Vinir heimtir úr helju.

Á föstudaginn fékk ég símtal frá vinkonu minni. Hún og maðurinn hennar voru á leiðinni með vinafólki í helgarferð inn í Mjóafjörð. Hún hlakkaði til og við töluðum um hvað þetta væri skemmtilegur hópur sem hún þekkti. Hvað þessar ferðir þeirra í sumarbústaðinn væru vel heppnaðar - hvað þau myndu nú hafa það gott um helgina.

Á meðan við töluðum saman ók hún framhjá húsinu mínu og veifaði upp í gluggann í kveðjuskyni.

Það var undarlegt að minnast þessa atviks einum og hálfum sólarhring seinna, þegar hún og vinir hennar voru naumlega heimt úr helju, eftir að bátnum þeirra hvolfdi á Selvatni. Að heyra hana segja frá helkuldanum sem gagntók þau, krampanum sem hindraði öndun, uppköstunum sem fylgdu volkinu þar sem þau börðust fyrir lífi sínu í vatninu. Hvernig hún reyndi að nota talstöðina sína þegar hún var komin í land, en gat ekki ýtt á takkana vegna kulda.Hvað tíminn var lengi að líða - og hvernig það var að vita ekki um afdrif eins úr hópnum sem enn var úti í vatninu þegar hún skreið eftir hjálp.

Ég gat ekki varist þeirri hugsun að kveðjan okkar, þar sem hún veifaði mér upp í gluggann, hefði getað verið sú síðasta. Úff!

Svona atburður er harkaleg áminning um hverfulleikann. Hvað það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við fólk - leita þess jákvæða og meta það. Það er aldrei að vita hverjir fá að hittast aftur.

Svo þakka ég guði fyrir þá lífgjöf sem þarna átti sér stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrika Kristín

Ég gæti ekki verið meira sammála! Maður veit aldrei...

Friðrika

Friðrika Kristín, 23.10.2007 kl. 12:38

2 identicon

Úffffff,,,,,, Lífið er sko hverfull, það eru orð að sönnu.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 14:27

3 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Mikil mildi að hér fór ekki ver.

Verðum að vera þakklát fyrir þetta.

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 23.10.2007 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband