Færsluflokkur: Menning og listir
Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur?
8.9.2008 | 10:43
Þetta hafa verið ógleymanlegir dagar - helgaðir vinum, samverkafólki, ástvinum og félögum, samtals á þriðja hundrað manns sem gerði sér ferð vestur að Núpi í Dýrfirði til þess að vera með okkur Sigga og samfagna fimmtugsafmælum okkar og silfurbrúðkaupi um helgina.
Veislan bar þessu fólki öllu vitni, enda einvalalið sem steig á stokk og skemmti afmælisbörnunum - og einvalalið sem skemmti sér í sætum sínum og tók undir með hlátri og söng. Allt fór þetta fram undir styrkri stjórn Halldórs Jónssonar veislustjóra og blaðamanns m.m. sem með sínum einstaka húmor hélt samkvæminu við efnið af stakri snilld.
Eins og við mátti búast var mikið sungið. Tveir kórar - Sunnukórinn og Valkyrjurnar - tróðu upp með miklum bravör og fjöri. Hljómsveitin Melneiophrenia sem kom sérstaklega sunnan úr Reykjavík til að heiðra tilefnið, vakti verðskuldaða athygli og gladdi okkur mjög. Stefanía Svavarsdóttir - sigurvegari Samfés - geypilega efnileg söngkona, aðeins sextán ára gömul, sló algjörlega í gegn. Magga vinkona færði mér málverk eftir sjálfa sig sem gæti heitið "Sjáðu jökulinn loga" - mjög falleg mynd. Að sjálfsögðu brá hún Óðni Valdimarssyni á fóninn af því tilefni og allur salurinn tók undir með honum: Ég er kominn heim!
Margar góðar ræður voru fluttar - vænst þótti mér um ræðuna hennar Halldóru systur sem var sérlega kærleiksrík (ég tala nú ekki um ljóðið eftir hana sem beið svo falið inni í pakka). Nonni Baddi, systursonur minn, sýndi og sannaði að hann er mikill húmoristi. Síðast en ekki síst vil ég nefna barnahópinn minn sem í lok dagskrár fluttu í sameiningu frumsamið lag til okkar foreldra sinna, sem Saga söng við undirleik bræðra sinna, Hjörvars og Péturs. Hún klykkti svo út með því að dansa fyrir mannskapinn.
Að lokum stigu á stokk þrír fyrrverandi nemendur mínir úr Menntaskólanum undir forystu síns gamla tónlistar-mentors Kristins Nielssonar og trylltu mannskapinn með Stones-syrpu. Síðan var dansinn stiginn til kl. 04.
Margir lögðu á sig langa ferð til að vera með okkur. Saga dóttir mín flaug milli landa og fékk lítinn svefn - þurfti að vera mætt á Keflavíkurflugvöll fáum klst eftir að hún kom akandi suður aftur úr afmælinu. Föðurbróðir minn og hans kona - fólk á níræðisaldri - lét sig ekki muna um að koma akandi frá Reykjavík til að taka þátt. Og það gerðu þau svikalaust, stigu svo dansinn til kl. tvö um nóttina.
Önnur kær vinahjón komu sömu leið þrátt fyrir annríki, en urðu svo að rífa sig upp kl fimm um morguninn til að vera komin í flug um miðjan næsta dag vegna opinbera skyldustarfa erlendis. Þau fengu fjögurra tíma svefn hið mesta - en létu sig hafa það til að gera samglaðst okkur.
Systir mín elskuleg lét þetta líka ganga fyrir öðrum skyldum og kom með alla fjölskylduna þó hún þyrfti að fara til baka snemma næsta dag til að taka á móti sláturbílnum heim á bæ síðdegis í gær.
Og svipaða sögu má segja af ýmsum sem settu þetta í forgang hjá sér að koma vestur og vera með okkur.
Við erum öllu þessu fólki af hjarta þakklát. Og mikið lifandis skelfingar ósköp var gaman að skemmta sér með því öllu á laugardagskvöldið.
Og hér sjáið þið svo þann hluta kjarnafjölskyldunnar sem sá sér fært að mæta í myndatöku s.l. vor. Þarna vantar Sögu og Dodda (sem er kominn með sína eigin fjölskyldu) - þau voru bæði í afmælinu. Það var Maddý hins vegar ekki, en hún er á myndinni. Dæmigert fyrir þennan fjölskylduhóp sem hefur í svo mörgu að snúast. En svona er lífið
Menning og listir | Breytt 12.9.2008 kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Staðsetning nýs Listaháskóla: Móðgun við Laugaveginn ... og húsið
31.7.2008 | 01:02
Tillagan að nýju húsi Listaháskóla Íslands er stórglæsileg. Ég get ekki tekið undir með Magnúsi Skúlasyni að hún sé ljót. Hún er gullfalleg. Hinsvegar á þessi bygging ekkert erindi á Laugaveginn - þar erum við Magnús sammála. Þetta hús á að sjálfsögðu að fara í Vatnsmýrina og vera þar í námunda við aðrar háskólabyggingar. Þar færi húsið vel, skipulagslega - auk þess sem nemendur Listaháskólans kæmust þar með í gefandi samneyti við aðra háskólanema.
Alveg er það dæmigert fyrir okkur Íslendinga að teikna hús sem þarfnast rýmis - og ætla svo að troða því niður inn á milli gamalla húsa í elstu götu borgarinnar. Dæmigert.
Það er eins og við getum ekki borið virðingu fyrir nokkrum sköpuðum hlut, hvorki götumyndum, gömlum húsum eða yfirleitt neinu. Ég hef áður bloggað þetta bræðiblogg um sundurgerðina í íslenskum arkitektúr og skipulagsmálum, og ætla því ekki að endurtaka það hér.
En, í þessu máli held ég að báðir aðilar séu haldnir ákveðinni meinloku.
Borgaryfirvöld halda að það sé svo mikils virði fyrir Laugaveginn að fá þangað listaháskóla - inn í miðja verslunargötu. Forvígismenn Listaháskólans eru haldnir þeirri meinloku að það sé svo mikils virði fyrir Listaháskólann að komast á Laugaveginn. Ég held að þetta sé misskilningur. Hvorki verslunargatan, götumyndin né Listaháskólinn munu græða neitt á þessu sambýli. Hinsvegar myndi skólinn njóta góðs af því að vera innan um aðrar háskólabyggingar í Vatnsmýrinni þar sem byggingin félli mun betur að öllu skipulagi - eða réttarasagt þeirri sundurgerð sem fyrir er á háskólasvæðinu - og þar myndi húsið njóta sín. Þar hefði það rými.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagsfræðingur hefur bent á það hversu illa getur til tekist þegar verið er að reyna að draga líf í miðborgarkjarna með stórum byggingum. Í útvarpinu í kvöld benti hann á nokkur víti til varnaðar hér og hvar um Evrópu.
Ég er svolítið hrædd um að svipað geti verið á döfinni hér. Því fyrr sem menn komast út úr hinum ætlaða ávinningi beggja af því að hafa þetta hús við Laugaveginn, því betra. Því satt best að segja: Að setja þetta hús á Laugaveginn er eiginlega bara móðgun við Laugaveginn ... og ekki síður ... sjálft húsið.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Himnaríki og helvíti, Kórvilla á Vestfjörðum og fleira gott
16.7.2008 | 11:27
Í sumar hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar bækur sem ekki vannst tími til að lesa um jólin. Rétt í þessu var ég að leggja frá mér Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Þetta er afar vel skrifuð bók og sterk á köflum - sérstaklega fyrri hlutinn sem er í raun sjálfstæð frásagnarheild. Þarna er lýst lífsbaráttu og lifnaðarháttum verbúðarfólks fyrir hundrað árum eða svo. Líf og dauði, mannúð og grimmd, ást og örvænting kallast þar á og halda lesandanum í heljargreipum. Seinni hluti bókarinn hélt mér ekki eins vel - eins og söguþráðurinn renni svolítið út í sandinn. En Jón Kalman er stílsnillingur - orðfæri hans er svo fallegt á köflum að maður les aftur og aftur. Þetta er afar góð bók og vel þess virði að lesa.
Ég hef líka legið í sakamálasögum. Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur olli mér svolitlum vonbrigðum. Fyrsta bókin hennar, Þriðja táknið, fannst mér grípandi og skemmtileg. Þessi er of langdregin - og ég verð að viðurkenna að ég missti hreinlega áhugann þegar komið var fram á seinni hluta sögunnar. Það er nú ekki beint það sem á að gerast í sakamálasögu.
Arnaldur hinsvegar klikkar ekki. Harðskafann las ég mér til mikillar ánægju. Stílbrögð Arnaldar styrkjast með hverri bók - og þegar saman fara skemmtilegt plott og styrk stíltök - þá er blandan pottþétt.
Ég hef líka verið að rifja upp að gamni mínu smásögur Halldórs Laxness. Dóttir mín gaf mér lítið kver sem Vaka-Helgafell hefur gefið út undir heitinu Kórvilla á Vestfjörðum. Þarna eru nokkrar smásögur eftir Nóbelsskáldið. Ég hafði raunar lesið þær allar nema eina - en las þær nú aftur mér til ánægju. Komst þá að því að Dúfnaveislan er ekki það stórvirki sem stundum hefur verið talað um og mig minnti að mér hefði sjálfri fundist þegar ég las hana fyrir löngu. Ég hef augljóslega breyst - kannski þroskast - sem lesandi.
Maður gefur sér yfirleitt allt of skamman tíma til lestrar - þá á ég við yndislestur. Fátt er meira gefandi en lestur góðrar bókar í kyrrð og næði.
- Þegar andann þjakar slen
- og þyngist hugar mók,
- fátt er lundu ljúfar en
- að lesa góða bók.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veggjakrot og veggjalist - ég er með tillögu
10.6.2008 | 12:45
Ég vil gera það að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.
Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja sér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.
Svo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).
Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.
Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu
Reykjavík er ljót borg
9.6.2008 | 01:04
Þegar ég ók Vesturlandsveginn í átt til höfuðborgarinnar í fyrradag ætlaði ég að venju að líta í átt til Korpúlfsstaða sem ævinlega gleðja augu mín frá þjóðveginum. En þá blasti við mér allt önnur sjón: Risastórt gímald - ferhyrndur álkassi sem á víst að heita hús og mun eiga að hýsa Rúmfatalagerinn.
Þetta hræðilega mannvirki dregur að sér alla athygli þarna sem það stendur. Það skyggir á formfagrar byggingar gamla stórbýlisins á Korpúlfsstöðum sem Thor Jensen reisti af metnaði og rausn og sem hafa verið héraðsprýði. Nú stendur Korpúlfsstaðabýlið eins og hálfgerður hundakofi í skugga þessarar risabyggingar sem virðist frá veginum séð vera tíu sinnum stærri. Hinumegin við Vesturlandsveginn er svo Bauhaus að reisa annan kumbalda. Álíka stóran - ef marka má húsgrindina sem komin er upp - og líklega jafn ljótan.
Sundurgerðin og skipulagsleysið í íslenskum arkitektúr held ég að hljóti að vera einstök í veröldinni. Með örfáum undantekningum er nánast allt sem hér er byggt einhverskonar formtilraunir eða skipulagsfúsk. Engin virðing fyrir því sem fyrir er. Gler og álkössum er troðið niður innan um gömul og falleg hús, í hrópandi ósamræmi við umhverfið.
Hér áður fyrr voru hús hönnuð og byggð til þess að fegra umhverfi sitt. Múrsteinar og falleg náttúruefni sjást varla lengur. Ég held bara að hér á Íslandi hafi ekki komið arkitekt sem stendur undir nafni frá því Guðjón Samúelsson leið. Hann hannaði byggingar inn í umhverfi og heildarmynd. Því miður var skipulagsuppdráttum hans ekki fylgt nema að takmörkuðu leyti - en það virðist vera þjóðareinkenni á okkur Íslendingum að geta aldrei fylgt skipulagi.
Borgin ber þessa merki þar sem hálfar húsaraðir blasa hvarvetna við með sína æpandi brandveggi. Sumar götur í Reykjavík eru eins og skörðóttur tanngarður þar sem misleitar byggingar og hver sundurgerðin tekur við af annarri. Á góðum degi reynir maður að telja sér trú um að þetta sé nú hluti af hinum Reykvíska sjarma - en sannleikurinn er sá að það er ekkert sjarmerandi við þetta. Þetta er bara ljótt.
Kaldur arkitektúr er það sem hefur tröllriðið allri byggingarlist undanfarna áratugi. Hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði eða opinberar byggingar. Þetta eru allt einhverjar klakahallir. Af hverju er ekki bara hægt að byggja eitthvað fallegt? Formfagrar byggingar í samræmi við umhverfi sitt?
Mér þykir vænt um Reykjavík. En hún ljót borg.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Gleðilegt sumar
24.4.2008 | 20:56
Gleðilegt sumar bloggvinir og lesendur góðir. Það eru víst síðustu forvöð að brúka mannasiðina og óska gleðilegs sumars, svona áður en sól hnígur til viðar á þessum fyrsta degi sumars.
Ég hef það mér til afsökunar að hafa verið vant við látin í allan dag. Sem stjórnarmaður í Menningarráði Vestfjarða var ég við þau ljúfu skyldustörf að vera viðstödd afhendingu á styrkjum til 48 menningarverkefna sem menningarráð hefur úthlutað að þessu sinni. Afhendingin fór fram á Hólmavík þar sem mikið var um dýrðir í dag. Hólmvíkingar eru að taka í notkun nýtt Þróunarsetur sem jafnframt var til sýnis fyrir almenning, svo það fór vel á því að tilkynna um úthlutun menningarráðs af sama tilefni. Athöfnin fór fram í félagsheimilinu þar sem ungmenni staðarins skemmtu gestuM með brotum úr uppfærslu leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi. Boðið var upp á kaffi og tertur og allir í hátíðarskapi.
Sólin skein og fánar blöktu við hún. Þetta var reglulega góður dagur.
ps: Munið svo eftir að taka eftir því hvernig ykkur verður svarað í sumartunglið - megi það vita á gott.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
... að leggja frá sér góða bók, og deyja.
21.4.2008 | 10:30
Það jafnast ekkert á við góða bók. Margar saman geta bækur verið prýðilegt stofustáss og einangrun útveggja. Ein og sér getur bók verið svo margt: Góður félagi, kennari, tilfinningasvölun, skilningsvaki, hugvekja, myndbirting, afþreying, .... listinn er óendanlegur.
Fyrir bókaunnanda er vart hægt að hugsa sér betri dánarstund en að sofna í friðsæld með bók í hönd, líkt og eiginmaður móðursystur minnar fyrir nokkrum árum (blessuð sé minning hans). En þegar ég frétti andlát hans, varð mér að orði þessi vísa:
Þá er sigurs þegið náðarveldið
að þurfa ekki dauðastríð að heyja,
en mega þegar líður lífs á kveldið
leggja frá sér góða bók - og deyja.
4,6 bækur á hverja þúsund íbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það seytlar inn í hjarta mitt ...
21.4.2008 | 08:48
Krókusarnir eru farnir að kíkja upp úr snjónum í garðinum hjá mér. Fuglasöngur í trjánum á hverjum morgni - brum á greinum. Það er ekki um að villast, vorið er komið. Það fer hægar yfir hérna fyrir vestan en í höfuðborginni, en maður finnur nálægð þess engu að síður. Hér er blíðviðri dag eftir dag og dimmblátt djúpið ljómar í sólinni sem aldrei fyrr.
Nú eiga við orðin hans Jóhannesar úr Kötlum:
Það seytlar inn í hjarta mitt
sem sólskin fagurhvítt,
sem vöggukvæði erlunnar,
so undurfínt og blítt,
sem blæilmur frá víðirunni,
- vorið grænt og hlýtt.
Ég breiði út faðminn - heiðbjört tíbrá
hnígur mér í fang.
En báran kyssir unnarstein
og ígulker og þang. -
Nú hlæja loksins augu mín
- nú hægist mér um gang.
Því fagurt er það, landið mitt,
og fagur er minn sjór.
Og aftur kemur yndi það
sem einu sinni fór.
Og bráðum verð ég fallegur,
og bráðum verð ég stór.
Bubbi og Björn Jörundur eða Óðinn Valdimarsson?
20.4.2008 | 12:25
Bubbi og Björn Jörundur hafa kynnt til sögunnar nýja útgáfu á laginu yndislega sem Óðinn Valdimarsson söng svo ógleymanlega á sínum tíma, "Ég er kominn heim" eða "Er völlur grær" eins og það heitir víst upphaflega.
Ýmsir hafa spreytt sig á þessu lagi eftir að Óðinn tók það. Bjöggi syngur það býsna vel - svo hafa Andri Bachmann og fleiri sungið það og tekist svona og svona.
En þó ég haldi mikið upp á Bubba og Björn Jörund, þá er ég ekki ýkja hrifin af þessu nýjasta tiltæki þeirra. Þeir bara ná ekki þessari sætu, gammeldags stemningu sem svífur yfir laginu.
Ég hef enn ekki heyrt nokkurn mann syngja þetta eins vel og Óðin heitinn - mýktin í söngstílnum hans er bara óviðjafnanleg. Hreint út sagt.
En fyrst ég er nú farin að tala um þetta. Þá hef ég heldur ekki enn náð einni línunni í textanum - sama hver syngur. Er einhver þarna úti sem getur upplýst mig um þetta?
Það sem mig vantar er í 2. erindinu sem hefst svona: Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól ...... Svo kemur eitthvað með "landið mitt / mun ljá og veita skjól".
Hvað á að koma þarna á milli?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Eldarnir þrír sem brunnu
25.3.2008 | 21:36
Þessa dagana eru tíðar fréttir af eldsvoðum og slökkvistarfi. Það er svo undarlegt með eldinn, hann á það til að "ganga ljósum logum" í orðsins fyllstu merkingu, eins og farsótt. Stundum er engu líkara en ósýnileg hönd sé að verki sem kveiki nýjan eld jafnóðum og annar slokknar.
Eldurinn er merkilegt fyrirbæri. Hann bæði yljar og eyðir eins og ástríður mannanna, skapsmunir og aðrar tilfinningar. Það er því ekki að furða þó eldurinn hafi orðið skáldum og heimspekingum innblástur á stundum.
Í ljóðinu "Eldarnir þrír" sér Davíð Stefánsson tækifæri lífs síns sem kulnaða elda. Hér kemur ljóðið:
Þegar þú gekkst í garðinn fyrst,
brann gneisti í hverju spori.
En nornirnar gátu rúnir rist,
sem rændu mig sól og vori.
Eg hirti hvert sprek, sem við hafið lá,
frá hausti til hvítasunnu ...
Enn þá man eg eldana þrjá,
eldana þrjá, - sem brunnu.
Á bak við logana leyndumst við
og létum þá eina tala
um saklausar ástir, svanaklið
og sólmóðu grænna dala.
En oft er, að sumarið seiðir mest,
ef sól er að djúpi runnin,
og þegar við fundum funann bezt,
var fyrsti eldurinn - brunninn.
Sá uggur, sem fór um okkur tvö,
var öskunni mest að kenna.
Af loftinu hverfa sólir sjö,
er síðustu sprekin brenna.
En óskalandið var lýst í bann
og lífinu fjötrar spunnir.
Logarnir titruðu, tíminn rann,
unz tveir voru eldar brunnir.
Að una sem gestur í annars borg
var aldrei að þínu skapi.
Um loftið, myrkvað af leyndri sorg,
fór leiftur af stjörnuhrapi.
Á hinztu glæður brá fölskva fljótt,
því fram hjá var stundin runnin.
Þjáningin kom eins og þögul nótt
og þriðji eldurinn - brunninn.
Í dökkvanum jörðin döggvuð svaf,
og dulið var allt, sem við þráðum.
Milli okkar er hyldjúpt haf,
þó himinn sé yfir báðum.
Í fjarska eru djúpin fagurblá
þó frjósi þau, vötnin grunnu ...
Ennþá man ég eldana þrjá,
eldana þrjá - sem brunnu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)