Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Jólaklám
17.11.2007 | 20:04
Það var ekki flogið í dag - og mér lá á að komast vestur - svo ég lagði í púkk með þremur heimfúsum sveitungum og við tókum bílaleigubíl. Jamm. Tæpir sjö tímar í akstri - snjófjúk og blint á leiðinni en auðir vegir sem betur fer. Og allt gekk vel.
Tengdamamma beið mín með indælan fiskrétt í ofni. Siggi bóndi minn farinn norður í Skagafjörð á kjördæmisþing Samfylkingarinnar og barnið hjá afa og ömmu. Gott að eiga öruggt skjól þegar foreldrarnir eru á þeytingi um landið þvert og endilangt í ótryggu veðri og jarðbönnum.
Jæja, heimkomin læt ég renna í bað handa drengnum, skipti á rúminu hans og kveiki á sjónvarpinu. Ætla að láta líða úr mér ferðaþreytuna og slaka reglulega vel á. Hvað veltur þá yfir mig út um sjónvarpsskjáinn? Frétt um að Borgnesingar hafi ákveðið að "flýta aðventunni". Viðtal við unga stúlku sem segir að þetta sé bara reglulega gaman. Grýla mætt á svæðið og svona, og allir glaðir. Eftir fréttir dynja svo á mér (og landsmönnum öllum) JÓLAAUGLÝSINGAR.
Kallið mig bara íhaldskellingu og afturhaldssegg - EN ÉG VIL EKKI FÁ JÓLAAUGLÝSINGAR OG JÓLAUPPÁKOMUR um miðjan nóvember. Þetta er óþolandi. Óþolandi.
Látum vera nóvemberljós, kertaljós og haustskreytingar í húsum. Það er notalegt um þetta leyti. En rauðklæddir jólasveinar, silfraðar og gylltar jóalbjöllur í greni, klukkna og bjölluhljómur. NEI TAKK! Ekki um miðjan NÓVEMBER.
Mér finnst þessi útjöskun á jólunum jaðra við klám. Þetta er kaupmennska, skrum og ekkert annað. Og í tilefni af degi íslenskrar tungu ætla ég að taka mér í munn rammíslenskt og auðskilið orð yfir þetta fyrirbæri, um leið og ég hafna því af öllu mínu hjarta. Þetta er: Jólaklám ... ... og ég vil ekki sjá það.
Hef ég þá lokið máli mínu í bili - ætla að fara að hvíla mig eftir ferðalagið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Útsvarið í kvöld ; )
16.11.2007 | 12:06
Jæja, þá er það Útsvarið í kvöld Lið Ísafjarðarbæjar gegn Reyknesingum.
Í liði Ísfirðinga eru auk mín þau Ragnhildur Sverrisdóttir blaðamaður og Halldór Smárason, menntskælingur. Bæði eru þau miklar mannvitsbrekkur og skemmtilegt fólk. Í liði Reykjanesbæjar eru Guðmann Kristþórsson, Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) og Júlíus Freyr Guðmundsson (ég held hann sé sonur Rúnars Júlíussonar sem heitir að ég held Guðmundur Rúnar). Verður spennandi að mæta þeim - en sjálf veit ég ekkert við hverju má búast.
Við Vestfirðingarnir hittumst aðeins í gær, rétt sísvona til að stilla saman strengi. Við erum ágæt saman - verðum vonandi heppin líka þegar á hólminn er komið.
Í síðasta Útsvarsþætti fannst mér spurningarnar raðast einkennilega milli liða. Einhvernvegin vildi þannig til að mér fannst ég geta nánast allt sem vinningsliðið var spurt um, en ekki eins mikið af því sem tapliðið þurfti að svara. Semsagt: Heppnin er hluti af árangrinum, ég fer ekki ofan af því. Samstilling liðanna held ég líka að skipti máli.
Jæja, en nú er að krossleggja fingur og sjá hvað setur. "Sjáumst" vonandi í kvöld.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Verkalýðsforinginn heiðraður
12.11.2007 | 00:53
Pétur Sigurðsson, tengdafaðir minn - formaður VerkVest þar til s.l. vor, og þar áður formaður Alþýðusambands Vestfjarða um áratuga skeið - var heiðraður af samverkamönnum sínum í verkalýðsfélaginu hér vestra við hátíðlegt borðhald á Hótel Ísafirði í gærkvöldi. Hjördís kona hans einnig - enda hefur hún staðið þétt að baki sínum manni alla þeirra hjúskapartíð, svo það var vel við hæfi.
Eftir áratuga þjónustu við íslenska verkalýðshreyfingu hefur Pétur nú ákveðið draga inn árar og setjast á friðarstól. Ungur maður er tekinn við formennsku í félaginu, og Pétur hefur vikið til hliðar. Þó ekki lengra en upp á næstu hæð, þar sem hann situr nú og fer yfir gömul skjöl. Í næstu skrifstofu situr Siggi minn, sonur hans, og skrifar sögu vestfirskrar verkalýðshreyfingar. Það á við þá feðgana að sitja hvor á sinni skrifstofunni og róta í gulnuðum blöðum sögunnar. Þegja mikið og lengi, raða, flokka og skrifa hjá sér.
Já, formlega séð er Pétur hættur og ungur maður tekinn við. Sá fær að njóta ráðgjafar og liðsinnis verkalýðskempunnar sem nú hefur flutt sig um set í húsinu. En ef einhver ímyndar sér að þar á efri hæðinni sitji hrumur öldungur, þrotinn að kröftum, skal sá misskilningur leiðréttur snarlega. Þó að Pétur sé kominn á áttræðisaldur er hann enn fimur í hreyfingum, skýr eins og unglingur, skörulegur í tali með glampa í auga. Þar fyrir innan glittir í minningar um gamla Vestfjarðasamninga og verkfallsátök sem hafa sett mark sitt á svipmót og fas mannsins. Hann ber aldurinn betur en nokkur maður sem ég þekki á hans aldri. Hleypur enn upp á dal þrisvar í viku, auðþekktur á rauðu dúskhúfunni sem eitthvert barnabarnið gaf honum einhverntíma.
Ekki alls fyrir löngu varð Pétur fyrir bíl í Reykjavík - nei, afsakið - bíllinn varð eiginlega fyrir honum þar sem hann var að skokka yfir götu. Höggið var þvílíkt að Pétur flaug yfir bílinn og hafnaði á grasflöt þar skammt frá, eftir viðkomu í runna. Maður hefði búist við alvarlegum afleiðingum fyrir hálfáttræðan mann, a.m.k. beinbroti. En Pétur reyndist óbrotinn. Raunar spaugar hann með það sjálfur að sér hafi verið bráðust hætta búin þegar sjúkraflutningamennirnir fóru að spenna á hann hálskraga og þrengja súrefnisgrímu yfir andlit honum svo honum lá við köfnun. En eftir skoðun á sjúkrahúsi var hann sendur heim, svolítið lurkum laminn í nokkra daga, en náði sér svo. Geri aðrir betur.
Síðastliðið sumar tók hann þátt í Púkamótinu á Ísafirði - annað árið í röð. Það er fótboltamót fyrir fertuga og eldri. Hann var í marki og þar flaug hann milli markstanganna og varði a.m.k. eina vítaspyrnu.
Já, hann er sestur á friðarstól - en ég held það sé lítil hætta á að hann sitji auðum höndum. Og það er vel.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Nokkrir (g)óðir dagar í borginni
9.11.2007 | 13:17
Gærdagurinn var ævintýralegur. Fyrir hádegi tók ég upp tvo sjónvarpsþætti fyrir ÍNN - annar verður á dagskrá kl. 21 í kvöld, hinn eftir hálfan mánuð (rás-20 á digital Ísland).
Ég fékk til mín stórskemmtilegar konur. Annarsvegar þær Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamann og sr. Jónu Hrönn Bolladóttur. Þær ræddu nýafstaðið kirkjuþing, stöðu samkynhneigðra, stöðu kirkjunnar og margt margt fleira. Bráðskemmtilegar báðar tvær.
Hinsvegar fékk ég til mín þær sr. Ragnheiði Jónsdóttur og Erlu Ólafsdóttur, sjúkraþjálfara. Báðar eru þær raunar sjúkraþjálfarar að mennt, en Ragnheiður er núna starfandi sóknarprestur í Mosfellsprestakalli. Erla hefur sérhæft sig í höfuðbeina og spjaldhryggsjöfunun sem Ragnheiður hefur kynnt sér líka. Við ræddum um hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar, tengsl trúar og lækninga, guðshugtakið, siðfræði og ýmislegt fleira. Tíminn þaut frá okkur.
Eftir hádegið fór ég svo upp í ríkisútvarp að aðstoða einn nemenda minna við gerð útvarpsþáttar. Það er hluti af námsmati í námskeiðinu sem ég er að kenna í menningarmiðlun við sagnfræðiskor HÍ. Mjög skemmtilegt verkefni fyrir mig - og vonandi gagnlegt fyrir nemendurna líka. En það er tilefni veru minnar í borginni þessa dagana, að ég er að leiðbeina nemendum við gerð útvarpsþáttanna með aðstoð tæknimannanna á RÚV, sem eru afar liðlegir og elskulegir svo af ber.
Í gærkvöldi var ég svo boðin ásamt forstöðumönnum fræðasetra Háskóla Íslands til kvöldverðar í Perlunni. Villibráðarhlaðborð. Tilefnið var sameiginlegur fundur með forstöðumönnum sem hófst kl. 8 í morgun. Svona nokkurskonar kynning á bókhaldskerfi háskólans, gerð fjárhagsáætlana, hagnýtingu innra netsins og fleira gagnlegt. Góður fundur, og indæl stund þarna í gærkvöldi.
Í kvöld ætla ég svo með mömmu á fund í kvæðamannafélaginu Iðunni. Langt síðan ég hef komist á kvæðafund - hlakka til að hitta mannskapinn þar. Svo er ekki til setunnar boðið. Á morgun keyrum við Siggi svo vestur aftur. Kíkjum til Ragnheiðar vinkonu í morgunmat. Svo til Dodda og Erlu að kveðja þau og Daða Hrafn. Og svo brunum við vestur. Eigum að vera mætt í kvöldverð sem okkur er boðið í af skemmtilegu tilefni á Ísafirði annað kvöld - tilefnið er leyndó ennþá .
Já, það er sprettur. Ég vona samt að næsta vika verði aðeins rólegri.
Ömmustúss
3.11.2007 | 10:52
Ég er í ömmuleik. Daði Hrafn kominn í helgarheimsókn með pabba sínum og mömmu (Dodda og Erlu Rún). Þau falla svolítið í skuggann, það verður bara að segjast eins og er - en þau fyrirgefa mér það.
Já, tíminn líður. Svo er "litla" barnið á heimilinu, hann Hjörvar minn, farinn að mæta á böll í næstu byggðarlögum - ekki fermdur einu sinni. Hann fór með skólanum á mikla íþróttahátíð sem haldin var í Bolungarvík í gær. 8., 9. og 10. bekkir grunnskólans fjölmenntu og héldu svo grunnskólaball í gærkvöldi. Mikið fjör hlýtur að vera, a.m.k. var það ánægður drengur sem kom heim með rútunni um miðnættið í gærkvöldi, óræður á svip.
Í morgun var mannskapurinn vakinn fyrir allar aldir - Daði Hrafn kominn á stjá. Hann sér ekki sólina fyrir Sigga afa, sem veltist um gólfin með honum. Blíða er afbrýðisöm.
Áðan drifum við okkur með þann stutta í sleðabrekkuna neðan við húsið: Amma, afi, Hjörvar, Daði Hrafn og Blíða. Höfðum meðferðis gula kringlótta snjóþotu og Stiga-sleða. Blíða elti okkur niður brekkuna og kunni sér ekki læti.
Svo fengum við okkur að drekka og Daði tók miðdegislúrinn. Amma hvílir sig á meðan, því kl. hálf þrú er Hjörvar að fara að keppa í fótbolta í íþróttahúsinu. Þá verður fjölskyldan á áhorfendabekknum, að sjálfsögðu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Meiri lætin
31.10.2007 | 16:38
Þvílík læti í kringum mig þessa dagana - segi ekki annað. Utan vinnutíma - og milli verka - er allt á fullu við fréttavefinn okkar hugsjónafólksins skutull.is. Hann virðist bara ætla að fara vel af stað.
Auðvitað er viðbúið að þetta verði svolítið stúss svona fyrstu vikuna sem vefurinn er í loftinu - og svolítið vesen auðvitað að hafa ekki allan sólarhringinn til umráða (a.m.k. ekki vinnutímann og svefntímann). En það lagast.
Var að kenna í eftirmiðdaginn. Fór yfir handrit með nemendunum sem eru að vinna útvarpsþættina sína í námskeiðinu sem ég er að kenna á meistarastigi við sagnfræðiskor HÍ. "Menning og fræði í útvarpi" heitir það og er fámennt en góðmennt. Algjör lúxus. Þegar fámennt er á námskeiðum verður vinnan svo mikið auðveldari.
Svo er það kóræfing núna klukkan sex, og hlýðniþjálfun fyrir hundinn (ekki mig ) með Björgunarhundasveitinni klukkan hálfníu. Varla að maður sjái bóndann og barnið fyrir háttatíma.
Jæja, en það er líka gaman þegar nóg er að gera. Endilega kíkið á nýja vefinn - skutull.is og látið mig vita hvað ykkur finnst.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að kvöldi "kvennafrídags" ...
24.10.2007 | 23:34
... er ég uppgefin eftir annasaman, en skemmtilegan dag (vinnan, fjarkennsla í 3 klst., tveir fundir, kóræfing og hundaþjálfun með björgunarhundasveitinni). Er tiltölulega nýkomin heim og klukkan orðin ellefu.
Efst er mér þó í huga hvernig ég varði þessum degi - eða aðfararnótt hans - fyrir tuttugu og fjórum árum. Þá vann ég það lífsins afrek að fæða 15 marka son - 50 sentímetrar var hann fæddur, helblár í framan fyrstu sekúndurnar, en undurfallegur frá fyrstu stundu.
Hann kom með hvelli. Ég man hvað ég skalf eftir að vatnið skyndilega fór klukkan tvö um nóttina. Þetta var þriðja fæðing - og líkaminn kveið því augljóslega meir en sálin að takast á við það sem framundan var. En mér gafst lítið ráðrúm til að velta því fyrir mér - hríðarnar hvolfdust yfir mig eins og brimskaflar, og tveim tímum síðar var hann bara fæddur. Hann Pétur minn, sem er tuttugu og fjögurra ára í dag. Elsku drengurinn
Hann hefur stundum verið baldinn við mig. Já, beinlínis erfiður á köflum. En hann er að mannast - og mér finnst hann yndislegur með kostum sínum og göllum. Þessi misserin stundar hann nám við Háskólann í Reykjavík og stendur sig vel. Með náminu vinnur hann hjá tölvufyrirtæki í bænum.
Ég er stolt af honum eins og öllum mínum börnum - enda þekki ég það úr hestamennskunni að óstýrlátu tryppin eru yfirleitt gæðingsefni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Rigningarnótt í tunglskini
23.10.2007 | 23:53
Vinir heimtir úr helju.
23.10.2007 | 12:26
Á föstudaginn fékk ég símtal frá vinkonu minni. Hún og maðurinn hennar voru á leiðinni með vinafólki í helgarferð inn í Mjóafjörð. Hún hlakkaði til og við töluðum um hvað þetta væri skemmtilegur hópur sem hún þekkti. Hvað þessar ferðir þeirra í sumarbústaðinn væru vel heppnaðar - hvað þau myndu nú hafa það gott um helgina.
Á meðan við töluðum saman ók hún framhjá húsinu mínu og veifaði upp í gluggann í kveðjuskyni.
Það var undarlegt að minnast þessa atviks einum og hálfum sólarhring seinna, þegar hún og vinir hennar voru naumlega heimt úr helju, eftir að bátnum þeirra hvolfdi á Selvatni. Að heyra hana segja frá helkuldanum sem gagntók þau, krampanum sem hindraði öndun, uppköstunum sem fylgdu volkinu þar sem þau börðust fyrir lífi sínu í vatninu. Hvernig hún reyndi að nota talstöðina sína þegar hún var komin í land, en gat ekki ýtt á takkana vegna kulda.Hvað tíminn var lengi að líða - og hvernig það var að vita ekki um afdrif eins úr hópnum sem enn var úti í vatninu þegar hún skreið eftir hjálp.
Ég gat ekki varist þeirri hugsun að kveðjan okkar, þar sem hún veifaði mér upp í gluggann, hefði getað verið sú síðasta. Úff!
Svona atburður er harkaleg áminning um hverfulleikann. Hvað það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við fólk - leita þess jákvæða og meta það. Það er aldrei að vita hverjir fá að hittast aftur.
Svo þakka ég guði fyrir þá lífgjöf sem þarna átti sér stað.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Leggið við hlustir á morgun :-)
10.10.2007 | 16:24
Á morgun kl. 15:30 verður útvarpsþáttur um starf Björgunarhundafélags Íslands á Rás-1. Það er engin önnur er Ragnheiður Davíðsdóttir, sú merka fjölmiðlakona og forvarnarfulltrúi með meiru, sem fjallar þar um störf björgunarhunda- sveitarinnar.
Ragnheiður kom á æfingarhelgi hjá okkur fyrir skömmu og fylgdist með. Það er gaman að sjá hvernig hún bloggar um þessa heimsókn á síðunni sinni í dag. Ég verð að segja að mér hlýnaði um hjartarætur fyrir hönd félaga minna í björgunarhundasveitinni þegar ég las það sem hún segir þar.
En fyrir þá sem áhuga hafa, þá verður þessi þáttur sumsé á morgun kl. 15.30 - Dr. Rúv nefnist hann.
Leggið við hlustir.
Annars hefur verið ýmislegt að gera á vettvangi björgunarmála að undanförnu - því nú er ég farin að taka þessi námskeið sem maður þarf að hafa til þess að geta verið gjaldgengur með björgunarhund í útkalli.
Um síðustu helgi var ég á fyrstuhjálpar-námskeiði sem stóð alla helgina, og svo voru verklegar björgunaræfingar innan og utanhúss í framhaldinu. Í fyrrakvöld "björguðum" við t.d. tveimur "stórslösuðum" konum í hlíðinni hér ofan við bæinn. Bárum aðra þeirra tvíbrotna á börum í niðamyrkri, yfir á og upp grýttan bakka.
Höhömm - það var altso ég sem átti að stjórna þessum aðgerðum, og - tjahh - við skulum bara orða það þannig, að ég er fegin að þetta var æfing en ekki alvara.
En, hva - þetta lærist eins og allt annað.
Verra var, að í þessu bjástri þar sem við paufuðumst um í myrkrinu með börurnar, fann ég skrítna tilfinningu aftan á öðrum kálfanum. Gaf því engan sérstakan gaum, fyrr en í blakinu í gærkvöldi. Þá lét eitthvað undan.
Og núna er ég sumsé tognuð - - staulast um á hækjum, því ekki get ég stigið í fótinn.
Það er þó bót í máli að mér skyldi hafa tekist að ljúka námskeiðinu áður en svona óheppilega vildi til.
Vinir og fjölskylda | Breytt 11.10.2007 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)