Verkalýðsforinginn heiðraður

PeturSig Pétur Sigurðsson, tengdafaðir minn - formaður VerkVest þar til s.l. vor, og þar áður formaður Alþýðusambands Vestfjarða um áratuga skeið - var heiðraður af samverkamönnum sínum í verkalýðsfélaginu hér vestra við hátíðlegt borðhald á Hótel Ísafirði í gærkvöldi. Hjördís kona hans einnig - enda hefur hún staðið þétt að baki sínum manni alla þeirra hjúskapartíð, svo það var vel við hæfi.

Eftir áratuga þjónustu við íslenska verkalýðshreyfingu hefur Pétur nú ákveðið draga inn árar og setjast á friðarstól.  Ungur maður er tekinn við formennsku í félaginu, og Pétur hefur vikið til hliðar. Þó ekki lengra en upp á næstu hæð, þar sem hann situr nú og fer yfir gömul skjöl. Í næstu skrifstofu situr Siggi minn, sonur hans, og skrifar sögu vestfirskrar verkalýðshreyfingar. Það á við þá feðgana að sitja hvor á sinni skrifstofunni og róta í gulnuðum blöðum sögunnar. Þegja mikið og lengi, raða, flokka og skrifa hjá sér. Wink 

Já, formlega séð er Pétur hættur og ungur maður tekinn við. Sá fær að njóta ráðgjafar og liðsinnis verkalýðskempunnar sem nú hefur flutt sig um set í húsinu. En ef einhver ímyndar sér að þar á efri hæðinni sitji hrumur öldungur, þrotinn að kröftum, skal sá misskilningur leiðréttur snarlega. Þó að Pétur sé kominn á áttræðisaldur er hann enn fimur í hreyfingum, skýr eins og unglingur, skörulegur í tali með glampa í auga. Þar fyrir innan glittir í minningar um gamla Vestfjarðasamninga og verkfallsátök sem hafa sett mark sitt á svipmót og fas mannsins. Hann ber aldurinn betur en nokkur maður sem ég þekki á hans aldri. Hleypur enn upp á dal þrisvar í viku, auðþekktur á rauðu dúskhúfunni sem eitthvert barnabarnið gaf honum einhverntíma.

Ekki alls fyrir löngu varð Pétur fyrir bíl í Reykjavík - nei, afsakið - bíllinn varð eiginlega fyrir honum þar sem hann var að skokka yfir götu. Höggið var þvílíkt að Pétur flaug yfir bílinn og hafnaði á grasflöt þar skammt frá, eftir viðkomu í runna. Maður hefði búist við alvarlegum afleiðingum fyrir hálfáttræðan mann, a.m.k. beinbroti. En Pétur reyndist óbrotinn. Raunar spaugar hann með það sjálfur að sér hafi verið bráðust hætta búin þegar sjúkraflutningamennirnir fóru að spenna á hann hálskraga og þrengja súrefnisgrímu yfir andlit honum svo honum lá við köfnun. En eftir skoðun á sjúkrahúsi var hann sendur heim, svolítið lurkum laminn í nokkra daga, en náði sér svo. Geri aðrir betur.

Síðastliðið sumar tók hann þátt í Púkamótinu á Ísafirði - annað árið í röð. Það er fótboltamót fyrir fertuga og eldri. Hann var í marki og þar flaug hann milli markstanganna og varði a.m.k. eina vítaspyrnu.Cool

Já, hann er sestur á friðarstól - en ég held það sé lítil hætta á að hann sitji auðum höndum. Og það er vel.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Notalegt að lesa hlýlega færslu um mann sem ég átti góð samskipti við meðan ég var í fréttamennsku -- sem er orðið ansi langt síðan. Sérstaklega snerti mig kunnugleg mynd sem varpað er upp af feðgum sem njóta þess að vita hvor til annars við það sem þeir eru að amstra -- afskiptalítið og orðalaust. Svona feðga þekk(t)i ég.

Um samskipti Péturs og sjúkraflutningamannanna. Til er frásögn af þekktum lækni í Reykjavík sem lenti í vondum árekstri (raunar við sjúkrabíl!). Hann var fastur flakinu og gekk illa að ná honum úr því, þar til hann stundi með erfiðismunum: „Haldið - þið - ekki - piltar mínir - að þetta gengi -- betur -- ef þið leystuð -- sætisbeltið fyrst?“

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 12.11.2007 kl. 07:49

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Ekki þekkti ég Pétur persónulega, en fylgst með honum í gegn um tíðina og afskiptum hans af verkalýðsmálum. Ég hefi alltaf verið hrifinn af hans skeleggu baráttu fyrir verkalýðinn og gaman hefði verið að kynnast honum persónulega.

Þorkell Sigurjónsson, 12.11.2007 kl. 13:32

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég hefði viljað vera í þessari veislu, hef líkA fylgst með honum gegnum tíðina úr fjarlægð og fundist hann alltaf vera raunverulegur baráttumaður fyrir rétti verkmanna öfugt við marga aðra í hans röðum. Viltu vera svo væn að skila kveðju frá mér.

María Kristjánsdóttir, 13.11.2007 kl. 00:49

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Innilega til hamingju með þennan flotta mann.  Aldur er afstæður eins og þú veist.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.11.2007 kl. 08:41

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Til hamingju með tengdaföður þinn Ólína.

Heppinn var hann að slasast ekki, en kannski hafa fótbollta-taktarnir

bjargað honum. Kærar kveðjur til hans og Hjördísar.

Gisli M.Indriðason og Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 13.11.2007 kl. 11:18

6 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ha er þetta tengdapabbi þinn?

En gaman, hann er alveg einstakur, bara fylgst með honum í gegn um fjölmiðla. Það er ekki nema von að ég hreifst af manni þínum á fundinum í Jónsbúð í vor og kaus hann, það var það eina sem maður hafði til að meta frambjóðendur og ég vissi akkúrat ekkert hver Sigurður var þá!

Edda Agnarsdóttir, 13.11.2007 kl. 14:24

7 identicon

Takk fyrir að skrifa svona fallega um föðurbróður minn, hann Pétur. Pétur er gull af manni. Einn bezti maður sem ég þekki.

Ég er mjög stolt af honum og óska honum innilega til hamingju! Það var sannarlega kominn tími til að hann yrði heiðraður fyrir störf sín. 

Kolbrún Svavars- og Ernudóttir (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 17:57

8 Smámynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

Til hamingju með tengdó Ólína -

ég veit það að raun að góður tengdapabbi er gulli betri, gott áttu að eiga einn slíkan

Ester Rut Unnsteinsdóttir, 14.11.2007 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband