Jólaklám

hestarihöm  Það var ekki flogið í dag - og mér lá á að komast vestur - svo ég lagði í púkk með þremur heimfúsum sveitungum og við tókum bílaleigubíl. Jamm. Tæpir sjö tímar í akstri - snjófjúk og blint á leiðinni en auðir vegir sem betur fer. Og allt gekk vel.

 Tengdamamma beið mín með indælan fiskrétt í ofni. Siggi bóndi minn farinn norður í Skagafjörð á kjördæmisþing Samfylkingarinnar og barnið hjá afa og ömmu. Gott að eiga öruggt skjól þegar foreldrarnir eru á þeytingi um landið þvert og endilangt í ótryggu veðri og jarðbönnum.

 Jæja, heimkomin læt ég renna í bað handa drengnum, skipti á rúminu hans og kveiki á sjónvarpinu. Ætla að láta líða úr mér ferðaþreytuna og slaka reglulega vel á. Hvað veltur þá yfir mig út um sjónvarpsskjáinn?  Frétt um að Borgnesingar hafi ákveðið að "flýta aðventunni". Viðtal við unga stúlku sem segir að þetta sé bara reglulega gaman. Grýla mætt á svæðið og svona, og allir glaðir. Eftir fréttir dynja svo á mér (og landsmönnum öllum) JÓLAAUGLÝSINGAR. Angry

Kallið mig bara íhaldskellingu og afturhaldssegg - EN ÉG VIL EKKI FÁ JÓLAAUGLÝSINGAR OG JÓLAUPPÁKOMUR um miðjan nóvember. Þetta er óþolandi. Óþolandi.

Látum vera nóvemberljós, kertaljós og haustskreytingar í húsum. Það er notalegt um þetta leyti. En rauðklæddir jólasveinar, silfraðar og gylltar jóalbjöllur í greni, klukkna og bjölluhljómur. NEI TAKK! Ekki um miðjan NÓVEMBER.

Mér finnst þessi útjöskun á jólunum jaðra við klám. Þetta er kaupmennska, skrum og ekkert annað. Og í tilefni af degi íslenskrar tungu ætla ég að taka mér í munn rammíslenskt og auðskilið orð yfir þetta fyrirbæri, um leið og ég hafna því af öllu mínu hjarta. Þetta er: Jólaklám ... Sick ... og ég vil ekki sjá það.

Hef ég þá lokið máli mínu í bili - ætla að fara að hvíla mig eftir ferðalagið.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

tek undir með þér Ólína, varð alveg hálf fúll yfir þessu er ég sá þessa frétt áðan.

Hallgrímur Óli Helgason, 17.11.2007 kl. 20:11

2 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Alveg sammála því, jólastússið í fjölmiðlum mætti bara hefjast 1.des 

Marta B Helgadóttir, 17.11.2007 kl. 20:35

3 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Held að það færi þér bara vel að vera íhaldskelling .

Ingólfur H Þorleifsson, 17.11.2007 kl. 20:36

4 Smámynd: Marta B Helgadóttir

.... hvað þá í heimahúsum

Marta B Helgadóttir, 17.11.2007 kl. 20:36

5 identicon

Eg hef ordid meira og meira afhuga jolunum heima a froni vegna auglysinga og jolalaga i november eda jafnvel fyrr. En eg verd ad vidurkenna ad einn kostur thess ad vinna og bua i hinduasamfelagi er ad madur er laus vid thennan ofognud sem markadseting jolanna er odin i hinum vestraena heim. En med thvi ad bua her er eg smatt og smatt ad finna jolabarnid i mer a ny

Kristjan Gudmundsson (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 21:17

6 identicon

Ég er svo innilega sammála þér Ólína!

 Mér finnst svo óviðeigandi þegar verið er blása jólin svona upp - þau stækka hvorki né lengjast við það heldur verða bara útþynnt. Auglýsingaskrum og ekkert annað. 

Þetta fer svo í taugarnar á mér að ég fer ekki í verslunarmiðstöðvar sem er búið að skreyta í nóvember, bara af því að ég vil ekki láta pirra mig með þessu. Þetta virkar bara öfugt á mig - ég er svo mikið að reyna að fara ekki í snemmbúið jólaskap að ég breytist í algjöran jólaskrögg - ég sem er svo mikið jólabarn.

Sem betur fer veit Daði Hrafn ekkert enn um hvað er verið að tala, en ég veit ekki hvernig ástandið verður á heimilunu næstu árin þegar farið verður að æsa barnið mitt upp fyrir jólin með margra vikna fyrirvara. Börn hafa ekki þolinmæði í svona.

En annars, takk fyrir þáttinn í gær, þið stóðuð ykkur frábærlega öllsömul. Hlakka til að sjá næsta þátt!

 Erla Rún.

Erla Rún (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 21:26

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég vil birtu og jólagleði frá byrjun október!!! Og hananú.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.11.2007 kl. 21:45

8 Smámynd: Sævar Helgason

Tek undir þetta með þér Ólína- en neysluæðið hjá okkur er harður húsbóndi og heimtar jólakaup"gleðina" fyrr en áður var

Sævar Helgason, 17.11.2007 kl. 23:36

9 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég er sammála þér Ólína. Annars er annað óbrigðult ráð bara að segja upp áskriftinni á jólunum, ég hef gert það í nokkur ár. Ein jólin leigði ég mér íbúð í fjöllunum á Sikiley og borðaði mikið af appelsínum þau jólin. Það er miklu skemmtilegra og viti menn börnin mín hata mig ekki einu sinni. Það er alltaf hægt að gerast áskrifandi á ný og ég ætla að fá mér prufuáskrift í ár, en einungis dagana 24 og 25 des, svona til upprifjunar. Ég hef svo margt annað spennandi við tímann að gera en að halda kaupmönnum landsins uppi.

Anna Karlsdóttir, 17.11.2007 kl. 23:41

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Lgjörlega sammála með að draga úr þeim tíma sem fer í áreiti og eltingaleik tengdan gullkálfinum. Hinsvegar er ég hlynntur "ljósatíð". Vandist því í Bandaríkjunum að stundum væri vísað til jólanna á þann hátt t.d. opinberum stofnunum sem bar að sýna trúarhlutleysi, en gera eitthvað til að vinna gegn skammdeginu og stuðla að gleði og kærleika án þess að tengja það kristinni trú. T.d. virðist "ljósatíðin" vera frá 22. nóvember til 13. janúar í Kansas.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.11.2007 kl. 00:03

11 Smámynd: Örn Ingólfsson

ÆÆ Ólína mín þetta er ekkert nýtt eins og að þú veist. En ég að mér minnir þá varst þú ekki flutt vestur áður en að göngin voru gerð! Þá hefðir þú átt að vera í ævintýrunum sem að voru þá. Sem Betur fer Ólína þá var ekki þetta sem að þú minnist á og guð minn góður ég er á leiðinni með mína 2 drengi úr þessu Leikfangastríði, og og ekki öfunda ég fleira undirmálsfólk að fara til Reykjavíkur upp á toys&rus og hinar líka, en er að fara fram á flutning hef ekki ráð að að borga leigu upp á 130 þúsund fyrir 2ja herbergja  íbúð! 

En takk samt fyrir þetta sakna (flutti frá Súganda 1996) snjósins og barningsins. En fyrir utan það þið stóðuð ykkur frábærlega.

Örn Ingólfsson, 18.11.2007 kl. 04:39

12 identicon

Heil og sæl Ólína,

Í fyrsta lagi vil ég óska þér og öðrum Vestfirðingum til hamingju með sigurinn yfir Reyknesingum í Útsvari - góður þáttur þar.

Í öðru lagi að "jólakláminu", ég er þér hjartanlega sammála að þetta er gersamlega óþolandi - það að flýta jólaæðinu nær ekki nokkurri átt, magnar upp stressið og lætin sem draga úr helgi jólanna.  Í den mættu jólasveinarnir ekki til byggða fyrr en 12.des og var alveg ærin tilhlökkun að fá þá á þeim tíma. Grýla og Leppalúði sáust helst ekki - en við vissum mætavel af þeim skötuhjúum sem og jólakettinum.  Þar sem ég er af þeirri kynslóð sem ólst ekki upp við sjónvarp þá met ég jólasveinana mikils og óska þess að þeim hefði aldrei verið fórnað á altari Mammons - sem hefur verið gert undanfarin ár.  Jólunum var einnig fórnað á hinu sama altari.  Fólk er svo gersamlega blóðmjólkað að það er úttaugað og slitið þann 24.des ár hvert og jólasveinarnir og hinn sanni jólaandi gleymdur.  Það er því í okkar valdi að bægja þessum auglýsingum og þjófstarti  frá og hundsa jólastressið og það kapphlaup sem því fylgir.  Bestu kveðjur vestur.

Sólveig.

Sólveig Arad (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 12:01

13 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Kíkið á þetta :D

Ég er til í jólastúss annað, frá fyrsta desember eða fyrsta í aðventu, hvort sem kemur fyrr, takk...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.11.2007 kl. 14:44

14 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Eru ekki jól hjá okkur orðið allt árið var nokkuð annað eftir en að hafa rauðu karlana líka og mislitu ljósin ?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 18.11.2007 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband