Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Biðleikur í bráðum vanda

Jæja, það hafðist að ná einhverskonar niðurstöðu í deilu hjúkrunarfólks og yfirstjórnenda LSH, a.m.k. um tíma. Þar með var afstýrt yfirvofandi neyðarástandi sem annars hefði skollið á kl 12 á miðnætti.

En þetta er biðleikur í stöðunni, og þess vegna of snemmt að fagna "sigri", eins og mér virðist þó sumir vera farnir að gera. Vitanlega verða báðir málsaðilar að nota ráðrúmið sem gefst næsta árið til þess að vinna sig að niðurstöðu um sjálft deiluefnið. Það er auðvitað óleyst enn.

Það er stjórnendum LSH til sóma að hafa rifað seglin frekar en að stranda skútunni. Hér gildir ekki að knýja fram einhverskonar sigur til að geta barið sér á brjóst. Það getur enginn sigrað í svona stöðu. Og það verða hjúkrunarfræðingar líka að skilja - málið varðar aðra og mikilsverðari hluti en það hver geti lýst sig sigurvegara. 

Heilbrigðisráðherra fær (h)rós í hnappagat frá mér fyrir að leggja sitt af mörkum - já, og mæta sjálfur til fundar þegar mikið lá við.


Takist ekki að leysa hnútinn - þá þarf að höggva á hann

nurseB Það er ekkert sem heitir, heilbrigðisráðherra verður sjálfur að ganga í þetta mál og leysa það. Stjórn spítalans getur það augljóslega ekki - og starfsfólk virðist ekki vilja það. Kergja á báða bóga og lítill sem enginn samstarfsvilji, hjá hvorugum deiluaðila. Starfsfólkið neitar að viðurkenna rétt stjórnendanna til þess að stjórna spítalanum, stjórnendur á hinn bóginn vilja ekki beygja sig fyrir kröfum starfsfólks.

Þrátefli og reiptog - og ekkert gengur - neyðarástand yfirvofandi.

Eins og fyrri daginn eru það sjúklingar spítalans sem líða fyrir átökinn - þeir virðast bara hafa gleymst.

Úr því sem komið er verður bara að taka málið úr höndum stjórnar spítalans - höggva á hnútinn ef ekki tekst að leysa hann.

 


mbl.is Neyðaráætlun með öðrum spítölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga yfirlýsinganna

gengið  Það er víðar verðbólga en í efnahagskerfinu - og sú verðbólga er líka að fara upp úr öllu valdi. Ég er að tala um verðbólgu orðanna. Yfirlýsingar stjórnmálamanna verða sífellt gífurlegri og æsingakenndari - og um leið rýrari að inntaki, rétt eins og verðgildi krónunnar.

Guðni Ágústsson er mætur maður - að mörgu leyti sjarmerandi á sinn sérkennilega hátt. "Glíminn og skemmtinn" sagði samverkamaður hans um hann eitt sinn. Mér fannst sú lýsing eiga vel við þá hugmynd sem ég hef gert mér um Guðna.

En það klæðir hann ekki vel að vera í stjórnarandstöðu. Til þess hefur hann einfaldlega setið of lengi við stjórnartaumana sjálfur. Það eru nefnilega Guðni og hans samverkamenn í fyrrverandi ríkisstjórnum - mörgum ríkisstjórnum, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar - sem hafa skapað þau skilyrði í efnahagslífinu sem við erum að klást við nú. Að svo miklu leyti sem sá vandi er heimatilbúinn. Stóryrtar yfirlýsingar Guðna og ákall hans um aðgerðir hafa því holan hljóm.

En við skulum ekki gleyma því að gengisfall krónunnar og verðhækkanir undanfarinna daga eru utanaðkomandi vandi. Og þó ég treysti ríkisstjórninni til ýmissa hluta, þá dreg ég í efa getu hennar til þess að lækka heimsmarkaðsverð á olíu eða vinna bug á þeim samdrætti og erfiðleikum sem við er að eiga á erlendum fjármálamörkuðum.

Það hryggir mig - nú þegar hefur harðnað í ári - að sjá menn eins og Guðna Ágústsson hlaupa í ábyrgðarlaust lýðskrum með hrópum og köllum. Sömu menn og stýrðu þjóðarskútunni í logni undanfarinna góðæra, værukærir og makráðugir.

Stjórnarandstöðunni væri nær að setjast á rökstóla með ríkisstjórninni - bjóða fram ábyrga aðstoð nú þegar gefur á bátinn. Það er að segja, ef þörfin á aðgerðum hér innanlands er svo brýn sem Guðni vill vera að láta - og lausnirnar raunverulega á færi stjórnvalda.

Til þess eru stjórnmálamenn kosnir af þjóð sinni - að þeir hlaupi ekki með ýlfrum og gólum í hælana á hrossinu þegar klyfjarnar hallast, heldur gangi með öðrum undir baggana þegar þess gerist þörf.

Þjóðinni væri a.m.k. meiri þökk í því en að hlusta á þetta þras  - og fjas sem ekkert er á bak við þegar á reynir. 

 


mbl.is Telur að ríkisstjórnin eigi að segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjósund í sumarbyrjun

Sjosund3 Þeir skelltu sér bara í sjósund á sumardaginn fyrsta, Hjörvar sonur minn og Róbert vinur hans. Stungu sér fram af smábátabryggjunni. Halldór Sveinbjörnsson ljósmyndari á bb.is smellti þessum myndum af þeim og var svo elskulegur að senda mér þær. Þeir eru býsna borubrattir þarna á fyrstu mynd þar sem þeir eru að stinga sér út í.

sjosund1 Hér mætti ætla að annar þeirra sé að hugsa um að hætta við - en úps, kominn of langt. Wink

sjosund2 Hraustlega gert hjá þeim drengjunum. Cool

 

Frétt um þessa karlmennskudáð er á bb.is (smellið HÉR).


"Sneri niður" lögregluþjón?

Nei kallinn minn, þú nefbraust óviðbúinn lögregluþjón!

Sjálfsréttlæting er ekki það sama og afsökunarbeiðni. 

Ætli maður að fá fyrirgefningu er nú það minnsta að gangast við því sem maður hefur gert.

 

 


mbl.is Missti stjórn á skapi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dylgjur og meirihlutamyndun í Bolungarvík

  AnnaGudrunEdvardssoffiaVagns  Ég get ekki stillt mig lengur um að segja nokkur orð um stjórnarskiptin í bæjarstjórn Bolungarvíkur. Sú atburðarás hefur verið með ólíkindum.

Oddviti A-listans, Anna Guðrún Edvarðsdóttir, klauf sig út úr Sjálfstæðisflokknum fyrir síðEliasJonatanssonustu kosningar og bauð fram A-listann. Hún gat ekki hugsað sér að Elías Jónatansson oddviti Sjálfstæðismanna yrði bæjarstjóri í Bolungarvík. Eftir kosningarnar tók A-listinn upp samstarf við K-listann þar sem Soffía Vagnsdóttir hefur verið í forsvari. Nú hefur því meirihlutasamstarfi verið slitið til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn til öndvegis við stjórnun bæjarins að nýju og gera þann hinn sama Elías að bæjarstjóra. 

Eiginlega hefði listi Önnu Guðrúnar átt að bera bókstafinn K og heita K-listinni, klofningsafl.

En þó svo að Anna Guðrún segist hafa ástæðu til samstarfsslitanna, þá skortir hana rökin. Það kemur æ betur ljós eftir því sem frá líður. 

Meirihlutasamstarf A og K lista hafði verið farsælt og áorkað ýmsu. Enginn málefnalegur ágreiningur var til staðar.  Hinsvegar segir Anna Guðrún að hætta hafi verið orðin á "hagsmunaárekstrum" vegna aukinna umsvifa Soffíu Vagnsdóttir og hennar fjölskyldu í atvinnurekstri bæjarins. Enginn slíkur hagsmunaárekstur mun þó hafa komið upp. Hvað um það, A-listafólk taldi vissara að leiða frekar til valda eiganda annars fjölskyldufyrirtækis í bænum. Shocking Málefni þess fyrirtækis hafa nú þegar verið inni á borði bæjarstjórnarinnar og munu vafalítið koma þangað aftur.  

Þegar rökin skortir birtast oft réttlætingar. Því virðist oddviti A-listans hafa gripið til þess ráðs að dylgja um óheiðarleika og trúnaðarbrest milli sín og Soffíu Vagnsdóttur. Gefa í skyn að eitthvað óhreint sé í pokahorninu, eitthvað sem eigi eftir að koma í ljós, en hún "kjósi" að tjá sig ekki frekar um að sinni.

Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds ... enda heyri ég hér enduróm af annarri umræðu sem stóð sjálfri mér nær fyrir u.þ.b. tveimur árum. Einhver kona orðin of umsvifamikil og stór, farin að gera of mikið ... að þessu sinni í Bolungarvík. Hálfkveðnar vísur, umtal.

Fæstir geta gert sér í hugarlund hvílíkt kvalræði það er að sitja undir málflutningi af þessu tagi og geta ekki rönd við reist. Það er sannkölluð mannraun. Þess vegna finnst mér að við svo búið megi ekki sitja í þessu máli . Það má ekki verða lenska að fólk geti sagt nánast hvað sem er um hvern sem er án þess að standa fyrir máli sínu. Hagsmunagæsla má aldrei vera hafin yfir leikreglur.

Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á umsvifum Soffíu Vagnsdóttur eða samstarfshæfi. Hvorugt þekki ég. Ég veit það eitt að athafnamenn hafa alltaf setið í bæjarstjórn Bolungarvíkur og víðar á landinu: Hvað sjáum við ekki í Kópavogi, er ekki bæjarstjórinn þar umsvifamikill atvinnurekandi?

En ásakanir um óheiðarleika og trúnaðarbrest eru alvarlegt mál. Enginn stjórnmálamaður sem vill teljast ábyrgur orða sinna getur sett slík ummæli fram án þess að færa fyrir þeim haldbær rök eða sannindi.  Anna Guðrún Edvarðsdóttir ætti að sjá sóma sinn í því að gera það, eða draga orð sín til baka.

Geri hún hvorugt, hefur hún gert sjálfa sig að ómerkingi.


Meiri maður en Vilhjálmur Þ - en við hvern var Lára að tala?

Lára Ómarsdóttir - sem nú hefur ákveðið að hætta störfum sem fréttamaður á Stöð-2 eftir óheppileg ummæli sem hún lét falla á vettvangi atburða í fyrradag - er maður að meiri fyrir vikið.

Og hún  er meiri maður en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík, fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóri.

Lára kveðst hafa talað í gríni við starfsfélaga. Gráglettni er nokkuð sem erfitt getur verið að meta af þriðja aðila sem heyrir tilvituð orð á öðrum stað og annarri stund.

En það er nokkuð sem vekur athygli þegar hlustað er á hljóðupptökuna, sem þið getið heyrt hér. Það er engu líkara en Lára sé að reyna að koma til móts við tilmæli einhvers hinumegin á línunni. Hver var það? Enn og aftur verður að setja fyrirvara um eftirátúlkun þriðja aðila - en það er eitthvað sem slær mig undarlega við þetta samtal. Og ef ég ætti að hafa túlkunarvald, þá myndi ég veðja á að þarna séu tveir samstarfsmenn að ræða sína á milli um mögulega sviðsetningu.

Nú hefur annar þeirra sagt upp starfi sínu - hinn ekki. Og hvor skyldi hafa verið hærra settur?

En hvort sem Lára var nú að grínast eða ekki - og hvort sem hún ætlaði að þóknast einhverjum hærra settum á Stöð-2 eða ekki - þá eru viðbrögð hennar ábyrg. Hún hefur axlað sína ábyrgð - það er meira en sagt verður um ýmsa sem þó bera þyngri ábyrgð á velferð almennings  en einn fréttamaður á sjónvarpsstöð.

Ég óska Láru velfarnaðar í þeim verkefnum sem bíða hennar - og þess verður vafalaust ekki langt að bíða að hún finni hæfileikum sínum og kröftum viðnám á verðugum vettvangi.

----------

PS: Ég heyrði í sjónvarpinu í kvöld að Lára væri fimm barna móðir. Ég er sjálf fimm barna móðir, var einu sinni fréttakona á sjónvarpinu. Sömueliðis Ólöf Rún Skúladóttir sem ég held að eigi fjögur eða fimm börn, og Jóhanna Vigdís líka, ef mér skjátlast ekki. Hvað er þetta með fréttakonur og frjósemi??


mbl.is Hættir sem fréttamaður á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dimmitantar vekja gamla skólameistarann sinn

 dimmisjon08 Ég vaknaði við hávaða í morgun, gaul og trommuslátt. Klukkan ekki nema rétt rúmlega sex. Hundurinn var órólegur og þegar ég nuddaði stírurnar úr augunum rann það upp fyrir mér að vorboðarnir voru komnir fyrir utan húsið mitt. Dimmitantarnir úr Menntaskólanum á Ísafirði að kveðja gamla skólameistarann sinn.

Þegar ég kom út á svalirnar, heldur úfin og argintætuleg í morgunsárið, höfðu þau raðað sér upp. Um það bil fjörtiu sætir, litlir póstmenn - eða voru þau Super Mario ? - ég er ekki viss. En svo mikið er víst að þau brustu þau í söng: 

"Það er sárt að sakna, einhvers - lífið heldur áfram til hvers" sungu þau sterkum rómi, og héldu áfram: "Er ég vakna, Ó - Ólína þú er ekki lengur hér!"

Það var þung áhersla á Ó-ið og svo aukataktinn í Ólína. Augljóslega vel æft. Svo skelltu þau sér beint í "Gaudeamus" sem þau sungu með prýði og virtust kunna ágætlega.

Eins og fyrri daginn hlýnaði mér um hjartaræturnar. Eftir nokkrar kærleikskveðjur héldu þau svo för sinni áfram, og ég stóð eftir með kveðjuþela fyrir brjóstinu, og eitthvað í auganu.

Ennþá finnst mér ég eiga svolítið í þeim - og svo sannarlega eiga þau heilmikið í mér.

Heart

Takk fyrir heimsóknina elskurnar - megi lífið brosa við ykkur eins og sólin gerði í morgun.


Gleðilegt sumar

fifill Gleðilegt sumar bloggvinir og lesendur góðir. Það eru víst síðustu forvöð að brúka mannasiðina og óska gleðilegs sumars, svona áður en sól hnígur til viðar á þessum fyrsta degi sumars.

Ég hef það mér til afsökunar að hafa verið vant við látin í allan dag. Sem stjórnarmaður í Menningarráði Vestfjarða var ég við þau ljúfu skyldustörf að vera viðstödd afhendingu á styrkjum til 48 menningarverkefna sem menningarráð hefur úthlutað að þessu sinni. Afhendingin fór fram á Hólmavík þar sem mikið var um dýrðir í dag. Hólmvíkingar eru að taka í notkun nýtt Þróunarsetur sem jafnframt var til sýnis fyrir almenning, svo það fór vel á því að tilkynna um úthlutun menningarráðs af sama tilefni. Athöfnin fór  fram í félagsheimilinu þar sem ungmenni staðarins skemmtu gestuM með brotum úr uppfærslu leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi. Boðið var upp á kaffi og tertur og allir í hátíðarskapi.

Sólin skein og fánar blöktu við hún. Þetta var reglulega góður dagur.

ps: Munið svo eftir að taka eftir því hvernig ykkur verður svarað í sumartunglið - megi það vita á gott. Smile

 


GAAAS, GAAAS! - Getum við ekki látið einhvern kasta eggjum?

Jeminn eini - það er agalegt að horfa upp á þetta (smellið hér ).

Hvað gerðist eiginlega í dag? Misstu allir glóruna?

GAAAAS - GAAAAS - GAAAS - öskrar ungur lögreglumaður með úðabrúsa sem hann beitir augljóslega sem vopni en ekki varnartæki gegn mannfjöldanum.

"Við getum kannski látið einhvern kasta eggjum rétt á meðan við erum live?" segir ung fréttakona á Stöð-2 svo heyrist skýrt á einu upptökutækinu. Sama fréttakona spyr áköf af hverju lögreglan beiti ekki sömu hörku við flutningabílstjórana og umhverfisverndarsinnana í fyrra. Það er óþægileg ögrun í röddinni.

Lögreglumaðurinn sem verður fyrir svörum segir - líka með ákefðarglampa í augum: "Bíddu bara í  nokkrar mínútur, þá skulum við sýna þér hvernig við látum verkin tala!" Var lögreglan á þeirri stundu búin að ákveða að beita valdi? Þegar maður gerir sig líklegan til þess að fara að fyrirmælum lögreglu og fjarlægja bíl sinn, þá er hann handtekinn með látum.

Það leynist engum sem sér þessi myndskeið sem ganga á netinu núna og sýnd voru á sjónvarpsstöðvunum í dag, að adrenalínið tók stjórnina. Ábyrgir aðilar, lögregla og fjölmiðlar voru farnir að láta sig dreyma um valdbeitingu áður en atburðarásin hófst - með ofbeldi, ryskingum og eggjakasti. 

Það var sárt að sjá þarna ráðalausa unglinga horfa upp á þessar aðfarir. Menn liggja blóðuga og ofurliði borna í götunni - öskrandi lögreglumenn og bílstjóra. Þarna var svo augljóslega farið yfir mörkin - í orðsins fyllstu merkingu: Mörkin sem lögreglan setti sjálf - gula bandið sem strengt hafði verið milli lögreglu og mótmælenda. Svo ruddist lögreglan sjálf yfir þessi mörk í átt að fólkinu.

Er þetta fordæmið sem við viljum hafa fyrir unglingum og óhörðnuðu fólki? Er þetta það sem við viljum?

Svei.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband