Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ekki lögbrot heldur hneyksli

Grund  Landssamtök eldri borgara hafa dregið til baka yfirlýsingu um að úthlutanir heilbrigðisráðherra úr framkvæmdasjóði aldraðra hafi verið lögleysa. Þar með þagnaði umræðan um hríð - og það var afleitt - því svo virtist sem ekki væri lengur ástæða til þess að gera athugasemdir við úthlutanir úr sjóðnum. En það er eitt að saka einhvern um lögbrot, annað er að gagnrýna verk hans. Og víst er að úthlutanir úr framkvæmdasjóði aldraðra eru hreint ekki hafnar yfir gagnrýni þó að yfirlýsingar um lögbrot gangi of langt.

Ég var því fegin að lesa grein eftir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þar sem vakin var athygli á því hvernig fjármunum sjóðsins hefur verið ráðstafað undanfarin ár.  Úthlutanir úr framkvæmdasjóði aldraðra hafa verið með eindæmum undarlegar.  Allskyns styrkir - sem vandséð er hvernig tengjast öldrunarmálum - hafa verið veittir úr sjóðnum, m.a. til listrænna verkefna. Ekki nóg með það, heldur hefur sjóðurinn verið látinn kosta kynningu á stefnumálum heilbrigðisráðherrans í öldrunarmálum.  Þá hafa eldri borgarar réttilega gagnrýnt að fjármunir sjóðsins skuli hafa runnið til reksturs hjúkrunarheimila en ekki framkvæmda, sem auðvitað stingur í stúf við yfirlýstan tilgang sjóðsins.

Nei, það er alveg ljóst að framkvæmdasjóður aldraðra hefur ekki verið notaður eins og til var ætlast. Við erum því ekki að tala um lögbrot - heldur hneyksli. 


Draumalandið Hafnarfjörður

Hafnarfjordur   Ég er ánægð með niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði, en ég hef svolitlar áhyggjur vegna þess hve mjótt var á munum. Það er alltaf erfitt - fyrir báða aðila - þegar niðurstaða næst með mjóum mun.  Ég held hins vegar að Hafnfirðingar hafi tekið rétta ákvörðun þarna.

Það er svolítið skemmtileg tilviljun að fyrir fáum dögum var ég á sýningunni Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Ég hafði fyrirfram velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum handritshöfundi myndi takast að koma boðskap bókarinnar í leikrænan búning - en bókina las ég mér til óblandinnar ánægju fyrir allnokkru. Ég bjóst því ekki við neinu sérstöku þegar ég mætti í Hafnarfjarðarleikhúsið - og var svona eins og við því búin að finna til einhverskonar vonbrigða eins og stundum gerist þegar maður fer á bíómynd sem gerð er eftir bók. En það voru óþarfa áhyggjur. Í stuttu máli sagt átti ég frábært kvöld þarna og tek hér með ofan fyrir handritshöfundi, leikurum og öðrum aðstandendum verksins. Þau komust hjá því að festast í einstrengingshætti - gerðu létt grín að ýmsum hliðum málsins, m.a. umhverfisverndarsinnum og mótmælendum ekkert síður en virkjunarsinnum og hinum óupplýsta almenningi sem veit vart í hvorn fótinn skal stigið. Undir öllu niðaði hinsvegar þungur tónn sem engan lætur ósnortinn. 

 Það er uggvænlegt til þess að hugsa að íslensk stjórnvöld skuli hafa falboðið erlendum stóriðjufyrirtækjum landið; boðið upp á 30 terawattstundir ef stóriðjufyrirtækin vildu bara láta svo lítið að koma og virkja hér. Það er umhugsunarefni að öll íslenska þjóðin notar einungis þrjár terawattstundir - en Kárahnjúkavirkjunin ein og sér framleiðir fjórar. Já það eru undarleg stærðarhlutföll sem skyndilega eru komin inn í umræðuna - og ekki nema von þó að við, venjulegar manneskjur, eigum stundum erfitt með að átta okkur á þeim viðmiðunum sem viðhafðar eru.

 

Straumsvik  Nei, það er engin sátt um stóriðjustefnuna á Íslandi. Þó svo að kosningin í Hafnarfirði hafi að forminu til snúist um deiliskipulag, er niðurstaðan engu að síður skilaboð til stjórnvalda um hug almennings í stóriðjumálum.


Ef stjórnvöld ættu að standa við stóru orðin um að hér megi virkja 30 terawattstundir á ári, þyrfti að virkja nánast allt sem rennur á Íslandi, þ.á.m. Gullfoss og Dettifoss. Ekki amalegt loforð upp í ermar komandi kynslóða. Úff!

Sem betur fer held ég að þjóðin sé búin að fá nóg af stóriðjuframkvæmdum. Umfang Kárahnúkavirkjunar kom flatt upp á íslenskan almenning - jafnvel hörðustu virkjunarsinna setti hljóða daginn sem Jökla þagnaði. Ósættið um þá framkvæmd hefur nánast skipt þjóðinni í tvennt - og til hvers? Til þess að skapa 1,5% af mannafla þjóðarinnar atvinnu í álveri? 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband