Friggjarspuni í skýjum

 novemberutsyni (Medium) Sólin er horfin úr firðinum - við sjáum hana ekki aftur fyrr en 25. janúar. En í dag hefur gyðjan Frigg spunnið gullþræði sína í nóvemberhimininn. Sólgyllt ský svífa yfir fjöllum og ljómi þeirra speglast í lognkyrrum haffletinum. Þetta er fallegur dagur - verst hvað myndavélin mín er lúin. Ég veit ekki hvort hún nær að fanga þessa sjón - skelli samt inn mynd sem ég tók áðan út um stofugluggann minn. Tek þó fram að litirnir eru mun skærari og bjartari en þessi mynd ber með sér.

Í dag er mikið um að vera. Menningardagskrá um Vestfirsku skáldin í Holti í Önundarfirði hefst kl. 16:00. Við í Vestfjarðaakademíunni höfum verið að undirbúa þessa dagskrá í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar. Ég verð með yfirlitserindi um vestfirsku skáldin, en auk þess verða flutt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson, Jón úr Vör, Jakobínu Sigurðardóttur og Steingerði Guðmundsdóttur. Sungin verða vestfirsk lög, kveðnar þulur og vísur og Grasa-Gudda úr Skugga-Sveini mun mæta til leiks, kaffiveitingar o.fl.

Já þetta er fallegur dagur til þess að mæra menningararfinn - svo sannarlega. Guð láti gott á vita.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Úr því sólin sést ekki í tvo mánuði á veturna hlýtur hún líka að koma seint upp yfir fjöllin og ganga fljótt í hann aftur á sumrin. Það er gallinn við firði með há fjöll. En sólinn ætti samt að geta lýst upp himininn fallega  þó hún sjáist ekki sjálf.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.11.2007 kl. 13:22

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er þetta ekki svolítið skrítið?? engin sól ??

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 22:58

3 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Sá hana nú samt gægjast upp yfir Engidalnum úr götuhallanum um tvöleytið í dag.  Það er ekki sama hvar í firðinum þú ert stödd.  Hamingjuóskir með frammistöðuna á föstudagskvöldið, þið voruð okkur öllum til sóma.  Kveðjur,

Sigríður Jósefsdóttir, 18.11.2007 kl. 23:25

4 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ef maður hefur enga sól þá verður maður að vera með sól í hjarta

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 19.11.2007 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband