Skíðavikan: Bjartir dagar á Ísafirði

isafjordur-vetur "Dymbilvika" er alvöruþrungið orð. Maður heyrir nánast sorgarhljóm kirkjuklukknanna hér áður fyrr þegar trékólfur (dymbill) var settur í þær - stundum vafinn trafi -  til þess að deyfa hljóminn og ná fram virðulegum sorgarblæ í klukknahringinguna. Þannig minntust menn píslargöngu Frelsarans og þótti ekki við hæfi að gantast mikið í dymbilvikunni. En nú eru frjálsari tímar.

 Og hér á Ísafirði er svo sannarlega engin deyfð í dymbilviku - enda hefur sú vika líflegri hljóm hér um slóðir: "Skíðavikan!"

Sól og snjór, fjöldi manns á ferli og mikið um að vera í bænum, ekki síst á sjálfu skíðasvæðinu. Ættingjar, vinir og gamlir Ísfirðingar streyma til staðarins að sýna sig og sjá aðra.  Fjölskyldur sameinast, vinir hittast á ný. Allir hafa sólarblik í sálinni þessa daga.

Á skíðasvæðinu eru börn með eplarauðar kinnar af útiveru frá morgni til kvölds. Sveitungar sem ekki hafa sést lengi líta hvern annan með bros á vör og blik í auga, minnast gamalla daga, klappa hver öðrum á öxl og svífa svo niður brekkurnar með þjálfuðum svighreyfingum eins og þeir hafi aldrei gert annað. Unglingarnir varpa af sér svefndrunga og námsleiða og halda upp í skíðabrekkurnar með hlátrasköllum og ærslum.  Nammiregn af himnum ofan og furðufatadagur á dalnum eru fastir liðir á Föstudaginn langa. 

Í bænum er mikið um að vera, tónleikar, leiksýningar, myndlistarsýningar og íþróttaviðburðir. Þessa dagana gefst almenningi kostur á að aðstoða við skreytingu altaristöflunnar í Ísafjarðarkirkju. Fólk má mæta á verkstæði myndlistarkonunnar og búa til leirfugla sem settir verða upp í kirkjunni hundruðum saman. Í framtíðinni geta þeir sem taka þátt samsamað sig altaristöflunni, fundið hlutdeild sína. Frábær hugmynd - og ég er staðráðin í að búa til einn fugl á Föstudaginn langa - tel þeim tíma vel varið á páskahátíðinni.

Og ekki má gleyma rokkhátíðinni miklu, Aldrei fór ég suður, sem hefur skapað sér fastan sess og er orðin hápunktur skíðavikunnar hér á Ísafirði. Stærsta rokkhátíð landsins.

Já, þetta eru bjartir dagar - og nú skín sól á fjörðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband