Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Gleðilegt sumar - og óbeislaða fegurð!

sól Gleðilegt sumar - allir bloggvinir og lesendur þessarar síðu!

Harpa er gengin í garð. Það var dásamlegt að finna návist hennar þegar ég vaknaði í morgun með sumar í sinni. Sól á lofti, fuglasöngur, brum á tjrám.  Ég meira að segja vatt mér í vorverkin í garðinum, tók ofan af blómabeðum, rakaði saman rusli og dáðist að krókusunum sem eru farnir að stinga upp kollinum hér og hvar.

Í gær, síðast vetrardag, var ég á hagyrðingakvöldi á Borg í Grímsnesi, og þar var glatt á hjalla, farið með margar vísur og ort á staðnum. Því miðu missti ég af annarri  óborganlegri skemmtun sem átti sér stað á sama tíma vestur á Ísafirði - en það var fegurðarsamkeppnin "Óbeisluð fegurð".

 everyinchawoman  Hugmyndin að þessari "fegurðarsamkeppni" er aldeilis hreint frábær. Hún storkar viðteknum staðalímyndum um fegurð kvenna og karla og er þess vegna kærkomið uppbrot og ádeila um leið. Þátttakendur voru á ýmsum aldri af báðum kynjum og flestir yfir kjörþyngd. Dregið var um fegursta þátttakandann og hlutskörpust varð falleg kona um sextugt. Þá var kosið um ýmsa titla, sælkera kvöldsins, fegurstu áruna og fleira  (sjá frétt )

Aðstandendur keppninnar báðu mig að setja saman vísur af þessu tilefni - sem ég gerði - og þær munu hafa verið fluttar í gærkvöldi. Læt þær fljóta hér með að gamni: 

   
  • Bundin er í hismi og hjóm
  • horuð leggja megurð,
  • en ávallt hlýtur æðstan dóm
  • hin óbeislaða fegurð. 
  • Mörgum er hún huggun harms
  • og hefur læknað sjúka.
  • Þegar millum bols og barms
  • bifast holdið mjúka. 
  • Já sannleikurinn sjaldan flýr
  • -         soltin lúsin bítur –
  • og æðsta fegurð alltaf býr
  • í auga þess er lítur. 
 Að lokum þetta
  • Ýmsir kostir sinna sjá,
  • en síst ég þarf að minna á
  • að fegurð sanna finna má
  • svo fremi hún komi innan frá.

   


Olíuhreinsunarstöð og aðrar smjörklípur

Jæja, þá er maður kominn inn aftur eftir nokkurra daga hlé. Og ekki fyrr búinn að jafna sig eftir landsfund Samfylkingarinnar en næsta umræða tekur völdin: Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum - fimmhundruð störf!

Hjartað tekur kipp og eldur þýtur um æðarnar rétt sem snöggvast. Getur það verið? Er mönnum alvara - og engin mengun? Dýrafjörður!

Jæja, svo áttar maður sig - púlsinn róast. Smám saman kemur betur í ljós að málið er uppþot í umræðunni. Hugdetta sem svífur í lausu lofti - ekkert sem  hönd á festir. Í raun hefur ekkert gerst annað en það að Ólafur Egilsson hefur blásið ryki af átta ára gamalli hugdettu - sem þá dúkkaði upp rétt fyrir kosningar eins og núna, nema hvað Skagafjörður var inni í umræðunni í það sinnið. Nú eru það Vestfirðir. Þetta er smjörklípa. 

Eða hvað á maður annars að halda þegar svona umræða er sett af stað tveim dögum áður en nefndin, sem  forsætisráðherra skipaði til að leggja fram tillögur um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum, skilar af sér? Eiginlega sætir furðu að þetta skuli vera meðal þess sem sett er fram í skýrslu nefndarinnar - í ljósi þess hve lítið virðist vera á bak við hugmyndina - engin formleg erindi, engin hagkvæmniathugun, hvað þá framkvæmdaáætlun. Sá vondi grunur læðist að manni að hugmyndin hafi verið sett fram til þess að draga athygli frá annars máttlitlu nefndaráliti.

Tillögur nefndarinnar, eins og þær hafa verið kynntar í fjölmiðlum, eru vonbrigði. Þarna gefur að líta almennt orðaðar ályktanir um að "efla" þetta, "auka" hitt, "stefna að" og "kanna". Raunar fylgir sögunni að í viðauka við skýrslu nefndarinnar komi fram 37 tillögur um tilflutning starfa og verkefna sem nemi áttatíu stöðugildum. Engin framkvæmdaáætlun fylgir þó tillögunum, og það sem birt hefur verið vekur litla von. Þvert á móti fær maður á tilfinningna að tillögur nefndarinnar séu sama marki brenndar og umræðan um olíuhreinsunarstöðina: Hugmyndir í lausu lofti, lítið annað en orð á blaði.

Það verður fróðlegt að sjá hvort  forsætisráðherra sér ástæðu til þess að halda fund með íbúum Vestfjarða til þess að kynna okkur afrakstrur nefndarstarfsins og gera grein fyrir því hvað muni komast til framkvæmda og hvenær. Verði það ekki gert er þetta marklaust plagg. Og kannski var því aldrei ætlað að vera neitt annað.



Fyrir hvað standa konurnar í forystu jafnaðarflokkanna?

SahlinHelle Thorning-SchmidtISG  Það var gaman að hlusta á þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Schmidt á landsfundi Samfylkingarinnar í gær. Þetta eru framúrskarandi stjórnmálakonur, glæsilegar og vel máli farnar. Ingibjörg Sólrún sómdi sér vel í þeirra hópi.

 Mona Sahlin er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún hefur mætt meira mótlæti en flestir stjórnmálamenn upplifa á ævi sinni. Hún hefur risið upp úr því andstreymi og ferill hennar sýnir að henni er treyst. Hún er hnyttin og hittin í málflutningi sínum, býr yfir augljósum persónutöfrum.

Helle Thorning-Schmidt hefur líka átt við andstreymi að etja, þó í annari mynd en Sahlin. Hún hefur m.a. orðið fyri ómálefnalegri umfjöllun sökum þess að hún er kona, er t.d. kölluð Gucci-drottningin í Danmörku vegna þess hve vel hún er klædd alla jafna og glæsileg á velli. Slíkar athugasemdir segja manni það að ekki er mikið út á manneskjuna að setja úr því það þykir ástæða til að gagnrýna glæsileik hennar.

Málflutningur allra þessara kvenna skýrir stöðu þeirra í norrænum stjórnmálum - skýrir það hvers vegna þeim er treyst. Ég gat ekki varist þeirri hugsun þar sem ég virti þær fyrir mér allar þrjár á sviðinu, að þetta væri einmitt víddin sem vantaði inn í íslensk stjórnmál. Fleiri frambærilegar stjórnmálakonur. Stjórnmálamenn sem leyfa hjartanu að slá í takt við málflutninginn, hafa sýn á framtíðina, skilning á erindi sínu, og eru einlægir í ásetningi sínum að bæta samfélagið og leita lausna.

Ekki þori ég að fullyrða að slíkir stjórnmálamenn séu fleiri hópi kvenna en karla. Hins vegar grunar mig að orðræðuhefð íslenskra stjórnmála valdi því að svo sé. Karlar virðast eiga erfiðara með að vera einlægir í stjórnmálaumræðum, þó sjálfsagt hafi það meira að gera með hefðir en innræti.

Mér svíður hinsvegar bullið um að við jafnaðarmenn og femínistar viljum koma konum til valda "bara vegna þess að  þær séu konur". Þessi klisja er orðin óskaplega þreytandi.

Konur eiga erindi að stjórnvelinum - og þær eiga verðuga fulltrúa. Um það snýst málið - og að halda öðru fram er einfaldlega móðgandi fyrir konur. Samfélagið er ekki svart hvítt í reynd, þó stundum mætti ætla annað þegar litið er á samsetningu þeirra sem veljast í umræðuþætti, inn í stjórnir fyrirtækja og jafnvel á framboðslistana.

Þegar ég tala um að koma konu að sem forsætisráðherra, er ég ekki að tala um hvaða konu sem er, heldur frambærilega konu sem er verðugur fulltrúi annarra kvenna og samfélagsins í heild.  Þá er ég að tala um þá staðreynd að nú um stundir er á sviðinu frambærileg kona sem getur tekið að sér hlutverk forsætisráðherra, og þar með brotið upp svarthvítar raðir íslenskra forsætisráðherra frá upphafi.  Hvernig væri það? Eða svo ég vitni beint í þekkt orðtak úr My Fair Lady: "Wouldn't it be lovely?"Smile

 


Glæsilegur landsfundur

  Þá er fyrsti dagur landsfundar Samfylkingarinnar að kveldi liðinn. Hátt á annað þúsund landsfundarfulltrúa mættu til leiks í Egilshöll. Setningarathöfnin var glæsileg - ræða formannsin hitti mannskapinn í hjartastað og það var auðfundið að nú er baráttuhugur í samfylkingarfólki. 

Það var gaman að sjá og heyra þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Smith formenn jafnaðarmannaflokkanna í Svíþjóð og Danmörku. Ég fann stoltið innra með mér þegar þær stóðu allar á sviðinu, þessir fulltrúar jafnaðarstefnunnar, þrjár konur, hver annarri glæsilegri. Málefnalegar og hrífandi, hver með sínum hætti. 

 Mona Sahlin talaði óhikað um grundvallargildi jafnaðarstefnunnar, réttlætishugsjónina sem knýr jafnaðarmenn til dáða og gildin sem aldrei mega gleymast: Að byggja upp samfélag þar sem hver maður fær að gefa eftir getu og þiggja eftir þörfum. Hún sagði að spurningarnar sem hver kynslóð stæði frammi fyrir væru ævinlega þær sömu - hinsvegar væru svör og lausnir breytileg eftir því sem tímarnir breyttust.

Sahlin sló á létta strengi - sagði það hlutverk norrænna jafnaðarmannaflokka um þessar mundir að vera í forsvari fyrir stjórnarandstöðu, velta ríkisstjórnum úr sessi og mynda nýjar. Það væri vandasamt verk, svo vandasamt að til þess þyrfti konur! 

 Helle Thorning-Smith var hrífandi og rökföst í sínum málflutningi. Þetta er ung og falleg kona með hjartað á réttum stað. Hún lagði áherslu á kvenréttindi sem lið í almennum mannréttindum, sagði að engin kona ætti að þurfa að velja milli barneigna og starfsframa. Þá ræddi hún um gildi jafnaðarstefnunnar og nauðsyn þess að hafa hana í hjartanu, ekki aðeins á vörunum. Það var gaman að finna sannfæringarkraftinn streyma frá henni - sjálfstraustið, áhugann fyrir málstaðnum, vongleðina. 

Ingibjörg Sólrún var rökföst og málefnaleg að vanda - augljóslega ekki af baki dottin þrátt fyrir erfiðar skoðanakannanir að undanförnu. Hún talaði af einurð um þau verkefni sem framundan eru: Leiðréttingu kynjabundins launamunar, lagfæringu á eftirlaunamisrétti milli þjóðfélagshópa, úrbætur á vanrækslusyndum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, tryggingakerfinu, samgöngu- og atvinnumálum, hagstjórninni. Ekki síst gladdi mig sú afdráttarlausa yfirlýsing hennar að hún myndi láta það verða sitt fyrsta verk í nýrri ríkisstjórn að taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða!

Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna þegar Ingibjörg Sólrún hafði lokið máli sínu - þau fagnaðarlæti voru ekki bara stuðingur við hana sem formann flokksins, heldur lýstu þau samhug fundarins og baráttugleði. Það var gaman að upplifa þá stemningu.     


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundastúss og flakk

blidaibilnumsumaraefingapril07   Í gær brugðum við Blíða okkur á leitaræfingu með björgunarhundasveitinn hérna fyrir vestan - það var fyrsta sumarleitaræfingin, því nú er snjóa óðum að leysa. 

Þetta var skemmtileg æfing og Blíða stóð sig með prýði. Hún hefur í allan vetur verið að æfa snjóflóðaleit, þannig að ég bjóst hálfpartinn við því að við þyrftum að bakka svolítið í sumarleitinni og rifja upp eitt og annað. En, ónei. Minn hundur hefur engu gleymt frá því í haust Cool

 Hún er farin að láta vita með gelti þegar hún finnur mann - og í gær kom hún af sjálfsdáðum og sótti mig þegar maðurinn var fundinn. Ég var ekki við þessu búin svo það var eiginlega ég sem klikkaði (svona hálfpartinn). Ég hefði átt að nota tækifærið og láta hana gelta hjá mér (því hún er farin að gelta eftir skipun), en gerði það ekki. Hinsvegar hrósaði ég henni þegar hún kom til mín, og hún þaut alsæl til baka og gelti hjá þeim fundna - svo þetta bjargaðist. Í seinna rennslinu gelti hún bæði hjá þeim fundna og mér, svo æfingin endaði vel og við vorum báðar glaðar.  

sumarleit  audurogskima-utigustiogbalti

Í dag förum við Siggi keyrandi suður til þess að mæta á landsfund Samfylkingarinnar á morgun. Það er tilhlökkunarefni, enda auðfundið að nú er hugur í mönnum!

 Við ætlum að fara Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar (úff, þær eru sjálfsagt rennandi blautar og leiðinlegar) og reyna að ná Breiðafjarðarferjunni Baldri til að hvíla okkur á akstrinum. Maður verður víst að láta sig hafa það að hristast eftir rennandi blautum malarvegum á meðan ekki hefur verið gert átak í samgöngumálum okkar Vestfirðinga. Það verður sjálfsagt ekki fyrr en skipt hefur verið um samgönguráðherra í vor. Við sjáum hvað setur.


Gjamm og karp í framboðsþætti

   kastljos  Æ, ósköp var lítil reisn yfir framboðsþætti Kastljóssins í gærkvöldi. Gjamm og karp - frammígrip. Hver talaði upp í annan og illgerlegt á köflum að heyra nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ósiður sem hefur verið að aukast í umræðuþáttum undanfarin ár - og ég held að hafi byrjað með Silfri Egils. En þetta er leiðinlegt. Það er ekkert fjör að hlusta á fjóra tala samtímis. Maður vill heyra málflutning frambjóðenda fyrir kosningar - til þess kveikir maður á sjónvarpi eða útvarpi þegar frambjóðendur eru leiddir saman.

Stjórnendurnir þáttarins voru ekki barnanna bestir - sérstaklega fannst mér Helgi Seljan (bloggvinur minn) fara offari. Hann greip fram í fyrir öllum sem töluðu, var neikvæður í spurningum (bæði tónninn og orðfærið). Fyrri hluti þáttarins var hvorki líflegur né upplýsandi - þvert á móti var maður bara orðinn pirraður þegar honum lauk.

Nýr frambjóðandi í kjördæminu, Ásta Þorleifsdóttir,  komst einna best frá hildarleik fyrri hálfleiks, málefnaleg og yfirveguð.

Síðari hluti þáttarins var illskárri, þar stóð Þórunn Sveinbjarnardóttir upp úr - náði að snúa af sér og sækja fram af áheyrilegri rökfimi. Sérstaklega í umræðunni um Evrópumálin. 

Enginn af fulltrúum stjórnarflokkanna kom sérlega vel út - sumir komu beinlínis illa fyrir. Yfirlæti og gjamm er ekki traustvekjandi í svona þætti. Sumum þeirra var þó vorkunn, vegna þess hvernig þættinum var stjórnað - því í raun var gert lítið úr öllum sem þarna komu fram.

 Stjórnun umræðuþátta er vandmeðfarin listgrein - og vandrataður hinn gullni meðalvegur milli þess að grípa fimlega inn í umræður til að halda uppi líflegum skoðanaskiptum eða hreinlega vaða yfir þátttakendur. Stjórnendum gærkvöldsins brást því miður sú bogalist.


Sigurvegarinn er Ingibjörg Sólrún

  Ingibjörg Sólrún  Umræður stjórnmálaforingjanna í ríkissjónvarpinu í kvöld voru svolítið einkennilegar. Þarna sátu fulltrúar stjórnarflokkanna með Guðjón Arnar sér við hlið og mynduðu einn væng - svartklæddan. Hinumegin í skeifunni sátu Ómar Ragnarsson, Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J - öll ljósari yfirlitum. Málefnastaðan var eiginlega með svipuðu móti. Ingibjörg Sólrún gneistaði af kímni og öryggi, málefnaleg. Steingrímur J var áheyrilegur eins og alltaf - talaði af kunnáttu, hæfilega ágengur. Ómar var trúverðugur og einlægur.

Ekki verður sama sagt um þá félagana hinumegin í settinu - upplitið á þeim var eiginlega grátbroslegt: Jón iðaði í sætinu eins og spörfugl á grein, hann virtist klæja. Geir var raunamæddur til augnanna. Þarna sátu þeir, húktu hálfpartinn fram á gaupnir sér, með bindin lafandi milli fóta. Þetta var agaleg sjón. Við hlið þeirra sat Guðjón Arnar með þrota í öðru auga, og virtist gráti næst.

Það leyndi sér ekki hver hafði sterkustu málefnastöðuna í þessum þætti. Það var óefað Ingibjörg Sólrún. Hún talaði af yfirvegun, umhyggju fyrir málefnum og síðast en ekki síst: Af þekkingu og reynslu stjórnmálamanns sem hefur staðið við stjórnvölinn og þekkir ábyrgð sína. 

Þar fataðist Jóni Sigurðssyni hins vegar flugið. Síendurteknir frasar hans um "þjóðarsátt" og "handbremsustöðvun" hljómuðu undarlega í eyrum þegar líða tók á þáttinn. Eiginlega vissi maður aldrei um hvað hann var að tala. Sömuleiðis var erfitt að hlusta á Geir tala um nauðsyn þess að fá konur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn (hann er sjálfsagt ekki bara að tala um þær "sætustu").

Já, þetta var einkennilegur þáttur. Umræðurnar um skattkerfið og tekjuskiptinguna í samfélaginu afhjúpaði bága málefnastöðu stjórnarflokkanna. Skoðanaskiptin leiddu í ljós hvar velferðaráherslan liggur ekki - hún liggur ekki hjá ríkisstjórninni. Í þeim hluta umræðnanna bar Ingibjörg Sólrún af sem gull af eiri.

Trúlega hefur verið dregið um uppröðun frambjóðenda í þessum þætti, en það vildi svo undarlega til að ríkisstjórnarmegin voru menn svartklæddir - svo lýstist fatalitur manna eftir því sem lengra dró í hina áttina. Ég vona bara að það verði ljósi armurinn sem myndar næstu ríkisstjórn.


Hefðirnar og tæknin

Grammofonn Tæknin er ótrúleg. Fyrir þessa páska gerði ég tvo þætti um kveðskap, þulur og þjóðlagahefð. Þeir voru fluttir í útvarpinu með viku millibili, sá fyrri 1. apríl, sá síðari í morgun. 

Fyrir fáum árum hefði maður þurft að sitja um að heyra tiltekinn þátt í útvarpi. Og ef maður missti af honum varð maður að vona að hann yrði endurfluttur við tækifæri. Fólk á mínum aldri man sjálfsagt vel eftir "Lögum unga fólksins" sem voru flutt kl. 21:00 á miðvikudagskvöldum árum saman. Þá sátu unglingar landsins límdir við útvarpið. "Óskalög sjómanna" og "óskalög sjúklinga" áttu líka sínar stundir, og fyrir kom að maður beit á vör yfir að missa af þætti.

Nú eru aldeilis aðrir tímar. Þættirnir hafa ekki fyrr verið fluttir í útvapinu en þeir eru komnir á netið, og þar getur maður tengt inn á þá, t.d. af bloggsíðunni sinni, eins og ég er skemmta mér við að gera núna.

Já, tæknin hefur opnað ótrúlega möguleika á því að varðveita og miðla efni af margvíslegu tagi. Mér er málið skylt þar sem ég sýsla við gamlar hefðir og fræði. Satt að segja finnst mér sem það hafi orðið bylting í möguleikum menningarmiðlunar með tölvutækninni.  Og það er vel.

Reyndar er sá galli á gjöf Njarðar varðandi heimasíðu RÚV, að hver þáttur fær ekki að vera á netinu nema tvær vikur. Hlekkirnir sem ég setti inn hér ofar munu því renna út 14. og 23. apríl.  Þau ykkar sem áhuga hafið á að forvitnast um gamla kvæðahefð, þjóðlög og þulur, hvet ég til þess að smella á hlekkina fyrir þann tíma, og leggja við hlustir Wink

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fuglar himinsins og helgidagalöggjöfin

 fuglarhimins2 Loksins lét ég verða af því að mæta hjá Ólöfu Nordal, myndlistarkonu, til þess að gera mína eigin leirlóu í altaristöfluna sem sett verður upp í Ísafjarðarkirkju í sumar. Við hjónin drifum okkur á verkstæðið í Vestrahúsinu síðdegis í gær og gerðum hvort sinn fuglinn. Mín lóa er nr. 707 og hans nr. 708.  Þetta var ótrúlega gaman - þarna sá maður leirfugla í hundraða tali. Sumir báru með sér að vera gerðir af áköfum barnahöndum, aðrir voru haganleg smíði, og svo allt þar á milli. Eftir handverkið skráði maður nafn sitt í bók þar sem númer fuglsins kemur fram, og hér eftir getur maður dundað sér við - ef maður missir athygli prédikarans í kirkjunni - að finna fuglinn sinn í altaristöflunni.

 

Sagan sem varð kveikjan að þessu listaverki er svona: Þegar Jesú var lítill drengur fór hann að dunda sér við það á sunnudegi að búa til leirfugla - það voru lóur. Farísearnir komu að honum heldur þungir á brún og töldu það helgispjöll að vinna slíkt verk á sunnudegi. Ætluðu þeir að uppræta ósómann og brjóta fyrir honum fuglana. En í þann mund flugu fuglarnir til himins með fjaðrabliki og söng.

Mér kom í hug helgidagalöggjöfin, þegar ég heyrði þessa sögu. Í kvöldfréttunum í gær var sagt frá fólki sem ákvað að spila bingó á Austurvelli til þess að mótmæla skemmtanabanni föstudagsins langa. Lögreglan var á vappi í námunda og fylgdist með, en hafðist ekki að. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að auðvitað var fólkið ekkert að gera af sér - samt var það að brjóta lögin. Leiðinleg klemma fyrir laganna verði að vera settir í þessa stöðu. Þeir hefðu sjálfir raskað helgidagafriðnum ef þeir hefðu farið að handtaka fólkið sem sat þarna með börnin sín og spilaði bingó. Fyrir vikið gerði löggan ekkert (sem betur fer) en braut um leið eigin starfsskyldur. Fáránleg staða.

Því skyldi fólk ekki mega gera sér glaðan dag á helgidegi? Gera eitthvað skapandi, eða bara skemmtilegt? Það þarf augljóslega að endurskoða þessa löggjöf.

Flest erum við hlynnt því að samfélagið haldi í heiðri reglur sem tryggja rétt fólks til þess að eiga "helga" daga. Þá er ég ekki að tala um hástemmda andaktuga daga, tileinkaða trúarlífi sem einungis hluti þjóðarinnar virðir í reynd, heldur daga sem fólk hefur fyrir sjálft sig: Daga helgaða friðsemd, afþreyingu eða hvíld frá daglegu amstri, daga þar sem fólk ráðstafar tíma sínum sjálft. Bann við ákveðnum tegundum skemmtana tryggir enga "helgi". Það er ekkert verra að spila bingó heldur en fara á skíði, fara á tónleika eða móta leirlóur á föstudaginn langa.

Lög samfélagsins eru ekki náttúruögmál - það þarf alltaf að vaka yfir þeim, endurskoða þau og bæta í takt við samfélagsþróunina. Og nú er sennilega kominn tími á helgidagalöggjöfina. 


Skíðavikan: Bjartir dagar á Ísafirði

isafjordur-vetur "Dymbilvika" er alvöruþrungið orð. Maður heyrir nánast sorgarhljóm kirkjuklukknanna hér áður fyrr þegar trékólfur (dymbill) var settur í þær - stundum vafinn trafi -  til þess að deyfa hljóminn og ná fram virðulegum sorgarblæ í klukknahringinguna. Þannig minntust menn píslargöngu Frelsarans og þótti ekki við hæfi að gantast mikið í dymbilvikunni. En nú eru frjálsari tímar.

 Og hér á Ísafirði er svo sannarlega engin deyfð í dymbilviku - enda hefur sú vika líflegri hljóm hér um slóðir: "Skíðavikan!"

Sól og snjór, fjöldi manns á ferli og mikið um að vera í bænum, ekki síst á sjálfu skíðasvæðinu. Ættingjar, vinir og gamlir Ísfirðingar streyma til staðarins að sýna sig og sjá aðra.  Fjölskyldur sameinast, vinir hittast á ný. Allir hafa sólarblik í sálinni þessa daga.

Á skíðasvæðinu eru börn með eplarauðar kinnar af útiveru frá morgni til kvölds. Sveitungar sem ekki hafa sést lengi líta hvern annan með bros á vör og blik í auga, minnast gamalla daga, klappa hver öðrum á öxl og svífa svo niður brekkurnar með þjálfuðum svighreyfingum eins og þeir hafi aldrei gert annað. Unglingarnir varpa af sér svefndrunga og námsleiða og halda upp í skíðabrekkurnar með hlátrasköllum og ærslum.  Nammiregn af himnum ofan og furðufatadagur á dalnum eru fastir liðir á Föstudaginn langa. 

Í bænum er mikið um að vera, tónleikar, leiksýningar, myndlistarsýningar og íþróttaviðburðir. Þessa dagana gefst almenningi kostur á að aðstoða við skreytingu altaristöflunnar í Ísafjarðarkirkju. Fólk má mæta á verkstæði myndlistarkonunnar og búa til leirfugla sem settir verða upp í kirkjunni hundruðum saman. Í framtíðinni geta þeir sem taka þátt samsamað sig altaristöflunni, fundið hlutdeild sína. Frábær hugmynd - og ég er staðráðin í að búa til einn fugl á Föstudaginn langa - tel þeim tíma vel varið á páskahátíðinni.

Og ekki má gleyma rokkhátíðinni miklu, Aldrei fór ég suður, sem hefur skapað sér fastan sess og er orðin hápunktur skíðavikunnar hér á Ísafirði. Stærsta rokkhátíð landsins.

Já, þetta eru bjartir dagar - og nú skín sól á fjörðinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband