Eldarnir þrír sem brunnu

eldur_1055453962  Þessa dagana eru tíðar fréttir af eldsvoðum og slökkvistarfi. Það er svo undarlegt með eldinn, hann á það til að "ganga ljósum logum" í orðsins fyllstu merkingu, eins og farsótt. Stundum er engu líkara en ósýnileg hönd sé að verki sem kveiki nýjan eld jafnóðum og annar slokknar.

Eldurinn er merkilegt fyrirbæri. Hann bæði yljar og eyðir eins og ástríður mannanna, skapsmunir og aðrar tilfinningar. Það er því ekki að furða þó eldurinn hafi orðið skáldum og heimspekingum innblástur á stundum.

Í ljóðinu "Eldarnir þrír" sér Davíð Stefánsson tækifæri lífs síns sem kulnaða elda. Hér kemur ljóðið:

 

Þegar þú gekkst í garðinn fyrst,

brann gneisti í hverju spori.

En nornirnar gátu rúnir rist,

sem rændu mig sól og vori.

Eg hirti hvert sprek, sem við hafið lá,

frá hausti til hvítasunnu ...

Enn þá man eg eldana þrjá,

eldana þrjá, - sem brunnu.

 

Á bak við logana leyndumst við

og létum þá eina tala

um saklausar ástir, svanaklið

og sólmóðu grænna dala.

En oft er, að sumarið seiðir mest,

ef sól er að djúpi runnin,

og þegar við fundum funann bezt,

var fyrsti eldurinn - brunninn.

 

Sá uggur, sem fór um okkur tvö,

var öskunni mest að kenna.

Af loftinu hverfa sólir sjö,

er síðustu sprekin brenna.

En óskalandið var lýst í bann

og lífinu fjötrar spunnir.

Logarnir titruðu, tíminn rann,

unz tveir voru eldar brunnir.

 

Að una sem gestur í annars borg

var aldrei að þínu skapi.

Um loftið, myrkvað af leyndri sorg,

fór leiftur af stjörnuhrapi.

Á hinztu glæður brá fölskva fljótt,

því fram hjá var stundin runnin.

Þjáningin kom eins og þögul nótt

og þriðji eldurinn - brunninn.

 

Í dökkvanum jörðin döggvuð svaf,

og dulið var allt, sem við þráðum.

Milli okkar er hyldjúpt haf,

þó himinn sé yfir báðum.

Í fjarska eru djúpin fagurblá

þó frjósi þau, vötnin grunnu ...

Ennþá man ég eldana þrjá,

eldana þrjá - sem brunnu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hugsaði í morgun, hvenær kemur næsta frétt af bruna?  Það er eins og þetta sé keðjuverkandi.

Takk fyrir að deila með okkur þessu ljóði Davíðs. 

Ía Jóhannsdóttir, 25.3.2008 kl. 21:57

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Davíð var og er skáldið mitt. Ég var bara 10 ára þegar ég settist inn í stofu heima og las ljóðin hans Davíðs í húmin heima á Húsavík. Góðar stundir átti ég þá með sjálfri mér og Davið. Takk

Ásdís Sigurðardóttir, 25.3.2008 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband