Fyrir hvað standa konurnar í forystu jafnaðarflokkanna?

SahlinHelle Thorning-SchmidtISG  Það var gaman að hlusta á þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Schmidt á landsfundi Samfylkingarinnar í gær. Þetta eru framúrskarandi stjórnmálakonur, glæsilegar og vel máli farnar. Ingibjörg Sólrún sómdi sér vel í þeirra hópi.

 Mona Sahlin er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún hefur mætt meira mótlæti en flestir stjórnmálamenn upplifa á ævi sinni. Hún hefur risið upp úr því andstreymi og ferill hennar sýnir að henni er treyst. Hún er hnyttin og hittin í málflutningi sínum, býr yfir augljósum persónutöfrum.

Helle Thorning-Schmidt hefur líka átt við andstreymi að etja, þó í annari mynd en Sahlin. Hún hefur m.a. orðið fyri ómálefnalegri umfjöllun sökum þess að hún er kona, er t.d. kölluð Gucci-drottningin í Danmörku vegna þess hve vel hún er klædd alla jafna og glæsileg á velli. Slíkar athugasemdir segja manni það að ekki er mikið út á manneskjuna að setja úr því það þykir ástæða til að gagnrýna glæsileik hennar.

Málflutningur allra þessara kvenna skýrir stöðu þeirra í norrænum stjórnmálum - skýrir það hvers vegna þeim er treyst. Ég gat ekki varist þeirri hugsun þar sem ég virti þær fyrir mér allar þrjár á sviðinu, að þetta væri einmitt víddin sem vantaði inn í íslensk stjórnmál. Fleiri frambærilegar stjórnmálakonur. Stjórnmálamenn sem leyfa hjartanu að slá í takt við málflutninginn, hafa sýn á framtíðina, skilning á erindi sínu, og eru einlægir í ásetningi sínum að bæta samfélagið og leita lausna.

Ekki þori ég að fullyrða að slíkir stjórnmálamenn séu fleiri hópi kvenna en karla. Hins vegar grunar mig að orðræðuhefð íslenskra stjórnmála valdi því að svo sé. Karlar virðast eiga erfiðara með að vera einlægir í stjórnmálaumræðum, þó sjálfsagt hafi það meira að gera með hefðir en innræti.

Mér svíður hinsvegar bullið um að við jafnaðarmenn og femínistar viljum koma konum til valda "bara vegna þess að  þær séu konur". Þessi klisja er orðin óskaplega þreytandi.

Konur eiga erindi að stjórnvelinum - og þær eiga verðuga fulltrúa. Um það snýst málið - og að halda öðru fram er einfaldlega móðgandi fyrir konur. Samfélagið er ekki svart hvítt í reynd, þó stundum mætti ætla annað þegar litið er á samsetningu þeirra sem veljast í umræðuþætti, inn í stjórnir fyrirtækja og jafnvel á framboðslistana.

Þegar ég tala um að koma konu að sem forsætisráðherra, er ég ekki að tala um hvaða konu sem er, heldur frambærilega konu sem er verðugur fulltrúi annarra kvenna og samfélagsins í heild.  Þá er ég að tala um þá staðreynd að nú um stundir er á sviðinu frambærileg kona sem getur tekið að sér hlutverk forsætisráðherra, og þar með brotið upp svarthvítar raðir íslenskra forsætisráðherra frá upphafi.  Hvernig væri það? Eða svo ég vitni beint í þekkt orðtak úr My Fair Lady: "Wouldn't it be lovely?"Smile

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Takk fyrir síðast. Ég ljóma. Þú segir að ekki sé um hvaða konu eða konur sem er í framboði, en þannig er það því miður með karlmenn hingað til í stjórnmálum að þar eru og eru en "hvaða karlmenn sem er" Sérstaklega áberandi hægri væng stjórnmálanna!

Edda Agnarsdóttir, 15.4.2007 kl. 12:35

2 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Mitt litla kratahjarta hefur stundum efast, en eftir upplifun síðustu daga og vikna af Samfylkingarfólki sem ég hef hitt, þeim vandlega unnu stefnum sem komnar eru upp á yfirborðið, að maður tali nú ekki um kraftinn og einbeitinguna sem streymir frá formanninum, þá er hjartað nú loks farið að slá í takti við okkar góða jafnaðarmannaflokk. Ég held að það yrði mikið heillaspor fyrir dætur okkar og syni ef Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherra næstu ríkisstjórnar!

Jón Þór Bjarnason, 15.4.2007 kl. 23:21

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessi viðbrögð bæði tvö.

Edda, ég man ekki hver það var sem sagði: "Þegar það þykir jafn sjálfsagt að ráða óhæfar konur eins og óhæfa karla í stöður - þá er fullu jafnrétti er náð!"

Nokkuð til í því

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.4.2007 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband