Færsluflokkur: Bækur

Faðirvorið milt og hlýtt með skuldunautum á beit

bænÉg man hvað Faðirvorið var mér mikil ráðgáta þegar ég var barn. Þegar mamma sagði "nú skulum við fara með faðirvorið" hugsaði ég ósjálfrátt um ilmandi vor kennt við föðurinn á himnum. Og í þessu milda vori reikuðu skuldunautin, skjöldótt og sælleg um iðagræn tún himnaríkis þar sem þau slöfruðu í sig safaríkt góðgresi. Umhverfis sveimuðu englarnir og dreifðu molum hins daglega brauðs niður af hvítum skýjahnoðrum, svona eins og þegar börnin gefa öndunum á tjörninni.

Já, merkingarfræðin var ekki beint að sliga barnshugann - enda má segja að sýn mín á inntakið hafi verið einhverskonar "innri skilningur" - sannur á sinn hátt.

Enn eru börn að læra Faðirvorið án þess að botna upp eða niður í merkingu þess. Þau fara bara með þuluna sína. Sjálf hef ég stundum hugsað mér að uppfæra bænina, til þess að fara skiljanlega með hana þegar kemur að því að setjast á rúmstokkinn með barnabörnunum og signa þau fyrir nóttina. Hef ég þá hugsað mér hana á þessa leið:

Faðir minn og móðir,
þú sem ert mér æðri,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki.
Verði  þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.

Veit þú mér fæði, klæði og skjól.
Fyrirgef mér syndir mínar
og ég mun sjálf fyrirgefa öðrum.

Leiddu mig um réttan veg
og frelsa mig frá öllu illu,
því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu.

Svo myndi ég að sjálfsögðu segja amen á eftir efninu. Halo

Þar með svifi barnið inn í svefninn á dúnléttum skýhnoðra eigin hugsana með ömmukoss á kinn. 

En ... amma sæti sennilega eftir um stund og um hana færi svolítill efafiðringur: Til hvers er maður að breyta bænum? Er rétt að svipta lítið barn hlýju og mildu faðirvori bernskunnar með skjöldóttum skuldunautum á beit?

 Woundering

 

 


Bloggþreyta

Gott fólk - ég er sennilega búin að blogga yfir mig eftir törn síðustu vikna. Er eiginlega orðin þurrausin og ætla að taka mér hlé.

Sjáumst þegar ég hef safnað kröftum á ný. Wink

bardastrond


Á skítahaugum geta vaxið blóm ...

blóm Nýja Ísland  - listin að týna sjálfum sér, nefnist bók eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og bloggara. Eintak af þessari bók datt inn um bréfalúguna hjá mér fyrir skömmu og ég fór að blaða í henni. Það endaði með því að ég las hana spjaldanna á milli og var rétt í þessu að leggja hana frá mér. Ég mæli með henni.

Í þessari bók skoðar Guðmundur "íslenska efnahagsundrið" - hvers afleiðingar við erum að kljást við nú um stundir. Hann leitast við að greina þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi á síðustu áratugum og allt fram á þennan dag:  Hvernig hugarþel þjóðarinnar og gildismat hafa birst frá einum tíma til annars m.a. í löggjöf, opinberri umræðu, viðskiptaháttum og samskiptum. 

Sú athugun leiðir ýmislegt óþægilegt í ljós, m.a. hvernig gildi hins "stéttlausa" samfélags hafa smámsaman molnað og morknað; hvernig samkennd og samheldni hafa látið undan í okkar litla samfélagi; hvernig auðmenn og fyrirtæki hafa öðlast meiri völd og áhrif á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þeim er hollt. Á sama tíma hefur almannavaldið orðið veikara og vanbúnara að takast á við breyttar aðstæður, auk þess sem hin glöggu skil sem áður voru milli markaðarins (veraldar viðskipta) og samfélagsins (veraldar almannavalds og menningarverðmæta) verða sífellt óljósari.

Já, íslenska efnahagsundrið hefur ekki orðið okkur sú gæfa sem efni og vonir stóðu til. Útrásartíminn var vissulega tími kappsemi og atorku líkt og þegar Íslendingar brutust úr fátækt og kyrrstöðu á fyrstu áratugum 20. aldar. En eins og höfundur bendir réttilega á báru eldri kynslóðir þó "gæfu til þess að varðveita og rækta lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeið sem gekk yfir".  Í markaðshyggjuákafanum síðustu ár hafa þessi gildi orðið undir - gildin sem þó eru "svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélags".

Þarna skilur höfundur við okkur með spurningum sem lúta að afdrifum og endurheimt hinna horfnu gilda.

Woundering

Að lestri loknum fór ég að hugsa um hrun og endurreisn. Það er nefnilega þannig að á öllum skítahaugum vaxa blóm. Fegurð þeirra og gagn veltur bara á því hvaða fræjum er sáð.

Spurningin núna er sú, hvort okkur tekst að sá réttu fræjunum í þann haug sem blasir við. Tekst okkur að endurheimta og sá að nýju traustum gildum á borð við samkennd, samhjálp og mannúð? Það er hin stóra spurning - hið stóra verkefni sem bíður okkar allra. 

íslenskiFáninn


Nei, hættið nú!

 

minningabók Þegar ég var lítil stelpa skrifaði ég oft í minningabækur hjá vinkonum mínum. Þá setti ég gjarnan inn vísur sem ég kunni, teiknaði fugla og blóm í kringum þær og ... kvittaði svo undir alltsaman. Sama gerðu skólafélagar mínir, stelpurnar teiknuðu fiðrildi, hjörtu og blóm, strákarnir fjöll, sólskin og báta - en allir settu inn vísur eða kviðlinga ásamt "ég man þig - þú manst mig" og einhverju fleiru. Gott ef ég á ekki eina svona dagbók í fórum mínum frá gamalli tíð - og ef mér skjöplast ekki þá eiga dætur mínar svona bækur.

Nú hafa fundist tvær vísur sem Halldór Laxness skrifaði 12 ára gamall í minningabók hjá vinkonu sinni. Og menn eru farnir að fabúlera um að "hér sé kominn elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness". Það tók örfáar sekúndur að finna aðra vísuna með gúggli - eins og Guðmundur Magnússon sannreyndi og bloggaði um fyrr í dag.  Hann fann vísuna á hinum frábæra vef Skjalasafns Skagafjarðar þar sem finna má fjölmargar lausavísur eftir ýmsa höfunda. Ekki er að orðlengja það, að önnur vísan er þar kennd Þorleifi Jónssyni á Hjallalandi í Vatnsdal. Hún er svona:

Haltu þinni beinu braut
berstu því með snilli
gæfan svo þér gefi í skaut
guðs og manna hylli.

Í ljósi þessa er heldur ólíklegt að 12 ára gamall drengur hafi ort hina vísuna, svo spök sem hún er - jafnvel þó við séum að tala um Nóbelskáldið. En sú vísa er svona:

Vart hins rétta verður gáð
villir mannlegt sinni,
fái æsing æðstu ráð
yfir skynseminni.

Ég held hann hafi bara verið að skrifa vísu í dagbók - eins og þúsundir Íslendinga hafa gert á unga aldri, og gera enn.

englar

 


mbl.is Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himnaríki og helvíti, Kórvilla á Vestfjörðum og fleira gott

windownb9 Í sumar hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar bækur sem ekki vannst tími til að lesa um jólin. Rétt í þessu var ég að leggja frá mér Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Þetta er afar vel skrifuð bók og sterk á köflum - sérstaklega fyrri hlutinn sem er í raun sjálfstæð frásagnarheild. Þarna er lýst lífsbaráttu og lifnaðarháttum verbúðarfólks fyrir hundrað árum eða svo. Líf og dauði, mannúð og grimmd, ást og örvænting kallast þar á og halda lesandanum í heljargreipum. Seinni hluti bókarinn hélt mér ekki eins vel - eins og söguþráðurinn renni svolítið út í sandinn. En Jón Kalman er stílsnillingur - orðfæri hans er svo fallegt á köflum að maður les aftur og aftur. Þetta er afar góð bók og vel þess virði að lesa.

Ég hef líka legið í sakamálasögum. Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur olli mér svolitlum vonbrigðum. Fyrsta bókin hennar, Þriðja táknið, fannst mér grípandi og skemmtileg. Þessi er of langdregin - og ég verð að viðurkenna að ég missti hreinlega áhugann þegar komið var fram á seinni hluta sögunnar. Það er nú ekki beint það sem á að gerast í sakamálasögu.

Arnaldur hinsvegar klikkar ekki. Harðskafann las ég mér til mikillar ánægju. Stílbrögð Arnaldar styrkjast með hverri bók - og þegar saman fara skemmtilegt plott og styrk stíltök - þá er blandan pottþétt.

Ég hef líka verið að rifja upp að gamni mínu smásögur Halldórs Laxness. Dóttir mín gaf mér lítið kver sem Vaka-Helgafell hefur gefið út undir heitinu Kórvilla á Vestfjörðum. Þarna eru nokkrar smásögur eftir Nóbelsskáldið. Ég hafði raunar lesið þær allar nema eina - en las þær nú aftur mér til ánægju. Komst þá að því að Dúfnaveislan er ekki það stórvirki sem stundum hefur verið talað um og mig minnti að mér hefði sjálfri fundist þegar ég las hana fyrir löngu. Ég hef augljóslega breyst - kannski þroskast - sem lesandi. Wink

Maður gefur sér yfirleitt allt of skamman tíma til lestrar - þá á ég við yndislestur. Fátt er meira gefandi en lestur góðrar bókar í kyrrð og næði.

  • Þegar andann þjakar slen
  • og þyngist hugar mók,
  • fátt er lundu ljúfar en
  • að lesa góða bók.        Smile

Eldarnir þrír sem brunnu

eldur_1055453962  Þessa dagana eru tíðar fréttir af eldsvoðum og slökkvistarfi. Það er svo undarlegt með eldinn, hann á það til að "ganga ljósum logum" í orðsins fyllstu merkingu, eins og farsótt. Stundum er engu líkara en ósýnileg hönd sé að verki sem kveiki nýjan eld jafnóðum og annar slokknar.

Eldurinn er merkilegt fyrirbæri. Hann bæði yljar og eyðir eins og ástríður mannanna, skapsmunir og aðrar tilfinningar. Það er því ekki að furða þó eldurinn hafi orðið skáldum og heimspekingum innblástur á stundum.

Í ljóðinu "Eldarnir þrír" sér Davíð Stefánsson tækifæri lífs síns sem kulnaða elda. Hér kemur ljóðið:

 

Þegar þú gekkst í garðinn fyrst,

brann gneisti í hverju spori.

En nornirnar gátu rúnir rist,

sem rændu mig sól og vori.

Eg hirti hvert sprek, sem við hafið lá,

frá hausti til hvítasunnu ...

Enn þá man eg eldana þrjá,

eldana þrjá, - sem brunnu.

 

Á bak við logana leyndumst við

og létum þá eina tala

um saklausar ástir, svanaklið

og sólmóðu grænna dala.

En oft er, að sumarið seiðir mest,

ef sól er að djúpi runnin,

og þegar við fundum funann bezt,

var fyrsti eldurinn - brunninn.

 

Sá uggur, sem fór um okkur tvö,

var öskunni mest að kenna.

Af loftinu hverfa sólir sjö,

er síðustu sprekin brenna.

En óskalandið var lýst í bann

og lífinu fjötrar spunnir.

Logarnir titruðu, tíminn rann,

unz tveir voru eldar brunnir.

 

Að una sem gestur í annars borg

var aldrei að þínu skapi.

Um loftið, myrkvað af leyndri sorg,

fór leiftur af stjörnuhrapi.

Á hinztu glæður brá fölskva fljótt,

því fram hjá var stundin runnin.

Þjáningin kom eins og þögul nótt

og þriðji eldurinn - brunninn.

 

Í dökkvanum jörðin döggvuð svaf,

og dulið var allt, sem við þráðum.

Milli okkar er hyldjúpt haf,

þó himinn sé yfir báðum.

Í fjarska eru djúpin fagurblá

þó frjósi þau, vötnin grunnu ...

Ennþá man ég eldana þrjá,

eldana þrjá - sem brunnu.

 


"Sýsl" og "basl" í skáldskap

Margra barna mæður eiga ekki að "sýsla" og "basla" við ljóðagerð. Þetta er skoðun Skafta Þ. Halldórssonar bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins sem birtir ritdóm í blaðinu í dag um ljóðabók mína Vestanvind. Að vísu sviptir Skafti mig einu barni - segir mig vera fjögurra barna móður. Er hann þar að vísa - að því er virðist - í einn af prósum bókarinnar, sem hann augljóslega tekur sem mína persónulegu dagbók, en ekki þá kómísku mannlífsmynd og hugvekju sem tilvitnaðri sögu var ætlað að vera.

Jæja, best ég leiðrétti nú þetta: Ég er FIMM barna móðir eins og fram kemur á bókarkápu. Ég er líka orðin amma. 

Og hvað er nú svona kona að gera upp á dekk í skáldskap? Það á gagnrýnandinn erfitt með að skilja. Að vísu telur hann "margt vel gert" - og eyðir síðan furðu löngu máli í að sýna fram á það með dæmum. En honum finnst samt að ég eigi bara að halda mig við vísnagerð - þar sé ég á heimavelli.  

Og svo tekur hann mig á kné sér til að kenna mér hvernig maður eigi að orða hugsanir í ljóðum. Myndlíkingar á borð við "hafdjúp hugans", "logndýpi drauma" og "grunnsævi vökunnar" kallar hann  "samsetningar" og frasakennda myndsköpun. Þarna hafi ljóðmálið tekið völdin af hugsuninni. Svo rökræðir hann við mig um það hvernig ég hefði átt - eða öllu heldur ekki átt - að yrkja eitt ljóðanna. Það er ljóðið Mæði:

Ástin / er berfætt ganga / um grýttan veg. 

Söknuðurinn / sárfætt hvíld / í skugga gleðinnar.

 "Ég get alveg skilið að ástin geti verið berfætt ganga um grýttan veg og söknuðurinn þá sárfætt hvíld. En að gleðin varpi skugga á söknuðinn finnst mér vera merkingarleysa", segir Skafti.

Hmmm ... það er einmitt það. Gott er nú fyrir ljóðskáld að fá svona kennslustund. Verst að mér skyldi aldrei hafa hugkvæmst þetta þegar ég skrifaði bókmenntagagnrýni fyrir moggann í den, að kenna ljóðskáldunum að yrkja. Reyndar held ég að Skafti hefði mátt hugleiða betur merkingu þessarar líkingar um gleðina og skuggann  - en ef hann meðtekur ekki hvað ég er að fara þarna, þá verður bara að hafa það.

Þessi ritdómur minnir mig óþægilega á þrjátíu ára gamla umræðu sem spratt upp um hinar svokölluðu kerlingabækurá sjöunda áratugnum. En það orð var notað í fúlustu alvöru um verk þeirra skáldkvenna sem þá höfðu kvatt sér hljóðs. Það voru karlrithöfundar - á svipuðu reki og Skafti er núna - sem fundu þessa ágætu einkunn yfir skáldskap kvenna. 

Þetta er trúlega hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem gagnrýnendur láta kynhlutverk og þjóðfélagsstöðu kvenna hafa áhrif á dóma sína. En svona til að lesendur geti áttað sig aðeins betur á þessu dæmi sem Skafti nefnir  "samsetning" ætla ég að birta það tiltekna ljóð hér fyrir neðan. Það heitir Út vil ek (og auðvitað á maður ekkert að vera að  bjóða upp á svona "frasakennda myndsköpun" eða leggja það á gagnrýnendur að botna í svona ljóðum). En ljóðið er svona:

Í hafdjúpum hugans

leitar vitundin landa

um útsæ og innhöf

ferðast hún um þangskóg

í sjávardölum

 

úr logndýpi drauma

sækir hún í strauminn

streitist á móti

brýst um

og byltist

í þungu róti

 

Á grunnsævi vökunnar

spriklar hún að kveldi

- þar lagði dagurinn netin

að morgni

 

þéttriðin net

troðfull að kveldi ...

 

 

PS: Og svo skil ég nú ekki hversvegna mogginn birtir af mér 18 ára gamla mynd - nema ég sé orðin svona herfilega ljót af öllum mínum barneignum, sýsli og basli að það sé ekki mönnum bjóðandi að sýna mig eins og ég er Shocking


Guðni ljóstrar upp leyndarmáli

gudni_agustsson Guðni er að "kjafta" frá. Í fréttatímum gærdagsins var sagt frá því hvað forseti Íslands hefði "ætlað" að gera við fjölmiðlafrumvarpið hér um árið "ef" það hefði .... o.s.frv. Heimildamaðurinn er Guðni Ágústsson, núverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra. Guðni átti nefnilega "leynifund" með forsetanum um þetta leyti og varð þess þá áskynja hvernig forseta vorum var innanbrjósts. Guðni lýsir þessum fundi, ummælum forseta og yfirbragði. Guðni er nefnilega að gefa út bók - eins gott að hafa eitthvað bitastætt fram að færa þegar maður stendur í bóksölu.

Ég vona að ég sé ekki ein um það að finnast þetta óviðeigandi: Að upplýsa alþjóð um það sem fram fer á óformlegum tveggja manna fundi - trúnaðarfundi - leynifundi. Mér finnst að Guðni hafi þarna stigið yfir ósýnileg siðferðismörk. Og það sem verra er - hann hlýtur að vita að hann er einn til frásagnar. Forsetinn getur ekki tjáð sig um þetta mál - embættis síns og virðingar vegna. Það sér hver heilvita maður. Forsetinn hlýtur að telja sig bundinn af hinum óskráðu lögum um þagmælsku þegar tveir talast við og engum öðrum vitnum verður við komið.

En Guðni rýfur trúnaðinn - hann þarf að selja bók.

Þetta er ekki ósvipað þeim hvimleiða sið sem mörg dæmi eru um erlendis og því miður nokkur hérlendis - að hlaupa í blöðin með lýsingar á einkasamskiptum þegar fólk er skilið að skiptum. Segja "söguna alla" eins og það er stundum orðað. Þetta er alltaf ójafn leikur - og oft ljótur.

Í raun skiptir ekki svo miklu hvort um er að ræða einkamál eða stjórnmálaleg samskipti. Tveggja manna tal er alltaf tveggja manna tal. Menn eiga ekki að vitna í slík samskipti.

Trúað gæti ég líka að stjórnmálamenn þjóðarinnar hugsi sig um tvisvar áður en þeir eiga trúnaðarfundi með formanni framsóknarflokksins.


Vestanvindur úr prentun

Vestanvindur Ég er að handleika fyrstu ljóðabókina mína - hún var að koma úr prentun. Lítil og nett - ósköp hógvær. Það er undarleg tilfinning að handleika þessa litlu bók - allt öðruvísi en aðrar bækur sem ég hef gefið út. Þær hafa verið stórar og fyrirferðarmiklar - fjallað um fræði og fólk. Þessi bók er allt öðru vísi. Hún er svolítill sálarspegill - nokkurskonar fordyri að sjálfri mér - eða þeirri konu sem ég hef verið fram til þessa.

Mig langar að segja ykkur svolítið frá myndinni á kápunni - hvernig hún varð kveikja að titilljóði bókarinnar.

Þannig var að myndlistarmennirnir Ómar Smári Kristinsson og Nína Ivanova, kona hans voru beðin að hanna myndina. Þau fengu nokkur ljóð til að vinna út frá - og sýndu mér svo fyrstu drög. Ein mynd varð mér svo hugstæð að hún fylgdi mér allan daginn og inn í nóttina. Ég var lögst til svefns og eiginlega í svefnrofunum þegar orðin tóku að streyma til mín. Loks varð ég að fara á fætur, ná mér í blað og penna. Titilljóð bókarinnar var komið - næstum því fullskapað. Ég get ekki skýrt það nánar en morguninn eftir varð það orðið eins og það er í bókinni.

Hallgrímur Sveinsson, útgefandi minn, var þolinmæðin uppmáluð þegar ég hringdi til hans um morguninn til að vita hvort ljóðið kæmist inn í bókina. Þá var komin þriðja próförk, og ekki sjálfgefið að verða við þessari bón. En Hallgrímur er ljúfmenni - og í samvinnu við prentsmiðjuna varð þessu bjargað.

Nú er bókin komin í verslanir - og svo er að sjá hvernig hún fellur lesendum og gagnrýnendum í geð. Ég krosslegg fingur og vona það besta.

 


"Aldrei mun þín auma sál - annað fegra mæla"

Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Peningastofnanir og skólar sem kenndir eru við viðskipti og verslun gera sífellt háværari kröfur um að "alþjóðavæða viðskiptaumhverfi" sitt, eins og mig minnir að það sé orðað. Það þýðir víst að taka upp ensku sem samskiptatungumál innan stofnunar sem utan, þ.e. að hafa eyðublöð, tölvusamskipti, ársskýrslur o.fl. á ensku eingöngu.Þetta munu einhverjar peningastofnanir hafa tekið upp nú þegar - og nú hefur Verzlunarskólinn sótt um það til menntamálaráðuneytisins að taka ensku upp sem aðaltungumál á tiltekinni námsbraut.

 Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Á átjándu öld lögðu íslenskir embættismenn það til að íslenskan skyldi lögð niður sem embættismál á Íslandi, en danska tekin upp í staðinn. Rökin voru svipuð þá og nú. Embættismenn þjóðarinnar voru menntaðir í Danmörku og farnir að týna niður íslenskunni. Skrifmál þeirra var dönskuskotið embætismannamál - svokallaður kansellístíll sem er afar torskilinn nútíma Íslendingum. Bjarni Jónsson rektor Skálholtsskóla sagði það "ekki aðeins gagnslaust, heldur skaðlegt að viðhalda íslenskri tungu" í bréfi árið 1771 og Sveinn Sölvason lögmaður talar árið 1754 niðrandi um þetta afdankaða tungumál sem þá sé "komið úr móð". 

Af þessu tilefni orti Gunnar Pálsson rektor Hólaskóla, síðar prestur og prófastur í Hjarðarholti í Dölum (1714-1791):

  • Er það satt þig velgi við 
  • vinur, íslenskunni,
  • og haldir lítinn herrasið
  • hana að bera í munni?

Gunnar svarar spurningunni sjálfur með svofelldum orðum:

  • Íslenskan er eitt það mál
  • sem allir lærðir hæla
  • og aldrei mun þín auma sál
  • annað fegra mæla.

 

 Íslensku skáldin risu upp til bjargar þjóðtungu sinni á átjándu öld - og þeim tókst að sýna fram á gildi hennar, gæða hana lífi og draga fram fegurð hennar. Þar með lögðu þau grunn að ríkulegum bókmenntaarfi seinni tíma. Sá arfur státar af verkum manna á borð við Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Stein Steinarr, Davíð Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Þórberg Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Fríðu Sigurðardóttur .... og þannig mætti lengi telja.  

Nú er spurning hvort skáldakynslóð okkar daga er viljug - eða megnug - að launa þessa arfleifð og rísa upp til varnar fyrir "ástkæra, ylhýra málið" - þjóðtunguna sem Jónas orti svo fagurlega um ...

  • móðurmálið mitt góða,
  • hið mjúka og ríka,
  • orð áttu enn eins og forðum
  • mér yndið að veita.

Vituð ér enn - eða hvað?


mbl.is Verzló vill fá enska námsbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband