Glæsilegur landsfundur

  Þá er fyrsti dagur landsfundar Samfylkingarinnar að kveldi liðinn. Hátt á annað þúsund landsfundarfulltrúa mættu til leiks í Egilshöll. Setningarathöfnin var glæsileg - ræða formannsin hitti mannskapinn í hjartastað og það var auðfundið að nú er baráttuhugur í samfylkingarfólki. 

Það var gaman að sjá og heyra þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Smith formenn jafnaðarmannaflokkanna í Svíþjóð og Danmörku. Ég fann stoltið innra með mér þegar þær stóðu allar á sviðinu, þessir fulltrúar jafnaðarstefnunnar, þrjár konur, hver annarri glæsilegri. Málefnalegar og hrífandi, hver með sínum hætti. 

 Mona Sahlin talaði óhikað um grundvallargildi jafnaðarstefnunnar, réttlætishugsjónina sem knýr jafnaðarmenn til dáða og gildin sem aldrei mega gleymast: Að byggja upp samfélag þar sem hver maður fær að gefa eftir getu og þiggja eftir þörfum. Hún sagði að spurningarnar sem hver kynslóð stæði frammi fyrir væru ævinlega þær sömu - hinsvegar væru svör og lausnir breytileg eftir því sem tímarnir breyttust.

Sahlin sló á létta strengi - sagði það hlutverk norrænna jafnaðarmannaflokka um þessar mundir að vera í forsvari fyrir stjórnarandstöðu, velta ríkisstjórnum úr sessi og mynda nýjar. Það væri vandasamt verk, svo vandasamt að til þess þyrfti konur! 

 Helle Thorning-Smith var hrífandi og rökföst í sínum málflutningi. Þetta er ung og falleg kona með hjartað á réttum stað. Hún lagði áherslu á kvenréttindi sem lið í almennum mannréttindum, sagði að engin kona ætti að þurfa að velja milli barneigna og starfsframa. Þá ræddi hún um gildi jafnaðarstefnunnar og nauðsyn þess að hafa hana í hjartanu, ekki aðeins á vörunum. Það var gaman að finna sannfæringarkraftinn streyma frá henni - sjálfstraustið, áhugann fyrir málstaðnum, vongleðina. 

Ingibjörg Sólrún var rökföst og málefnaleg að vanda - augljóslega ekki af baki dottin þrátt fyrir erfiðar skoðanakannanir að undanförnu. Hún talaði af einurð um þau verkefni sem framundan eru: Leiðréttingu kynjabundins launamunar, lagfæringu á eftirlaunamisrétti milli þjóðfélagshópa, úrbætur á vanrækslusyndum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, tryggingakerfinu, samgöngu- og atvinnumálum, hagstjórninni. Ekki síst gladdi mig sú afdráttarlausa yfirlýsing hennar að hún myndi láta það verða sitt fyrsta verk í nýrri ríkisstjórn að taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða!

Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna þegar Ingibjörg Sólrún hafði lokið máli sínu - þau fagnaðarlæti voru ekki bara stuðingur við hana sem formann flokksins, heldur lýstu þau samhug fundarins og baráttugleði. Það var gaman að upplifa þá stemningu.     


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þetta var frábær dagur í gær.  Nú liggja allar leiðir upp á við og við fellum ríkisstjórnina í vor 

Vala (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband