Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Andleysi

  • Orðin get ég góðir menn
  • gjarnan látið flæða
  • þó ég viti ekki enn
  • um hvað ég ætla' að ræða.

Þessa ágætu vísu orti Guðmundur Ingi Kristjánsson fyrir allmörgum árum í orðastað manns nokkurs sem fundarstjóri hafði óvart gefið orðið án þess hann bæði um það. Sá sem fékk þarna orðið kom í pontu og kvaðst ætla að nota tækifærið fyrst honum var úthlutað ræðutíma, þó hann hefði ekki ætlað sér það í upphafi.

Eins fer fyrir mér í dag. Bloggsíðan blasti bara við mér auð og óskrifuð í stjórnborðinu. FootinMouth Ég hef svosem ekki neitt að ræða - er alveg andlaus. Og því hef ég bara ákveðið að blogga ekki neitt að sinni. Leyfi bara þessum orðum að flæða .... stefnulaust ...... hef ekkert að segja ...

Samt er égt búin að fylla hér talsvert rými með orðum.  Errm  Athyglisvert

 


Brjáluð vinnutörn í menningarráði

Sat á fundi með Menningarráði Vestfjarða langt fram eftir kvöldi í gær - vorum ekki búin fyrr en undir miðnætti. Við erum á kafi í úthlutunarvinnu. Þetta er fyrsta úthlutun ráðsins frá því það var formlega stofnað fyrr á árinu. Við stefnum að því að tilkynna um hina heppnu styrkþega í byrjun desember.

Þetta er brjáluð vinna, 104 umsóknir bárust, og mikið verk að fara í gegnum þetta alltsaman. Líka mikil ábyrgð að velja og hafna. Það er verst - að  þurfa að hafna. En svona er lífið - oftast eru fleiri kallaðir en útvaldir. Wink

Annars þykir mér vænt um þetta hlutskipti, að eiga þess kost að styrkja og velja verðug menningarverkefni í héraði. Maður sá það á umsóknunum hversu mikill kraftur er í vestfirsku menningarlífi, og hugmyndaauðgi. Það eitt vekur manni bjartsýni og von um framtíð þessa svæðis. Sérstaklega er mikið um að vera í tónlistarlífinu - og er það ekki síst að þakka forsvarsmönnum Tónlistarskólans á Ísafirði sem hafa leitt hvern stórviðburðinn af öðrum inn í bæjarfélagið. Annars voru umsóknirnar fjölbreyttar og MJÖG menningarlegar margar hverjar. Það var virkilega gaman að sjá.

Já, þetta er törn - skemmtileg törn, í bili að minnsta kosti.


Lögvarðir hagsmunir hverra? Svandísar eða Reykvíkinga?

Nú er því haldið fram á heimasíðu Daggar Pálsdóttur í dag að Svandís Svavarsdóttir hafi aldrei haft "lögvarða hagsmuni af því að fá dóm í máli sínu" gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Og hversvegna ekki? Jú, lögmaðurinn miðað við "dómaframkvæmd". Shocking

 

Dögg viðurkennir að vísu að "fundurinn virðist ólöglega boðaður miðað við þær reglur sem giltu um boðun fundar". En af því allir mættu, þá sé fundurinn löglegur. Þar af leiðandi hafi verið ástæðulast af Orkuveitunni að ganga til dómsáttar við Svandísi, hún hafi verið með "gjörtapað" mál.

 

Mér finnst þetta undarlegur málflutningur hjá lögmanninum. Verð bara að segja það. Svandís Svavarsdóttir sat ekki sem einstaklingur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Hún var ekki að knýja fram sína persónulegu hagsmuni með málshöfðun, heldur hagsmuni almennings. Hún sat í stjórninni sem fulltrúi Reykvíkinga, og þeir eiga svo sannarlega lögvarða hagsmuni í þessu makalausa máli.  

Það er kjarni þessa máls, hvað sem líður dómaframkvæmdum.

 


"Ef marka má orð" utanríkisráðherra?

Ekkert fangaflug hefur farið um Ísland "ef marka má orð utanríkisráðherra" sagði sjónvarpsfréttamaður RÚV í kvöld. Ég sperrti upp eyrun: Ef marka má orð utanríkisráðherra!? Hvaðan kemur fréttastofunni umboð til þess að draga í efa orð opinberra aðila - ráðherra? Shocking

Já - blogg dagsins er málfarspistill. Það hlaut að koma að því. Cool

Reyndar efa ég að fréttamaðurinn hafi vísvitandi ætlað að bregða utanríkisráðherra um ósannindi. Ég held (vona að minnsta kosti) að hann hafi bara komist svona klaufalega að orði. 

En þetta segir maður ekki nema um ótraustar heimildir sé að ræða - heimildir sem ekki er hægt að sannreyna að svo stöddu. Ef maður hefur traustar heimildir eða ummæli fyrir einhverju þá segir maður frekar "samkvæmt upplýsingum" heimildamanns eða einfaldlega "að sögn" heimildamanns (í þessu tilviki utanríkisráðherra).

Mig langar svosem ekkert til að vera eins og kennari með puttann á lofti - en þetta fór bara í mig. Kannski vegna þess að mér finnst óvenju mikið hafa verið um ambögur að undanförnu. Menn tala hiklaust um að ráðamenn "vermi sæti" í stjórnum og ráðum, og virðast ekki átta sig á niðrandi merkingu þessa orðatiltækis. Jafnvel á degi íslenskrar tungu læddist beygingarvilla inn í skrifaða ræðu menntamálaráðherra í kaflanum um málrækt "til viðgangs íslenskrar tungu". Pinch

Annars verða beygingarvillur æ algengari í fréttum - eins og menn gleymi því þegar þeir byrja setningu hvernig þeir ætla að enda hana. Á föstudag var sagt: Kjörstöðum lokaði klukkan sex. GetLost Og í dag var það: Heimasíðan Torrent.is var lokað í dag Pinch 

Jæja - þetta átti nú ekki að verða neitt svartagallsraus. Okkur verður auðvitað öllum á, svona einstöku sinnum. Best þótti mér þó um árið þegar páfinn kom í Íslandsheimsókn og - að sögn ónefnds fréttamanns - "blessaði mannfjöldann og lagði hendur á börn". Smile


Húsfyllir í Holti

Jæja, það varð bara húsfyllir hjá okkur í Holti í dag - á bókmenntadagskránni "Vestfirsku skáldin". Við höfðum ekki undan að hlaupa eftir stólum og bæta við kaffiveitingum. Best af öllu var þó að þeir sem mættu virtust glaðir og sáttir við það sem í boði var.   

Ólafur Þ. Harðarson var með bráðskemmtilegt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson - skáldið á Kirkjubóli. Erindið samanstóð af minningum Ólafs sjálfs frá því hann var barn sumardvölum á Kirkjubóli. Hann rifjaði upp kynni sín af skáldinu, lýsti heimilisbragnum á Kirkjubóli, matarmenningu, verkmenningu, samskiptum og búskaparháttum af næmi, hlýju og húmor. Margt fleira var á dagskránni - eins og lesa má um á skutull.is  Smile

Jebb - þetta var bara góður dagur. Ég sofna með hreina samvisku í kvöld.


Friggjarspuni í skýjum

 novemberutsyni (Medium) Sólin er horfin úr firðinum - við sjáum hana ekki aftur fyrr en 25. janúar. En í dag hefur gyðjan Frigg spunnið gullþræði sína í nóvemberhimininn. Sólgyllt ský svífa yfir fjöllum og ljómi þeirra speglast í lognkyrrum haffletinum. Þetta er fallegur dagur - verst hvað myndavélin mín er lúin. Ég veit ekki hvort hún nær að fanga þessa sjón - skelli samt inn mynd sem ég tók áðan út um stofugluggann minn. Tek þó fram að litirnir eru mun skærari og bjartari en þessi mynd ber með sér.

Í dag er mikið um að vera. Menningardagskrá um Vestfirsku skáldin í Holti í Önundarfirði hefst kl. 16:00. Við í Vestfjarðaakademíunni höfum verið að undirbúa þessa dagskrá í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar. Ég verð með yfirlitserindi um vestfirsku skáldin, en auk þess verða flutt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson, Jón úr Vör, Jakobínu Sigurðardóttur og Steingerði Guðmundsdóttur. Sungin verða vestfirsk lög, kveðnar þulur og vísur og Grasa-Gudda úr Skugga-Sveini mun mæta til leiks, kaffiveitingar o.fl.

Já þetta er fallegur dagur til þess að mæra menningararfinn - svo sannarlega. Guð láti gott á vita.


Jólaklám

hestarihöm  Það var ekki flogið í dag - og mér lá á að komast vestur - svo ég lagði í púkk með þremur heimfúsum sveitungum og við tókum bílaleigubíl. Jamm. Tæpir sjö tímar í akstri - snjófjúk og blint á leiðinni en auðir vegir sem betur fer. Og allt gekk vel.

 Tengdamamma beið mín með indælan fiskrétt í ofni. Siggi bóndi minn farinn norður í Skagafjörð á kjördæmisþing Samfylkingarinnar og barnið hjá afa og ömmu. Gott að eiga öruggt skjól þegar foreldrarnir eru á þeytingi um landið þvert og endilangt í ótryggu veðri og jarðbönnum.

 Jæja, heimkomin læt ég renna í bað handa drengnum, skipti á rúminu hans og kveiki á sjónvarpinu. Ætla að láta líða úr mér ferðaþreytuna og slaka reglulega vel á. Hvað veltur þá yfir mig út um sjónvarpsskjáinn?  Frétt um að Borgnesingar hafi ákveðið að "flýta aðventunni". Viðtal við unga stúlku sem segir að þetta sé bara reglulega gaman. Grýla mætt á svæðið og svona, og allir glaðir. Eftir fréttir dynja svo á mér (og landsmönnum öllum) JÓLAAUGLÝSINGAR. Angry

Kallið mig bara íhaldskellingu og afturhaldssegg - EN ÉG VIL EKKI FÁ JÓLAAUGLÝSINGAR OG JÓLAUPPÁKOMUR um miðjan nóvember. Þetta er óþolandi. Óþolandi.

Látum vera nóvemberljós, kertaljós og haustskreytingar í húsum. Það er notalegt um þetta leyti. En rauðklæddir jólasveinar, silfraðar og gylltar jóalbjöllur í greni, klukkna og bjölluhljómur. NEI TAKK! Ekki um miðjan NÓVEMBER.

Mér finnst þessi útjöskun á jólunum jaðra við klám. Þetta er kaupmennska, skrum og ekkert annað. Og í tilefni af degi íslenskrar tungu ætla ég að taka mér í munn rammíslenskt og auðskilið orð yfir þetta fyrirbæri, um leið og ég hafna því af öllu mínu hjarta. Þetta er: Jólaklám ... Sick ... og ég vil ekki sjá það.

Hef ég þá lokið máli mínu í bili - ætla að fara að hvíla mig eftir ferðalagið.

 

 

 


Útsvarið í kvöld ; )

Jæja, þá er það Útsvarið í kvöld Blush Lið Ísafjarðarbæjar gegn Reyknesingum.

Í liði Ísfirðinga eru auk mín þau Ragnhildur Sverrisdóttir blaðamaður og Halldór Smárason, menntskælingur. Bæði eru þau miklar mannvitsbrekkur og skemmtilegt fólk. Í liði Reykjanesbæjar eru Guðmann Kristþórsson, Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) og Júlíus Freyr Guðmundsson (ég held hann sé sonur Rúnars Júlíussonar sem heitir að ég held Guðmundur Rúnar). Verður spennandi að mæta þeim - en sjálf veit ég ekkert við hverju má búast.

Við Vestfirðingarnir hittumst aðeins í gær, rétt sísvona til að stilla saman strengi. Við erum ágæt saman - verðum vonandi heppin líka þegar á hólminn er komið.

Í síðasta Útsvarsþætti fannst mér spurningarnar raðast einkennilega milli liða. Einhvernvegin vildi þannig til að mér fannst ég geta nánast allt sem vinningsliðið var spurt um, en ekki eins mikið af því sem tapliðið þurfti að svara. Semsagt: Heppnin er hluti af árangrinum, ég fer ekki ofan af því. Samstilling liðanna held ég líka að skipti máli. 

Jæja, en nú er að krossleggja fingur og sjá hvað setur. "Sjáumst" vonandi í kvöld. Cool

 


Ójöfnuður í skjóli valds

 Jæja, þá er ljóst að nýi fréttavefurinn skutull.is er farinn að valda pólitískum titringi. Nú hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarráði Ísafjarðarbæjar neitað vefmiðlinum um jafnan aðgang að vef bæjarins og bb.is hefur notið. Ísafjarðarbær styrkir bb.is með mánaðarlegu framlagi. Í staðinn birtast fréttir af bb.is á vef Ísafjarðarbæjar og bærinn hefur opinn glugga á forsíðu bb.is.

Forráðamenn skutuls.is skrifuðu bæjarráði bréf þar sem farið var fram á sama aðgang að heimasíðu bæjarins og sama auglýsingastyrk. Var í bréfinu vísað til laga og stjórnarskrár um jafnræðisreglu. Þessu var hafnað af meirihlutanum í bæjarráði - en einn bæjarráðsmaður vék sæti.

Talsmenn frelsisins og einkaframtaksins - og er ég nú að tala um fyrrnefnda fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks - létu hinsvegar bóka eftirfarandi: 

„Bæjarráð samþykkir að á heimasíðu Ísafjarðarbæjar verði tengill sem vísi á vefsíðuna skutul.is. Að öðru leyti er erindinu hafnað, þar sem ekki er um sambærilegan fréttamiðil við bb.is að ræða, en bb.is hefur um langt árabil starfað sem fréttamiðill á Vestfjörðum. Bæjarráð bendir á að fleiri svæðisbundnar vefsíður eru í boði á svæðinu svo sem thingeyri.is, án þess að njóta sérstakra styrkja eða fríðinda frá Ísafjarðarbæ.“

 Með öðrum orðum - stöndug og rótgróin fyrirtæki eiga að njóta styrkja og "fríðinda" frá bænum. Ekki þeir sem eru að reyna að koma undir sig fótum á markaði. Ó, nei. Þeir þurfa einskis við, og þurfa ekki að búast við neinu jafnræði eða jafnrétti gagnvart sveitarstjórninni. Skítt með jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, málfrelsisákvæðið og tjáningarfrelsið. Skítt með stefnuyfirlýsingar sömu fulltrúa um eðlileg samkeppnisskilyrði og frelsi.

Hmmm.... athyglisvert. 

Skutull.is er frétta- og umræðuvefur starfræktur í Ísafjarðarbæ af hópi fólks sem hefur áhuga og metnað fyrir hönd Vestfjarða og vestfiskrar menningar. Það getur ekki dugað sem rök að annar vefurinn sé nýrri en hinn.

Skutull.is er vestfirskur þjóðmálavefur sem ekki er háður neinum stjórnmálaflokki eða hagsmunaaðalilum og fréttamat og fréttaskrif stjórnast eingöngu af áhuga og metnaði þess hóps sem stendur að vefnum.

Afstaða fyrrnefndra fulltrúa í bæjarráði Ísafjarðar er  köld kveðja til þeirra sem vilja stuðla að opinni og óheftri umfræði og fréttamiðlun um vestfirsk málefni. Ennfremur er afstaða bæjarfulltrúanna slakur vitnisburður um lýðræðisþroska, frelsishugsjón og það sem kalla mætti heilbrigð samkeppnissjónarmið.  

Svei.


Verkalýðsforinginn heiðraður

PeturSig Pétur Sigurðsson, tengdafaðir minn - formaður VerkVest þar til s.l. vor, og þar áður formaður Alþýðusambands Vestfjarða um áratuga skeið - var heiðraður af samverkamönnum sínum í verkalýðsfélaginu hér vestra við hátíðlegt borðhald á Hótel Ísafirði í gærkvöldi. Hjördís kona hans einnig - enda hefur hún staðið þétt að baki sínum manni alla þeirra hjúskapartíð, svo það var vel við hæfi.

Eftir áratuga þjónustu við íslenska verkalýðshreyfingu hefur Pétur nú ákveðið draga inn árar og setjast á friðarstól.  Ungur maður er tekinn við formennsku í félaginu, og Pétur hefur vikið til hliðar. Þó ekki lengra en upp á næstu hæð, þar sem hann situr nú og fer yfir gömul skjöl. Í næstu skrifstofu situr Siggi minn, sonur hans, og skrifar sögu vestfirskrar verkalýðshreyfingar. Það á við þá feðgana að sitja hvor á sinni skrifstofunni og róta í gulnuðum blöðum sögunnar. Þegja mikið og lengi, raða, flokka og skrifa hjá sér. Wink 

Já, formlega séð er Pétur hættur og ungur maður tekinn við. Sá fær að njóta ráðgjafar og liðsinnis verkalýðskempunnar sem nú hefur flutt sig um set í húsinu. En ef einhver ímyndar sér að þar á efri hæðinni sitji hrumur öldungur, þrotinn að kröftum, skal sá misskilningur leiðréttur snarlega. Þó að Pétur sé kominn á áttræðisaldur er hann enn fimur í hreyfingum, skýr eins og unglingur, skörulegur í tali með glampa í auga. Þar fyrir innan glittir í minningar um gamla Vestfjarðasamninga og verkfallsátök sem hafa sett mark sitt á svipmót og fas mannsins. Hann ber aldurinn betur en nokkur maður sem ég þekki á hans aldri. Hleypur enn upp á dal þrisvar í viku, auðþekktur á rauðu dúskhúfunni sem eitthvert barnabarnið gaf honum einhverntíma.

Ekki alls fyrir löngu varð Pétur fyrir bíl í Reykjavík - nei, afsakið - bíllinn varð eiginlega fyrir honum þar sem hann var að skokka yfir götu. Höggið var þvílíkt að Pétur flaug yfir bílinn og hafnaði á grasflöt þar skammt frá, eftir viðkomu í runna. Maður hefði búist við alvarlegum afleiðingum fyrir hálfáttræðan mann, a.m.k. beinbroti. En Pétur reyndist óbrotinn. Raunar spaugar hann með það sjálfur að sér hafi verið bráðust hætta búin þegar sjúkraflutningamennirnir fóru að spenna á hann hálskraga og þrengja súrefnisgrímu yfir andlit honum svo honum lá við köfnun. En eftir skoðun á sjúkrahúsi var hann sendur heim, svolítið lurkum laminn í nokkra daga, en náði sér svo. Geri aðrir betur.

Síðastliðið sumar tók hann þátt í Púkamótinu á Ísafirði - annað árið í röð. Það er fótboltamót fyrir fertuga og eldri. Hann var í marki og þar flaug hann milli markstanganna og varði a.m.k. eina vítaspyrnu.Cool

Já, hann er sestur á friðarstól - en ég held það sé lítil hætta á að hann sitji auðum höndum. Og það er vel.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband