Veggjakrot og veggjalist - ég er með tillögu

graffiti Ég vil gera það að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.

 Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja veggjakrotsér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.

graffitiSvo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).

Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau  myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.

 Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Veggjakrot / veggjalist, er það sami hluturinn ? Ekki alveg, þar sem krotarar eru fyrst og fremst að merkja svæði, og gildir að fara sem víðast og á sem flesta staði, sktýtna staðiog hættulega osvfr.

Veggjalist er annað, oft á tíðum hin mestu listaverk sem mikið er lagt í. Varðandi hugmyndina þína þá tel ég útilokað að fá krotarana með í þetta , en það færi vel að fá veggjalistamenn í verkefnið og myndi örugglega gera borgina skemmtilegri, og svo mætti gera meira úr því t.d. bjóða erlendum listamönnum og halda svona "Airbrush " hátíð í ætt við " Airwaves ".

Haraldur Davíðsson, 10.6.2008 kl. 12:59

2 identicon

Það er eitt sem mér finnst merkilegt í þessari umræðu og það er að til sé hópur listamanna sem hefur svo ríka tjáningarþörf að hann finnur sig knúinn til að fá útrás og mála húsveggi sem og eigur annarra.  Sem betur fer eru t.d. höggmyndlistarmenn ósköp sáttir við þau örlög að höggva stein innan veggja vinnustofa sinna. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 13:12

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er hverra fyrir sig, að kaupa sinn sstriga, grjót eða hvaðeina sem efniviðurinn er, sem unnið er í.

AÐ semja við skemmdaverkamenn kemur auðvitað ekki til greina.  Ef einhver er staðin/n að svona skemmdum ætti að draga viðkomandi fyrir dómara og gera honum refsingu, sem réttlát er.

ÞAð er gersamlega ólíðandi, að vera etthvað að bera blak af svona skríl, sem gengur um og skemmir alt sem á vegi þeirra er, bara ef þeim blæs ,,sköpunarþörfin í brjóst" 

Það eru ótrúlegar upphæðir sem fara árlega í að reyna að laga eftir þetta lið.  Sumar skemmdir eru ekki ,,afturkræfar" þar sem yfirborðið sem úðað er, er það gleypt, að illgerlegt, jafnvel ógerlegt, er að má það af.  Síðan er svo, að leysiefnin í þessu spreyi þeirra er svo mikið af leysiefnum, að það stóreskemmir málningu og komið hefur fyrir æ ofaní æ, að listilega máluð hús, svo sem F-11 (súlurnar) hafa skemmst vegna svona óþrifa.

Nei ekki semja við skemmdarverkamenn, heldur refsa þeim sem lög leyfa.

Miðbæjaríjaldið

Bjarni Kjartansson, 10.6.2008 kl. 15:15

4 identicon

Ég held að það sé bara óskhyggja að reyna að semja við sóðana. Reyndar finnst mér það vera uppgjöf.

 það ætti að herða refsingar við þessum brotum. Ef þeir eru gripnir dæma þá  við fyrsta brot í þriggja mánaða samfélagsþjónustu þar sem þeir myndu vinna við að þrífa veggjakrot af húsum bæjarins, og týna rusl á götunum. Það er víst nóg um það. Ef þeir eru gripnir aftur þá bara beint í steininn með þá.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 18:10

5 identicon

Það er eins og mig rámi í að fólk í "101" hafi verið gagnrýnt af færsluhöfundi og fólki henni nálægt fyrir að skipta sér af málum á Vestfjörðum. Eftir tvær færslur hér um ullabjakk og ömurlegheit í Reykjavík voga ég mér að spyrja: Hef ég nú skotleyfi og leyfist að hafa Vestfirði í sigtinu?

Birta (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 18:33

6 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Voðalega eru allir neikvæðir hér,  en ég tek undir hugmyndir pistlahöfundar og líst vel á þær

Margrét St Hafsteinsdóttir, 10.6.2008 kl. 18:51

7 Smámynd: Einar Indriðason

Listamenn sem tjá sig með list, mega alveg fá sér pláss fyrir sína list. 

Hins vegar.  þeir sem eru bara að krota stafina sína, eða "tagga" eins og það kallast víst, þeir mega fá allt vont yfir sig, og í besta falli EIGA þeir að þrífa upp eftir sig sóðaskapinn, og mála yfir.

(þetta eru semsagt tveir mismunandi hópar.) 

Einar Indriðason, 10.6.2008 kl. 19:12

8 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þegar einhver er svangur, sætir hann færis að fá sér að borða. Það er alveg sama þó hann sé skammaður, honum bannað, eða refsað, hann fær sér að borða um leið og færi gefst.

Sama löghmál er fólgið í þessari list/krot- þörf. Þetta er einhver innri þörf sem leitar út við öll möguleg tækifæri.

Ef við færum að tillögu höfundar, munum við eiga möguleika á að fá þennan hóp fram á sjónarsviðið og geta með þeim hætti komist að þessum einstaklingum og hjálpað þeim að læra að virkja á jákvæðan hátt sköpunarþörf sína, vonandi sjálfum sér og okkur hinum til gleði og ánægju.

Ég tel að þetta væri alveg þess virði að reyna þetta. 

Guðbjörn Jónsson, 10.6.2008 kl. 21:39

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er mjög flott  vegglistaverk á Ísafirði og sniðugt þessar körfur sem eru þannig að fólkið getur hent rusli úr bílum í þær. Svona þarf að vera á fleiri stöðum. ég heyrði þá sögu að einhverjum hugvitsmanni (man ekki nafnið) hefði blöskrað hvernig krakkarnir hentu rusli um allt og smíðað svona.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.6.2008 kl. 21:49

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl verið þið öll.

Eins og ég segi í færslunni - og leitast við að sýna með myndum - þá er munur veggjalist og veggjakroti. En þörfin sem knýr hvort tveggja er sameiginleg að því leyti að hún fær útrás fyrir utan viðurkenndan ramma. Sérstaklega er mér hugað um að veggjalistamennirnir fá vettvang fyrir sína iðju, því verk þeirra eru oft á tíðum hreinasta prýði.

Hvað veggjakrotið áhrærir, þá eiga borgaryfirvöld auðvitað val um að vera í eilífu stríði við þá. Ég sé bara ekki að það leysi neinn vanda. Það má alveg reyna aðrar leiðir, því þær leiðir sem reyndar hafa verið hingað til eru augljóslega ekki að virka.

Að lokum smá athugasemd til Birtu: Ég hef aldrei amast við því að fólk úr 101 Reykjavík hafi skoðun á Vestfjörðum. 101 Reykjavík er mitt annað heimili - svo það kæmi þá úr hörðustu átt að ætla að meina borgarbúum að tjá sig um landsbyggðina.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.6.2008 kl. 23:00

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég á lítinn frænda sem er mikill graffari, hann og vinir hans voru í Öxarfrði í vikunni þar sem þeir fengu að spreyja á fyrirfram ákveðin svæði, rosalega var gaman hjá þeim  Þeir gera skissur af öllu sem þeir teikna, það þarf athafnasvæði fyrir þessa tegund listar. 

Ásdís Sigurðardóttir, 11.6.2008 kl. 01:27

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessa ábendingu, Ásdís.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.6.2008 kl. 12:56

13 Smámynd: Gunnar Kr.

Það er of langt gengið þegar þessir skemmdarverkamenn úða með lakki á hýbýli fólks sem er ekki hægt að mála yfir, s.s. bæsað tré, Steni-klæðning og innbrent ál, því þá er ekki svo auðvelt að losna við krassið. Svo veit ég um fólk sem býr nærri miðbænum og hefur á tæpu einu og hálfu ári þurft að kaupa málningu fyrir hátt í hundrað þúsund krónur til að hafa húsið sitt fallegt, því alltaf er úðað aftur á veggina í skjóli nætur. Það er lágmark að húseigendur fái að ákveða sjálfir hvort húsin séu vettvangur listaverka eða ekki. Sbr. konuna niðri í bæ sem kom að strákum kvöld eitt að úða á veggina hennar. Hún samdi við þá að búa til flott listaverk, sem þeir lögðu mikla alúð í og gerðu vel. Tæpri viku seinna voru einhverjir aðrir búnir að „tagga“ yfir listaverkin og skemma þau.

Ég yrki um leiðindalúða,
sem lög brjóta með því að úða.
Bara tak' essa álfa
og úð' á þá sjálfa
og setj' út torg eins og trúða.

Gunnar Kr., 11.6.2008 kl. 14:22

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.6.2008 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband