Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Áramótakveðja í bloggheima
31.12.2007 | 14:23
Jæja, þá er blessað árið að hníga til viðar - flugeldahríðarnar farnar að boða komu þess nýja.
Það eru ýmsar tilfinningar tengdar þessu ári sem nú er að líða. Flestar góðar, sem betur fer enda hefur margt skemmtilegt gerst á þessu ári - ferðalög, nýtt fólk, ný viðfangsefni og áhugamál. Bloggið er eitt af því nýja sem fyrir mig hefur borið á árinu, og eitt það skemmtilegasta. Eins og góð bloggvinkona skrifar um á sinni síðu í dag, þá hefur þessi vettvangur orðið mörgum dægradvöl og vinamynni. Það kom skemmtilega á óvart.
Völva vikunnar talar niðrandi um bloggið í áramótablaðinu að þessu sinni, segir þennan nýja vettvang hafa orðið þjóðinni "frekar til vansa"
Ég get ekki tekið undir það. Þvert á móti finnst mér bloggheimarnir hafa þroskast og tekið á sig mótaðri og yfirvegaðri mynd á þessu ári en áður var. Þetta er lifandi umræðuvettvangur - hér kemur fólk fram með skoðanir sínar og hugleiðingar sem yfirleitt eru settar fram á ábyrgan hátt, þó að stíllinn sé óformlegri en í hefðbundnum blaðagreinum. Vissulega eru til nokkrir einstaklingar sem kunna ekki að haga sér á þessum vettvangi frekar en annarsstaðar. Slíkir einstaklingar eru alltaf og allstaðar til staðar í einhverjum mæli. En það er þá undir hinum komið að láta hina æskilegu þróun halda áfram, þannig að umræðan þróist í farsælar áttir.
En, hér hefur maður kynnst skemmtilegu fólki sem setur fram skoðanir sínar umbúðalaust en af háttvísi og hugsun í bloggfærslum og athugasemdum. Hér hefur maður "mátað" kenningar sínar og skoðanir sem eru í mótun, fengið viðbrögð og góðar ábendingar. Það er allt til góðs.Bloggvinum og lesendum þakka ég fyrir árið sem er að líða - þið eruð öll orðin hluti af góðri minningu, og ég hlakka til nýja ársins með ykkur hér í bloggheimum.
Gleðilegt ár!
Þrumugleði um jól
25.12.2007 | 02:29
Það var dásamlegt að heyra almættið þruma yfir höfuðborginni á sömu stundu og jólin gengu í garð. Kirkjuklukkurnar voru vart þagnaðar þegar elding lýsti upp himininn og mikilfengleg þruma fylgdi í kjölfarið. Og svo eins og verið væri að steypa hagli úr fötu.´
Við þessa óvæntu jólakveðju komst ég í alveg sérstakt hátíðarskap. Mér varð litið á fjölskylduna mína við veisluborðið - við vorum nýsest þegar þetta dundi yfir - og á einhvern óútskýranlegan hátt fannst mér eins og Drottinn sjálfur hefði sest að borðinu með okkur. Ég get ekki útskýrt það nánar. En hjarta mitt fylltist þakklæti og gleði - mér finnst ég hafa svo óendanlega margt að þakka fyrir.
Þetta var gott aðfangadagskvöld. Það var yndislegt að hafa næstum því alla fjölskylduna hjá sér - og hina innan seilingar sem ekki sátu með okkur til borðs. Vita af öllum ástvinum einhversstaðar í góðu yfirlæti.
Eftir matinn fórum við mæðgurnar (ég, Saga og Maddý) í miðnæturmessu í Hallgrímskirkju. Það var falleg messa. Sérstaklega var ég glöð yfir því að kirkjugestir skyldu hvattir til þess að taka virkan þátt í söngnum. Það var augljóslega vel þegið, og kirkjan ómaði öll. Hátíðleg og yndisleg stund.
Eftir messu dró ég Sigga svo með mér í göngutúr með hundinn í tunglsljósinu, enda brostin á blíða með stjörnubliki og silfruðum sjávaröldum. Afar falleg jólanótt.
Jólanótt
Norðurljósa litatraf
liðast hægt um myrkrahvel,
lýsir himinn, land og haf,
litkar hjarn og frosinn mel.
Rauðbleik merlar mánasigð
á myrkum sæ um þögla nótt.
Langt í fjarska bjarmar byggð
- borgarljósin tindra rótt.
En yfir raflýst borgarból
- á bak við heimsins ljósadýrð -
ber sín helgu boð um jól
björt en þögul nætursól,
við skörðum mána skín í kyrrð
skærum loga úr órafirrð
er lúnum mönnum lýsti þrem
langan veg til Betlehem.
Óvænt næðisstund á aðfangadegi
24.12.2007 | 16:24
Óvænt næðisstund á aðfangadegi: Hamborgarahryggurinn soðinn, ísinn tilbúinn, fiskhringurinn og Rice crispies tertan. Búið að leggja á borðið - allir búnir jólabaði, og stóru börnin í jólapakkaleiðangri. Eiginlega er maður bara að bíða eftir jólunum
Og þá - alltíeinu - langaði mig til að blogga. Bara eitthvað pínulítið.
Já, bloggið er orðinn svo snar þáttur í daglegu lífi, að meira að segja á aðfangadag finnst manni maður eiga eitthvað ógert ef ekki er komin inn bara svolítil bloggfærsla.
Jæja, hér er hún komin - og þá get ég haldið áfram jólastússinu. Ég læt fljóta með svolitla vísu sem varð til hjá mér fyrir nokkrum árum.
- Minningin er mild og tær
- merla stjörnuljósin
- í barnsins auga blíð og skær
- blikar jólarósin.
Svo vona ég að allir njóti nú jólanna virkilega vel.
Gleðileg jól!
22.12.2007 | 12:57
Kæru bloggvinir og lesendur nær og fjær.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári - og þakka fyrir góð og gefandi kynni á árinu sem er að líða.
Bloggið er ný vídd í mínu lífi, sem hefur reynst mér gjöfult og hvetjandi. Hér hef ég eignast nýja vini, kynnst skemmtilegu fólki, fengið góðar kveðjur og skemmtileg skoðanaskipti.
Fyrir allt þetta þakka ég nú af heilum hug og vona að ég hitti ykkur öll fyrir heil og endurnærð, hér á sama vettvangi á nýju ári.
Og svo er það jólaskapið ...
20.12.2007 | 22:25
Það sem í mínum huga einkennir jafnan jólin er eftirvæntingin sem fylgir þeim -- og það hvernig barnið í mér nær einatt að brjótast fram í aðdraganda jólanna. Mín eigin börn hafa ýtt undir þessar tilfinningar hjá mér, því á einhvern hátt samlagast ég tilhlökkun þeirra á þessum tíma.
En fyrir utan ilm af rjúpu, grenilykt, jólabakstur og jólalög þá man ég líka annan ilm og önnur hljóð -- nefnilega lyktina í hesthúsunum og ánægjukumrið við heystallinn. Á þessum árstíma vorum við vön að taka hrossin úr vetrarhaganum. Það var alltaf tilhlökkunarefni að hitta aftur þessa vini sína þegar þeir voru komnir í vetrarhárin, síðfextir, úfnir og jafnvel fannbarðir -- og finna fyrir þögulli vellíðan þeirra þegar þeir voru aftur komnir á stallinn sinn með hey í jötu og yl af öðrum hestum. Einhvernveginn komst ég aldrei í almennilegt jólaskap fyrr en hestarnir voru komnir á hús.
Nú þarf ég að tala í þátíð, því hestarnir eru ekki hluti af daglegu lífi mínu lengur - ég lét þá frá mér fyrir þremur árum (eftir fjértíu ára samfellda hestamennsku, segi og skrifa). Minningin um lyktina af þeim, lágvær hljóðin og nálægðina fyrnist seint.
Já - og svo fæst rjúpan ekki lengur, þannig að rjúpuilmurinn er líka horfinn úr lífi mínu Hvað er þá eftir? Minning - minning um hefðir. Er það ekki einmitt dæmigert fyrir jólin - þau eru ein stór nostalgía.
En eitt er það sem ekki breytist og það er himininn yfir höfðum okkar - svo fremi maður sjái hann fyrir skýjum Og mér finnst mikilvægt að sjá heiðan stjörnuhimin um jólaleytið.
Mikilvægast er þó að vera með fólkinu sínu - og AÐ ÞESSU SINNI ætlum við Siggi suður til barnanna í stað þess að fá allan hópinn til okkar. Leggjum í hann seinnipartinn á morgun með troðfullan bíl af gjöfum, jólaskrauti, bakkelsi, mat og ég veit ekki hverju. Bíllinn er svo troðinn að Hjörvar blessaður verður sendur á undan með flugi.
Bara að það verði nú ferðaveður og allt gangi upp ... ætli jólaskapið velti nú ekki svolítið á því þessu jólin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimatilbúnar aðventuhefðir
19.12.2007 | 10:31
Þegar ég fór sjálf að halda heimili héldu aðventusiðir innreið sína í fjölskyldulíf mitt, aðventukrans og jólastjarna, seríur utan á húsið og í glugga. Minna fór fyrir hreingerningum og kökubakstri, en meira var af kertaljósum og kósíheitum í desember. Einn er þó sá kökubakstur sem til nýjunga heyrir á mínu heimili en er að verða föst hefð - og það er enska jólakakan sem ég baka 8-12 vikum fyrir jól. Hún er runnin undan rifjum mágs míns, Paul Newton, sem er Breti eins og nafnið gefur til kynna.
Það er rammur gjörningur að baka þessa köku og líkist því helst að magna upp tilbera eins og þeirri kúnst er lýst í þjóðsögunum. Kakan er bökuð marga klukkutíma í ofni, síðan vafin í margfaldar umbúðir og loftþétt ílát og látin standa á köldum stað. Hún er svo tekin fram vikulega og dreypt á hana víni fram að jólum - en þá er hún pensluð með bræddu apríkósumauki og smurð dýrindis marsípankremi og telst þá fullgerð.
Síðustu árin hefur það verið fastur liður hjá okkur Sigga að mæta í afmælis/aðventuboð hjá vinkonu minni suður í Reykjavík, fyrstu helgina í desember. Þá notum við tækifærið og kaupum þær jólagjafir sem eiga að verða eftir fyrir sunnan. Þessi samverustund með góðum vinum, við síldarrétti, jólasnafs og aðrar veitingar, kemur okkur ævinlega í jólaskapið - þannig að þegar við komum heim úr þessum leiðangri má segja að undirbúningur jólanna sé hafinn.
Um svipað leyti hefst baukið við að koma jólaseríum á þakskeggið. Siggi fer upp í stiga, aðrir í fjölskyldunni fylgjast með í lotningu. Svo hefst viðureignin við seríuflækjuna, leit að varaperum, við að greiða úr og rétta honum snúruna upp í stigann. Nú orðið lendir þessi aðstoðarvinna mest á yngsta syninum, en ég sæti færis að smjúga inn í hús og skreyta svolítið þar.
Því hefur fylgt ákveðin serimónía á heimilinu þegar kveikt er á aðventukertum. Þá kemur fjölskyldan að kransinum og við syngjum viðeigandi vers í aðventusálminum. "Við kveikjum einu kerti á" er sungið fyrsta sunnudag, næst eru sungin tvö vers og sunnudaginn fyrir aðfangadag eru öll erindin fjögur sungin. Þessi siður varð einhvern veginn til með börnunum okkar. Mér finnst alltaf mjög hátíðlegt að sjá kertaljósið lýsa upp andlit lítilla barna við þetta tækifæri .... en .... huhummm
..... núna er litla barnið á heimilinu að verða fjórtán og "glætan" að hann syngi með mömmu sinni "Við kveikjum einu kerti á" við aðventukransinn. Hinsvegar ....
.... þegar hann sér okkur sitja við kertaljós og smákökur að skrifa jólakortin, líður hann til okkar eins og reykur, sest steinþeigjandi að borðinu og teygir sig eftir korti til að skrifa til vinar í Reykjavík. Tungan út um annað munnvikið. Það gerir sama gagn fyrir mömmuhjartað.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Dauðþreyttar eftir Danmerkurferð
5.12.2007 | 21:11
Við Saga komum heim frá Danmörku í kvöld. Kúguppgefnar eftir hálfs sólarhrings ferðalag.
Vorum vaknaðar fyrir allar aldir til þess að ná lestinni kl. 8 frá Árósum. Sú ferð tók þrjá og hálfan tíma. Síðan röltum við um á flugvellinum. Þar varð seinkun á flugi. Svo sátum við í klukkutíma í vélinni áður en hún fór í loftið. Flugið tók um þrjá tíma. Það stytti okkur stundir að í sætaröðinni hjá okkur sat sjö ára patti sem spjallaði við okkur á leiðinni - Anton heitir hann og var hvergi banginn þó hann þyrfti að sitja hjá tveimur bláókunnugum konum. Raunar vissi hann af foreldrum og systur í röðinni fyrir aftan - en samt. Vel af sér vikið hjá honum.
Jæja, það tók óratíma að fá bílaleigubílinn sem átti að bíða okkar á Keflavíkurflugvelli. Mikil skriffinska og vesen. Loks þegar við vorum sestar upp í hann með allt okkar hafurtask (sem var nú ekkert smáræði skal ég segja ykkur enda fjórir verslunardagar að baki ), þá fór blessaður bíllinn ekki í gang.
Toyota er nefnilega komin með einhvern nýjan fítus í sjálfskiptinguna á þessum bílum, þannig að það þarf flóknar og samhæfðar aðgerðir bremsu, stýris og gírstangar til þess að koma vélinni í gang. Þarna sátum við mæðgurnar í myrkrinu, ráðvilltar á svip, með starfsmann bílaleigunnar í símanum að útskýra fyrir okkur hvað bæri að gera til þess að fá straum á vélina. Og ekkert gerðist - lengi vel.
Jæja, svo kom þetta nú. Og heim erum við komnar eftir skemmtilega samverustund með Maddý minni í Árósum, þar sem hún er búin að koma sér vel fyrir. Við skoðuðum skólann hennar og vinnustofuna. Fórum á jólamarkaði - lágum í leti og spjölluðum. Síðast en ekki síst VERSLUÐUM við yfir okkur. Er eiginlega búin að gera jólainnkaupin - þannig að fjórtándi jólasveinninn - Kortaklippir - hrellir mig ekkert sérlega - ég er eiginlega BÚIN að versla fyrir jólin .
Það var notalegt að koma aftur til Danmerkur eftir langa hríð. Rifja upp stemninguna sem fylgir aðventunni hjá þessari frændþjóð okkar. Þeir eru í "hygge" allan desembermánuð - og kunna svo sannarlega að njóta þess.
Virkilega skemmtileg ferð.
Vitlaust veður og ekki flogið
29.11.2007 | 10:45
Það er komið vitlaust veður hér fyrir vestan - rafmagnið farið að flökta. Hrethviðurnar ganga hér inn fjörðinn, úfinn sjór og hvinur í trjám. Ég ætlaði suður í dag - og út til Danmerkur á morgun að hitta dóttur mína blessaða sem þar býr í Árósum.
Eeeen ... það verður ekki flogið í dag.
Mér stendur til boða að fara með góðu fólki sem ætlar akandi suður í dag. Þáði það með þökkum að sjálfsögðu - en nú er ég bara ekkert viss um að það verði óhætt að keyra í þessu fjárans veðri.
Mér finnst orðið ansi hvasst nú þegar - samt átti veðrið ekki að skella á fyrr en síðdegis.
Brrrrr..... þetta er kuldalegt. Við sjáum hvað setur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lauslætinu lokið - Sigtryggur vann!
24.11.2007 | 13:14
Æ, þetta var erfitt. Ég var að kveðja blogglesendur mína á visir.is til þess að færa mig alfarið yfir á moggabloggið. Snúin frá mínu hliðarspori - komin heim í "hjónarúm".
Þannig er að ég byrjaði hér á moggablogginu í byrjun þessa árs. Hér kynntist ég þeim bloggurum sem ég hef síðan verið í sambandi við, og hér á ég flestalla mína lesendur. Í sumar tók ég svo einhverskonar tilboði um að koma yfir á visir.is og ákvað að sjá til. Veit ekki hvaða lauslætiskast það var eiginlega. Enda kom á daginn að ég gat aldrei fengið mig til þess að loka moggablogginu og flytja mig yfir. Alltaf þegar ég ætlaði að gera það titraði einhver taug innra með mér og ég GAT það bara ekki. Var einfaldlega búin að eignast of marga vini hér.
Enda hafa mál þróast þannig að ég gleymi æ oftar að setja inn færslur á hina síðuna. Og nú er bara komið að því að VELJA,. Það á ekki við mig að þjóna tveimur herrum samtímis.
Að sumu leyti er þessi niðurstaða svipuð glímulýsingunum sem margir muna frá áttunda áratungum. Þá var aldrei spurning um leikslokin. Þulur sagði einfaldlega: Þeir taka hald (löööööng þögn). Sigtryggur vann!
PS: Myndina hér fyrir ofan tók ég af www.fva.is/harpa - veit því miður ekki nánari deili á listamanninum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Friggjarspuni í skýjum
18.11.2007 | 12:17
Sólin er horfin úr firðinum - við sjáum hana ekki aftur fyrr en 25. janúar. En í dag hefur gyðjan Frigg spunnið gullþræði sína í nóvemberhimininn. Sólgyllt ský svífa yfir fjöllum og ljómi þeirra speglast í lognkyrrum haffletinum. Þetta er fallegur dagur - verst hvað myndavélin mín er lúin. Ég veit ekki hvort hún nær að fanga þessa sjón - skelli samt inn mynd sem ég tók áðan út um stofugluggann minn. Tek þó fram að litirnir eru mun skærari og bjartari en þessi mynd ber með sér.
Í dag er mikið um að vera. Menningardagskrá um Vestfirsku skáldin í Holti í Önundarfirði hefst kl. 16:00. Við í Vestfjarðaakademíunni höfum verið að undirbúa þessa dagskrá í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar. Ég verð með yfirlitserindi um vestfirsku skáldin, en auk þess verða flutt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson, Jón úr Vör, Jakobínu Sigurðardóttur og Steingerði Guðmundsdóttur. Sungin verða vestfirsk lög, kveðnar þulur og vísur og Grasa-Gudda úr Skugga-Sveini mun mæta til leiks, kaffiveitingar o.fl.
Já þetta er fallegur dagur til þess að mæra menningararfinn - svo sannarlega. Guð láti gott á vita.