Sigurvegarinn er Ingibjörg Sólrún

  Ingibjörg Sólrún  Umræður stjórnmálaforingjanna í ríkissjónvarpinu í kvöld voru svolítið einkennilegar. Þarna sátu fulltrúar stjórnarflokkanna með Guðjón Arnar sér við hlið og mynduðu einn væng - svartklæddan. Hinumegin í skeifunni sátu Ómar Ragnarsson, Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J - öll ljósari yfirlitum. Málefnastaðan var eiginlega með svipuðu móti. Ingibjörg Sólrún gneistaði af kímni og öryggi, málefnaleg. Steingrímur J var áheyrilegur eins og alltaf - talaði af kunnáttu, hæfilega ágengur. Ómar var trúverðugur og einlægur.

Ekki verður sama sagt um þá félagana hinumegin í settinu - upplitið á þeim var eiginlega grátbroslegt: Jón iðaði í sætinu eins og spörfugl á grein, hann virtist klæja. Geir var raunamæddur til augnanna. Þarna sátu þeir, húktu hálfpartinn fram á gaupnir sér, með bindin lafandi milli fóta. Þetta var agaleg sjón. Við hlið þeirra sat Guðjón Arnar með þrota í öðru auga, og virtist gráti næst.

Það leyndi sér ekki hver hafði sterkustu málefnastöðuna í þessum þætti. Það var óefað Ingibjörg Sólrún. Hún talaði af yfirvegun, umhyggju fyrir málefnum og síðast en ekki síst: Af þekkingu og reynslu stjórnmálamanns sem hefur staðið við stjórnvölinn og þekkir ábyrgð sína. 

Þar fataðist Jóni Sigurðssyni hins vegar flugið. Síendurteknir frasar hans um "þjóðarsátt" og "handbremsustöðvun" hljómuðu undarlega í eyrum þegar líða tók á þáttinn. Eiginlega vissi maður aldrei um hvað hann var að tala. Sömuleiðis var erfitt að hlusta á Geir tala um nauðsyn þess að fá konur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn (hann er sjálfsagt ekki bara að tala um þær "sætustu").

Já, þetta var einkennilegur þáttur. Umræðurnar um skattkerfið og tekjuskiptinguna í samfélaginu afhjúpaði bága málefnastöðu stjórnarflokkanna. Skoðanaskiptin leiddu í ljós hvar velferðaráherslan liggur ekki - hún liggur ekki hjá ríkisstjórninni. Í þeim hluta umræðnanna bar Ingibjörg Sólrún af sem gull af eiri.

Trúlega hefur verið dregið um uppröðun frambjóðenda í þessum þætti, en það vildi svo undarlega til að ríkisstjórnarmegin voru menn svartklæddir - svo lýstist fatalitur manna eftir því sem lengra dró í hina áttina. Ég vona bara að það verði ljósi armurinn sem myndar næstu ríkisstjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Algjörlega sammála þér, hún geyslaði af öryggi.

Tómas Þóroddsson, 9.4.2007 kl. 22:27

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sammála þér sem aldrei fyrr.

Níels A. Ársælsson., 9.4.2007 kl. 22:38

3 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Það er ykkar stíll að krýna sigurvegarann löngu áður en keppnin er búin sbr síðustu bæjarstjórnarkosningar. Það sem mér fannst standa upp úr þessum þætti er að það verður varla mynduð ríkisstjórn nema að Sjálfstæðismenn komi að henni. Það hlýtur þú að hafa getað lesið úr þessu öllu. Ingibjörg daðrar við Sjálfstæðismenn, Steingrímur bakkar frá algeru stoppi í fimm ára bið í stóriðjumálum. Ingibjörg og Steingrímur geta ekki tekið undir rasista málfluttning Frjálslyndra og þar með er kaffisullið úr augsýn. Þú veist sjálfsagt líka með sagnfræðing á heimilinu hvernig síðustu vinstri stjórnum hefur gengið er það ekki? Við skulum vona okkar allra vegna að sú staða komi ekki upp. Spyrjum að leikslokum.

Ingólfur H Þorleifsson, 9.4.2007 kl. 22:39

4 identicon

Ég er algjörlega sammála þér að Ingibjörg Sólrún var langsterkust í þessum þætti. Steingrímur stóð sig líka vel og Ómar var góður þegar hann benti Geir og Jóni á hina "risasmáu" stóriðju sem þeir væru að tala fyrir. 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 22:40

5 Smámynd: Kristján Pétursson

Eina konan i hópnum Ingibjörg Sólrún sýndi enn einu sinni í þessum umræðum hversu öflug hún er.Yfirveguð,rökvís og framkoman heillandi,það var gaman að sjá hana.Steingrímur og Ómar voru ágætir,en Guðjón Arnar,Geir og Jón voru eins og við var að búast með sömu fúleggin.

Nú fer að styttast í þingið okkar í Egilshöll.Þar hefst lokasóknin og ég trúi því að leiðin verði greið í mark.Kær kveðja

Kristján Pétursson, 9.4.2007 kl. 22:50

6 Smámynd: Pétur Björgvin

Skemmtileg greining.

Pétur Björgvin, 9.4.2007 kl. 23:00

7 Smámynd: Gaukur Úlfarsson

Ég átta mig ekki alveg á því á hvaða þátt þið voruð að horfa á.. sjálfsblekking ykkar er að ná einhverju hámarki þessa daga, fannst ISG afar dauf og gera fátt annað en að taka undir orð Steingríms sem bar höfuð og herðar yfir alla aðra í þessum þætti að mér fannst.

Gaukur Úlfarsson, 9.4.2007 kl. 23:02

8 Smámynd: Katrín

Æ vinkona mér þykja þau skötuhjú Ingibjörg Sólrún og Steingrímur sýna hroka og hleypidóma.  Flug þeirra flokka hefur dalað og spá mín er sú að svo mun halda áfram.  Og ég mun eigi gráta það

Katrín, 9.4.2007 kl. 23:29

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hverjum þykir sinn fugl fagur, segir máltækið. Það verður bara að hafa það Kata mín þó að þú sjáir ekki sama ljósið og ég í pólitíkinni. Svosem ekki í fyrsta sinn 

Ég er afar ánægð með mína konu núna - harðánægð (og ekki ein um það).

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.4.2007 kl. 00:06

10 Smámynd: óskilgreindur

uff ekki gæti eg verið meira ósammála þér og reynum frekar að tala um eitthvað gáfulegt en að segja bara - ja hun er best - afhverju var hun best? eg sa ekkert skína af henni - sami út og suður pólitíkusinn og alltaf

óskilgreindur, 10.4.2007 kl. 00:18

11 identicon

Sammála greinarhöfundi. Ingibjörg var mjög góð og Steingrímur og Ómar komust ágætlega frá sínu. Athyglisvert er að bæði SJ og Ómar tala nú um stóriðjuhlé í anda Fagra Íslands. Enda sú stefna ákaflega skynsamleg, ábyrg og án öfga.

Ægir Magnússon (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 01:23

12 identicon

Biðjum fyrir Ljósinu..

Björg F (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 01:48

13 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skemmtileg greining og þú mátt mín vegna dásama ISG, hún er jú þín kona.

Ég tók líka eftir þessu með bindin (þetta er líklega kvenlega hliðin ehmm!), þrotanum í auga Guðjóns, andlits- og axlarkækjum Jóns og (því miður Ólína) taugaveiklun Sollu. Steingrímur stóð sig best (kýs hann sam ekki) og Ómar var bara sjálfum sér líkur, vanur því að sitja tiltölulega rólegur í sjónvarpssetti. Svona mál vinnur enginn, en mér fannst Ómar, kannski vegna innanhúsáhrifa, njóta forréttinda í því að hans mál fengu lang mest rúm í þættinum.

Sigurvegarinn ef einhver var: Steingrímur. 

Haukur Nikulásson, 10.4.2007 kl. 02:04

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég tek undir flest það sem þú sagðir Ólína. Það er dálítið umhugsunarefni að þessi svonefndi kjörþokki er öflugt áróðurstæki. Sumt fór þarna framhjá mér, mestanpartinn vegna þess að ég fyllist alltaf einhverju óþoli þegar ég þarf að verða nauðugur þátttakandi í kennslustund hjá skólastjóranum. Það einhvernveginn skríður á mig þegar ég fylgist með manninum tala niður til allra viðstadda eins og umburðarlyndur kennari í erfiðum bekk og tornæmum. Kjörþokki er ekki sterkur í útgeislun míns ágæta formanns Guðjóns Arnars. Hitt er ég sannfærður um að ekki mun hann fremur en Kolskeggur á Hlíðarenda á nokkru því níðast sem honum yrði til trúað.

Umhverfisverndin vigtar þungt í dag og ekki vonum fyrr. Öllum á að vera það ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir fóru offari í öllu því efni og hafa engan veginn skipt um skoðun.

Ég sætti mig ekki almennilega við hversu fulltrúar mínir virðast alltaf leyfa andstæðingum okkar að skauta yfir stærsta málið í umhverfisvernd og atvinnuvanda sjávarbyggðanna. Hvernig myndaðist pólitískur þrýstingur á uppbyggingu álvera? Einfaldlega með hungrinu sem "stjórnun" fiskveiðanna skildi eftir í litlu sjávarplássunum þegar auðlindir þessara byggðarlaga og sjálfsvirðing fókksins þar varð að matadorpeningum fyrir auðuga spákaupmenn. Hefur þetta ekkert með umhverfismál að gera?

                              En bráðum fara nú blessuð folöldin að fæðast inn í vorið.

Árni Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 08:46

15 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Mér fannst Ingibjörg EKKI STANDA SIG VEL hún getur aldrei tekið neina afstöðu til neins.  Steingrímur stóð sig best og svo Ómar þar á eftir.  Geir talaði gegn þvi sem drög landsþingsins næstu helgi segja sem sýnir að sameinign innan sjálfstæðisflokksin er ekki mikil.  Ég vona að grænuflokkarnir nái langt í næstu kosningiu.  Það er kominn tími á þessa ríkisstjórn sem er situr nú og þar er komið stopp.

Þórður Ingi Bjarnason, 10.4.2007 kl. 08:48

16 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Sæl Ólína,ég sá ekki þennann þátt í gær ég fór á leikinn og sá mína menn flengja KR sem er auðvitað yndislegt,nema hvað ég er samfylkingarmaður og vona líka að við vinnum í vor förum aftur til manngilda og verndun lands vors,förum að huga að okkar börnum og eldri borgurum,minn maður er reyndar Össur en mér varð ekki að ósk minni en ég kann að tapa og styð þessvegna Ingibjörgu Sólrúnu,ég vil vinstri stjórn næst,kapitalið hefur engu skilað nema meiri græðgi og meiri auð fyrir ríka á kostnað þeirra sem minna mega sín,staðreynd sem erfitt er að kyngja,ég skal kyngja og get alveg einn og óstuddur reynt mitt besta þjóð minni til heilla.Virðingafyllst:Úlfar B Aspar.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 10.4.2007 kl. 09:25

17 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæl mín kæra - ég er að mörgu leiti sammála þér - Geir virtist raunmæddur. En Ingibjörg verður að hringja í Monu Sahlin og spyrja hana hvað það er sem Svíar kalla "sympati" í stjórnmálum - hana skortir það. Þessi hlátur sem túlka má sem yfirlæti eða hæðni er eitt af því sem er neikvætt við hana og kemur henni ílla þegar hún ræðir alvarleg mál - ekki gott að hlægja að skoðunum annarra þrátt fyrir að þær virðist á stundum vera heimskulegar. Og ég vorkenni Guðjóni Arnari þeim ágæta manni - Sverrir Hermanns hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að jón og co myndu ná yfirhöndinni í flokknum með þessum rasista tali sínu. og hananú!!

Þorleifur Ágústsson, 10.4.2007 kl. 10:59

18 Smámynd: Júlíus Valsson

Vonandi vinna eihverjar sætar stelpur kosningasigur.

Júlíus Valsson, 10.4.2007 kl. 11:10

19 identicon

.... nú eða einhverjar sem „gera sama gagn“.

geir (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 11:34

20 Smámynd: Davíð Þór Kristjánsson

Mér fannst þvert á móti Geir vera sigurvegari kvöldsins. Rólegur og yfirvegaður þaggaði hann niður í stjórnarandstöðunni sem í örvæntingu sinni reyndi að finna höggstað á ríkistjórninni. Geir var líka eini maðurinn sem tók klára afstöðu í álmálinu meðan meira að segja Steingrímur talar um hlé ? ekki algert stopp eins og vanalega, fannst hann líka vera draga hraðlega í land, nú talar hann um að hækka skatta mun hóflegar en áður, nefndi meira að segja 14% í stað 18% áður, minnir að þetta hafi byrjað á 30 og eitthvað %. En að öllu gamni slepptu talaði Geir af rögsemi og engin náði höggstað á honum, ekki einu sinni Ingibjörg sem talaði úr samhengi um reikninga á þjóðina, þegar það eina sem skiptir máli er kaupmáttaraukning, já debet kredit, það kemur meira inn debet megin hjá fólki svo einfalt er það ;)

Davíð Þór Kristjánsson, 10.4.2007 kl. 12:24

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, ég er sammála þér Elísabet. Það vakti líka athygli mína að nú eru umhverfisflokkarnir farnir að teygja sig yfir til Samfylkingarinnar í umhverfismálum - talandi um hlé á stóriðjuframkvæmdum, eins og Fagra Ísland sé þeirra orðin þeirra stefna. Athyglisvert.

Þá vakti það líka athygli mína að Inginbjörg Sólrún var sú eina sem talað um velferðarmálin, hag heimilanna í landinu, eldri borgara og fjölskyldufólks. Það gladdi mig að hún skyldi halda þeim málum á lofti - því ekki gerðu hinir það (og sluppu því býsna billega sumir).

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.4.2007 kl. 16:21

22 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Já,vonandi verður ljósara yfir að litast eftir að núverandi stjórnarflokkum hefur verið hent út.

Magnús Paul Korntop, 10.4.2007 kl. 22:08

23 identicon

Sæl Ólína

Það er ekki nóg að traustustu fylgismenn Samfylkinginnr lofi og prísi formanninn það er ekki lausnin á vanda flokksins núna. Ég held að einföld og skýr markmið, fá en mikivæg loforð séu það sem vantar og ekki síður að skjóta á Vg-liðið.

Kveðja Ágúst Þorgeirsson

agust49@gmail.com

Ágúst Þorgeirsson (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband