Fuglar himinsins og helgidagalöggjöfin

 fuglarhimins2 Loksins lét ég verða af því að mæta hjá Ólöfu Nordal, myndlistarkonu, til þess að gera mína eigin leirlóu í altaristöfluna sem sett verður upp í Ísafjarðarkirkju í sumar. Við hjónin drifum okkur á verkstæðið í Vestrahúsinu síðdegis í gær og gerðum hvort sinn fuglinn. Mín lóa er nr. 707 og hans nr. 708.  Þetta var ótrúlega gaman - þarna sá maður leirfugla í hundraða tali. Sumir báru með sér að vera gerðir af áköfum barnahöndum, aðrir voru haganleg smíði, og svo allt þar á milli. Eftir handverkið skráði maður nafn sitt í bók þar sem númer fuglsins kemur fram, og hér eftir getur maður dundað sér við - ef maður missir athygli prédikarans í kirkjunni - að finna fuglinn sinn í altaristöflunni.

 

Sagan sem varð kveikjan að þessu listaverki er svona: Þegar Jesú var lítill drengur fór hann að dunda sér við það á sunnudegi að búa til leirfugla - það voru lóur. Farísearnir komu að honum heldur þungir á brún og töldu það helgispjöll að vinna slíkt verk á sunnudegi. Ætluðu þeir að uppræta ósómann og brjóta fyrir honum fuglana. En í þann mund flugu fuglarnir til himins með fjaðrabliki og söng.

Mér kom í hug helgidagalöggjöfin, þegar ég heyrði þessa sögu. Í kvöldfréttunum í gær var sagt frá fólki sem ákvað að spila bingó á Austurvelli til þess að mótmæla skemmtanabanni föstudagsins langa. Lögreglan var á vappi í námunda og fylgdist með, en hafðist ekki að. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að auðvitað var fólkið ekkert að gera af sér - samt var það að brjóta lögin. Leiðinleg klemma fyrir laganna verði að vera settir í þessa stöðu. Þeir hefðu sjálfir raskað helgidagafriðnum ef þeir hefðu farið að handtaka fólkið sem sat þarna með börnin sín og spilaði bingó. Fyrir vikið gerði löggan ekkert (sem betur fer) en braut um leið eigin starfsskyldur. Fáránleg staða.

Því skyldi fólk ekki mega gera sér glaðan dag á helgidegi? Gera eitthvað skapandi, eða bara skemmtilegt? Það þarf augljóslega að endurskoða þessa löggjöf.

Flest erum við hlynnt því að samfélagið haldi í heiðri reglur sem tryggja rétt fólks til þess að eiga "helga" daga. Þá er ég ekki að tala um hástemmda andaktuga daga, tileinkaða trúarlífi sem einungis hluti þjóðarinnar virðir í reynd, heldur daga sem fólk hefur fyrir sjálft sig: Daga helgaða friðsemd, afþreyingu eða hvíld frá daglegu amstri, daga þar sem fólk ráðstafar tíma sínum sjálft. Bann við ákveðnum tegundum skemmtana tryggir enga "helgi". Það er ekkert verra að spila bingó heldur en fara á skíði, fara á tónleika eða móta leirlóur á föstudaginn langa.

Lög samfélagsins eru ekki náttúruögmál - það þarf alltaf að vaka yfir þeim, endurskoða þau og bæta í takt við samfélagsþróunina. Og nú er sennilega kominn tími á helgidagalöggjöfina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Þetta er aldeilis frábært með fuglana og hugmyndina. Ég hlakka til að koma í kirkjuna ykkar að skoða listaverkið.

Edda Agnarsdóttir, 7.4.2007 kl. 20:31

2 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Þetta er dásamleg hugmynd - hvort sem messur gerast langdregnar eða ekki þá er það að búa til altaristöflu í samfélagi eitthvað sérstakt.

Guðrún Helgadóttir, 8.4.2007 kl. 12:15

3 identicon

Varðandi helgidagalöggjöfina þá er hún að auki að mismuna þeim sem aðhyllast aðra trú en kristni. í raun ættu þessir helgidagar að vera frjálsir fyrir fólk og hver einstaklingur ætti þessa daga inni og gæti tekið þá út þegar þeir að halda upp á trúarlegu hátíðardaga (http://en.wikipedia.org/wiki/Jewish_holiday) sem dæmi.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 13:45

4 Smámynd: Axel Árnason

Selma Lagerlöf - sænsk held ég- skrifað sögu um þetta stef. Falleg þýðing þessarar sögu gerði Guðfinnur Jakobsson í Skaftholti og vert væri að hafa við hendina í Ísafjarðarkirkju.

Axel Árnason, 20.4.2007 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband