Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Of langt gengið
23.4.2008 | 16:03
Í fyrstu var ég hrifin af aðgerðum flutningabílstjóra - fannst þetta svona svolítið "franskt" hjá þeim að loka bara leiðum, þeyta flautur og láta að sér kveða.
En svo fóru að renna á mig tvær grímur. Þeir virðast ekki bara vera að mótmæla háu eldsneytisverði. Þeir vilja líka undanþágur frá evrópskum öryggis- og vinnuverndarreglum um vökutíma atvinnubílstjóra. Þeir vilja fá að aka lengur og sofa minna. Eins og hálfsofandi, útkeyrðir þungaflutningabílstjórar séu það sem okkur vantar á vegi landsins? Nóg er nú samt að mæta þessum gríðarstóru tækjum á fullri ferð á vegum utan þéttbýlis, þó maður þurfi nú ekki að eiga á hættu að þeir séu sofandi við stýrið.
Nú bætast við fréttir af ryskingum og handtökum - konur með börn á handlegg á hlaupum undan piparúða lögreglunnar, sem er orðin "grá fyrir járnum" ef svo má að orði komast.
Eiginlega er þetta farið að ganga fram af manni - og framganga allra hlutaðeigandi er orðin aðeins of ýkt. Þá á ég bæði við lögreglu, bílstjórana og svo ýmsa sem virðast hanga utan á þessum mótmælum og ýta undir ókyrrðina.
Lögreglan virðist ganga fram af óþarfa hörku - ef marka má fréttamyndir og frásagnir vitna.
Og það gera líka þeir sem kasta grjóti. Hvað eru menn að kasta grjóti? Hvurslags er þetta eiginlega?
Alltof harkalegar aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Betrunarvist í fangelsi
21.4.2008 | 21:31
Í Kastljósi kvöldsins var sagt frá nýrri endurhæfingardeild á Litla-Hrauni þar sem föngum er hjálpað til þess að vera edrú innan fangelsisveggjanna. Fíkniefnaneysla hefur árum saman verið mikið vandamál á Hrauninu, enda kom fljótlega í ljós að mun færri komust í þessa endurhæfingu en vildu.
Um er að ræða tilraunaverkefni sem staðið hefur í hálft ár og rennur út þann 1. maí næstkomandi. Óvíst er um framhaldið á þessari stundu - en starfsmenn fangelsisins og fangarnir sem hafa fengið að vera á deildinni ljúka upp einum munni um gagnsemi hennar.
Fjármunir hafa víst ekki dugað fyrir meðferðarfulltrúa. Í staðinn hafa fangaverðir gert sitt besta til þess að aðstoða fangana við að ná tökum á lífháttum sínum, vakna á morgnana, kaupa í matinn, elda og halda sér að uppbyggilegum hugðarefnum.
Augljóst er að þarna hefur verið bryddað upp á þarfri nýbreytni.
Ég vona heitt og innilega að fjármunir fáist til þess að halda þessu verkefni áfram; að hægt verði að bjóða öllum þeim föngum sem vilja sannlega bæta sig, upp á þessa endurhæfingu.
Menn eiga ekki að horfa í aurinn þegar mannslíf eru í húfi. Þó við séum ekki að tala um líf eða dauða heldur möguleika til innihaldsríkara lífs, þá eru svo sannarlega mannslíf í húfi hér.
Ef vel tekst til verður kannski hægt að tala um betrunarvist í fangelsum landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
... að leggja frá sér góða bók, og deyja.
21.4.2008 | 10:30
Það jafnast ekkert á við góða bók. Margar saman geta bækur verið prýðilegt stofustáss og einangrun útveggja. Ein og sér getur bók verið svo margt: Góður félagi, kennari, tilfinningasvölun, skilningsvaki, hugvekja, myndbirting, afþreying, .... listinn er óendanlegur.
Fyrir bókaunnanda er vart hægt að hugsa sér betri dánarstund en að sofna í friðsæld með bók í hönd, líkt og eiginmaður móðursystur minnar fyrir nokkrum árum (blessuð sé minning hans). En þegar ég frétti andlát hans, varð mér að orði þessi vísa:
Þá er sigurs þegið náðarveldið
að þurfa ekki dauðastríð að heyja,
en mega þegar líður lífs á kveldið
leggja frá sér góða bók - og deyja.
4,6 bækur á hverja þúsund íbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það seytlar inn í hjarta mitt ...
21.4.2008 | 08:48
Krókusarnir eru farnir að kíkja upp úr snjónum í garðinum hjá mér. Fuglasöngur í trjánum á hverjum morgni - brum á greinum. Það er ekki um að villast, vorið er komið. Það fer hægar yfir hérna fyrir vestan en í höfuðborginni, en maður finnur nálægð þess engu að síður. Hér er blíðviðri dag eftir dag og dimmblátt djúpið ljómar í sólinni sem aldrei fyrr.
Nú eiga við orðin hans Jóhannesar úr Kötlum:
Það seytlar inn í hjarta mitt
sem sólskin fagurhvítt,
sem vöggukvæði erlunnar,
so undurfínt og blítt,
sem blæilmur frá víðirunni,
- vorið grænt og hlýtt.
Ég breiði út faðminn - heiðbjört tíbrá
hnígur mér í fang.
En báran kyssir unnarstein
og ígulker og þang. -
Nú hlæja loksins augu mín
- nú hægist mér um gang.
Því fagurt er það, landið mitt,
og fagur er minn sjór.
Og aftur kemur yndi það
sem einu sinni fór.
Og bráðum verð ég fallegur,
og bráðum verð ég stór.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bubbi og Björn Jörundur eða Óðinn Valdimarsson?
20.4.2008 | 12:25
Bubbi og Björn Jörundur hafa kynnt til sögunnar nýja útgáfu á laginu yndislega sem Óðinn Valdimarsson söng svo ógleymanlega á sínum tíma, "Ég er kominn heim" eða "Er völlur grær" eins og það heitir víst upphaflega.
Ýmsir hafa spreytt sig á þessu lagi eftir að Óðinn tók það. Bjöggi syngur það býsna vel - svo hafa Andri Bachmann og fleiri sungið það og tekist svona og svona.
En þó ég haldi mikið upp á Bubba og Björn Jörund, þá er ég ekki ýkja hrifin af þessu nýjasta tiltæki þeirra. Þeir bara ná ekki þessari sætu, gammeldags stemningu sem svífur yfir laginu.
Ég hef enn ekki heyrt nokkurn mann syngja þetta eins vel og Óðin heitinn - mýktin í söngstílnum hans er bara óviðjafnanleg. Hreint út sagt.
En fyrst ég er nú farin að tala um þetta. Þá hef ég heldur ekki enn náð einni línunni í textanum - sama hver syngur. Er einhver þarna úti sem getur upplýst mig um þetta?
Það sem mig vantar er í 2. erindinu sem hefst svona: Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól ...... Svo kemur eitthvað með "landið mitt / mun ljá og veita skjól".
Hvað á að koma þarna á milli?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Guðdómlegt veður!
18.4.2008 | 09:48
"Sól slær silfri á voga" söng Óðinn Valdimarsson í útvarpinu rétt áðan "sjáðu jökulinn loga" og um leið hringdi ég í Möggu vinkonu, eins og alltaf þegar þetta lag hljómar. Þá hringjum við hvor í aðra og syngjum saman með Óðni. Sama hvernig stendur á. Og það var SVO gaman að syngja þetta í morgun - útsýnið úr stofuglugganum hjá mér var ólýsanlegt.
Gullið morgunmistur yfir spegilsléttum sjó og snævi þakin fjöllin allt í kring. Innst í firðinum mókti selur á ísnum sem er óðum að hverfa og fuglarnir ýfðu vængi, hristu sig og köfuðu allt í kring. Lóan er komin, urtöndin, tjaldur og stelkur. Álftaparið með ungann sinn frá í fyrra.
Það er yndislegt að vera til á svona degi. Verst hvað myndavélin mín er takmörkuð, það þýðir ekkert fyrir mig að taka mynd til að sýna ykkur. Í staðinn set ég inn þessa fallegu mynd sem hann Gústi vinur minn (Ágúst Atlason) tók í vetur þegar fyrstu geislar sólar kysstu Arnarfjörðinn. Birtan í myndinni er svipuð því sem blasti við mér í morgun.
Guð gefi ykkur öllum góðan dag.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Aðstoð forseta
17.4.2008 | 10:17
Það er ánægjulegt þegar æðstu embættismenn þjóðarinnar gefa sér tíma til þess að staldra við og huga að velferð náungans í annríki og erli daganna. Það hefði verið svo auðvelt fyrir forsetann að aka framhjá slysstaðnum - en hann gerði það ekki. Sá ástæðu til að láta stöðva bílinn og kanna hvort frekara liðsinnis væri þörf.
Við þessa frétt rifjaðist upp fyrir mér annað atvik frá því fyrir tuttugu og sex árum, þegar við systurnar vorum báðar í háskólanámi og bjuggum á hjónagörðum við Suðurgötu í Reykjavík. Í næsta nágrenni hélt þáverandi forseti, Vigdísi Finnbogadóttir, sitt einkaheimili, á Aragötunni.
Jæja, dag einn er mágur minn að reyna að koma bílnum út af bílastæðinu framan við Hjónagarðana, og er fastur. Kemur þá aðvífandi forsetabílinn sjálfur, Vigdís og dóttir hennar í aftursætinu, einkennisklæddur bílstjóri við stýrið. Það skiptir engum togum, forsetabíllinn stöðvar. Út snarast Vigdís og bílstjórinn og byrja að ýta - af öllum kröftum. Þau skildu ekki við mág minn fyrr en hann hafði losað bílinn. Dóttir Vigdísar horfði undrandi á aðfarir móður sinnar og sagði svo hlæjandi: Mamma þó, það er ekki sjón að sjá þig! Vigdís svaraði að bragði - myndir þú hlæja ef þú værir föst í snjónum og næsti bíll sem kæmi æki bara framhjá?
Svona eiga forsetar að vera.
Forseti hugði að hinni slösuðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Kompásinn og konurnar
16.4.2008 | 09:52
Í Kompássþætti gærkvöldsins var fjallað um áformaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum frá ýmsum hliðum. Þeir sem tjáðu sig um málið voru allt karlmenn - utan ein rússnesk kona sem starfar hjá þarlendu olíufyrirtæki.
Margt athyglisvert kom fram í þættinum varðandi sjónarspilið - mér liggur við að segja apaspilið - sem hróflað hefur verið upp í kringum þessa olíuhreinsistöð. Í því sambandi vil ég líka benda á færsluna mína frá því í gær um sýndarfyrirtækið Katamak-Nafta.
Hinsvegar mætti halda að málið væri óviðkomandi almenningi á Vestfjörðum, því enginn fulltrúi almennra íbúa tók til máls í þættinum. Þeir innlendu aðilar sem fengu að tjá sig um málið voru bæjarstjórarnir á Patreksfirði, Ísafirði og í Bolungarvík auk Ómars Ragnarssonar og Ólafs Egilssonar.
Og svo sannarlega hlýtur þetta mál að vera óviðkomandi kvenþjóðinni sem býr á Vestfjörðum, því engin kona fékk að segja álit sitt á málinu í þættinum. Þó veit ég að það var talað við a.m.k. tvær konur í undirbúningi þáttarins - ég veit það því ég er sjálf önnur þeirra.
Annað hvort höfum við Soffía Vagnsdóttir ekki sagt neitt af viti - eða sjónarmið okkar þykja ekki skipta máli - tja, nema hvort tveggja sé. Að minnsta kosti voru innleggin okkar tekin út.
Ég er svolítið sorgmædd yfir þessu - verð að játa það. En kannski ekkert mjög hissa, því miður.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sýndarfyrirtæki Íslensks hátækniiðnaðar?
15.4.2008 | 20:33
Þetta er dularfullt í meira lagi. Ég fór að leita að heimasíðu Katamak-NAFTA, fyrirtækisins sem Íslenskur hátækniiðnaður fullyrðir í fréttum að sé í samstarfi við sig um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Fyrirtækið sé dótturfyrirtæki Geostream (raunar spyr ég mig líka: Hvað er Geostream?)
Það sem ég fann um Katamak-NAFTA var eftirfarandi:
Heimilisfang í Dublin á Írlandi - og síða með slóðinni http://www.katamak.ru/english.html. Yfirskrift þessarar síðu er Iceland Petroleum Refining Company - íslenska olíuhreinsifélagið !!! Íslenski titillinn er líka á síðunni.
Þetta er það sem íslenskur hátækniiðnaður kallar "heimasíðu" fyrirtækisins - og þeir tala um sem raunverulegt fyrirtæki. Skoðið þetta bara sjálf. Efnislega er ekkert á síðunni nema tilvísanir í íslenska fjölmiðla. Ekkert um fyrirtækið sjálft.
Það er verið að hafa okkur öll að fíflum: Vestfirðinga, fjölmiðla, sveitarstjórnarmenn og almenning í landinu.
Og ef það er eitthvað sem hleypir í mig illu blóði þá er það þegar einhver reynir að spila með mig.
Nú bíð ég spennt eftir Kompás þætti kvöldsins.
Olíuhreinsistöð - hver er að stjórna?
15.4.2008 | 15:30
Þá hefur hulunni verið svipt af því hverjir standa á bak við hugmyndina um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ég segi hugmyndina - því það vill brenna við í umræðunni að menn tali eins og olíuhreinsistöð sé orðin staðreynd. Hún hljóti að koma úr því allir eru að tala um hana.
En nú hafa 24 stundir upplýst það sem líka kemur fram á skutull.is í dag, að það eru rússnesku olíurisarnir Gazprom og Lukoil sem standa þarna að baki. Þessi fyrirtæki ku vera samstarfsaðilar Geostream (móðurfyrirtækis Katamak-NAFTA) ásamt vestrænu olíufyrirtækjunum Shell og Exxon Mobil. Þetta eru sumsé fyrirtækin sem Íslenskur hátækniiðnaður hefur átt í viðræðum við um að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þá eru stór bandarísk verktakafyrirtæki, Halliburton og Washington Group, einnig nefnd sem samstarfsaðilar.
Á heimasíðu Katamak-Nafta kemur einnig fram að félagið hafi valið Íslands sem stað fyrir olíuhreinsistöð vegna þess að hér sé orkukostnaður afar lágur og að hér sé hagstætt fjárfestingaumhverfi. Þá er það talið til kosta að flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum og ákvörðunarferlið geti því gengið hratt fyrir sig.
Í máli Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra á Alþingi í síðustu viku kom fram að ráðuneytið hefði ekki vitneskju um hvaða fjárfestar stæðu að baki olíuhreinsistöðinni, sem yrði í heild verkefni upp á rúma 400 milljarða króna, ef af yrði.
Hann áréttaði einnig að losun stöðvarinnar myndi ekki rúmast innan losunarheimilda samkvæmt skuldbindingum Íslands fyrir árin 2008-2012. Því þyrfti annað tveggja að koma til, förgun/nýting koltvísýrings eða aðkeypt losunarheimild erlendis frá af hálfu framkvæmdaraðila.
Hvernig ætla stjórnvöld nú að leysa þennan vanda? Olíurisarnir fagna því að "flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum".
Ég verð að viðurkenna að nú er vakin hjá mér sá uggur í brjósti að kannski sé málið ekki raunverulega í höndum stjórnvalda - heldur misviturra sveitarstjórna sem líta á þetta sem sitt einkamál. Eins og við sáum til dæmis í Helguvíkurmálinu þar sem umhverfisráðherra virtist ekki geta haft áhrif, þó gefið væri sterklega í skyn að staða málsins væri henni á móti skapi.
Hmmmm .... Kyótó bókunin hvað? Ég er óróleg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)