Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Afsökunarbeiðni og fyrirgefning
1.10.2007 | 11:15
Mér hefur nú borist afsökunarbeiðni frá ungum manni - fyrrverandi nemanda mínum við Menntaskólann á Ísafirði. Hann hefur látið birta afsökunarbeiðni sína opinberlega með svofelldum orðum:
"Undirritaður vill koma á framfæri innilegri afsökunarbeiðni til dr.Ólínu Þorvarðardóttur fyrrverandi skólameistara á Ísafirði. Föstudaginn 19.september s.l. sendi undirritaður SMS skeyti til hóps nemanda í Menntaskólanum á Ísafirði og lét líta svo út sem það hafi verið sent úr símanúmeri Ólínu. Sá gjörningur var hörmuleg yfirsjón og verður ekki réttlættur á nokkurn hátt. Með vinsemd og virðingu. Gunnar Atli Gunnarsson".
Þessari orðsendingu til mín fylgdu þau orð Gunnars Atla að hann hefði ennfremur sagt af sér formennsku í Nemendafélagi Menntaskólans á Ísafirði, vegna þessa máls.
Nú vil ég segja þetta:
Kæri Gunnar Atli.
Öllum verða á mistök í lífinu. Það er liður í því að þroskast og verða að heilsteyptri manneskju - enginn lærir að ganga án þess að hrasa. Það eru því ekki mistökin sjálf sem lýsa okkur best, heldur hitt, hvernig við bregðumst við þeim og bætum fyrir þau.
Nú þegar þú hefur sagt af þér sem formaður NMÍ og beðið mig opinberlega afsökunar ert þú maður að meiri. Þú hefur gengist við gjörðum þínum eins og heiðarlegum manni sæmir og axlað ábyrgð. Vissulega sárnaði mér við þig, en mér þykir vænt um að sjá hvernig þú hefur sjálfur tekið á mistökum þínum.
Ég fyrirgef þér því þessa yfirsjón - og óska þér alls hins besta í lífinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Rólegur afmælisdagur
8.9.2007 | 17:55
Það þýðir víst ekkert að þræta - er komin "fast að fimmtugu" frá og með þessum afmælisdegi. Jebb, orðin 49 ára og hef því eitt ár enn til þess að upplifa mig sem "fjörtíuog.... eitthvað".
"Inside every old man there is a young man asking whatever happened" sagði einhver spakur maður um nírætt. Og það eru orð að sönnu.
Mér finnst ég bara hreint ekki vera komin á ráðsettan aldur. Mér finnst ég bara vera ung, a.m.k. mun yngri en árin segja til um. Hmmmm...... svolítið óþægilegt þegar maður er svo að tala við sér yngra fólk sem kemur fram við mann eins og maður sé bara .... tja, ég segi ekki gömul, en svona .... þið vitið
Annars bara rólegur afmælisdagur. Vinir og vandamenn flestir búnir að hringja eða senda SMS. Siggi ekki heima, hann fór á fjórðungsþing Vestfirðinga í gær og kemur í kvöld. Við Hjörvar bara ein í kotinu. Tvíburarnir Fannar og Sindri hafa verið að leika við hann í dag. Þeir knúsuðu mig svo fallega þegar ég kom af leitaræfingunni eftir hádegi, og óskuðu mér til hamingju með afmælið, að ég rauk til og bakaði handa þeim háan stafla af vöfflum í tilefni dagsins. Við úðuðum þær í okkur með bláberjasultu og rjóma, svo fóru þeir út á fótboltavöll.
Í kvöld verð ég veislustjóri fyrir verkalýðsfélögin á Vestfjörðum og Norðurlandi - en þeir síðarnefndu eru hér í heimsókn. Er svona aðeins að undirbúa það í rólegheitum.
Sjáum svo til hvort ég nenni að blogga á morgun
Sætasti fótboltakappinn!
5.9.2007 | 11:56
Þetta er sætasti strákur sem ég hef séð í Liverpool-galla. Eins og þið sjáið á hann líka sæta mömmu. Þetta er sumsé Daði Hrafn ömmustrákur með Erlu Rún mömmu sinni. Hann er í nýja gallanum sem amma keypti handa honum í London um daginn. Ekki seinna vænna að máta hann við búninginn - snuð í stíl!
Mamma, þetta er sko það flottasta sem ég hef séð .... sagði sonur minn yfirkominn af hrifningu: Hún Saga ER listamaður!
30.8.2007 | 23:31
Sjálf er ég orðlaus yfir allri vinnunni sem hefur verið lögð í þetta eina verk - sem þær vita svo ekki einu sinni hvort nokkur kemur að sjá (því mér sýnast nú kynningarmálin hafa farið fyrir ofan garð og neðan - en það er önnur saga). Hingað til landsins eru t. a. m. komnir þrír hönnuðir, tveir frá Japan og einn frá Þýskalandi, til að aðstoða þær. Þetta fólk kom alla þessa leið til þess að setja upp sviðsmynd og búninga fyrir tvær sýningar (já, seinni sýningin mun vera kl. 14:00 á laugardag)! Raunar er þetta blessaða fólk - sem flaug yfir hálfan hnöttinn til að aðstoða - að fara heim aftur í nótt. Þau munu ekki einu sinni sjá sjálfa sýninguna. Eru í þessum töluðum orðum rétt búin að kveðja mig með hneigingum og þökkum (því þeir eru kurteisir Þjóðverjar og Japanir, þótt ungir séu).
En sem sagt: Systkinin Pétur og Maddý voru líka að hjálpa til - og Pétur fylgdist með heilu rennsli í gær. Hann var með ljóma í augunum þegar hann lýsti þessu fyrir mér: "Þetta er það flottasta ... ég hef aldrei séð neitt eins og þetta! Þetta var ótrúlega flott."
Ég horfði á hann. Fann hlýjan straum fara um brjóstholið. Minnug stundanna þegar þau léku sér að kubbum, rifust um dótið, grétu undan hvort öðru, sungu saman, hugguðu og studdu hvort annað gagnvart heiminum - lásu saman bækurnar, horfðu á Nilla Hólmgeirsson og eyddu heilum sunnudagsmorgni í að lita fallega mynd handa mömmu. Saga talaði fyrir Pétur á leikskólanum svo það þurfti að skilja þau að milli deilda. Það var fyrsti aðskilnaðurinn, og hann stafaði af of nánu systkinaþeli. Orðlausum skilningi.
Jæja, nú eru þau komin á þrítugsaldur - hafa þroskast hvert í sína áttina, Pétur helgar sig tölvuheiminum, Maddý arkitektúrnum, Saga dansinum.
Hvort áhorfendur munu sjá þessa sýningu sömu augum og hann á morgun veit ég auðvitað ekki. Það skiptir mig engu. Mér, móður þeirra, er nóg að vita að enn skilja þau hvert annað - orðlausum skilningi. Rétt eins og þegar þau öll þrjú fyrir löngu - með litla tungubroddinn sinn við annað munnvikið - lituðu saman fallega mynd til að leggja á koddann hjá mömmu.
Vinir og fjölskylda | Breytt 31.8.2007 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
BÍ burstar Val!
19.8.2007 | 12:31
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Berjatíð
15.8.2007 | 00:11
Ég veit að ég mun bara sjá fyrir mér kolsvart berjalyng þegar ég leggst til svefns í kvöld. Mig mun dreyma ber í alla nótt. Í dag fórum við vinkonunarnar sumsé í berjamó - og höfum síðan verið á fullu við að sulta og safta með tilheyrandi rassaköstum og tilþrifum!
Við drifum okkur um hádegisbilið, þrjár saman - ég, Magga vinkona og Maddý dóttir mín - upp í hlíðina fyrir ofan austanverðan Tungudal. Tveim tímum síðar komum við heim með tuttugu lítra af berjum!
Nú er allt komið á krukkur og gamlar brennivínsflöskur með skrúfanlegum töppum. Afraksturinn er: 4 lítrar af krækiberjasaft, 1 lítri af krækiberjahlaupi, 4 lítrar af bláberjasultu og svo auðvitað einhver ósköp af ferskum bláberjum út á ísinn og skyrið. Nammm......
Eftir alla sultugerðina var Maddý minni ekki til setunnar boðið. Hún tók föggur sínar, kvaddi og hélt áfram för sinni um landið, eftir aðeins sólarhrings stopp. En hún er nú að sýna skólafélaga sínum frá Danmörku markverðustu staði landsins (og varð auðvitað að koma við hjá mömmu og pabba á Ísafirði). Blessunin .
Jæja, eftir kossa og kveðjur til hennar þar sem hún renndi með vini sínum úr hlaði á litlu gömlu Toyotunni, þerraði ég tárin úr augnkrókunum og fór að elda kvöldmat fyrir Möggu og Baldur - vini mína sem eru nú í heimsókn. Tengdó komu líka í matinn - og að aðalréttinum loknum úðuðum við í okkur bláberjum með rjóma og ís - mmmmm........
Ég er enn svo pakksödd að ég get varla staðið upprétt - og guð má vita hvenær ég næ blámanum af framtönnunum. En, hva? Það er nú ekki svo oft sem besta vinkonan kemur til mín vestur á Ísafjörð alla leið frá Reykjavík. Verst hvað þau stoppa stutt.
En - öllu er afmörkuð stund. Og þetta var góður dagur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Af björgunarhundanámskeiði í berjamó!
13.8.2007 | 13:42
Jæja, þá er maður nú kominn heim til sín eftir mikið útivistarstand.
Eftir tiltektir, húsamálun og viðhaldsverk ýmis í borgarbústaðnum mínum á Framnesvegi hélt ég með minn "fjallahund" vestur á Gufuskála á fimmtudagskvöld. Þar fór fram helgarnámskeið Björgunarhundasveitar Íslands með félögum allstaðar að af landinu. Við eyddum þar helginni í góðra vina hópi við æfingar og leitarþjálfun við ágæt veðurskilyrði til slíkra hluta.
Blíða mín blessunin tók miklum framförum á þessu námskeiði - og nú hef ég tekið gleði mína með hana á ný. Mér sýnist hún vera komin yfir gelgjukastið síðara sem gekk yfir hana í vor, um það leyti sem við hættum í snjóflóðaleitinni og byrjuðum með nýtt prógram fyrir sumarleitina (víðavangsleit). Hún hefur endurheimt sinn fyrri áhuga, hefur gaman af því sem hún er að gera og vinnur vel með mér. Ég þakka það ekki síst góðum leiðbeinendum á síðustu tveim námskeiðum, sem hafa hjálpað mér að koma henni á góðan rekspöl.
Æfingar okkar að þessu sinni fólust í því að efla og treysta í sessi geltið hennar þegar hún finnur mann. Hún er löngu farin að gelta vel á mig þegar hún hefur fundið, en því miður hefur hún haft minni áhuga fyrir því að gelta hjá þeim "týnda" - fígúrantinum svokallaða - þegar hún fer í vísun og hleypur til hans aftur. Að vísu þarf hún þess ekki, samkvæmt reglunum, en ég vil gjarnan ná því upp hjá henni, þar sem það er ólíkt þægilegra að vinna með hundi sem geltir vel þegar hann vísar eigandanum á manninn.
Nú er þetta allt á réttri leið. Leiðbeinandinn minn lagði ríka áherslu á það við fígúrantinn að vanda móttökurnar og vera skemmtilegur þegar hún kemur. Ég var mjög heppin með fígúrant - reyndan hundaeiganda sem kunni vel til verka - og árangurinn lét ekki á sér standa. Hundurinn sýndi fígúrantinum ótvíræðan áhuga - gelti kröftuglega við hvatningu, kom svo til mín og gelti kröftuglega óbeðinn, og vísaði síðan af öryggi og gelti aftur hjá fígúranti. Ég er harðánægð með þetta, og nú verður haldið áfram á sömu braut.
En það var gott að koma heim í gærkvöld eftir sjö klst akstur vestur á Ísafjörð - fara í heitt bað og leggjast í rúmið sitt. Ekki var verra að vakna við sólskinið í morgun. Maddý dóttir mín er komin með vin sinn í heimsókn, og í kvöld koma góð vinahjón okkar til að vera í tvo daga. Sól skín á sundin og grænan lundinn - veður fyrir berjamó - og gaman að lifa
Tiltektir og tiltektir - allt á öðrum endanum.
8.8.2007 | 23:58
Þessa dagana er allt á öðrum endanum hér á Framnesveginum - borgarbústaðnum okkar. Ekki höfðum við fyrr rennt í hlað eftir unglingalandsmótið á Höfn en við vorum komin með pensil í hönd, slípirokk, kúst og tusku ... jamm, það er verið að mála, þrífa, slá garðinn, pússa gólf, lakka gluggapósta ... nefnið það bara! Yfirbót fyrir sex ára vanrækslusyndir .
Frá því við fluttum okkar aðal aðsetur vestur á Ísafjörð hefur gamla góða húsið okkar í Reykjavík setið á hakanum og nú er kominn tími til að gera því eitthvað til góða.
Annars virðast það vera álög á þessu húsi að það er sama hvaða málning er sett á það - alltaf verður hún bláleit eftir svolítinn tíma. Fyrir sjö árum máluðum við húsið rústrautt - tveim árum seinna var það orðið lillablátt.
Það var því með nokkurri staðfestu sem bóndi minn hélt í málningarbúðina að þessu sinni og kom heim með bros á vör og steingráa málningu, sagði hann. Nú skyldi sko settur almennilegur litur á útveggina - ekkert nærbuxnableikt takk fyrir!
Svo var hafist handa við að mála og fyrstu umferðinni komið á áður en fór að rigna. Ekki höfum við komist lengra að sinni - og ekki veit ég hvort það er rigningunni að kenna eða hvað - en húsið er EKKI steingrátt. Það er fölblátt - eiginlega gráblátt - eins og þið sjáið ef þið kíkið á myndina hér fyrir ofan en þar sjást bæði gamli liturinn og sá nýi.
Jæja, það gerir ekkert til - þetta er ágætis litur, þó hann sé svolítið kaldur. Aðal málið er að ná að klára þetta áður en maður þarf að þjóta vestur aftur.
Annars er heilmikil sálarró sem fylgir því að taka svona allt í gegn. Maður tekur einhvernvegin til í sálartetrinu um leið - verður bara eins og nýhreinsaður hundur. Og það er svo merkilegt að þegar maður er byrjaður er eins og allir smitist af þessu með manni. Börnin mín hafa öll tekið til hendinni (þau sem eru heima við) - flest óbeðin.
Já, húsið er að verða déskoti fínt. En það verður lítill tími til að njóta verkanna að þessu sinni - því við munum líklega rétt ná að klára sökkulinn á morgun, áður en við brunum af stað vestur.
Svo er bara að krossleggja fingur og vona að afkvæmin gangi vel um öll fínheitin þar til við komum í bæinn næst.
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.8.2007 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Á ferð og flugi
1.8.2007 | 11:58
Ég verð á ferð og flugi næstu daga - gaman, gaman (vonandi): Ungmennalandsmótið á Höfn er fyrst á dagskrá. Mæti þar til að styðja mína drengi (soninn og félag hans) í fótboltanum. Það er spáð rigningu og leiðindaveðri - en ég mæli um og legg svo á að það muni rætast úr veðrinu
Jæja, svo verða það nú nokkrir dagar í borginni, helgaðir húsþrifum, garðrækt og kannski utanhússmálun á Framnesveginum -- gamla góða húsinu okkar sem hefur verið afrækt síðustu ár, eftir að við fluttum vestur. Mesta furða hvað það þó er.
Og svo - hvað haldið þið? Auðvitað hundanámskeið á Gufuskálum með Björgunarhundasveit Íslands. Jebb - bara nóg að gera. Fæ vonandi að hitta stóru börnin mín öll á þessu flakki - og litla ömmudreng : )
En nú er það fundur með iðnaðarráðherra sem heiðrar Vestfirðinga með nærveru sinni í dag í tilefni af stofnun nýsköpunarmiðstöðvar sem kynnt verður á hádegisverðarfundi í Edinborgarhúsinu nú á eftir. Er að verða of sein - get ekki bloggað meira í bili.
Eigið góðan dag.
Hringjum og syngjum!
31.7.2007 | 11:11
Ég var að hlusta á þáttinn hans Óla Þórðar á Rás-1, í morgun. Hann var að spila uppáhaldslagið mitt "Er völlur grær" með Óðni Valdimarssyni, og segja frá því að tvær konur - önnur á Ísafirði, hin í Reykjavík - hefðu það fágæta sið að hringja hvor í aðra þegar lag þetta heyrist í útvarpinu og syngja það saman í símann. Um leið lagði hann til að "sú í Reykjavík" myndi nú hringja vinkonu sína vestur.
Ég kipptist við þegar ég heyrði þetta. Fyrstu tónar lagsins bárust frá útvarpstækinu - og viti menn, síminn hringdi! Magga vinkona hinumegin á línunni: "... og vetur dvín, og vermir sólin gruuuund - la, la, la, la"
Ég tók undir: "Við byggjum saman bæ í sveit, sem blasir móti sóóóól ..... la la la la .... landið mitt mun ljá og veita skjóóóól".
Þannig kyrjuðum við báðar - eins og alltaf þegar lagið heyrist í útvarpinu. Sú sem fyrr heyrir það tekur upp tólið, og við brestum saman í sönginn: "Sól slær silfri á voga - sjáðu jökullinn loga ...."
Ýmsir hafa rekið upp stór augu þegar við hlaupum í símann. Sama hvernig á stendur í vinnunni eða á heimilinu. Við hringjum og SYNGJUM! Gleymum stund og stað og látum okkur engu skipta hverjir eru í kringum okkur á því augnabliki.
Þið megið kalla okkur skrýtnar. Okkur er sama. Við erum vaxnar upp úr spéhræðslunni - við erum vinkonur - og þetta er okkar stund, okkar leið til að treysta vináttuböndin, hvar svo sem við erum staddar þegar við erum minntar hvor á aðra. Þannig ræktum við okkar vináttuvöll.
Hvernig væri að taka upp dag vináttunnar á Íslandi, undir slagorðinu: Hringjum og syngjum! Þetta er pottþétt mannræktarúrræði - myndi redda deginum hjá mörgum.
Takk fyrir að hringja í morgun Magga mín Takk Óli fyrir að spila lagið okkar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)