Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Til hvers mannanafnanefnd?

l_gallery46deb374c6ea2 Vinkona mín sendi mér að gamni lista  sem nú gengur eins og logi yfir akur á netinu. Þetta var sagður listi yfir þau nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt. Mér þótti listinn svo sundurgerðarlegur að ég vildi ekki trúa honum. Svo ég lagðist í svolitla rannsókn.

Það tók ekki langa stund með leitarinnslætti í úrskurðum mannanafnanefndar að sjá að fyrrnefndur listi er býsna sannverðugur. Þó að nöfnin Ljósálfur, Dreki og Kaktus finnist ekki í úrskurðum mannanafnanefndar, þá eru þar nöfn eins og Kristall, Kópur, Kveldúlfur, Hraunar, Hnikar, Skefill, Sírnir, Skæringur, Galdur og Grani. Sömuleiðis kvennanöfnin Kapítóla, Kaðlín, Randalín, Venus, Vígdögg, Stjarna, Blíða, Þrá og Ósa.

Í lögum um mannanöfn segir í 5. gr. að nafn megi ekki vera þannig að það sé nafnbera til ama. Við getum auðvitað deilt um fagurfræðina - en ég öfunda ekki dreng sem þarf að bera nafn á borð við Kveldúlfur Kópur eða Skæringur Sírnir. Og ekki vildi ég heita Kaðlín Ósa, Randalín Venus, Blíða Þrá, eða Kapítóla Stjarna.

Þó að nöfn eins og Kristall, Venus, Blíða og Stjarna hafi fallega merkingu þá get ég ekki að því gert að mér finnst þau fara betur á búpeningi en börnum.

Þetta er sjálfsagt smekksatriði - maður getur svosem aldrei deilt um smekk. 

Hinsvegar spyr ég mig að því til hvers við séum með mannanafnanefnd þegar það virðist nokkuð ljóst að hún getur ekki með nokkru móti framfylgt þessari 5. gr. mannanafnalaga - og reynir það ekki. Megintilgangur nefndarinnar virðist vera sá að tryggja að eignarfallsendingar falli að íslensku málkerfi. Um merkingu og áferð nafna hirðir nefndin ekki, enda ægir öllu saman í úrskurðum hennar, íslenskum og erlendum nöfnum innanum nafnskrípi sem enginn skilur.

Mætti ég þá frekar biðja um nefnd sem verndar lítil börn fyrir því að sitja uppi með nafnskrípi sem þau líða fyrir og þeim er strítt á - skítt með eignarfallsendingarnar. Angry


Skortstöður - gengisvísitala - úrvalsvísitala - "grænt" útlit ??

Evra-AlvaranCom Þessa dagana eru íslenskir fjölmiðlar vaðandi í fjármálafréttum. Allt í einu er ég orðin æsispennt yfir stöðu mála, og fylgist áfjáð með sveiflum gengisins, stýrivaxtahækkunum og úrvalsvísitölu ... og, og ... ööö ... skil ekki neitt í neinu. Errm

Hvernig á svona meðalgreind manneskja með venjulegt máluppeldi annars að botna upp eða niður í þungum ásökunum á hendur fjárfesta um að þeir taki skortstöður í íslenskum hlutabréfum og skuldatryggingum. Hvað er það þegar menn "keyra skuldatryggingaálagið upp"? Og hvernig á maður að botna í þessu með hækkun gengisvísitölu sem þýðir lækkun gengis en hækkun verðlags?

Svo féll mér nú allur ketill í eld þegar ég las í einni af fjölmörgu fjármálafréttum vefmiðla í dag að það hafi verið "grænt" um að litast í Kauphöll Íslands við lokun markaða enda hafi úrvalsvísitalan endað  í 5450 stigum og hækkað um 0,40 prósent. Shocking

Skyldu blaðamenn sjálfir botna eitthvað í þessu? Spyr sú sem ekki veit . Woundering


Denni gangbrautarvörður og Helgi Seljan

Í gærkvöldi lá ég húðlöt og horfði á Kastljósið. Helgi Seljan og Ingibjörg Sólrún stóðu sig bæði vel í viðtali sem hann tók við hana. Helgi sýndi á sér svolítið nýja hlið - var pollrólegur en um leið mjög beinskeyttur í spurningum. Hann er að verða faglegri með tímanum og þetta kúl fer honum vel. Ingibjörg Sólrún lét ekki bifast og svaraði í samræmi við tilefnið - en hún var augljóslega í svolítið þröngri stöðu um tíma. Svaraði samt af rökvísi og skynsamlegu viti.

En viðtalið sem heillaði mig í þessu Kastljósi var tekið við Denna gangbrautarvörð. Denni mætir í kofann sinn á hverjum degi og gætir þess að bílarnir stöðvi fyrir vegfarendum sem þurfa að komast yfir götuna. Sérstaklega finnur hann til ábyrgðar gagnvart yngstu börnunum, eins og skiljanlegt er. Einnig langar hann mjög að koma ákveðnum skilaboðum til ökumanna sem fara um gangbrautina hans dags daglega.

Það hvernig þessi maður talaði um skyldur sínar og hlutverk snart mig djúpt. Virðingin fyrir starfinu skein af hverju hans orði og öllu hans fasi. Það var eitthvað heimspekilega fagurt við þetta. Og mig langaði bara til þess að hneigja mig fyrir honum.

Það geri ég hér með.


Hvers vegna Bolungarvíkurgöng?

Þá á ég við nafngiftina. Göngin liggja ekki undir Bolungarvík - heldur til Bolungarvíkur frá Ísafirði. Þau liggja um Óshlíð og ættu því að heita Óshlíðargöng.

gongin-deiglan.is  Ekki köllum við Hvalfjarðargöngin Akranessgöng, eða Kjósargöng. Þau liggja um Hvalfjörð og þess vegna heita þau Hvalfjarðargöng. Myndum við nefna göng undir Hellisheiði Hveragerðisgöng, eða Rauðavatnsgöng?

Nafnið Bolungarvíkurgöng er hugsunarvilla.  Kannski er þetta til komið vegna þrýstings frá heimamönnum - Bolvíkingar eru oft býsna seigir við að koma nafni bæjarfélagsis að. Ekkert nema gott um það að segja.

Hitt er svo annað mál að kannski er þetta réttnefni eftir allt saman - því þessi göng gagnast auðvitað fyrst og fremst Bolvíkingum - þau eru mikilvægt umferðaröryggismál fyrir þá.

Aðrir Vestfirðingar bíða enn eftir því að komast í heilsárs vegasamband við landið. En það er önnur saga.

Ég óska Bolvíkingum til hamingju. Megi þeir vel njóta.


mbl.is Verksamningar Bolungarvíkurganga undirritaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er stjórnsamur strumpur

Papa_Smurf Ég stóðst ekki mátið og tók strumpaprófið sem allir eru að taka núna. Og það er engum blöðum um að fletta, ég er stjórnsamur strumpur, Papa Smurf: Þessi sem stjórnar og ræður, vill öllum vel, hefur stundum þungar byrðar að bera en leitast við að bæta heiminn og njóta þess einfalda og fagra. Jammm ... ég er engill í mannsmynd Halo bara svolítið stjórnsamur engill. Wink

Hvenær skyldi heimurinn átta sig á þessu - hvílíkt gull ég er ?? 

Prófið endilega sjálf - það er gaman að þessu. Smile


Ný samtök fæðast

 P1000381 Þá eru Náttúruverndarsamtök Vestfjarða orðin að veruleika, með fjölmennum stofnfundi sem fór fram í Hömrum á Ísafirði í gær. Skutulsfjörðurinn skartaði sínu fegursta í tilefni dagsins. Sólin skein á snæviþakin fjöllin og sindrandi hafflötinn. Guð láti gott á vita. Smile

P1000378 Það gladdi okkur sérstaklega að Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra skyldi sjá sér fært að koma vestur og ávarpa stofnfundinn ásamt þeim Árni Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómari Ragnarssyni, formanni Íslandshreyfingarinnar. Ómar lauk máli sínum með því að fara með stórbrotið ljóð eftir sjálfan sig sem nefnist Kóróna landsins. Hann flutti ljóðið - öll fjórtán erindin - blaðalaust og gerði það með glæsibrag.

Fundurinn heppnaðist í alla staði vel og góður andi sveif yfir salarkynnum. Bryndís Friðgeirsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði, var kosin formaður samtakanna.

Í fundarlok var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Samtökin hvetja til þess að tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði. Þá leggja samtökin til að ríkissjóður veiti fjármuni til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum.

Á eftir fórum við sem höfðum staðið að undirbúningi samtakanna léttum okkur aðeins upp saman eftir þetta alltsaman. Enda full ástæða til  - það er ekki á hverjum degi sem samtök fæðast.


Athyglisvert

Hefði rektor getað áminnt Hannes áður en dómur var fallinn, úr því starfs- og siðareglur innan háskólans voru álitnar ófullnægjandi? Varla.

Var ekki einmitt verið að bíða afdráttarlausrar niðurstöðu dómstóla, svo enginn vafi léki á um brotið - svo hægt yrði að bregðast við því með viðeigandi hætti? Það hélt maður.

Nú er þessi bið - fjögur ár - orðin að ástæðu til þess að aðhafast ekki í málinu.

Athyglisvert.

Samt er felldur efnislegur áfellisdómur. Rektor telur brotið "efnislega verðskulda áminningu" eins og segir í bréfinu. Sú verðskuldaða áminning er þó ekki veitt vegna "þess stranga lagaramma sem skólanum er gert að fylgja."

Sé þetta tilfellið - þá er kannski kominn tími til að endurskoða stjórnsýslulögin. Kannski er það bara hin sára staðreynd, að stjórnsýslulögin geti ekki l lengur verndað opinberar stofnanir fyrir brotum starfsmanna. Kannski eru lögin bara óljós loðmulla sem skilur bæði hið opinbera og starfsmenn þess eftir í réttaróvissu. 

Ég er þó ekki viss um að svo sé. Hið "flókna" í þessu máli er ekki endilega löggjöfin sjálf, heldur hefðirnar sem skapast hafa við beitingu hennar. Eða ætti ég að segja skorti á beitingu hennar. Því yfirstjórnir ríkisstofnana veigra sér við því í lengstu lög að láta reyna á stjórnsýslulögin - og menn eru hreint ekki á einu máli um valdsheimildir þeirra. Það er nú vandinn.  Annar vandi - og kannski enn stærri - er skortur á siðareglum og/eða hefðum fyrir beitingu þeirra innan háskólans.

Þetta vefst þó ekki fyrir þeim við Háskólann í Durham í Bretlandi, ef marka má þessa frétt. Umræddur deildarforseti vék úr starfi um leið og ásakanir komu fram á hendur honum um ritstuld. Hann var svo rekinn meðan rannsókn fór fram og að því loknu sviptur doktorstitli sínum.

Já, ólíkt hafast þeir að háskólarnir í Durham og við Suðurgötu - en ekki skal ég fullyrða um lagaumhverfi þeirra hvors um sig. 


mbl.is Átelur vinnubrögð Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óboðleg líkamsræktartæki - tilvalin fyrir landsbyggðina!?

thjalfun Þessi frétt birtist á visir.is nú skömmu fyrir hádegi:

 „Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldann allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyrirtækið keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun. Tilvalið fyrir fólk á landsbyggðinni" segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitunni /.../ Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum í Reykjavík. „Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sýnum viðskiptavinum, við gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún en öll tækin verða seld í einu lagi.“

Hmmm ... líkamsræktartæki sem þykja "ekki boðleg" lengur ... nema landsbyggðafólki. FootinMouth

 


Hvað skal með Hannes?

kristin1 Já,  hvað á háskólarektor að gera við Hannes Hólmstein Gissurarson nú þegar hæstiréttur hefur dæmt hann fyrir ritstuld? Vefsíðan kistan.is hefur undanfarinn sólarhring beint nokkrum spurningum til háskólasamfélagsins um þetta mál. Af þeim svörum sem komin eru er ljóst að menn vilja að háskólarektor aðhafist á einhvern hátt og að menn telja dóm hæstaréttar eðlilegan.

HannesHolmstetinn 

Salvör Gissurardóttir bloggar í dag um þetta tiltæki kistunnar.is og telur að þarna sé ómaklega vegið að Hannesi bróður hennar. Hann sé þarna hafður að háði og spotti. Það er full ástæða til þess að hafa það sjónarmið í huga að hugsanlega fari menn offari í þessu máli. Söfnun álita eins og á sér stað á kistunni.is getur orkað tvímælis - því með henni er hætt við að það myndist sveifla eða stemning sem kannski er ekki nægilega yfirveguð. Aðgerðarleysi  og þögn háskólans á þar trúlega nokkra sök.

 

Þó er ég ekki sammála bloggvinkonu minni Salvöru. Þeir fræðimenn sem tjá sig á vefsíðu kistunnar eru (flest)allir að gera það af af einurð sýnist mér. Ég er ein þeirra sem svaraði spurningum vefsíðunnar og gerði það af fullri alvöru, þó ég hefði ekki mörg orð. Fólki finnst að rektor - eða yfirstjórn háskólans - eigi að bregðast við. Fólki líður illa með stöðu málsins eins og hún er. Þetta verður að virða og það er full ástæða líka til þess að þetta komi fram.

Mál Hannesar hefur leitt eitt gott af sér - og það er umræðan og aukin vitund um meðferð ritheimilda í fræðiskrifum.  

Dr. Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, kemur inn á það mál í sínu svari  til kistunnar. Þar vekur hann athygli á þeim plagsið fræðimanna að stela verkum og hugmyndum með því að vitna ekki í frumheimildir, heldur milliliði. Höfundur A setur fram hugmynd eða kenningu sem B tekur upp. Síðan kemur C og notar kenninguna með því að vitna í B en ekki A.

Fyrir þessu hafa margir orðið, m.a. Gísli sjálfur, ég og margir fleiri. Þessi umræða er löngu tímabær - og mál til komið að hrista háskólasamfélagið aðeins til varðandi þetta, því þarna eiga margir sök.

Þó að svar Gísla sé yfirvegað og sett fram af sanngirni, get ég þó ekki tekið undir allt sem hann segir. Hann telur til dæmis að háskólayfirvöld geti ekki vikið Hannesi úr starfi vegna þess að hann hafi ekki brotið hegningarlög.

Brot í starfi þarf ekki að snúast um almenn hegningarlög - heldur gildandi starfsreglur. Séu þær brotnar, þá hlýtur viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að bregðast við. Það er svo kaleikur yfirstjórnar stofnunarinnar að bregðast rétt við - en þann kaleik vill sjálfsagt enginn taka af háskólarektor eins og sakir standa.


Vestfirsk náttúra eignast málsvara

ArnarfjordurAgustAtlason Á laugardaginn verða stofnuð samtök til verndar vestfirskri náttúru - og var mál til komið. Ég hef verið að stússast í undirbúningi að stofnun þessara samtaka nú um nokkurt skeið ásamt góðu fólki (aðallega konum). Með framtakinu má segja að vestfirsku náttúruverndarsamtökin sem sofnuðu út af fyrir um tveimur áratugum gangi nú í endurnýjun lífdaga undir heitinu Náttúruverndarsamtök Vestfjarða (en hétu áður Vestfirsk náttúruverndarsamtök).

Dynjandi01 Vestfirsk náttúruverndarsamtök voru upphaflega stofnuð í Flókalundi árið 1971. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og  áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Af einhverjum ástæðum féll starfsemin niður eftir fimmtán ár og hefur legið niðri síðan. Nú er því mál að vakna. Nýting Hornstrandafriðlandsins, áform í ferðamennsku, rannsóknir og nýting náttúrugæða og vistkerfis, umræða tengd olíuhreinsistöð, pólsiglingum, hafnarmannvirkjum og samgöngum - allt kallar þetta á að vestfirsk náttúran hafi formlegan málsvara í heimabyggð.

bardastrond Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur stofnfundarins sem verður haldinn kl. 14:00 í Hömrum á Ísafirði. Hún mun ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson. Úr hópi heimamanna munu Þórhallur Arason, Sigríður Ragnarsdóttir og Ragnheiður Hákonardóttir taka til  máls. Ég hef tekið að mér fundarstjórn og mun gæta þess að allt fari vel og virðulega fram.  Wink

DyrafjordurAgustAtlason Helstu verkefni náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku náttúrufegurð sem hér ríkir og hún er stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum.

 

Við hvetjum því Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta haft samband við mig (s. 8923139), Bryndísi Friðgeirsdóttur (864 6754) eða Sigríði  Ragnarsdóttur ( 861 1426) eða sent tölvupóst á netfangið smg5@simnet.is.

Sjáumst vonandi sem flest á laugardag Smile  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband