfir einhverskonar sóðaskrif á netinu.

Í dag hitti ég landsþekktan blaðamann, gamlan kollega frá því ég var sjálf í þeim bransa. Þessi ágæti blaðamaður hraunaði því yfir mig - þar sem ég í sakleysi mínu vísaði til einhvers sem ég hefði sagt á bloggsíðu minni - að enginn málsmetandi Íslendingur myndi nokkru sinni standa í rökræðum á blogginu. Var helst á viðkomandi að skilja að bloggsíður væru vettvangur fyrir fólk að viðra sínar verstu hvatir.

Hmmm..... Ég er svolítið hugsi yfir þessu. Sjálf er ég gamall frétta- og blaðamaður, hef skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, verið álitsgjafi í spjallþáttum o.s.frv.. Ég tel mig hvorki betri né verri eftir að ég setti upp bloggsíðu - hef einfaldlega bara sett upp minn eigin fjölmiðil sem er síðan mín Tounge. Þangað má fólk koma og viðra skoðanir sínar svo fremi þær meiði engan.

Ég á fjölda bloggvina sem una sælir við sömu iðju, halda úti skemmtilegum bloggsíðum með fréttum af mönnum og málefnum, umræðum um fréttatengt efni í bland við dagbókafærslur og áhugamál. Þetta eru yfirleitt góðir pennar og ég tel hvorki þá né sjálfa mig neitt minni fyrir það að skrifa á bloggsíður. 

Vitanlega eru líka til bloggarar sem misnota aðstöðu sína - blogga t.d. undir dulnefnum og liggja eins og óværa í athugasemdadálkum hjá öðrum. En það er ansi hart ef sá hópur á að verða útgangspunkturinn þegar skilgreina skal bloggara. Það fyrirfinnast líka óvandaðir fjölmiðlamenn, slúðurblaðamenn hinnar gulu pressu til dæmis - ekki látum við það ráða afstöðu okkar til fjölmiðlafólks almennt, eða hvað?

Það væri leitt ef fordómar af fyrrnefndu tagi yrðu til þess að almennilegt fólk færi að forðast bloggið sem vettvang til skoðanaskipta. 

Cool Ég ætla a.m.k. ekki að hætta - ekki á meðan þetta er skemmtilegt. 


Stundum eru englar í mannsmynd

Guði sé lof fyrir engla í mannsmynd sem eru til staðar og geta hjálpað þegar líf liggur við.

 


mbl.is „Þetta er kraftaverk"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsaakstur er hraðafíkn

Frábært framtak hjá hjúkrunarfólki að standa fyrir þessari göngu. Þetta er sú starfsstétt sem verður einna oftast vitni að hörmulegum afleiðingum umferðarslysa og þeirri sorg sem þau geta valdið.

Fyrr í dag setti ég inn færslu um hraðafíkn og ofsaakstur - þessa áráttu sem rænir fólk allri skynsemi, stefnir lífi og limum í háska, en er samt endurtekin æ ofan í æ þrátt fyrir sektir, dóma og fortölur.

Auðvitað er ofsaakstur ekkert annað en fíkn - og kannski þarf að fara að taka á umferðarlagabrotum með því hugarfari. 


mbl.is Mikil þátttaka í göngu gegn umferðarslysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðafíkn er staðreynd!

Heimkomin af hundanámskeiðinu í Vaglaskógi - með nefið þrútið af ofnæmi, sólbrennd og sælleg - er ég sest við tölvuna og farin að kíkja á bloggið.

aksturSé ég þá á bloggsíðum Ragnheiðar Davíðsdóttur  og Helgu Sigrúnar Harðardóttur nokkuð sem vekur athygli mína. Þær stöllur hafa orðið fyrir aðkasti og hálfgerðum hótunum af hálfu bifhjóla- og akstursíþróttamanna vegna skrifa sinna gegn ofsaakstri. Er helst að skilja að þær hafi talað um ofsaakstur á vegum úti sem hraðafíkn - og viðbrögðin ekki látið á sér standa.

Í bloggfærslu sem Ragnheiður nefnir "Nóg komið" segir hún:

"Nafnlaust níð á hinum ýmsu bloggsíðum, nafnlausar símhringingar með fúkyrðum og undarlegur, hægfara akstur ókunnra, vélknúinna ökutækja utan við heimili mitt, segja mér að nú sé nóg komið. Til verndar fjölskyldu minni, einkalífi og mínum góðu vinnuveitendum, mun ég ekki skrifa fleiri færslur um ofsaakstur og meint tilræði við saklausa vegfarendur hér á síðunni."


 Það er illa komið fyrir umræðunni þegar fólk treystir sér ekki til þess að viðra skoðanir sínar vegna aðkasts, nafnlausra svívirðinga og jafnvel hótana þeirra sem telja að sér vegið.

bilslys  Hraðafíkn er gott orð og lýsandi fyrir ítrekaðan ofsaakstur. Hraðafíkn er nefnilega staðreynd. Eða hvað annað ætti maður að segja um þá sem geta ekki sætt sig við gildandi umferðarlög og brjóta ítrekað af sér jafnvel þó það stefni lífi þeirra sjálfra og annarra í stórhættu?

Lítum á skilgreiningu fíknar: Hún tekur völdin af þeim sem við hana stríðir. Hún hefur áhrif á lífsháttu manns og kemur í veg fyrir að viðkomandi geti haldið sig við viðurkenndar skorður, jafnvel ekki heldur þær sem hann setur sér sjálfur. Fíkn ógnar lífi. Sé það sem svalar fíkninni tekið í burtu án samþykkis fíkilsins bregst hann við með árásargirni og getur teygt sig ansi langt í því að réttlæta hegðun sína.

Lítum svo á fyrirbærið ofsaakstur: Þrátt fyrir sektir og dóma eru sömu ökumenn að brjóta af sér aftur og aftur - eins og þeir ráði ekki sjálfir við hegðun sína þrátt fyrir hugsanlega góðan ásetning. Athæfið ógnar lífi. Það stríðir gegn almennri skynsemi og fer út fyrir ásættanlegar skorður.

Og hvað á maður svo að halda um lítt dulbúnar hótanir og nafnlausar árásir á þá sem vilja stemma stigu við hraðakstri? Hvað sýna slík viðbrögð annað en árásargirni og sjálfsréttlætingu þess sem vill fá "kikkið" sitt?

"Hraðafíkn" er gott orð - hraðafíkn er staðreynd - hvort sem  áhangendum hennar líkar orðnotkunin betur eða verr.


Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!

SunnukorinnFinnland Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden,  og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.

Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni Whistling. Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni Tounge

 Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.

Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba Smile

En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum.  Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,

Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best.  Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.

Lettland Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.

Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.

Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.

Tallinn1

Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.

Whistling 

Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.

Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.  

Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.


Er farin í tónleikaferð með Sunnukórnum ...

... og ætla ekki að blogga á meðan - nema ég detti um tölvu í ferðinni og geti hreinlega ekki ráðið við mig að kíkja á mbl.is Cool

Jebb, nú er það tveggja vikna ferð með Sunnukórnum til Finnlands, Eistlands og Svíþjóðar. Það verður sungið í Hellakirkjunni í Helsinki, á opnum tónleikum á Esplanaden, siglt með lystisnekkju, verslað, skoðað og "spókað sig" -- bara allur pakkinn, og bóndinn fær að fljóta með. Hús, barn og hundur komin í viðeigandi gæslu á meðan Heart já, það er gott að eiga góða að.

Við förum eldsnemma í fyrramálið og ætlum ekki að hugsa um pólitík, byggðavanda eða kvótakerfi á meðan. Nebb!

Vona að sólin sleiki landsmenn á meðan - og okkur að sjálfsögðu líka þarna við söngvaseiða þúsundvatnalandsins Tounge 

Bestu kveðjur á meðan.

kórsöngur


Barsmíðar og söguburður - er það hlutverk lögreglu?

Það var undarlegt að sjá í sjónvarpinu ofbeldisfullar aðgerðir lögreglunnar á Egilsstöðum gagnvart fíkniefnaneytanda sem hugðist taka mynd á farsímann sinn af lögreglumanni að störfum. Ég tek undir með Sigurði Þór Guðjónssyni sem bloggar um þetta atvik á síðu sinni í dag. Bræði lögreglumannsins og handbrögðin við að taka manninn voru ekki traustvekjandi - enda fingurbrotnaði maðurinn í átökunum.

Þá voru ummæli yfirlögregluþjónsins á Egilsstöðum ekki beint fagleg - þar sem hann bar út sögur um viðkomandi einstakling og það hvaða augum hann væri litinn á Egilsstöðum. Hvað varðar sjónvarpsáhorfendur um það hvaða augum yfirlögregluþjónninn lítur þennan mann, eða hvað hann hefur heyrt um hann? Söguburður er ekki í verkahring lögreglu. Þannig er það nú bara.

Þetta var ekki traustvekjandi - hreint ekki.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband