Ójöfnuður í skjóli valds

 Jæja, þá er ljóst að nýi fréttavefurinn skutull.is er farinn að valda pólitískum titringi. Nú hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarráði Ísafjarðarbæjar neitað vefmiðlinum um jafnan aðgang að vef bæjarins og bb.is hefur notið. Ísafjarðarbær styrkir bb.is með mánaðarlegu framlagi. Í staðinn birtast fréttir af bb.is á vef Ísafjarðarbæjar og bærinn hefur opinn glugga á forsíðu bb.is.

Forráðamenn skutuls.is skrifuðu bæjarráði bréf þar sem farið var fram á sama aðgang að heimasíðu bæjarins og sama auglýsingastyrk. Var í bréfinu vísað til laga og stjórnarskrár um jafnræðisreglu. Þessu var hafnað af meirihlutanum í bæjarráði - en einn bæjarráðsmaður vék sæti.

Talsmenn frelsisins og einkaframtaksins - og er ég nú að tala um fyrrnefnda fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks - létu hinsvegar bóka eftirfarandi: 

„Bæjarráð samþykkir að á heimasíðu Ísafjarðarbæjar verði tengill sem vísi á vefsíðuna skutul.is. Að öðru leyti er erindinu hafnað, þar sem ekki er um sambærilegan fréttamiðil við bb.is að ræða, en bb.is hefur um langt árabil starfað sem fréttamiðill á Vestfjörðum. Bæjarráð bendir á að fleiri svæðisbundnar vefsíður eru í boði á svæðinu svo sem thingeyri.is, án þess að njóta sérstakra styrkja eða fríðinda frá Ísafjarðarbæ.“

 Með öðrum orðum - stöndug og rótgróin fyrirtæki eiga að njóta styrkja og "fríðinda" frá bænum. Ekki þeir sem eru að reyna að koma undir sig fótum á markaði. Ó, nei. Þeir þurfa einskis við, og þurfa ekki að búast við neinu jafnræði eða jafnrétti gagnvart sveitarstjórninni. Skítt með jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, málfrelsisákvæðið og tjáningarfrelsið. Skítt með stefnuyfirlýsingar sömu fulltrúa um eðlileg samkeppnisskilyrði og frelsi.

Hmmm.... athyglisvert. 

Skutull.is er frétta- og umræðuvefur starfræktur í Ísafjarðarbæ af hópi fólks sem hefur áhuga og metnað fyrir hönd Vestfjarða og vestfiskrar menningar. Það getur ekki dugað sem rök að annar vefurinn sé nýrri en hinn.

Skutull.is er vestfirskur þjóðmálavefur sem ekki er háður neinum stjórnmálaflokki eða hagsmunaaðalilum og fréttamat og fréttaskrif stjórnast eingöngu af áhuga og metnaði þess hóps sem stendur að vefnum.

Afstaða fyrrnefndra fulltrúa í bæjarráði Ísafjarðar er  köld kveðja til þeirra sem vilja stuðla að opinni og óheftri umfræði og fréttamiðlun um vestfirsk málefni. Ennfremur er afstaða bæjarfulltrúanna slakur vitnisburður um lýðræðisþroska, frelsishugsjón og það sem kalla mætti heilbrigð samkeppnissjónarmið.  

Svei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þú heldur að pólitískar forsendur séu þarna að baki.  Hefurðu kannski hugleitt að Ísafjarðarbær, tja... hvaða opinberi aðili sem er, er ekki skyldugur til að elta hvaða vitleysinga sem er sem krefjast styrkja og ölmusu?  Kannski sinnir bb.is fréttahlutverki sínu betur en rammvinstrisinnaður vefur sem sér allt í gegnum rauðsokkurauð gleraugu, getur það verið?  Vísa til jafnræðisreglu, það er nú hreinn og klár brandari.  Ef Reykjavíkur borg styrkir eitt íþróttafélag um 500.000,-, á þá hver jólasveinn sem er að rjúka til og stofna viðlíka félag ("Íþróttafélagið Nonni - eins manns blaklið") og krefjast styrkja í krafti "jafnræðisreglu"?

Kannski ættuð þið rauðsokkurnar að huga fyrst að því að búa til stöndugan vef sem getur kallast fréttavefur, en ekki áróðursgagn vinstrimanna (eða fannst þér Þjóðviljinn sálugi vera góður fréttamiðill?), og þá getið þið kannski sótt um styrk í krafti fagmennsku.  Eins og staðan er núna, þá eruð þið enn einn hópurinn af vinstraliði sem heimtar og krefst, en á ekki skilið.

Góðar stundir

Dharma (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 20:59

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þessi athugasemd Dharma á engan rétt á sér og er rakalaus. Raunar ekki svaraverð. Ég skora bara á þá sem vilja kynna sér málið að fara inn á skutull.is og skoða fréttaflutninginn þar. Dæma í ljósi eigin upplifunar, en ekki á grundvelli ómálefnalegra stóryrða sem einhver hugleysingi setur fram í skjóli nafnleyndar. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.11.2007 kl. 22:30

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Já, er þetta rauðsokkublað? Ólína segir að þetta sé almennur, vestfirskur frétta- og umræðuvefur. Það er kannski bara "trikk" til að fá útbreiðslu á láta fyrsta eintakið bera með sér þessa óbeinu vestfirsku vísun, sem er svo áberandi á forsíðunni. 

Ég hélt reyndar að Ingibjörg Sólrún væri úr Flóanum eins og ég! Mörður hinn vestfirski sómir sér vel í hennar kompaníi!

Flosi Kristjánsson, 14.11.2007 kl. 22:36

4 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ólína, hér er ég þér algjörlega sammála. 

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 14.11.2007 kl. 23:27

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Jafnræði á auðvitað að ríkja, vona að ykkur gangi vel með fréttavefinn ykkar.

Ásdís Sigurðardóttir, 15.11.2007 kl. 02:21

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Verð að viðurkkenna að ég þekki ekki nógu vel til fyrir "Vestan" til þess að fella stóra dóma.  En það er hins vegar nokkuð augljóst að þegar blöðin eru skoðuð, þá virðist BB vera "hlutlaust", hvort sem það er nú hægt eða ekki, alla vegna eru þeir ekki merktir neinum stjórnmálaflokki.  Blaðið skutull er hinsvegar merkt sem "málgagn Samfylkingarinnar".  Það að sú merking sé ekki á vefmiðlinum þykir mér bita munur en ekki fjár.

Frá mínum bæjardyrum er það því eðilegasti hlutur að miðlarnir njóti mismunandi "fyrirgreiðslu" af hendi bæjarins.  Get ekki séð að það sé stór ástæða fyrir bæinn að styrkja pólítísk málgögn.

G. Tómas Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 05:54

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Tómas.

Blaðið Skutull er ekki vefmiðillinn skutull.is . Við búum jú í Skutulsfirði og nafnið er gott. Umrætt blað hefur komið út einu sinni á ári og verið málgagn Samfylkingarinnar. Vefurinn er fréttavefur sem dregur nafn af átthögum sínum.

Fréttasíða vefsins er rekinn er á faglegum forsendum. Ég er ekki skoðanalaus manneskja, ekkert frekar en þeir sem reka BB. En ég held ég kunni fagleg vinnubrögð í fréttamennsku. 

Menn ættu fremur að sýna fram á það með einhverjum rökum að skutull.is reki pólitísk einstefnu, en að dylgja um það.  Ég hveti þig eindregið til að skoða vefinn - og finnist þér hann rauður á litinn (sem hann er) þá vil ég benda þér á bláa litinn sem prýðir vefsíðu bb. Enginn hefur mér vitanlega gert athugasemdir við það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.11.2007 kl. 09:46

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Hittingurinn var mjög vel heppnaður í gær og þín saknað.  Við munum endurtaka leikinn og vonandi hefurðu tök á að vera með næst.

Marta B Helgadóttir, 15.11.2007 kl. 15:00

9 identicon

Það hvort að fréttaflutningurinn er eitthvað "óháður" eða ekki er ekki málið. Allir fréttamenn hafa líklegast eitthverjar pólitískar skoðanir og fréttafólk Skutuls er alveg jafn líklegt til að vera "óháð" í fréttflutningi sínum eins og fréttafólk BB. Hinsvegar að lesendum sé boðið upp á með einum smelli á forsíðunni að nálgast málgagn Samfylkingarinnar á Ísafirði bendir til að vefurinn sé ekki óháður. Þarna er einum stjórnmálaflokki gert hærra undir höfði.

Unnþór (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 18:22

10 identicon

Algjörlega sammála Unnþóri. Ef skutull er óháður vefmiðill ætti þá ekki líka að bjóða uppá málgögn hinna flokkanna með einum smelli ?

María (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 01:39

11 Smámynd: Fannar frá Rifi

afhverju þarftu á styrkjum að halda? ef þetta er góður frétta miðill þá ætti hann að geta rekið sig sjálfur.

Þegar maður fer á síðuna sést það langar leiðir að um málgagn samfylkingarinnar sé um að ræða. Skutull blaðið sem þú viðurkennir að sé málgagn samfó er það fremst á síðu. Merki samfylkingarinnar er allstaðar á síðunni.

viðurkenndu það bara að þetta sé rammpólitískur vefur. hættu þessu skápaleik. þið eruð bara áhöttunum eftir fé frá skattgreiðendum. ég sé ekki alveg hvernig þú ætlar að réttlæta það að Ísafjarðarbær fari og eyði meir tekjum sínum til þess að borga undir persónuleg vef fyrir þig. sveitarfélög á Íslandi og þá sérstaklega á landsbyggðinni eru ekkert alltof vel stæð. jafnframt ef ykkur yrði veitt styrkur þá gæti hverjir farið og stofnað fréttavef og heimtað að fá styrki. yrði það nú til gagns fyrir sveitarfélagið að það færu kannski +2 milljónir á ári í styrki til fréttablaða á netinu? og hver borgar? 

nú náttúrulega útsvarsgreiðendur. þið ættuð að vinna þannig að vefurinn geti rekið sjálfan sig fyrir auglýsinga greiðslur.  ekki heimta peninga frá öðrum.

Fannar frá Rifi, 16.11.2007 kl. 01:57

12 identicon

Ólína segir að þetta sé óháður miðill, og þar sem Ólína ræður þá er það svo. Vinstrimenn hafa aldrei látið staðreyndir flækjast fyrir sér þegar þeir fabúlera út í loftið.

En það er soldið sérstakt að sjá að vestur á fjörðum er hópur fólks sem telur sig eiga skýlausa kröfu á almannasjóði að þeir styrki áhugamál sitt sérstaklega. Því hefur verið haldið fram að vinstrimenn kunni ekki með peninga að fara, og mér sýnist Ólína ætla að gera þá kenningu að lögmáli. Ef saumaklúbburinn fyrir vestan (og af því að ég veit að rauðsokkuradarinn er stilltur á 11, þá geta karlar verið í saumaklúbbum líka) vill endilega stunda pólitískan rant en þykjast vera blaðamenn, þá er þeim það að sjálfsögðu heimilt. En þegar hinn sami saumaklúbbur krefst þess að almenningur púkki upp á kjánalegan áróður í þágu eins stjórnmálaflokks er það hlutverk þeirra sem um pyngjuna halda að segja stopp. Og er það vel að dyrum almannasjóða skuli hafa verið skellt á nefið á heimtufrekjum vinstrimönnum í þetta skiptið.

góðar stundir

Dharma (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 10:24

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl verið þið öll.

 Hér eru nokkrar athugasemdir við staðreyndavillur:

1) Það er enginn beinn hlekkur inn á vef samfylkingarinnar á skutull.is. Hinsvegar er undir kaflaheitinu "stjórnmálaflokkar" hægt að nálgast alla flokka landsins með einum smelli. Hinsvegar er  á vefnum bb.is (sem einhverjir virðast halda að sé hlutlaus vefur) hægt að nálgast bloggskrif bæjarstjórans með einum smelli efst á síðunni vinstramegin. Ég veit ekki um neinn íslenskan stjórnmálamann sem hefur fengið þannig þjónustu á nokkrum vefmiðli. Enda er bb.is eina vefsíðan sem hefur útibú á heimasíðu Ísafjarðarbæjar. Og fær borgað fyrir það!

2) Eitt er að vera "rammpólitísklur" annað að vera "flokkspólitískur". Það hvarflar ekkii að mér að halda því fram að ég sé eitthvað annað en ég er. Ég er hinsvegar ekki sú eina sem stend að þessum vef. þar eru margir með mér, sumir í samfylkingunni aðrir hvergi og a.m.k. einn grunaður hægrimaður Nei, grínlaust -  þá hafa allir skoðanir, og víst er að bb.is er hægrisinnaður fjölmiðill þó svo fréttastefna þeirra eigi að heita hlutlaus. 

3) Ef almannasjóðir eru á annað borð að styrkja fjölmiðla, ber þeim að láta eitt yfir alla ganga. Við höfum ekki farið fram á neitt umfram aðra.

4) Ég vil að lokum vekja sérstaka athygli á máflutningi Dharma - hann er dæmigerður fyrir ofsafulla hægrisinnaða skríbenta sem þora ekki að koma fram undir nafni en ausa úr keytukoppum sínum yfir þá sem hafa aðrar lífsskoðanir en þeir sjálfir.  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.11.2007 kl. 11:50

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Og bara til að taka af allan vafa - hafi það ekki komið nógu skýrt fram - þá tel ég jafnaðarhugsjón mína vera eitt mitt helsta aðalsmerki. Um leið vona ég að þau sem vinna með mér við skutul.is - og hugsanlega annarrar stjórnmálaskoðunar en ég - finni fyrir virðingu og fordómaleysi gagnvart lífsskoðunum sínum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.11.2007 kl. 11:55

15 identicon

Takk fyrir að vekja athygli á mínum málflutningi sérstaklega, ekki er vanþörf á þegar kemur að sósíalískum pistlum annars vegar.  Það er nefnilega svo merkilegt að ég tel jafnaðarhugsjón mína vera eitt mitt helsta aðalmerki líka :).  Og þess vegna fordæmi ég forréttindafemínisma, aumingjavæðingu einstakra stétta, forræðishyggjutal VGista, og almennt gaspur Samfylkingarfólks.  Mín hugsjón er að allir eigi að hafa jöfn tækifæri, en bera ábyrgð á því sjálfir hvernig úr þeim er spilað. 

En að sjálfsögðu er ekki hægt að ætlast til þess að vinstrisinnað fólk, kommúnistar eða sósíalistar (svona eftir því hvað þessu fólki þykir móðins að kalla sig hverju sinni) geti skilið það, enda vill það fólk að allir hafi jöfn tækifæri, en þeir sem nýta þau og leggja á sig vinnu til að gera sem best úr sínu lífi eigi að skila ágóðanum til þeirra sem ekki nenna og spiluðu illa úr þeim spilum sem þeim voru gefin.  En það er annað mál.

Annars hefur lítið farið fyrir umburðarlyndi í skrifum Ólínu í garð sinna pólitísku andstæðinga, t.d. get ég bent á það að hún hefur það fyrir sið, líkt og svo margir aðrir sem aðhyllast hennar tegund af umburðarlyndi og virðingu fyrir andstæðum skoðunum, að loka á skrif þeirra sem eru svo illa gerðir að vera henni ósammála.  Hún fór mikinn um daginn og sakaði mætan mann á Ísafirði, hægrimann og yfirlýstan slíkan, um að vera rétt fyrir neðan mosa í fæðukeðju hins pólitíska virðingarstiga fyrir það eitt að voga sér að gagnrýna málflutning tveggja vinstrisinnaðra (kvenkyns) bæjarfulltrúa.  Slíkur var glæpurinn að maðurinn var dreginn sundur og saman af Ólínu og saumaklúbbi hennar á vinstrivængnum.  Og slíkt var að sama skapi umburðarlyndið og víðsýnin hjá henni og hennar.

Nafnleysi er líka mitt helsta "aðal" og sem fyrr og sem aðrir telur Ólína algerlega óforsvaranlegt að nokkur vogi sér að skrifa í nafnleysi.  Hennar krafa er auðvitað sú að vita hver skoðanaeigandinn er, enda geta skoðanir að hennar mati aldrei staðið einar og sér, heldur þarf alltaf að vita hver setur skoðunina fram til að geta lagt almennilegt mat á hana.  Ef hún t.d. kæmist að því að ég væri vinstrisinnuð kona væri eflaust allt í hinu fína með mínar skoðanir og ég bara skelegg kona... en sömu skoðanir frá hægrisinnuðum karlmanni eru versti óhróður sem hægt er að ímynda sér.

Jæja, en svona að vestfirðingum gangi vel í Útsvarinu í kvöld, enda Dharma ættuð að vestan, og þar býr eintómt klárt fólk.

góðar stundir 

Dharma (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 12:27

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er athyglisvert að sjá Dharma tala um það sem lífshugsjón að "allir eigi að hafa jöfn tækifæri, en bera ábyrgð á því sjálfir hvernig úr þeim er spilað".

Nafnleysingjar sem fela sig á bak við dulnefni eru ekki beint að taka "ábyrgð á því sjálfir" sem þeir segja. Málflutningur Dharma hér ofar ber þessi heldur ekki vitni að hann aðhyllist það aðö "allir eigi að hafa jöfn tækifæri". Að minnsata kosti virðist það ekki eiga að gilda um félagshyggjufólkið sem hann kallar "vitleysinga" og "heimtufrekjur" svo vitnað sé til orða hans hér ofar.

Munnsöfnuður þessa manns besti vitnisburðurinn um málflutning hans og það sem að baki býr.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.11.2007 kl. 12:42

17 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína þú svarar ekki málefnalega. Þú notar afsakanir eins og orðarbragð og nafnleysi sem afsakanir fyrir því að þú svarir ekki. En þetta er mjög mikil heimtu frekja hjá þér að krefjast þess að aðrir borgi undir áhugamálin þín. þá sérstaklega þeir hafa ekki beðið um þau eins í þessu dæmi. ef einhverjir vilja styrkja vefinn ætti að vera hægt að gerast styrktarmaður vefjarinns eða þá með því að gera eins og aðrir. selja auglýsingarpláss.

Fannar frá Rifi, 16.11.2007 kl. 18:49

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Fannar.

Að sjálfsögðu munum við selja auglýsingapláss og haga okkur eins og vefmiðill á markaði. Málið snýst ekkert um það - enda munum við hvorki standa né falla með einhverjum styrk frá bænum. En ég veit ekki hvað þú átt við með því að ég svari ekki málefnalega. Ég tel mig hafa stutt mitt mál með rökum. Hvað eru dagblöð og vefmiðlar annað en áhugamál þeirra sem að þeim standa? Heldur þú að ég sé ein með skutul.is? Það stendur hópur fólks að þessum miðli. Það er allt fólk sem hefur hug á framsækinni fjölmiðlun. Hví skyldum við ekki standa jafnrétthá gagnvart bæjaryfirvöldum og aðrir sem hafa látið sér detta í hug að stofna vefmiðla? Þú talar um þetta sem eitthvert ómerkilegt tómstundagaman - í niðrandi tóni. Ég bil bara benda á að allt sem vel er gert, er gert af áhuga. Og við sem stöndum að vefsíðunni höfum svo sannarlega áhuga fyrir því sem við erum að gera. Það mun líka skila sér í starfsemi þessarar vefsíðu í framtíðinni. Vittu til.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.11.2007 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband