Bubbi og Björn Jörundur eða Óðinn Valdimarsson?

Odinn Bubbi og Björn Jörundur hafa kynnt til sögunnar nýja útgáfu á laginu yndislega sem Óðinn Valdimarsson söng svo ógleymanlega á sínum tíma, "Ég er kominn heim" eða "Er völlur grær" eins og það heitir víst upphaflega.

Ýmsir hafa spreytt sig á þessu lagi eftir að Óðinn tók það. Bjöggi syngur það býsna vel - svo hafa Andri Bachmann og fleiri sungið það og tekist svona og svona.

En þó ég haldi mikið upp á Bubba og Björn Jörund, þá er ég ekki ýkja hrifin af þessu nýjasta tiltæki þeirra. Þeir bara ná ekki þessari sætu, gammeldags stemningu sem svífur yfir laginu.

Ég hef enn ekki heyrt nokkurn mann syngja þetta eins vel og Óðin heitinn - mýktin í söngstílnum hans er bara óviðjafnanleg. Hreint út sagt.

En fyrst ég er nú farin að tala um þetta. Þá hef ég heldur ekki enn náð einni línunni í textanum - sama hver syngur. Er einhver þarna úti sem getur upplýst mig um þetta?

Það sem mig vantar er í 2. erindinu sem hefst svona: Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól ...... Svo kemur eitthvað með "landið mitt / mun ljá og veita skjól".

 Hvað á að koma þarna á milli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ólína

Textinn er svona 

þar ungu lífi landið mitt

mun ljá og veita skjól

sigurður J hafberg (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 13:04

2 identicon

Allt er þetta svona, blessuð sé minning Óðins, kv frá Akureyri:

 ÉG ER KOMINN HEIM

 (LAG:THE WORLD LAUGHS ON. TEXTI JÓN SIGURÐSSON)

ER VÖLLUR GRÆR OG VETUR FLÝR,
OG VERMIR SÓLIN GRUND.
KEM ÉG HEIM OG HITTI ÞIG,
VERÐ HJÁ ÞÉR ALLA STUND.

VIÐ BYGGJUM SAMAN BÆ Í SVEIT,
SEM BROSIR MÓTI SÓL,
ÞAR UNGU LÍFI LANDIÐ MITT
MUN LJÁ OG VEITA SKJÓL.

 SÓL SLÆR SILFRI Á VOGA,
SJÁÐU JÖKULINN LOGA,
ALLT ER BJART YFIR OKKUR TVEIM
ÞVÍ ÉG ER KOMINN HEIM.

AÐ FERÐALOKUM FINN EG ÞIG,
SEM ÉG FAGNA HÖNDUM TVEIM,
ÉG ER KOMINN HEIM,
JÁ ÉG ER KOMINN HEIM.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 13:41

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Heheheh Gísli aðeins á undan, ég kunni textann líka

Ía Jóhannsdóttir, 20.4.2008 kl. 13:44

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kærar þakkir fyrir þetta - öll þrjú

Reyndar kunni ég textann allan nema þessi þrjú orð "þar ungu lífi"´sem ég heyrði aldrei.

Þetta er yndislegt lag - og Óðinn var yndislegur söngvari.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.4.2008 kl. 15:30

5 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Mikið erum við sammála núna stöllurnar - Óðinn syngur þetta lag eiginlega á fullkominn máta. Mér hefur lengi fundist textinn við lagið hreint út sagt stórkostlegur og með því rómatískasta sem heyrist  SÓL SLÆR SILFRI Á VOGA,
SJÁÐU JÖKULINN LOGA, - þetta er svo fallega ort og svo lifandi að ég fæ tár í augun þegar ég heyri þessar línur.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 20.4.2008 kl. 17:02

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Hann er hreint frábær textinn við þetta lag.

Marta B Helgadóttir, 20.4.2008 kl. 18:19

7 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sumt er einfaldlega þannig að ekki er hægt að gera það betur. Það finnst mér alla vega um söng Óðins á þessu lagi. Tilfinningin í söngnum er einstök og hrífandi og hljóðfæraleikurinn er líka með svo mikilli tilfinningu að hljóðfærin bókstaflega tala til manns. Það verða vandfundir aðilar sem geta bætt flutninginn á þessu lagi.

Sama á við um mörg önnur lög sem Óðinn söng.

Þá vil ég líka setja í sama flokk ýmsar ógleymanlegar perlur sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng. Sá maður hafði einstaka söngrödd og var langt á undan sinni samtíð með að geta tjáð viðkvæmar og hugljúfar tilfinningar í sínum söng. Þess vegna geta fáir bætt lögin hans. 

Blessuð sé minning þessara frábæru söngvara okkar. 

Guðbjörn Jónsson, 20.4.2008 kl. 18:42

8 Smámynd: Yngvi Högnason

Nú er ég þér afskaplega sammála.Hefur mér ætíð leiðst þegar sjálfsánægðir söngvarar halda að þeir geti betrumbætt gamlar perlur og eru þau nokkur sem að líta svo stórt á sig nú til dags.

Yngvi Högnason, 20.4.2008 kl. 19:37

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jájá, Ódi VAld var minnistæður söngvari og góður strákur að því mér hefur verið sagt, en eins og hjá mörgum öðrum slíkum var líf hans ekki beinlínis dans á rósum.

En hvað varðar Bubba og BJ, þá hefur nú hvorugur þeirra haldið því fram að þeir væru að betrumbæta söng Óðins eða að þeir "toppi" hann. Þetta er bara eins og alltaf fyrst og síðaðspurning um smekk og upplifun hvers og eins.

Magnús Geir Guðmundsson, 20.4.2008 kl. 21:02

10 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Sumt er bara ekki hægt að toppa. Ég verð t.d. alltaf jafn bit þegar söngkonur syngja lög sem Ellý Vilhjálms söng. Við eigum fullt af fínum söngkonum, en þær eiga að hafa vit á að koma ekki nálægt Ellý. Það er einfaldlega ekki hægt að bæta neitt sem Ellý kom nálægt og hana nú!!

Ragnhildur Sverrisdóttir, 20.4.2008 kl. 21:22

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stundum er það svo að söngvarar syngja eitt lag á ferlinum sem aðrir geta aldrei betrumbætt. Dæmi: Crazy með Patsy Cline, Kveldriður með Sigurði Ólafssyni, Ég vil fara upp í sveit með Ellý Vilhjálms, L-O-V-E með Nat King Cole, We´ll meet again með Veru Lynn. En góð lög og texttar verða aldrei of oft sungin.

Jón Sigurðsson í bankanum gerði marga frábæra texta og þessi er einn af þeim ef ég man rétt. Skrýtin er sú tilhneiging að líta fram hjá textahöfundum þegar fjallað er um lög og þau kynnt. Fólk virðist ekki átta sig á mikilvægi textanna nema þegar fræg skáld hafa ort þá eins og Laxness og Davíð Stefánsson.

Hve margir vita til dæmis að textinn "Ég fer í fríið" er eftir Iðunni Steinsdóttur? Ég fullyrði að í sambandi við það lag er textinn miklu mikilvægari en lagið. Hugmyndin að textanum var alfarið hennar og þetta lag væri annars löngu gleymt, hver sem hefði sungið það.

Ómar Ragnarsson, 20.4.2008 kl. 22:48

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mæltu manna heilastu Ómar - og  marga perluna hefur þú sjálfur slípað í textagerðinni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.4.2008 kl. 22:53

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek heilshugar undir með Ómari hvað textana varðar. Þeir eru mjög mikilvægir og ótrúlega oft horft fram hjá því hver samdi þá.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.4.2008 kl. 23:35

14 Smámynd: Jens Guð

  Það er ekki á færi neins að skáka söng Óðins í þessu lagi.  Kosturinn við uppátæki Bubba og Björns er að þeir kynna lagið fyrir yngra fólki sem vissi ekki af tilvist þessa lags.  Væntanlega með þeim afleiðingum að einhverjir munu kynna sér flutning Óðins á laginu.  Ég hef einmitt orðið var við að útvarpsstöðvar hafa verið að dusta rykið af flutningi Óðins - og jafnvel farið að spila fleiri lög með honum.

Jens Guð, 20.4.2008 kl. 23:39

15 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst þetta uppátæki Bubba og BJ bara mjög flott og er ánægð með að lagið skuli vera komið í svona mikla spilun, vonandi fer að heyrast útgáfa Óðins oftar eftir þetta.  Stundum er nauðsyn að nýjar raddir syngi svo ný kynslóð kynnist viðkomandi lagi. 

Ásdís Sigurðardóttir, 20.4.2008 kl. 23:50

16 identicon

Sæl Ólína.

Sem betur fer erum við ekki öll eins hvað varðar hrifnæmi á söngraddir,þá væri lítið gaman.En ég tek undir það sem þú segir.Það söng þetta enginn betur en Óðinn.

Ég man eftir því þegar ég var púki vestur á Ísafirði þá stóðum við krakkarnir bak við UPPSALIR og biðum eftir að Óðinn hinn eini syngi þetta lag. Hann var þá að skemmta á Ísafirði.  þetta man ég.  Sæl að sinni.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 07:40

17 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Bubbi og Björn Jörundur gera margt gott, en ég er ekki hrifin af þessu lagi með þeim.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 21.4.2008 kl. 08:59

18 identicon

Mér finnst lagið æði með þeim félögum Bubba og Birni Jörundi. Óðinn er góður, en dottin úr tísku og lagið hefði ekki komið manni í þetta dásamlega góða skap þessa dagana með sínum fallega texta ef þeir hefðu ekki tekið það upp á arma sína.  'Eg var líka alveg gasalega þakklát Björgvini Halldórs á sínum tíma, þegar hann tók sig til og bjó til 'Islandslög, sem héldu í manni lífinu í Danaveldi í mörg ár. Það er allt í lagi að endurnýja og ekki bara láta gamlar útgáfur rykfalla og deyja drottni sínum gleymdar og grafnar. Eitt er víst í þessu lífi, að allt breytist...og líka bara full þörf á því.

knús vestur, Maríanna

Maríanna (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband