Skammarleg frammistaða LÍN

sine Lánasjóður íslenskra námsmanna á skömm skilið fyrir slælega frammistöðu gagnvart námsmönnum erlendis. Á annað hundrað námsmenn hafa nú beðið í tvo mánuði eftir afgreiðslu svokallaðra neyðarlána sem menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðuneytið lofuðu námsmönnum fyrr í haust. Menntamálaráðherrann sló sér meira að segja upp á þessu og maður trúði því eitt andartak að einhver alvara eða umhyggja lægi þar að baki. Síðan hafa sjö - já hvorki meira né minna en sjö námsmenn af 130 umsækjendum - fengið jákvætt svar um neyðarlán. Sjóðurinn túlkar umsóknirnar eins þröngt og hugsast getur og finnur þeim allt til foráttu. Á meðan mega námsmenn í neyð bara bíða rólegir.

Unga konan sem ekki gat talað ógrátandi við fréttamann Kastljóssins í kvöld þegar hún var beðin að lýsa aðstæðum sínum - hún er ein þeirra sem nú á að bíða róleg ef marka má þá sem bera ábyrgð á aflgreiðsluhraðanum hjá LÍN. Já, engan æsing hérna! Þetta verður alltsaman athugað í rólegheitunum.

Þetta nær auðvitað engri átt. Angry

Og það var vægast sagt vandræðalegt að hlusta á Sigurð Kára - formann menntamálanefndar Alþingis - reyna að mæla þessu bót í Kastljósi kvöldsins. Hann talaði eins og það hefði verið menntamálanefndin (eða ráðuneytið) sem átti frumkvæði að því að athuga með stöðu námsmanna erlendis. Ég man þó ekki betur en það hafi verið námsmannasamtökin sjálf (SÍNE) sem vöktu athygli ráðamanna á bágu ástandi námsmanna  í útlöndum. Það voru námsmenn sjálfir sem settu fram beinharðar tillögur að lausn vandans til þess að flýta fyrir henni. Raunar brugðust bæði menntamálanefnd og -ráðuneyti skjótt við - en það sama verður ekki sagt um stjórn LÍN.

Það hlýtur eitthvað mikið að vera athugavert þegar einungis sjö af um 130 umsóknum um neyðarlán hafa verið afgreiddar á tveimur mánuðum. Það er ekki eðlilegt að virða umsækjendum allt til vansa og vammar þegar meta skal þörf þeirra fyrir neyðaraðstoð.

Nógu erfitt er fyrir námsmenn að fá aðeins eina útborgun á önn, eftir að önninni er lokið, og þurfa að fjármagna framfærslu sína með bankalánum meðan beðið er eftir námsláninu. Og þegar það er fengið, dugir það rétt til að gera upp við bankann vegna annarinnar sem liðin er - og svo þarf að taka nýtt bankalán til að fjármagna önnina sem er framundan.

Það segir sig sjálft að þetta siðlausa fyrirkomulag þjónar ekki námsmönnum - það þjónar fyrst og fremst bönkunum sem þar með geta mjólkað lánakostnaðinn önn eftir önn eftir önn - árum saman.

Bandit

Ef einhver dugur er í menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðherra þá verður núna stokkað upp í stjórn LÍN og stjórn og starfsliði sjóðsins gerð grein fyrir því hver sé raunverulegur vilji ráðmanna í þessu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er námsmaður erlendis og hef ekki haft geð í mér til þess að sækja um þessi blessuðu neyðarlán. Það kom fljótlega upp eftir að tillögurnar komu fram að engin hafði haft fyrir því að skilgreina þá sáru neyð sem var nauðsynlegt að sýna fram á til þess að eiga kost á aukaláni. Maður átti bara að skila sem mestu af gögnum inn og vera svo upp á náð og miskunn stjórnar LÍN kominn. Ég ákvað að eyða minni orku í annað.

Annars er ekkert í þessum tillögum menntamálanefndar sem auðveldar mér lífið í mínu námi. Ein af tillögunum var lækkun tekjuskerðingar námslána úr 10% í 5%. Þegar ég hafði samband við LÍN til að forvitnast um það frekar fékk ég þær upplýsingar að lækkun tekjuskerðingar væri einungis hugsuð fyrir þá sem myndu hefja nám 1. janúar 2009. Þetta væri hugsað til þess að aðstoða þá sem væru að missa vinnuna. Ég mætti á fund SÍNE í dag og fékk það staðfest hjá Sigurði Kára að það væri rétt. Það eina í þessum tillögum sem hjálpar þeim sem eru erlendis í námi í dag og voru ekki á meðal þeirra 7 fræknu sem fengu neyðarlán, eru nokkrir þúsundkallar í vaxtastyrk til þess að borga ríkisbönkunum fyrir LÍN yfirdráttinn. Ég veit ekki af hverju var verið að nefna við okkur lækkun á tekjuskerðingu þegar stóð aldrei til að við fengjum að njóta hennar.

Námslánin mín duga ekki fyrir leigunni úti og framfærslan er erfið. Samt fór ég vel undirbúin út, búin að safna mér í sjóð og taldi mig ágætlega í stakk búna til þess að takast á við eitthvað gengisfall. Sá sjóður hefur hins vegar étist hratt upp þó svo að maður velti fyrir sér hverri krónu áður en maður eyðir henni. Ég á góða að sem koma til með að aðstoða mig til þess að klára þetta nám en það eru ekki allir svo heppnir og það stakk í hjartað að sjá suma þeirra gráta á fundinum í dag. Það eru orðin forréttindi að geta stundað nám í dag og það skapar ekki bjarta framtíð fyrir nýtt Ísland.

Erla Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 22:05

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalmenn í stjórn LÍN eru:

Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, formaður, tilnefndur af menntamálaráðherra,

Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður, varaformaður, tilnefnd af menntamálaráðherra, situr einnig í aðalstjórn Ríkisútvarpsins ohf. og hefur setið í stjórn FL Group,

Agla Elísabet Hendriksdóttir, fulltrúi menntamálaráðuneytisins,

Ásta Þórarinsdóttir, fulltrúi fjármálaráðuneytisins,

Garðar Stefánsson, fulltrúi Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE),

Bergur Sigurjónsson, fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ),

Rakel Lind Hauksdóttir, fulltrúi Bandalags íslenskra námsmanna (BÍSN),

Sindri Rafn Þrastarson, fulltrúi Iðnnemasambands Íslands (INSÍ).

Kristín Edwald hefur staðið fyrir því að árslaun útvarpsstjóra RÚV hafa verið 18 milljónir króna, tvöfalt hærri en laun annarra ríkisforstjóra, en hún hjálpar ekki námsmönnum í neyð.

Þorsteinn Briem, 29.12.2008 kl. 22:31

3 identicon

Það er með ólíkindum að horfa upp á það sem Kastljós gerði í kvöld !

Hvers vegna var ekki þarna einhver fulltrúi úr stjórn LÍN ?

Til hvers var verið að fá handónýta stjórnmálamenn til að sýna hversu ómögulegir þeir eru ?

Ef einhver byður um eitthvað í neyð, þá þýðir það hann þurfi hjálp !

Þessi stjórn LÍN er á ábyrgð menntamálaráðherra og er á launum frá okkur !

Hvers vegna í ósköpunum velst í svona fólk í þessa stjórn LÍN ?

Gunnar Birgisson, sem hefur aldrei hugsað um annað en rassgatið á sjálfum sér !

JR (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 22:50

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk Steini fyrir þessar upplýsingar um stjórn LÍN. Ég held að Gunnar Birgisson sé búinn að vera í þessari stjórn í þrjátíu ár eða þar um bil.

En svona til fróðleiks þá hefur formaður 2 atkvæði í stjórninni, þannig að atkvæðagreiðsla fer oftast 6-4.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.12.2008 kl. 00:14

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ólína. Gunnar Birgisson hefur verið formaður stjórnar LÍN síðastliðin 18 ár, frá 1991, þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra.

Annars líst mér mjög vel á Katrínu Jakobsdóttur og ég reikna fastlega með að hún verði menntamálaráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þorsteinn Briem, 30.12.2008 kl. 00:41

6 identicon

Þetta er bara enn eitt bullið uppúr henni Þorgerði K. Við hverju er að búast af menntamálaráðherra sem skrifar pistil fyrir nokkru um að lán til námsmanna væru hærri hér en annars staðar á Norðurlöndum, án þess að geta þess að norðurlandabúar fá þar að auki styrk. Nei, flott á Íslandi, þar fá allir meira lán, það er nú meira lánið. Það er ekki heill þráður í þessari tuskubrúðu.

Hermann (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 13:26

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jæja Steini minn - kannski er Gunnar bara búinn að vera í 18 ár - þetta var óvarlega orðað hjá mér. En þessi 18 ár hafa verið heil eilífð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.12.2008 kl. 13:41

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í volæði Ólína vængstýfð,
vestfirska hálfa þar eilífð,
er loks fellur vinur í valinn,
sá vonlausi Gunnar kvalinn.

Þorsteinn Briem, 30.12.2008 kl. 18:31

9 Smámynd: Katrín

jamm skjóta fyrst og spyrja svo...alltaf að gera ráð fyrir að ,,helvítis fífilin" sem neita manni um það sem maður vill séu helvítis fantar og fúlmenni sem hugsa um það eitt að gera öðrum illt....í heila eilífð

Katrín, 30.12.2008 kl. 19:04

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Katrín, þú leggur hér fólki orð í munn - það er ósiður.

Þú meira að segja setur illyrði þín í gæsalappir eins og þú sért að vitna í einhvern annan. Hér hefur enginn talað um "helvítis fíflin". Þaðan af síður hefur hér verið rætt um "helvítis fanta og fúlmenni sem hugsa um það eitt að gera öðrum illt" eins og þú orðar það - þetta eru þín eigin orð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.1.2009 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband